Iðnvædd sjávarútvegsríki bera ábyrgð á ruslaeyjunni í Kyrrahafi
Meirihluta af tugþúsundum tonna af plasti sem mynda „ruslaeyjuna“ á Kyrrahafinu má rekja til sjávarútvegs fimm iðnríkja. Rannsakendur segja tímabært að viðurkenna að plastmengun á hafi sé hnattrænt vandamál en ekki bundið við fátæk sjávarútvegsríki.
Á bilinu 75 til 86 prósent plastleifa sem mynda „ruslaeyjuna“ í norðurhluta Kyrrahafsins (e. the Great Pacific Garbage Patch) má rekja til úrgangs fiskveiðiskipa fimm iðnvæddra sjávarútvegsríkja.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem birtist í Scientific Reports, ritrýndu vísindafræðiriti. Vísindamenn á vegum óhagnaðardrifnu samtakanna The Ocean Cleanup standa á bak við rannsóknina. 120 verkfræðingar, rannsakendur, vísindamenn, auk annarra, eiga aðild að samtökunum sem vinna daglega að lausnum til að losna við plast úr heimshöfunum.
Plast leysist ekki upp heldur brotnar það niður í smærri og smærri agnir. Áhrifin sem plast hefur á umhverfi sjávar eru bæði margbreytileg og afdrifarík. Ruslaeyjan í norðurhluta Kyrrahafsins, sem staðsett er á milli Hawaii og Kaliforníu, er stærsta plasteyjan sem flýtur um heimshöfin og hefur orðið að tákni um áhrif plastmengunar á hafi. Áætlað er að um 80 þúsund tonn af plastleifum myndi plasteyjuna. Það jafnast á við 500 breiðþotur að þyngd.
Í raun er ekki um að ræða eyjur í orðsins fyllstu merkingu, eins og segir í umfjöllun Vísindavefsins um plasteyjur, þar sem þær eru engan veginn svo fastar fyrir að hægt sé að ganga þar um. Það sé því réttara að tala um plastfláka.
Plastflákarnir eru fimm talsins, auk stærsta flákans á norðanverðu Kyrrahafi er annar í sunnanverðu Kyrrahafi, sá þriðji er í norðanverðu Atlantshafi, sá fjórði í sunnanverðu Atlantshafi og loks sá fimmti í Indlandshafi.
Tugþúsundir tonna af plastleifum fljóta um milljónir ferkílómetra á norðurhluta Kyrrahafsins. Stór hluti leifanna samanstendur af fiskveiðinetum og veiðarfærum en þar er einnig að finna harðplast af ýmsu tagi. Hægt er að rekja uppruna sumra leifanna.
Vísindamenn settu sig í spor rannsóknarlögreglumanna
Rannsóknin sem niðurstöðurnar byggja á hófst árið 2019 þegar 6.093 plastleifum í norðanverðu Kyrrahafi, stærri en fimm sentímetrar, var safnað. Leifarnar voru síðar vigtaðar og flokkaðar í 120 mismunandi flokka og hver flokkur var svo rannsakaður í þeim tilgangi að komast að uppruna leifanna. Alls voru 573 kíló af harðplasti rannsökuð. Elstu leifarnar sem tókst að skilgreina var bauja frá 1966.
Fyrri rannsóknir sýna að tæplega helmingur plastleifa sem mynda stærsta flákann, um 46 prósent, má rekja til fiskveiðineta. Afgangurinn er harðplast en niðurstöður nýju rannsóknarinnar sýna að í heildina má rekja um 80 prósent plastleifanna til sjávarútvegs.
„Eins og rannsóknarlögreglumenn erum við að skoða hvert smáatriði til að leita vísbendinga sem geta hjálpað okkur að greina hvaðan plastið kemur, af hverju það endaði í sjónum og, mögulega, eitthvað sem getur hjálpað okkur að finna lausn hvernig koma megi í veg fyrir að það endurtaki sig,“ segir dr. Wouter Jan Strietman, einn höfunda rannsóknarinnar.
Japan, Kína, Suður-Kórea, Bandaríkin og Taívan
Rannsakendum kom töluvert á óvart að stærstan hluta plastleifanna má rekja til fimm stórra sjávarútvegsríkja en ekki minna þróaðra ríkja líkt og jafnan er gert ráð fyrir. 34 prósent plastleifanna má rekja til Japans, 32 prósent til Kína, 10 prósent til Kóreuskagans, sjö prósent til Bandaríkjanna og sex prósent til Taívans.
Ekkert þessara ríkja telst bera mesta ábyrgð á plastmengun í sjó sem kemur frá landi en eru skilgreind sem umfangsmestu sjávarútvegsríkin í norðuhluta Kyrrahafsins.
Ekki hægt að tengja plastmengun í sjó við fátækt
Eitt það markverðasta við niðurstöður rannsóknarinnar að mati Laurent Lebreton, sem fer fyrir hópi rannsakendanna, er að hingað til hefur verið litið á plastmengun í sjónum sem fylgifisk sjávarútvegs í vanþróaðri ríkjum.
„Oftar en ekki hefur plastmengun verið tengd við fátækt. En hér er það ekki tilfellið, plastið kemur frá ríkum hagkerfum og iðnvæddum sjávarútvegsríkjum sem sýnir að sjávarútvegurinn hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að plastmengun og það skiptir öllu máli að við viðurkennum og ræðum það,“ segir Lebreton.
Sarah-Jeanne Royer, sjávarlíffræðingur og einn af höfundum rannsóknarinnar, tekur í sama streng og segir að um hnattrænt vandamál sé að ræða. „Við getum ekki gert þetta ein. Við erum að gera rannsóknir, við erum að reyna að svara vísindalegum spurningum, en við vonum að samtök og stofnanir um allan heim nýti sér þessi gögn til að hugsa lengra um hvernig leysa megi þetta gríðarstóra vandamál.“