The American Air Museum/USAAF Hot stuff Mynd: The American Air Museum/USAAF

Fagradalsfjall hafði áhrif á gang mannkynssögunnar

Í dag skelfur það og nötrar enda rennur undir því logandi heit kvika sem er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Fyrir 77 árum komst það í heimsfréttirnar er sprengjuflugvél kölluð Hot Stuff brotlenti þar. Fagradalsfjall er kannski ekki það tignarlegasta á Íslandi en það er þó sannarlega eftirtektarvert.

Fagradalsfjall lætur ekki mikið yfir sér. Það rís hæst 385 metra yfir sjó og er í raun lítil háslétta með nokkrum hnjúkum. Það er ekki jafn formfagurt og nágranninn Keilir heldur aflangt og líkist einna helst hval í laginu frá ákveðnu sjónarhorni. En það hefur vinninginn í hæðinni – er sex metrum hærra en Keilir og þar með hæsta fjall Reykjanessins.

Auðvitað þekkja allir sem búa í Grindavík og nærsveitarfélögum Fagradalsfjall. Og flestir af góðu einu. Að minnsta kosti hingað til. Það er tilvalið til gönguferða með sínum aflíðandi hlíðum og af því er útsýni til allra átta. Langt út á sjó. Svo langt sem augað eygir.

Auglýsing

Við hin, sem ekki búum á Reykjanesi, þekkjum það aðallega úr fréttum síðustu mánaða. Skjálftar. Sumir stórir. Suðsuðvestur af Fagradalsfjalli. Suðsuðaustur af því. Þetta er fjallið sem hefur haldið vöku fyrir mörgum síðustu daga. Þar sem óróapúlsinn hefur mælst. Þar sem kvikan er að safnast fyrir undir jarðskorpunni. Og nú aðeins á um eins kílómetra dýpi. Logandi heit kvikan sem er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Slíkar jarðhræringar ættu ekki að koma okkur Íslendingum algjörlega í opna skjöldu. Reykjanesið allt er eldbrunnið, eins og sagt er, og ásýnd þess einkennist af hraunum, gígum, misgengjum og jarðhita. Um það liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna og gliðnun er að eiga sér stað með tilheyrandi jarðskjálftum oft og reglulega síðustu ár og áratugi. Við vitum að þarna hafa orðið eldgos – eldar eru þau kölluð því þau stóðu yfir í lengri tíma í lotum – og við gátum sagt okkur að slíkt gæti farið að endurtaka sig. Það segja fræðin okkur. En við áttum kannski ekki von á þeim nákvæmlega þarna.

Reykjanesið er eldbrunnið. Þar eru gígaraðir, dyngjur og hryggir. Keilir er þekktasta fjallið enda formfagurt mjög.
VisitIceland.is

„Hér rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ og eldvirkni á landi tekur við af neðansjávargosum,“ skrifaði Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur í grein í Náttúrufræðingnum árið 1995 um eldvirkni svæðisins. Hann minnir á að í heimildum sé getið um fjölda gosa í sjó undan Reykjanesi en aðeins eins á landi. Skrifar að eitt af því sem fram hafi komið við rannsóknir sé að oftsinnis þegar gaus hafi gossprungurnar teygst út í sjó. „Urðu þá sprengigos undan ströndu, á sjávarhluta gossprungunnar, en hraungos frá gígaröðum á landi.“

Á Reykjanesi er að finna fimm eldstöðvakerfi og Fagradalsfjall og nágrenni er eitt þeirra. En þó að jarðeldar hafi orðið á skaganum frá upphafi Íslandsbyggðar hafa þeir ekki orðið í þessu tiltekna kerfi í yfir 6.000 ár í það minnsta. Og það er það eina af kerfunum fimm þar sem hvorki er að finna jarðhita né sprungusveima. Það er lítið, um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna og um 15 kílómetrar að lengd milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga eru fimm.
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Sjálft Fagradalsfjall er skilgreint sem dyngja, eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi, og er gígurinn nyrst í því. Það er í raun stapi, hið neðra úr bólstrabergi, móbergsbrotabergi og túffi (ummyndaðri, samanlímdri gjósku) en með hettu úr grágrýti. Að mestu hefur það byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti.

Eldar á Reykjanesskaga geta staðið með hléum í nokkra áratugi eða lengur. Síðasta gostímabili lauk um miðja 13. öld. Vísbendingar eru um að það hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum. Eldstöðvakerfin hafa því ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með 30-150 ára löngum hléum á milli.

Fjórtán fórust í flugslysinu á Fagradalsfjalli árið 1943. Einn lifði af.
The American Air Museum/USAAF

En Fagradalsfjall hefur komist í fréttir fyrir fleira en skjálftavirkni síðustu áratugi. Og heitt efni, Hot Stuff, kom þar við sögu. Fyrir 77 árum varð þar mannskætt flugslys sem fullyrða má að hafi haft áhrif á gang mannkynssögunnar.

Við skulum byrja á byrjuninni.

Árið er 1943. Það er stríð í Evrópu. Síðari heimsstyrjöldin. Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var orðin fyrsta flugvél flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu. Um vorið fékk áhöfnin fyrirmæli um að snúa heim til Bandaríkjanna á vélinni þar sem fara skyldi í sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Frank M. Andrews, hershöfðingi og æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu, ákvað að fá far með Hot Stuff yfir Atlantshafið. Hann hafði verið boðaður til Washington til skrafs og ráðagerða um innrás bandamanna á meginland Evrópu. Fleiri vildu far og varð svo úr að fimmtán voru um borð er vélin lagði upp frá Bovington-flugvelli í Englandi að morgni 3. maí.

Það var dimmviðri er vélin fórst. Hluti áhafnarinnar hafði orðið eftir á Bretlandseyjum því margir vildu fá far með vélinni vestur um haf.
The American Air Museum/USAAF

Ákveðið var að hafa viðkomu í Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Í fyrstu var veður gott en er að Íslandsströndum kom fór það versnandi. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi, fljúga þaðan vestur með ströndinni en þar sem ekki reyndist gerlegt að lenda á Reykjavíkurflugvelli og ekki heldur á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs stefndi vélin að ný í átt að Kaldaðarnesi. Það var lágskýjað og hvasst. Slagveður. Dimmt yfir. Flugvélina bar af leið og brotlenti hún á Fagradalsfjalli. Allir nema einn sem um borð voru fórust, þeirra á meðal hershöfðinginn Andrews. Maðurinn sem var á leið til Washington til að skipuleggja innrásina og sagan segir að hafi átt að fá stöðuhækkun – taka við öllum her Bandaríkjanna.

Við fráfall hans var annar hershöfðingi fenginn til að taka við bandarísku hersveitunum í Evrópu og síðar öllum herafla bandamanna í álfunni. Það kom í hans hlut að stjórna innrásinni í Normandí árið eftir. Þessi maður hét Dwight D. Eisenhower og varð síðar forseti Bandaríkjanna á árunum 1953-1961.

Auglýsing

Sá sem komst lífs af úr flugslysinu George Eisel og var svonefnd stélskytta Hot Stuff. Hann meiddist lítið en lá fastur í byssuturninum í um sólarhring eða þar til leitarflokkar fundu flakið er veðrinu hafði slotað. Hann sagðist hafa átt von á dauða sínum því eldur kviknaði í flakinu og byssukúlur sprungu alls staðar í kringum hann.

Sprengjuflugvélin Hot Stuff fór því aldrei í sína frægðarför um Bandaríkin. Við því hlutverki tók önnur vél og í dag þekktari, sjálf Memphis Belle.

3. maí árið 2018, þegar 75 ár voru liðin frá flugslysinu, var minnisvarði um atburðinn og þá sem fórust afhjúpaður skammt frá Fagradalsfjalli. Hann var reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingja þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona. Allir eru þeir miklir áhugamenn um flugvélar og flugsögu seinni heimsstyrjaldarinnar. Á minnisvarðanum er eftirlíking af sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli.

Áhöfnin stillir sér upp fyrir framan sprengiflugvélina Hot Stuff í tilefni af því að henni hafði verið flogið án skakkafalla í 25. árásarferðir yfir meginland Evrópu.
The American Air Museum/USAAF

Mest af braki vélarinnar hefur verið fjarlægt af Fagradalsfjalli. Þar má þó enn sjá hluta þess. Tvö flugslys til viðbótar urðu á fjallinu á fimmta áratug síðustu aldar. Bæði reyndar árið 1941. Í þessum þremur flugslysum fórust samtals 28 menn en ellefu komust af.

Hér að neðan er myndband sem Ívar Gunnarsson gerði af gönguferð og sögustund sinni á Fagradalsfjalli í fyrra. Þar fjallar hann um slysið árið 1943 og bendir á að Fagradalsfjall hafi breytt mannkynssögunni því í kjölfar slyssins hófst atburðarás sem endaði með því að arftaki Andrews hershöfðingja varð forseti Bandaríkjanna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar