Birgir Þór Harðarson

Tíu molar um hóp sem vill fresta Borgarlínu og malbika meira

Nýr hópur sem kallar sig „Áhugafólk um samgöngur fyrir alla“ lagði á dögunum fram tillögur að breytingum á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Hópurinn telur Borgarlínu of dýra og leggur til mörg ný mislæg gatnamót. Kjarninn skoðaði tillögurnar.

Á dögunum var sett upp ný vefsíða undir yfirskriftinni „Samgöngur fyrir alla“ í nafni hóps sem kallar sig Áhugafólk um samgöngur fyrir alla (ÁS). Hópurinn segist telja að „bestu samgöngukerfin byggi á frelsi fólks til að ráða sér sjálft og segist vilja bættar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur fyrir alla í höfuðborginni og nágrenni.

Stýrihóp áhugahópsins skipa þeir Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur, Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur, Jónas Elíasson verkfræðingur og prófessor emeritus og Sveinn Óskar Sigurðsson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ. Allir hafa þeir lagt orð í belg í opinberri umræðu um skipulagsmál og Borgarlínu á undanförnum árum.

Kjarninn skoðaði vef hópsins og þau gögn sem þar hafa verið lögð fram og tók saman nokkra mola um áhersluatriði hópsins og annað sem athyglisvert er.

1 – Telja Borgarlínu of dýra miðað við ávinning

Helsta áhersluatriði hópsins er að fallið verði frá þeim hugmyndum um Borgarlínu sem þróaðar hafa verið undanfarin ár og eru nú í hönnunarferli. Hópurinn leggur til að framkvæmdum við Borgarlínu verði „frestað um óákveðinn tíma“ og segir að kynna þurfi verkefnið betur fyrir almenningi.

Einnig vill hópurinn, samkvæmt greinargerð sem birt er á vef hans, að „hlutlausum aðila“ verði falið að setja fram ódýrari valkost til bætts almenningssamgöngukerfis en Borgarlína er. Hópurinn setur sig upp á móti því að sérrými Borgarlínunnar verði fyrir miðju akbrautar, eins og til dæmis er ráðgert á Suðurlandsbraut. Þess í stað vill hópurinn að sérrými verði gerð hægra megin á akbrautum, en bara þar sem „umferð er það þung að strætó þurfi sérrými.“

Hópurinn telur sömuleiðis að markmið sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um breyttar ferðavenjur, sem sett voru fram í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins fram til ársins 2040, séu afar ólíkleg til þess að ganga eftir, þrátt fyrir að Borgarlínan verði byggð. Þórarinn Hjaltason, talsmaður hópsins, hefur haldið því fram árum saman að skoða eigi ódýrara hraðvagnakerfi, meðal annars í greinum í Kjarnanum og víðar.

Lagt er til í greinargerð hópsins að fjárveitingar til ódyrara samgöngukerfis verði á bilinu 15-20 milljarðar króna í samgöngusáttmálanum sem gildir fram til ársins 2033.

Samkvæmt samgöngusáttmálanum sem undirritaður var á milli ríkis og sveitarfélaga á borgarsvæðinu árið 2019 er ráðgert að 49,6 milljarðar króna fari í uppbyggingu Borgarlínu fram til ársins 2033, 52,2 milljarðar króna í stofnvegaframkvæmdir, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir.

2 – Leggja til fjölda nýrra mislægra gatnamóta

Á sama tíma og hópurinn leggur til að framkvæmdum við Borgarlínu verði frestað um óákveðinn tíma er lagt til að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði breytt þannig að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu og í að breikka akvegi fyrir bíla.

Hópurinn leggst gegn því að lokaðir stokkar verði gerðir fyrir bílaumferð og telur það of dýra lausn sem geri lítið til að greiða fyrir bílaumferð. Í stað stokka, sem til dæmis eru fyrirhugaðir við Miklubraut og á Sæbraut, er lagt til að mislæg gatnamót verði byggð og þjóðvegir lækkaðir í landi eftir þörfum.

Auglýsing

„ÁS varar við þeim verulegu fjárhæðum sem ætlað er að verja í Miklubrautar- og Sæbrautarstokka. Í samanburði við mislæg gatnamót er ávinningur götustokka mjög takmarkaður. Áætlaður stofnkostnaður við þessar framkvæmdir er 31 ma.kr. Fyrir minna en helming af þessari upphæð mætti gera öll gatnamót á Miklubraut mislæg, auk mislægra gatnamóta á Sæbraut við Skeiðarvog og Holtaveg,“ segir í stefnu hópsins.

3 – ... þar af tvö á sama blettinum í Laugarnesi

Hópurinn teiknar upp alls sex mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut í Reykjavík. Er komið væri akandi úr suðri yrðu þau fyrstu við Listabraut, önnur við Miklubraut, þau þriðju við Háaleitisbraut og þau fjórðu örlítið norðar við mót Suðurlandsbrautar og Laugavegar.

Þegar þangað væru komið væru enn tvö mislæg gatnamót eftir, á leiðinni niður að sjó. Örskammt er á milli þeirri, en hópurinn gerir ráð fyrir einum mislægum gatnamótum þar sem Borgartún og Sundlaugavegur mæta Kringlumýrarbrautinni og svo öðrum um það bil 100 metrum norðar, á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar.

ÁS
Tvenn mislæg gatnamót eru teiknuð upp á þessum vegspotta niður að sjó í tillögum hópsins.
Arnar Þór Ingólfsson

4 – … fjögur á Miklubraut

Núverandi áætlanir gera ráð fyrir því að Miklabraut verði lögð í stokk. Þau áform eru til þess fallin að sú mikla umferðaræð sem Miklabrautin er hætti að skera Hlíðahverfið í sundur.

Hópurinn leggur til að fallið verði frá þeim áformum. Í staðinn verði Miklabraut á milli Kringlumýrarbrautar og mislægu gatnamótanna á mörkum Snorrabrautar og Bústaðavegs breikkuð í sex akreinar alla leið.

Er þessi vegarspotti væri ekinn úr vestri væri gert ráð fyrir fjórum nýjum mislægum gatnamótum austur að Grensásvegi. Þau fyrstu yrðu við Lönguhlíð, svo yrði farið um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut, síðan við Háaleitisbraut og að lokum yrðu byggð mislæg gatnamót við Grensásveg. Þá gæti bílaumferðin runnið áfram án þess að nokkru sinni þyrfti að stöðva á rauðu ljósi.

Tillögur að breikkun Miklubrautar í Hlíðahverfi og mislægum gatnamótum á Miklubrautinni.
ÁS

5 – … og ein í miðbæ Garðabæjar

Reykvíkingar eru ekki þeir einu sem hópurinn sér fyrir sér að gætu haft hag af fleiri mislægum gatnamótum í miðri byggðinni.

Í nágrenni við miðbæjarkjarna Garðabæjar gera núverandi áætlanir ráð fyrir því að Hafnarfjarðarvegur fari í stokk síðar á þessum áratug, en hópurinn leggur til að þess í stað verði gerð mislæg gatnamót við Vífilsstaðaveg. Hafnarfjarðarvegurinn verði svo lækkaður í landi eftir þörfum.

Tillaga að mislægum gatnamótum í stað stokks í miðbæ Garðabæjar.
ÁS

6 – Virðast harma að Fossvogurinn hafi ekki verið malbikaður

Molarnir hér að ofan eru ekki tæmandi yfirferð um þau nýju mislægu gatnamót sem hópurinn leggur til að bætist við samgöngusáttmálann, í stað stokka og borgarlínuframkvæmda, sem litlu skila til bættra samgangna að þeirra mati.

Í skjali sem hópurinn birtir undir yfirskriftinniBorgarlínan - hugmyndir og veruleiki er áformum um uppbyggingu hágæða almenningssamgöngukerfis fundið margt til foráttu og færð rök fyrir því að það sem vanti séu stærri vegir og fleiri mislæg gatnamót.

Þar er harmað að ekki hafi verið farið eftir áætlunum sem finna mátti í aðalskipulagi Reykjavíkur frá því á sjöunda áratug síðustu aldar, hraðbrautaskipulagi sem lagði grunninn að víðfemu gatnakerfi borgarsvæðisins og farið var eftir að miklu en þó ekki öllu leyti.

Aðalskipulagið frá sjöunda áratugnum lagði grunninn að stofnveganeti höfuðborgarinnar og opnaði á að byggðin á höfuðborgarsvæðinu þendist út. Þá var fyrirhugað að setja stofnbraut um Fossvogsdal, sem átti að teygja sig að Öskjuhlíðinni og þaðan inn í Vatnsmýri.

Samkvæmt því sem segir í þessu skjali hópsins má rekja umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu að miklu leyti til þess að hraðbrautaskipulagið hafi ekki gengið eftir að öllu leyti. Þar segir að andstaða íbúa hafi komið í veg fyrir að framkvæmdir eins og Fossvogsbraut, sem átti að verða hraðbraut í gegnum miðjan Fossvogsdalinn og mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þetta hafi leitt til þess að flöskuhálsar myndist í umferðinni.

„Úr þessu hefur ekki verið bætt og afleiðingarnar eru hverjum manni ljósar í dag,“ segir í skjali hópsins. Um hið 60 ára gamla hraðbrautaskipulag höfuðborgarsvæðisins segir að það hafi „staðist allar væntingar frábærlega vel“ en „helsti þröskuldurinn“ í vegi þess hafi verið „mótmæli íbúasamtaka.“

7 – Formannsframbjóðandi í VR las inn á myndband hópsins

Helga Guðrún Jónasdóttir, sem þessa dagana skorar Ragnar Þór Ingólfsson á hólm í formannslag í VR, stærsta stéttarfélagi landsins, las inn á myndband þar sem hugmyndir hópsins eru útskýrðar. Wordpress-síða í hennar nafni er einnig notuð til að hýsa nokkur skjöl hópsins.

Helga Guðrún Jónasdóttir frambjóðandi til formanns VR ljáði myndbandi hópsins rödd sína.

8 – Gantast með að kaupa rafbíl handa öllum sem nota strætó, ef þeir lofi að hætta að taka strætó

Í áðurnefndu myndbandi sem Helga Guðrún las inn á var því velt upp hvort það væri ef til vill loftslagsvænni lausn – og hagkvæmari en Borgarlína – að kaupa handa öllum notendum strætó lítinn rafbíl í stað þess að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir við almenningssamgöngukerfið. Notendur strætó þurfi á móti að hætta að nota almenningssamgöngurnar.

Óljóst er hvort þessu var velt upp í gríni eða alvöru. Myndbandið, sem var aðgengilegt í nokkra daga eftir að síða hópsins fór í loftið, hefur reyndar verið fjarlægt þaðan, einhverra hluta vegna. Það má þó nálgast í umræðuhópi um Borgarlínu á Facebook.

í myndbandinu var vísað til þess að „gárungar“ hafi velt því upp að ódýrara og loftslagsvænna væri að kaupa rafbíl handa öllum sem nota strætó en að leggja Borgarlínuna.
Skjáskot úr myndbandi sem hópurinn birti.

9 – Segja að fólk sem eigi ekki bíl láti mömmu sína skutla sér

Í skjali sem hópurinn birtir segir að á því sé ekki vafi að „hugmyndafræði“ Borgarlínu sé undir verulegum áhrifum frá hugmyndafræði bíllausu hreyfingarinnar í Bandaríkjunum og „systursamtaka þeirra hér“ sem heita Samtök um bíllausan lífstíl.

Þessi hugmyndafræði er trúin á að einkabílar séu óþarfir og fólk eigi ekki að eiga bíl nema í atvinnuskyni. Reynslan sýnir að áhangendur halda þetta boðorð nokkuð vel, en hinsvegar má fá lánaðan bílinn hjá mömmu eða fá hana til að skutla sér þegar mikið liggur við, einkum ef það kemst ekki upp,“ segir í umfjöllun hópsins.

Í Facebok-hópi áðurnefndra Samtaka um bíllausan lífsstíl hefur nokkuð verið rætt um tillögur hópsins. Þar er skotið fast til baka: „Þetta er lítið annað en sorglegir dauðakippir fagfólks á eftirlaunum sem hélt um stýrið lungann af 20. öldinni og skilur ekki af hverju við elskum ekki það sem þau gerðu,“ skrifar Samúel Torfi Pétursson skipulagsverkfræðingur og láta tugir meðlima hópsins sér líka við þessi ummæli hans.

10 – Fjalla lítið sem ekkert um virka ferðamáta

Þrátt fyrir að hópurinn segi að góðar samgöngur eigi að vera fyrir alla er lítið fjallað um það á síðunni hvernig megi bæta samgöngur fyrir hjólandi og gangandi á höfuðborgarsvæðinu. En þó eru ekki gerðar neinar breytingartillögur við þann anga samgöngusáttmálans sem snýr að hjólastígum.

Ekki er þó útskýrt af hálfu hópsins hvernig gangandi og hjólandi ættu að komast á hægan máta yfir eða undir þau mislægu gatnamót sem teiknuð eru upp í tillögum þeirra í dag.

Mögulega verður gerð einhver grein fyrir því á næstunni, en hópurinn boðar að áfram verði haldið við að leggja fram gögn um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og segir fagráð sitt vera að vinna að skýrslu um fyrsta áfanga Borgarlínu þessa dagana.

Merki áhugahópsins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent