The American Air Museum/USAAF Hot stuff Mynd: The American Air Museum/USAAF
The American Air Museum/USAAF

Fagradalsfjall hafði áhrif á gang mannkynssögunnar

Í dag skelfur það og nötrar enda rennur undir því logandi heit kvika sem er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Fyrir 77 árum komst það í heimsfréttirnar er sprengjuflugvél kölluð Hot Stuff brotlenti þar. Fagradalsfjall er kannski ekki það tignarlegasta á Íslandi en það er þó sannarlega eftirtektarvert.

Fagra­dals­fjall lætur ekki mikið yfir sér. Það rís hæst 385 metra yfir sjó og er í raun lítil háslétta með nokkrum hnjúk­um. Það er ekki jafn form­fag­urt og nágrann­inn Keilir heldur aflangt og lík­ist einna helst hval í lag­inu frá ákveðnu sjón­ar­horni. En það hefur vinn­ing­inn í hæð­inni – er sex metrum hærra en Keilir og þar með hæsta fjall Reykja­ness­ins.

Auð­vitað þekkja allir sem búa í Grinda­vík og nær­sveit­ar­fé­lögum Fagra­dals­fjall. Og flestir af góðu einu. Að minnsta kosti hingað til. Það er til­valið til göngu­ferða með sínum aflíð­andi hlíðum og af því er útsýni til allra átta. Langt út á sjó. Svo langt sem augað eyg­ir.

Auglýsing

Við hin, sem ekki búum á Reykja­nesi, þekkjum það aðal­lega úr fréttum síð­ustu mán­aða. Skjálft­ar. Sumir stór­ir. Suðsuð­vestur af Fagra­dals­fjalli. Suð­suð­austur af því. Þetta er fjallið sem hefur haldið vöku fyrir mörgum síð­ustu daga. Þar sem óró­apúls­inn hefur mælst. Þar sem kvikan er að safn­ast fyrir undir jarð­skorp­unni. Og nú aðeins á um eins kíló­metra dýpi. Log­andi heit kvikan sem er að reyna að brjóta sér leið upp á yfir­borð­ið.

Slíkar jarð­hrær­ingar ættu ekki að koma okkur Íslend­ingum algjör­lega í opna skjöldu. Reykja­nesið allt er eld­brunn­ið, eins og sagt er, og ásýnd þess ein­kenn­ist af hraun­um, gíg­um, mis­gengjum og jarð­hita. Um það liggja mót Evr­asíu- og Norð­ur­-Am­er­íkuflek­anna og gliðnun er að eiga sér stað með til­heyr­andi jarð­skjálftum oft og reglu­lega síð­ustu ár og ára­tugi. Við vitum að þarna hafa orðið eld­gos – eldar eru þau kölluð því þau stóðu yfir í lengri tíma í lotum – og við gátum sagt okkur að slíkt gæti farið að end­ur­taka sig. Það segja fræðin okk­ur. En við áttum kannski ekki von á þeim nákvæm­lega þarna.

Reykjanesið er eldbrunnið. Þar eru gígaraðir, dyngjur og hryggir. Keilir er þekktasta fjallið enda formfagurt mjög.
VisitIceland.is

„Hér rís Mið-Atl­ants­hafs­hrygg­ur­inn úr sæ og eld­virkni á landi tekur við af neð­an­sjáv­ar­gos­um,“ skrif­aði Magnús Á. Sig­ur­geirs­son jarð­fræð­ingur í grein í Nátt­úru­fræð­ingnum árið 1995 um eld­virkni svæð­is­ins. Hann minnir á að í heim­ildum sé getið um fjölda gosa í sjó undan Reykja­nesi en aðeins eins á landi. Skrifar að eitt af því sem fram hafi komið við rann­sóknir sé að oft­sinnis þegar gaus hafi gossprung­urnar teygst út í sjó. „Urðu þá sprengigos undan ströndu, á sjáv­ar­hluta gossprung­unn­ar, en hraun­gos frá gíga­röðum á land­i.“

Á Reykja­nesi er að finna fimm eld­stöðvakerfi og Fagra­dals­fjall og nágrenni er eitt þeirra. En þó að jarð­eldar hafi orðið á skag­anum frá upp­hafi Íslands­byggðar hafa þeir ekki orðið í þessu til­tekna kerfi í yfir 6.000 ár í það minnsta. Og það er það eina af kerf­unum fimm þar sem hvorki er að finna jarð­hita né sprungu­sveima. Það er lítið, um fimm kíló­metra breitt á milli Svarts­eng­is- og Krýsu­vík­ur­kerf­anna og um 15 kíló­metrar að lengd milli Keilis í norð­austri og Húsa­fjalls í suð­vestri.

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga eru fimm.
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Sjálft Fagra­dals­fjall er skil­greint sem dyngja, eld­fjall sem mynd­ast í lang­vinnu eld­gosi, og er gíg­ur­inn nyrst í því. Það er í raun stapi, hið neðra úr bólstra­bergi, móbergs­brota­bergi og túffi (um­mynd­aðri, sam­an­lím­dri gjósku) en með hettu úr grá­grýti. Að mestu hefur það byggst upp undir ís og virð­ist ekki ólík­legt að jök­ull hafi legið að því norð­aust­an­verðu fram til þess að eld­virkni hætti.

Eldar á Reykja­nesskaga geta staðið með hléum í nokkra ára­tugi eða leng­ur. Síð­asta gos­tíma­bili lauk um miðja 13. öld. Vís­bend­ingar eru um að það hafi byrjað með eldum í Brenni­steins­fjöllum laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eld­virkni tók sig upp aftur á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsu­vík­ur­kerfið á 12. öld. Að síð­ustu komu vest­ustu kerfi Reykja­nesskag­ans á 13. öld eftir um 30 ára gos­hlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum. Eld­stöðvakerfin hafa því ekki verið virk sam­tímis heldur hefur gos­virkni á þeim flust á milli þeirra með 30-150 ára löngum hléum á milli.

Fjórtán fórust í flugslysinu á Fagradalsfjalli árið 1943. Einn lifði af.
The American Air Museum/USAAF

En Fagra­dals­fjall hefur kom­ist í fréttir fyrir fleira en skjálfta­virkni síð­ustu ára­tugi. Og heitt efni, Hot Stuff, kom þar við sögu. Fyrir 77 árum varð þar mann­skætt flug­slys sem full­yrða má að hafi haft áhrif á gang mann­kyns­sög­unn­ar.

Við skulum byrja á byrj­un­inni.

Árið er 1943. Það er stríð í Evr­ópu. Síð­ari heims­styrj­öld­in. Banda­ríska B-24 sprengju­flug­vélin Hot Stuff og áhöfn hennar var orðin fyrsta flug­vél flug­hers­ins til að ljúka 25 árás­ar­ferðum frá Bret­landi yfir meg­in­land Evr­ópu. Um vorið fékk áhöfnin fyr­ir­mæli um að snúa heim til Banda­ríkj­anna á vél­inni þar sem fara skyldi í sýn­ing­ar­för um landið í fjár­öfl­un­ar­skyni fyrir Banda­ríkja­her.

Frank M. Andrews, hers­höfð­ingi og æðsti yfir­maður her­afla Banda­ríkj­anna í Evr­ópu, ákvað að fá far með Hot Stuff yfir Atl­ants­haf­ið. Hann hafði verið boð­aður til Was­hington til skrafs og ráða­gerða um inn­rás banda­manna á meg­in­land Evr­ópu. Fleiri vildu far og varð svo úr að fimmtán voru um borð er vélin lagði upp frá Bovington-flug­velli í Englandi að morgni 3. maí.

Það var dimmviðri er vélin fórst. Hluti áhafnarinnar hafði orðið eftir á Bretlandseyjum því margir vildu fá far með vélinni vestur um haf.
The American Air Museum/USAAF

Ákveðið var að hafa við­komu í Reykja­vík á leið­inni vestur um haf. Í fyrstu var veður gott en er að Íslands­ströndum kom fór það versn­andi. Flug­vélin sást hring­sóla yfir breska her­flug­vell­inum í Kald­að­ar­nesi, fljúga þaðan vestur með strönd­inni en þar sem ekki reynd­ist ger­legt að lenda á Reykja­vík­ur­flug­velli og ekki heldur á Kefla­vík­ur­flug­velli vegna veð­urs stefndi vélin að ný í átt að Kald­að­ar­nesi. Það var lág­skýjað og hvasst. Slag­veð­ur. Dimmt yfir. Flug­vél­ina bar af leið og brot­lenti hún á Fagra­dals­fjalli. Allir nema einn sem um borð voru fórust, þeirra á meðal hers­höfð­ing­inn Andrews. Mað­ur­inn sem var á leið til Was­hington til að skipu­leggja inn­rás­ina og sagan segir að hafi átt að fá stöðu­hækkun – taka við öllum her Banda­ríkj­anna.

Við frá­fall hans var annar hers­höfð­ingi feng­inn til að taka við banda­rísku her­sveit­unum í Evr­ópu og síðar öllum her­afla banda­manna í álf­unni. Það kom í hans hlut að stjórna inn­rásinni í Norm­andí árið eft­ir. Þessi maður hét Dwight D. Eisen­hower og varð síðar for­seti Banda­ríkj­anna á árunum 1953-1961.

Auglýsing

Sá sem komst lífs af úr flug­slys­inu George Eisel og var svo­nefnd stélskytta Hot Stuff. Hann meidd­ist lítið en lá fastur í byssu­turn­inum í um sól­ar­hring eða þar til leit­ar­flokkar fundu flakið er veðr­inu hafði slot­að. Hann sagð­ist hafa átt von á dauða sínum því eldur kvikn­aði í flak­inu og byssu­kúlur sprungu alls staðar í kringum hann.

Sprengju­flug­vélin Hot Stuff fór því aldrei í sína frægð­ar­för um Banda­rík­in. Við því hlut­verki tók önnur vél og í dag þekkt­ari, sjálf Memp­his Belle.

3. maí árið 2018, þegar 75 ár voru liðin frá flug­slys­inu, var minn­is­varði um atburð­inn og þá sem fór­ust afhjúp­aður skammt frá Fagra­dals­fjalli. Hann var reistur að frum­kvæði Banda­ríkja­manns­ins Jim Lux og ætt­ingja þeirra sem fórust, með aðstoð Þor­steins og Ólafs Mart­eins­sona. Allir eru þeir miklir áhuga­menn um flug­vélar og flug­sögu seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Á minn­is­varð­anum er eft­ir­lík­ing af sprengju­flug­vél­inni úr ryð­fríu stáli.

Áhöfnin stillir sér upp fyrir framan sprengiflugvélina Hot Stuff í tilefni af því að henni hafði verið flogið án skakkafalla í 25. árásarferðir yfir meginland Evrópu.
The American Air Museum/USAAF

Mest af braki vél­ar­innar hefur verið fjar­lægt af Fagra­dals­fjalli. Þar má þó enn sjá hluta þess. Tvö flug­slys til við­bótar urðu á fjall­inu á fimmta ára­tug síð­ustu ald­ar. Bæði reyndar árið 1941. Í þessum þremur flug­slysum fór­ust sam­tals 28 menn en ell­efu komust af.

Hér að neðan er mynd­band sem Ívar Gunn­ars­son gerði af göngu­ferð og sögu­st­und sinni á Fagra­dals­fjalli í fyrra. Þar fjallar hann um slysið árið 1943 og bendir á að Fagra­dals­fjall hafi breytt mann­kyns­sög­unni því í kjöl­far slyss­ins hófst atburða­rás sem end­aði með því að arf­taki Andrews hers­höfð­ingja varð for­seti Banda­ríkj­anna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar