EPA

Hvar eru bóluefnin?

Bóluefni gegn COVID-19 voru þróuð á hraða sem jafnast á við kraftaverk í vísindunum. En hvar er kraftaverkið sem þarf til framleiðslu þeirra og dreifingar? Það þarf reyndar ekkert kraftaverk, aðeins einbeittan samstarfsvilja og mannúð.

Það liðu aðeins nokkrar vikur, dagar jafnvel, frá því að búið var að raðgreina veiruna sem var að valda alvarlegu lungnabólgunni í Kína þar til vísindafólk fór að rétta upp hönd og segja: Við erum byrjuð að þróa bóluefni! Og það liðu aðeins nokkrir mánuðir til viðbótar, vikur jafnvel, þar til farið var að prófa þessi bóluefni á fólki. Á þúsundum manna víða um heim.

Í haust var svo hið ótrúlega komið á daginn: Mörg bóluefni lofuðu góðu í baráttunni við þennan vágest. Tugir þeirra voru þróuð og prófuð; allt frá Kína til Bandaríkjanna og Rússlandi til Bretlands. Við þessi stórkostlegu tíðindi andaði heimsbyggðin léttar. Þetta var að verða búið. Brátt kæmi frelsið, heiðskír blár himinn eftir misseri óveðursskýja og eldinga.

Fyrstu skammtar bóluefna voru varfærnislega fluttir heimshorna á milli í lok árs. Tekið var við sendingunum með viðhöfn. Fyrsta fólkið fékk sprautu að viðstöddum fjölmiðlum. Stór stund var runnin upp.

Auglýsing

Nú fer að nálgast marslok. Og þriðju og fjórðu bylgjurnar skella af alefli á tugum þjóða. Einhverra hluta vegna gengur bólusetning jarðarbúa mun hægar en við áttum von á. Hvað í ósköpunum skýrir það?

Of miklar væntingar?

Milliríkja deilur vegna bóluefnasamninga?

Hráefnaskortur?

Eru þau strand í Súes-skurðinum?

Blanda af þessu öllu?

Eða kannski eitthvað allt annað?

Stóra spurningin er: Hvað þarf til að bólusetja okkur öll með tölu gegn COVID-19?

Þó að við séum óþolinmóð og dæsum yfir því fá ekki sprautuna okkar má ekki gleyma því að á aðeins örfáum mánuðum hefur lyfjafyrirtækjum tekist að framleiða hundruð milljóna skammta af bóluefnum við COVID-19. En, hin kalda staðreynd er sú, að það þarf milljarða slíkra til að ná hinu eftirsótta hjarðónæmi – og því fyrr því betra. Á meðan því er ekki náð, og veiran þvælist með sína baneitruðu brodda manna á milli, breytist hún og getur þróað með sér eiginleika sem eru ekki eftirsóknarverðir; orðið meira smitandi og jafnvel hættulegri. Dæmin um þetta eru þegar komin fram á sjónarsviðið. Og hinu breska afbrigði skolað alla leið upp að Íslandsströndum með tilheyrandi veikindum hjá fólki, jafnvel börnum.

Í byrjun mánaðarins höfðu verið framleiddir yfir 400 milljónir skammta af bóluefni á heimsvísu.
EPA

Lyfjaframleiðendur hafa fullyrt að þeir geti framleitt nóg af bóluefni til að bólusetja bróðurpart jarðarbúa fyrir árslok. En þá voru þeir ekki að gera ráð fyrir að babb gæti komið í bátinn – babb sem þeir ráða ekki við eins og pólitískar ákvarðanir sem tefja dreifingu, að sett séu útflutningsbönn á bóluefni frá ákveðnum stöðum og til ákveðinna staða og svo það sem kannski hæst rís: Að auðugustu ríki jarðar hamstri alla þá skammta sem þau koma höndum yfir. Að hinn vestræni heimur hafi tryggt sér samninga um mikinn meirihluta allra bóluefna sem framleidd verða í nánustu framtíð.

Þessi skekkja hefur orðið til þess að krafan um að lyfjafyrirtækin afsali sér einkaleyfum svo að fátækari ríki geti framleitt sitt eigið bóluefni, hefur gerst háværari. Þau ríki sem þessa kröfugöngu leiða eru Indland og Suður-Afríka sem telja sig fullfær um að framleiða bóluefni fjarri höfuðstöðvum lyfjarisa í Bandaríkjunum og Evrópu.

En þegar spurt er stórra spurninga á borð við: Hvað geta þessi lyfjafyrirtæki í raun og veru framleitt mikið af bóluefni eru svörin ekki jafn skýr og ætla mætti í heimsfaraldri.

Auglýsing

Lyfjaiðnaðurinn samanstendur ekki aðeins af lyfjafyrirtækjum – fyrirtækjunum sem merkja sér lokavöruna – í þessu tilfelli bóluefnið. Innan hans starfa fjölmörg og allskonar fyrirtæki og aðilar sem sérhæfa sig í ákveðnum þáttum framleiðslunnar, hvort sem það er í að útvega hráefni, steypa litlu lyfjaglösin eða hanna umbúðirnar sem þau eru svo flutt í. Það eru sem sagt margir og ólíkir hlekkir í framleiðslukeðjunni.

Rasmus Bech Hansen, framkvæmdastjóri Airfinity, bresks fyrirtækis sem sérhæfir sig í að greina gögn er tengjast lyfjaiðnaðinum, segir að þrátt fyrir að iðnaðurinn haldi spilunum nokkuð þétt að sér hvað framleiðslugetu á alþjóðavísu varði, eigi hann ekki von á öðru en að framleiðslan muni stigaukast næstu mánuði.

Tregða og tafir

Það hafa jú verið nokkrir flöskuhálsar hingað til. Og þeir tengjast ekki aðeins skorti á litlu lyfjaglösunum (sem þó hefur skýrt ákveðnar tafir).

Í byrjun mars höfðu 413 milljónir skammtar af bóluefni gegn COVID-19 verið framleiddir í heiminum samkvæmt greiningu Airfinity. Spár fyrirtækisins gera ráð fyrir að í lok árs verði búið að framleiða um 9,5 milljarða skammta. Þetta er nokkuð lægri tala en greiningarsérfræðingar við Duke-háskóla í Norður-Karólínu komust að í sinni spá nýverið. Þeir vildu meina að skammtarnir yrðu nær 12 milljörðum.

EPA

Andrea Taylor, sem leiddi rannsókn Duke-háskóla, hefur þegar dregið í land og segir í viðtali við vísindatímaritið Nature að líklega muni milljarðarnir tólf ekki nást fyrr en ári síðar – í árslok 2022. „Framleiðslukeðjurnar gætu rofnað og lönd gætu ógnað dreifingunni með því að setja hömlur á útflutning bóluefna,“ segir hún og bendir á að sú staða sé þegar komin upp hvað varðar Evrópusambandið.

Að búa til bóluefni er ekki eins og að baka pönnukökur. Uppskriftin er töluvert flóknari. Til framleiðslunnar eru notaðir yfir 200 hlutir sem oft eru framleiddir sitt í hverju landinu. Þetta eru m.a. hin áðurnefndu litlu lyfjaglös sem og síur, kvoður, gúmmí og einnota plastpokar – svo aðeins örfá atriði séu nefnd. Ef einhver vandræði koma upp varðandi öflun einhverra þessara yfir 200 hluta getur það sett alla keðjuna á hliðina. Og allra dreifingaráætlanir lyfjafyrirtækjanna úr skorðum. Eins og dæmin hafa þegar sannað.

Erfiðara er að ráða við suma þessa þætti en aðra. En þó eru ákveðnir þættir í ferlinu sem ætti að vera hægt að stjórna vel en hefur valdið hnökrum hingað til. Einn þeirra felst í þeirri aðgerð að fylla litlu lyfjaglösin með bóluefninu.

Auglýsing

Stefnumótasíða fyrir framleiðendur

Það hljómar kannski undarlega, í miðjum heimsfaraldri, að bóluefni séu send landa á milli, í þessa verksmiðju en ekki hina, til að ljúka þessum mikilvæga lokaáfanga framleiðslunnar. Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar hafa bent á að þetta ætti alls ekki að þurfa að vera vandamál, hægt sé að komast algjörlega hjá því. Mörg fyrirtæki sem framleiða sprautulyf geti komið að málum, fyllt litlu glæru glösin með dropunum dýrmætu. Stofnunin hefur meira að segja útbúið lista með nöfnum fleiri hundruð fyrirtækja og verksmiðja um allan heim sem gætu gert þetta. Hún hefur nú sett á laggirnar nokkurs konar stefnumótasíðu til að tengja þessar verksmiðjur við framleiðendur bóluefnanna.

Sögulegt samstarf

Það er þó ekki þannig að lyfjafyrirtækin vilji halda öllum þráðum hjá sér og ekki vinna með neinum öðrum. Heldur betur ekki. Líklega hefur samstarf þeirra á milli aldrei verið meira. Í grein Nature um þetta eru tekin nokkur dæmi: Merck er að framleiða bóluefni fyrir einn sinn helsta keppinaut, Johnson & Johnson. GSK og Novartis hafa bæði tekið að sér framleiðslu á bóluefninu Curevac. Slíkt samstarf á sér enga hliðstæðu í sögunni að sögn sérfræðinga í þessum efnum.

Og lyfjafyrirtækin hafa gert samninga við verksmiðjur um að fylla á glösin þó að þau mættu vissulega vera fleiri og víðar í heiminum. Líklega hefur lyfjafyrirtækið AstraZeneca, sem framleiðir bóluefnið sem þróað var við Oxford-háskóla, náð einna bestum og víðtækustum árangri á þessu sviði. Fyrirtækið hefur samið við 25 fyrirtæki í fimmtán löndum um framleiðslu á um 2,9 milljörðum skammta. Stærsti samningurinn er við fyrirtæki á Indlandi.

Tugir bóluefna eru í þróun. Hvort þau enda öll á markaði er annað mál.
EPA

Einn annar þáttur sem tafið hefur framleiðsluna og orðið til þess að ekki er hægt að margfalda framleiðslu t.d. bóluefna Pfizer og Moderna á örskotsstund hefur með gerð þeirra að gera. Þau byggja á mRNA-tækni (erfðaefni í fituögn en engin veira) sem aldrei áður hefur verið beitt. Bóluefnin eru mjög örugg og virka vel – en þekkingin á framleiðslunni er enn sem komið er af skornum skammti. Það vantar einfaldlega fleiri sérfræðinga til að flýta fyrir.

Þetta er þó ekki helsti veggurinn sem mRNA-bóluefnin hafa lent á. Staðið hefur á framleiðslu ýmissa sértækra hráefna. Það skýrist aftur af því að hingað til hafa aðeins örfá fyrirtæki framleitt þessi tilteknu efni og alls ekki í því magni sem þarf til. Sum hafa verið treg til að veita öðrum leyfi til að framleiða efnin. Þau halda mörg hver fast um einkaleyfin.

Í grein Nature er tekið dæmi sem í fáum orðum er þetta: Til að koma í veg fyrir að mannslíkaminn hafni ekki hluta erfðaefnis veirunnar sem notaður er í bóluefnið þarf ákveðið sértækt efni sem aðeins eitt fyrirtæki í heiminum er með einkaleyfi fyrir. Sömu sögu er að segja um nokkur önnur einstök hráefni; aðeins örfá fyrirtæki halda á einkaleyfunum. Flest þessara fyrirtækja eru sannarlega að auka við framleiðslugetu sína, byggja jafnvel nýjar verksmiðjur eða fá að borðinu aðra sem geta tekið framleiðsluna að sér.

Auglýsing

Þegar stofnanir og fyrirtæki hófu að þróa bóluefni sín áttu þau í litlum vandræðum með að nálgast fé til verksins. Minna var hugað að sjálfu framleiðsluferlinu, segir Drew Weissman, sérfræðingur í RNA-líftækni við háskólann í Pennsylvaníu. Sjálfur kom hann að þróun bóluefnis Pfizer-BioNTech. Fyrirtækið, og einnig Moderna sem þróaði svipað bóluefni, hóf þegar í febrúar á síðasta ári að reyna að tryggja sem flesta þætti framleiðslunnar en þau höfðu lítið vald yfir hráefnaframleiðslunni, að sögn Weissman. „Kannski hefðu stjórnvöld átt að nota völd sín til að krefja ákveðin fyrirtæki til að framleiða meira af þessum hráefnum, en það var kannski mikil tilætlunarsemi á meðan bóluefnið var enn í þróun og hafði ekki fengið markaðsleyfi.“

Ellefu milljarðar skammta

Til að bólusetja 70 prósent jarðarbúa þarf að minnsta kosti 11 milljarða skammta af bóluefni, miðað við að hver einstaklingur þurfi tvo skammta. Fyrr mun hjarðónæmi heimsbyggðarinnar ekki nást. Rík lönd, sem í býr um fimmtungur mannkyns, hafa tryggt sér um 6 milljarða skammta. Á meðan hefur restin af heiminum og mikill meirihluti, aðeins tryggt sér um 2,6 milljarða skammta. Inni í þeirri tölu eru þeir skammtar sem koma munu í gegnum alþjóðasamstarfið COVAX. Þetta er ein helsta ástæða þess að hjarðónæmi mannkyns mun ekki nást fyrr en í fyrsta lagi að tveimur árum liðnum. Og þetta er sömuleiðis ein helsta ástæða þess að brýnt er að aflétta einkaleyfum í framleiðslu svo að hægt sé að búa til bóluefnin í viðurkenndum verksmiðjum hvar sem er í heiminum. Skelfileg reynsla af lyfi við HIV ætti að vera öllum víti til varnaðar. Það var framleitt í hinum vestræna heimi og fyrst og fremst notað í hinum vestræna heimi. Fleiri ár liðu þar til notkun þess varð útbreitt í Afríku sem varð til þess að HIV-faraldurinn náði þar gríðarlegri útbreiðslu og kostaði – og kostar enn – ótal mannslíf.

Beðið eftir bólusetningu í Nepal.
EPA

Ekki eru allir á því að þetta sé góð lausn og bent er á að framleiðsla bóluefnis sé mun flóknari og viðkvæmari en velflestra lyfja. Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa því verið hikandi við að hvetja til afléttingar einkaleyfanna. Sömu sögu er að segja um stóru lyfjafyrirtækin. Þessir aðilar telja það hvorki nauðsynlegt né eftirsóknarvert að fara þá leið þegar bóluefni gegn COVID-19 á í hlut. Í Afríku sé t.d. hvorki tækniþekkingin né aðbúnaðurinn fyrir hendi sem til þurfi. Sumir vilja því frekar fara þá leið að bóluefnaframleiðendur semji sjálfir við önnur fyrirtæki um framleiðslu til að margfalda hana. Þannig yrði gerður „tilflutningur á tækniþekkingu“ til þess að ná sama árangri og með afléttingu einkaleyfanna. Bent hefur verið á að þetta sé þegar farið að eiga sér stað. Fyrirtæki að semja við keppinauta – eins og fyrr er getið.

Það eru því ekki aðeins ljón á sléttum Afríku heldur einnig í veginum fyrir því að þessi heimsálfa þar sem yfir einn milljarður manna býr, fái bóluefni á sama hraða og búast má við að verði raunin í velmegunarríkjunum í vestri. Þar voru fyrstu skammtarnir í gegnum COVAX-samstarfið afhentir í byrjun mars. Það sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin óttast nú mest er að tafir verði á frekari afhendingu til álfunnar. Þeir 20 milljón skammtar sem þegar eru þangað komnir voru fljótir að klárast.

Auglýsing

Þar sem öflun heilsufarsupplýsinga er þar víðast óáreiðanleg er lítið hægt að fullyrða um stöðu faraldursins. Meirihluti Afríkubúa á ekki greiðan aðgang að heilsugæslu, hvað þá sérhæfðri læknisþjónustu. Flestar þjóðirnar eru ungar, það eru mörg börn og margt ungt fólk. Fólksfjölgun hefur verið hröð síðustu áratugi og lífslíkur fólks víðast ekki á pari við það sem þekkist í t.d. Evrópu. Allt þetta gæti skýrt af hverju Afríka virðist á grænni grein í augnablikinu ef horft er aðeins til staðfestra smita og dauðsfalla.

Engu að síður hafa sum Afríkulönd ákveðið að deila með sér og gefa nágrönnum sínum skammtana sem þau hafa fengið. Rússland, Indland og Kína hafa selt og gefið bóluefni til Afríkulanda. Sömu sögu er t.d. að segja um Sameinuðu arabísku furstadæmin sem í krafti fjármuna tryggðu sér hraða afhendingu bóluefna. Og nóg af þeim. Senegal keypti bóluefni frá Kína og gaf svo hluta þess til Gambíu, litla landsins sem klífur suðurhluta Senegal, með landamæri sem dregin voru upp af nýlenduherrum síðustu aldar.

Alþjóða rauði krossinn hefur reiknað út að ESB, Bandaríkin og Bretland gætu, ef þau vildu, komið í veg fyrir hörmungar vegna faraldursins í þeim 20 ríkjum heimsins sem útsettust eru fyrir slíku. Þrettán þeirra eru í Afríku. Ef allir þeir aukaskammtar sem þessi auðugu vestrænu ríki hafa samið um, umfram þann fjölda sem þarf til að bólusetja íbúa þeirra, væri hægt að bólusetja alla íbúa Afríku, sextán ára og eldri.

Fjöldagrafir grafnar í Manaus í Brasilíu þar sem faraldurinn hefur verið sérlega skæður, rétt við Amazon-frumskóginn.
EPA

Bóluefnaframleiðendur telja að stríðinu um bóluefnin verði sjálfhætt þegar framleiðslan kemst á gott ról og sífellt fleiri efni munu bætast inn á markaðinn. Í Bandaríkjunum hefur framleiðslan verið margfölduð á örfáum vikum og ef allt gengur eftir verður búið að framleiða bóluefni fyrir alla þjóðina í lok maí. Bóluefnaframleiðendurnir vilja vita hvernig þeir eigi að haga sínum málum þegar því markmiði Bidens forseta verður náð. Hvað á þá að gera við bóluefnin?

Miðað við þá staðreynd að ¾ hlutar af öllu bóluefni sem selt hefur verið til þessa hefur farið til aðeins tíu landa mætti ætla að svarið lægi í augum uppi. Ekki síst í ljósi þess að um þrjátíu ríki heims hafa ekki enn fengið einn einasta skammt.

Engu að síður er þessi spurning að vefjast fyrir stjórnvöldum og ráðgjöfum þeirra vestra. Á að safna bóluefni? Til að viðhalda vörn landsmanna? Líklega mun þurfa svokallað „búst“ til að viðhalda ónæmi fólks. Á kannski að breyta bóluefninu lítillega til að verjast nýjum afbrigðum betur? Framleiða næsta umgang? Næstu COVID-flensu sprautu? Svo Bandaríkjamenn þurfi ekki að veikjast af hinu breska.

Hvað á að gera við bóluefnin?

Í ítarlegri grein New York Times um málið eru ýmis rök stjórnvalda, um að safna bóluefni fyrir sitt land, tínd til. Ein varða einmitt breska afbrigðið sem virðist leggjast þyngra á börn en önnur. Þá þarf að bólusetja bandarísk börn. Rannsóknir á bólusetningu þeirra eru skammt á veg komnar.

Ef selja á eða gefa bóluefni til annarra ríkja, hver eiga þau þá að vera?

Biden hefur sagt það sína frumskyldu að koma Bandaríkjamönnum til aðstoðar. En þrýstingur á að gefa af sér til annarra og fátækari þjóða fer vaxandi. Helsti sérfræðingur landsins í smitsjúkdómum og ráðgjafi stjórnvalda, Anthony Fauci, hefur sagt að þegar Bandaríkjamenn hafi „náð tökum á faraldrinum“, sem hefur leikið þjóðina sérlega grátt, muni „augljóslega“ verða til aukaskammtar í framtíðinni og verið sé að skoða það af fullri alvöru að gera þá aðgengilega öðru löndum sem þarfnist þeirra.

Bóluefnaframleiðendur vilja svör strax. Svo ekki komi annað babb í bátinn. Svo framleiðslukeðjan haldist óslitin. Hvort sem niðurstaðan verður sú að nota bóluefnið í Bandaríkjunum eða annars staðar þarf hún að liggja fyrir sem fyrst. Ekki er hægt að sitja á skömmtum og láta þá eyðileggjast. Þeir hafa aðeins ákveðið geymsluþol. Það mun skýrast brátt hvort standa muni einfaldlega: „Best fyrir: Bandaríkin“ á litlu lyfjaglösunum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar