EPA

Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur

Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist. Á meðan bóluefnum er jafn gríðarlega misskipt og raunin er í dag munu þau halda áfram að koma fram – og bíta jafnvel fastar en áður.

Hjarð­ó­næmi. Tak­markið – enda­punkt­ur­inn – sem mun gera okkur kleift að snúa aftur til „venju­legs lífs“ og kveðja tak­mark­anir vegna kór­ónu­veirunnar fyrir fullt og allt, hefur verið öllum ofar­lega í huga í heilt ár. En er það raun­hæft mark­mið? Fjöl­margir sér­fræð­ingar vest­an­hafs sögðu nýverið við New York Times að svo væri lík­leg­ast ekki – að minnsta kosti í fyr­ir­séðri fram­tíð. Fleiri sér­fræð­ingar á sviði smit­sjúk­dóma og far­alds­fræða hafa tekið undir þessi sjón­ar­mið og bent á að ekki sé hægt að tala um hjarð­ó­næmi gegn COVID-19 fyrr en öll heims­byggðin kemst á svip­aðar slóðir í bólu­setn­ing­um.

En fleira kemur til en gríð­ar­leg mis­skipt­ing bólu­efna um heim­inn. Tregða til bólu­setn­inga er nú ber­sýni­lega að koma í ljós m.a. í Banda­ríkj­un­um, Bret­landi og í Ísr­ael þar sem erf­ið­lega geng­ur, eftir góða byrj­un, að ná því að bólu­setja 70 pró­sent full­orð­inna. Í þriðja lagi er enn nokkuð í að börn og ung­lingar verði bólu­sett og í fjórða lagi er enn ekki full­ljóst hvort bólu­settir beri veiruna og geti smitað aðra. Þá vitum við ekki heldur hversu lengi vörn bólu­efna og nátt­úr­legrar sýk­ingar var­ir.

Og svo eru það nýju afbrigði veirunn­ar. Þessi sem eru meira smit­andi og valda mögu­lega alvar­legri veik­ind­um. Á meðan bólu­setn­ingar eru ekki útbreiddar alls stað­ar, hvar svo sem fólk kann að búa á plánet­unni, munu þau halda áfram að koma fram og breið­ast út – líka til þeirra landa þar sem bólu­setn­ing­ar­hlut­fall er hátt.

Hjarð­ó­næmi virð­ist því sífellt fjar­læg­ari draumur og er að minnsta kosti ekki handan við horn­ið. Hins vegar er eft­ir­sókn­ar­vert að ná því mark­miði á alþjóða­vísu og á þeirri veg­ferð von­andi ná að lág­marka ógn­ina sem af sjúk­dómnum stafar.

Auglýsing

Hjarð­ó­næmi er hug­tak úr smit­sjúk­dóma­fræð­unum sem næst þegar nægi­lega margir ein­stak­lingar eru orðnir ónæmir fyrir ákveðnum smit­sjúk­dómi til að koma í veg fyrir far­aldur af hans völd­um. Ónæmið getur feng­ist með ýmist því að nægi­lega margir hafi sýkst eða að nægi­lega margir hafi verið bólu­sett­ir. Eða blöndu af hvoru tveggja. En hversu margir eru nægi­lega margir þegar kemur að COVID-19?

Við höfum frá upp­hafi far­ald­urs­ins heyrt tölur á borð við 60-70 pró­sent. En nú, með meira smit­andi afbrigð­um, eru sér­fræð­ingar farnir að hall­ast að því að mun hærra hlut­fall fólks, jafn­vel 90 pró­sent, þurfi að verða ónæmt svo að hið marg­um­tal­aða hjarð­ó­næmi sé mögu­legt.

Yfir helm­ingur full­orð­inna í Banda­ríkj­unum hefur fengið að minnsta kosti annan skammt­inn af bólu­efni. Bjart­sýni hefur svifið yfir vötnum sam­hliða auknu fram­boði á bólu­efn­um. Og þó. Sér­fræð­ingar eru sam­tímis farnir að efast um að hjarð­ó­næmi náist í fyr­ir­sjá­an­legri fram­tíð. Þeir telja þá stað­reynd blasa við að kór­ónu­veiran haldi áfram að finn­ast í Banda­ríkj­unum um ókomna tíð þó að hætt­unni af henni verði hægt að halda í skefj­um. Það þýði að ein­hverjir muni áfram veikj­ast alvar­lega og deyja vegna COVID-19 en í mun minna mæli en í þeim bylgjum sem þegar hafa gengið yfir. Veiran breyt­ist of hratt, ný afbrigði breið­ast of hratt út og bólu­setn­ingar eru á sama tíma að ger­ast of hægt. „Það er ólík­legt að veiran hverf­i,“ segir Rustom Antia, þró­un­ar­líf­fræð­ingur við háskóla í Atl­anta, við New York Times. „En við verðum að gera hvað við getum til milda áhrif­in.“

Ráðhúsið í Boston upplýst til minningar um fórnarlömb COVID-19 í Bandaríkjunum.
EPA

Þó að hjarð­ó­næmi muni ekki nást á næst­unni, og alveg örugg­lega ekki í sumar líkt og sumir sér­fræð­ingar vest­an­hafs héldu fram, verða bólu­setn­ingar áfram lyk­il­inn að því að halda veirunni í skefj­um. Ant­hony S. Fauci, helsti ráð­gjafi rík­is­stjórnar Joe Bidens í tengslum við far­ald­ur­inn, segir í grein New York Times að ákveð­ins mis­skiln­ings hafi kannski gætt meðal almenn­ings þegar kæmi að hjarð­ó­næmi. Hann seg­ist hafa hætt að nota það hug­tak í opin­berri orð­ræðu fyrir nokkru en minna þess í stað á að ef nægi­lega margir verði bólu­settir muni smitum fara fækk­andi.

Allt frá upp­hafi far­ald­urs­ins var rætt um, hér á Íslandi sem og ann­ars stað­ar, að hjarð­ó­næm­is­þrösk­uldur vegna COVID-19 væri mögu­lega um 60-70 pró­sent og var það m.a. hlut­fallið sem Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin (WHO) mið­aði við í fyrstu. Sum sé að svo stór hluti þýð­is­ins (t.d. íslensku þjóð­ar­inn­ar) þyrfti að vera orð­inn ónæmur fyrir veirunni til að hægt væri að tala um hjarð­ó­næmi innan þess. Yfir­völd í Banda­ríkj­unum hækk­uðu töl­una í 75-85 pró­sent í lok síð­asta árs. Fauci var meðal þeirra sem sagði það mark­mið geta náðst með víð­tækri bólu­setn­ingu.

En pró­sentan sem þarf til að kom­ast yfir hjarð­ó­næm­is­þrösk­uld­inn hefur haldið áfram að hækka. Skýr­ingin er sú að fyrstu útreikn­ingar mið­uð­ust við smit­stuðul fyrstu afbrigða hennar – ekki þeirra sem síðar hafa komið fram, m.a. þess breska, suð­ur­a­fríska, brasil­íska og nú ind­verska, sem eru meira smit­andi en önn­ur. Því vilja sumir meina að hlut­fallstalan sé komin upp í 90 pró­sent. Eða jafn­vel meira. Aðrir benda á að ekki dugi að miða ein­göngu við full­orðna í þessu sam­bandi þó að börn veik­ist síður og smiti aðra síð­ur, fái þau COVID-19. Þegar far­aldur geisar innan ákveð­ins hóps, þó að ein­stak­lingar innan hans séu að með­al­tali ólík­legri en aðrir til að veikj­ast alvar­lega, fara sjald­séðir atburðir að ger­ast.

Ástvinur fylgir aldraðri konu í bólusetningu á Ítalíu.
EPA

Vand­inn sem Banda­ríkja­menn standa einnig frammi fyrir er að um þriðj­ungur full­orð­inna er enn hik­andi við að fá bólu­setn­ingu. Í fleiri löndum þar sem bólu­setn­ingar eru langt komn­ar, t.d. Í Bret­landi og Ísra­el, er svipað uppi á ten­ingn­um. Það kvarn­ast stöðugt úr hópi efa­semda­manna eftir því sem fólk fær meiri upp­lýs­ingar um bólu­efn­in, en engu að síður má gera ráð fyrir að alltaf verði tölu­verður fjöldi sem ein­fald­lega hafnar bólu­setn­ingu gegn COVID-19. Mjög ólík­legt verður til dæmis að telja að 90 pró­sent Banda­ríkja­manna muni á ein­hverjum tíma­punkti vera orðnir full­bólu­sett­ir. Til að bregð­ast við þess­ari tregðu hefur verið gripið til ýmissa ráða. Í Ísr­ael er t.d. reynt að lokka ungt fólk í bólu­setn­ingu með pizzum og bjór. Í Ohi­o-­ríki í Banda­ríkj­unum hefur verið brugðið á það ráð að efna til happ­drættis. Í fimm vikur verður reglu­lega dregið úr nöfnum bólu­settra íbúa og þeir verð­laun­aðir með 1 milljón doll­ara. Í Þýska­landi eru sér­stök teymi gerð út af örk­inni til að nálg­ast ákveðna hópa í sam­fé­lag­inu á þeirra for­send­um, í þeirra hverfum og á þeirra heim­ilum eða sam­komu­stöð­um.

Annað vanda­mál felst í mis­mun­andi hlut­falli bólu­settra eftir svæð­um, ríkjum og á heims­vísu. Segjum sem svo að 95 pró­sent ákveð­innar þjóðar séu bólu­sett en í einum bæ sé hlut­fallið ekki nema 70 pró­sent eða jafn­vel lægra. Þá skapar það hættu á hóp­sýk­ing­um. Jafn­vel stór­um. Og lík­leg­ast þá lífs­hættu­leg­um. Við vitum hvernig kór­ónu­veiran smit­ast. Við vitum að hegðun fólks er stóra breytan í því sam­bandi.

Bólusettar vinkonur spjalla fyrir utan hárgreiðslstofu í Ísrael.
EPA

Ferða­lög milli svæða, sér­stak­lega þegar farið er að slaka á tak­mörk­unum á þeim, gerir það að verkum að hjarð­ó­næmi ákveð­ins sam­fé­lags er alls ekki nóg. Á meðan stórir hópar fólks, heilu löndin og jafn­vel heims­álf­urn­ar, eru með hlut­falls­lega lítið ónæmi, mun veiran halda áfram að grass­era, stökk­breyt­ast og að end­ingu breið­ast út til hinna bólu­settu landa. Um 2 pró­sent Ind­verja hafa verið bólu­sett­ir. Innan við 1 pró­sent íbúa Suð­ur­-Afr­íku og flestra ann­arra Afr­íku­landa sem og ann­arra fátækra ríkja heims, svo dæmi séu tek­in. Aðeins brot af þjóðum heims hafa náð þeim áfanga að hefja bólu­setn­ingu hjá helm­ingi full­orð­inna. „Við munum ekki fá hjarð­ó­næmi sem land, sem ríki eða sem borg fyrr en búið verður að ná ónæmi meðal jarð­ar­búa allra,“ hefur New York Times eftir Lauren Ancel Meyers, sér­fræð­ingi í líf­töl­fræði við háskól­ann í Austin í Texas.

Bólu­setn­ingar við­kvæm­ustu hópa fólks hafa þegar dregið veru­lega úr sjúkra­húsinn­lögnum í mörgum ríkj­um. Ef ónæmi þeirra verður við­haldið mun COVID-19 mögu­lega verða árs­tíða­bund­inn sjúk­dómur fyrst og fremst, líkt og inflú­ensa. Það mun ekki koll­varpa heil­brigð­is­kerf­unum en valda engu að síður hóp­sýk­ingum annað slag­ið. Bólu­setn­ing gegn COVID-19, skimun og smitrakn­ing eru því ekki átaks­verk­efni til nokk­urra mán­aða. Það verða verk­efni til næstu ára og jafn­vel ára­tuga.

Auglýsing

Veirur stökk­breyt­ast og kór­ónu­veiran hefur sýnt sér­staka hæfi­leika þegar kemur að því. Það kann að vera að veiran verði fær­ari í því að kom­ast í gegnum varnir lík­am­ans sem mynd­ast við bólu­setn­ingu. „Það er hin martrað­ar­kennda sviðs­mynd,“ hefur New York Times eftir Jef­frey Sham­an, far­alds­fræð­ingi við Col­umbi­a-há­skóla. Því muni sér­fræð­ingar stöðugt þurfa að fylgj­ast með nýju afbrigð­unum og hvað þau eru fær um að gera. „Kannski almenn­ingur geti hætt að hafa miklar áhyggjur en við munum áfram gera það.“

Á meðan ný og meira smit­andi afbrigði veirunnar koma fram á sjón­ar­sviðið mun þurfa að end­ur­bólu­setja fólk til að við­halda ónæmi þess og þar með sam­fé­laga. Vís­inda­menn við London School of Hygi­ene and Tropical Med­icine skrifa í nýlega birtri grein að alltaf ætti að miða að því að ná 100 pró­sent bólu­setn­ing­ar­hlut­falli. Að það mark­mið náist sé þó ólík­legt þegar kemur að COVID-19 en með því að stefna þangað verði von­andi hægt að kom­ast yfir hjarð­ó­næm­is­þrösk­uld­inn.

„Við erum að fær­ast frá þeirri hug­mynd að við munum kom­ast yfir hjarð­ó­næm­is­þrösk­uld­inn og að með því muni far­ald­ur­inn hverfa fyrir fullt og allt,“ hefur vís­inda­tíma­ritið Nat­ure eftir far­alds­fræð­ingnum Lauren Ancel Meyers sem fer fyrir gerð spálík­ana um heims­far­ald­ur­inn við Texa­s-há­skóla. Hins vegar megi ekki gleyma því að bólu­setn­ingar séu vissu­lega að gera mjög mikið gagn og hjálpa til við að draga úr alvar­leika far­ald­urs­ins. En á meðan ný afbrigði séu að koma fram og mótefni gegn sýk­ingu dvíni með tím­anum muni glíman við far­ald­ur­inn drag­ast á lang­inn.

Líkkista sótthreinsuð á útfararstofu í Buenos Aires í Argentínu.
EPA

Geta bólu­settir borið veiruna?

Í grein Nat­ure er farið yfir nokkrar þær helstu hindr­anir sem þarf að kom­ast yfir svo að hjarð­ó­næmi náist.

Enn er óljóst hvort að bólu­setn­ing kemur í veg fyrir að fólk beri veiruna í sér og geti því smitað aðra. „Hjarð­ó­næmi kemur aðeins til sög­unnar ef bólu­efni koma í veg fyrir að fólk beri smit. Að öðrum kosti þarf að bólu­setja alla,“ segir Shweta Bansal, töl­fræð­ingur við Geor­getown-há­skóla. Rann­sóknir á þeim bólu­efnum sem þegar eru komin á markað í þessu sam­bandi eru enn í gangi og þó að til­efni sé til bjart­sýni eru fyrstu nið­ur­stöður ekki óyggj­andi.

Ójöfn dreif­ing og tregða til bólu­setn­inga

Mikil bólu­setn­ing­ar­her­ferð hófst í Ísr­ael í des­em­ber. Hún var til­komin vegna ein­staks samn­ings við lyfja­fyr­ir­tækið Pfiz­er. Framan af gekk hún mjög vel og um miðjan mars hafði um helm­ingur þjóð­ar­innar verið full bólu­sett­ur. En þá fór að bera á tregðu. Meðal ann­ars meðal yngra fólks. Á sama tíma hefur innan við eitt pró­sent nágranna­þjóð­anna, m.a. Líbanons, Sýr­lands, Jórdaníu og Egypta­lands verið bólu­sett­ur. Og kór­ónu­veiran þekkir vissu­lega engin landa­mæri.

Bólu­efnum hefur einnig verið mis­jafn­lega dreift innan landa. Þannig er því til dæmis farið í Banda­ríkj­un­um. Í ríkjum á borð við Georgíu og Utah hafa innan við 10 pró­sent íbú­anna verið full­bólu­settir en í öðrum er hlut­fallið að nálg­ast tutt­ugu pró­sent svo dæmi séu tek­in.

Auglýsing

Bólu­setn­ingar barna ekki hafnar

Bólu­setn­ingar barna eru ekki hafnar þó að nokkur lyfja- og líf­tækni­fyr­ir­tæki séu byrjuð að taka ung­linga inn í klínískar rann­sóknir sínar og ein­hver jafn­vel börn. Enn eru að minnsta kosti ein­hverjir mán­uðir þar til nið­ur­stöður þess­ara rann­sókna liggja fyr­ir. Og á meðan börn eru ekki bólu­sett mun þurfa að bólu­setja miklu hærra hlut­fall full­orð­inna til að hjarð­ó­næmi náist. Í Banda­ríkj­unum eru 24 pró­sent íbúa undir átján ára aldri. Ef þessi ald­urs­hópur er óbólu­settur myndi þurfa að bólu­setja alla aðra – 100 pró­sent – til að ná 76 pró­sent ónæm­is­hlut­falli þjóð­ar­inn­ar.

Á Íslandi er ekki mælt með bólu­setn­ingum 18 ára og yngri en þó kemur fram í upp­lýs­ingum yfir­valda að bólu­efni Pfiz­er-BioNtech megi nota hjá sextán ára og eldri. 20 pró­sent þjóð­ar­innar eru yngri en sextán ára og 24,5 pró­sent eru yngri en átján ára. 65 þús­und ein­stak­lingar hér á landi eru þegar orðnir full­bólu­settir eða 17,2 pró­sent allra þeirra sem hér búa.

Nýju afbrigðin breyta jöfn­unni

„Við erum í kapp­hlaupi við nýju afbrigð­in,“ segir banda­ríski far­alds­fræð­ing­ur­inn Sara Del Val­le, í grein Nat­ure. Því lengur sem það tekur að draga úr smitum af veirunni þeim mun lengri tíma hafa þessi afbrigði til að koma fram og breið­ast út.

Það sem gerð­ist í Bras­ilíu sé víti til varn­að­ar. Í októ­ber voru kenn­ingar uppi um að hjarð­ó­næmi hefði mynd­ast í borg­inni Manaus. Slakað var á. Og hörm­ungar skullu yfir í kjöl­far­ið. Þá var komið fram á sjón­ar­sviðið nýtt afbrigði, kallað P.1. Svip­aða sögu er að segja frá Ind­landi þar sem far­ald­ur­inn geisar sem aldrei fyrr og nýtt afbrigði ber uppi þá skæðu bylgju.

Bóluefnaframleiðsla er smám saman að aukast eftir talsverða byrjunarörðugleika, m.a. vegna hráefnaskorts.
EPA

Ónæmi varir ekki að eilífu

Rann­sóknir sýna að ónæmi þeirra sem sýkst hafa af kór­ónu­veirunni varir oft­ast í að minnsta kosti ein­hverja mán­uði. En hversu lengi það mun vara er enn óljóst enda stutt síðan að far­ald­ur­inn hófst. Og í ein­hverjum til­vikum virð­ist fólk sem sýkst hefur af einu afbrigði geta sýkst aftur af öðru.

Vörnin sem bólu­efnin veitir er góð en hún er ekki full­kom­in. Og líkt og með nátt­úru­lega sýk­ingu er ekki vitað hversu lengi hún varir og hversu góð hún er til að verj­ast nýjum afbrigð­um. Því er nú talið lík­legt að bólu­settir muni þurfa end­ur­bólu­setn­ingu til að við­halda vörn sinni. Þannig er ekki ólík­legt að reglu­leg bólu­setn­ing, rétt eins og gegn inflú­ensu, sé fram­tíð­in.

Bólu­efnin breyta hegðun fólks

Þegar talað er um hjarð­ó­næmi eru ýmsar breytur teknar inn í jöfn­una. Ein þeirra er hegðun fólks. Þar sem veiran smit­ast með nánd hafa tak­mark­anir á borð við 2 metra regl­una, sem við Íslend­ingar þekkjum svo vel, grímu­skyldu sem og fjölda­tak­mark­anir verið raun­veru­leiki okkar und­an­farna mán­uði. En þegar fólk er orðið bólu­sett er lík­legt að það muni smám saman fara að slaka á í þessu sam­bandi og hverfa aftur til náinna sam­skipta við marga. „Bólu­setn­ing er ekki skot­held,“ segir Dvir Aran, líf­töl­fræð­ingur við Tækni­stofn­un­ina í Haifa í Ísr­a­el. Ef við ímyndum okkur að bólu­efni veiti 90 pró­sent vörn þýði það að ef þú hittir tíu manns í návígi bólu­settur jafn­ist það á við að hafa hitt eina mann­eskju í nánd áður.

Þessi breyta, hegðun fólks, er ein sú flókn­asta þegar kemur að lík­inda­reikn­ingum vegna smit­sjúk­dóma og þá hversu hár hjarð­ó­næm­is­þrösk­uld­ur­inn þarf að vera. Þess vegna telja sumir sér­fræð­ingar að per­sónu­legar sýk­inga­varnir muni áfram þurfa að spila stórt hlut­verk í því að halda veirunni niðri.

Aflétt­ing tak­mark­ana á sam­skiptum fólks verður stóra áskor­unin næstu mán­uði og hvenær rétt er að hefja hana stóra áskorun yfir­valda um allan heim. Hjarð­ó­næm­is­þrösk­uld­ur­inn er ekki „nú erum við örugg-­þrösk­uld­ur,“ hefur Nat­ure eftir Samuel Scarp­ino, smit­sjúk­dóma­sér­fræð­ingi við Northe­astern-há­skól­ann í Boston, heldur „við erum örugg­ari-­þrösk­uld­ur­inn.“

Að öllu þessu sögðu er það mat margra sér­fræð­inga að raun­hæf­ara sé nú að minnka líkur á hóp­sýk­ingum í stað þess að koma alfarið í veg fyrir smit manna á milli. „Bólu­efnin eru stór­kost­legt fram­fara­skref,“ segir Stefan Flasche, bólu­efna­sér­fræð­ingur og far­alds­fræð­ingur við London School of Hygi­ene & Tropical Med­icine. En það er ólík­legt að þau muni algjör­lega koma í veg fyrir útbreiðslu veirunn­ar. Hann segir þetta ekki eins grimmi­lega fram­tíð­ar­sýn og margir eflaust haldi. Með því að lág­marka hætt­una, verja áfram við­kvæma hópa, halda áfram að bólu­setja af kappi, verði hægt að draga veru­lega úr alvar­legum veik­indum vegna COVID-19. Sjúk­dóm­ur­inn muni þó lík­lega ekki hverfa úr sam­fé­lagi manna á næst­unni en ógnin sem af honum stafar minnka veru­lega.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar