Landsnet vill Blöndulínu 3 í lofti „alla leiðina“
102,6 kílómetrar af háspennulínum. 342 stálmöstur, hvert og eitt 17-32 metrar á hæð. 85,5 kílómetrar af nýjum vegslóðum með tilheyrandi jarðraski. Ný Blöndulína milli Blöndustöðvar og Akureyrar mun stórbæta flutningskerfi raforku en er umdeild meðal landeigenda í þeim fimm sveitarfélögum sem hún færi um.
Í um tvo áratugi hefur verið stefnt að því að tengja Blöndustöð, fyrstu virkjunina sem alfarið var hönnuð af Íslendingum, með öflugri háspennulínu til Akureyrar og tengja þannig flutningskerfi raforku frá Suðvesturlandi og Norður- og Austurlandi betur. Blöndustöð var reist árið 1991 og í dag fer orkan sem þar er unnin með Rangárvallalínu 1, línu sem rekin er á 132 kV spennu og er hluti af svokallaðri byggðalínu, til Rangárvalla á Akureyri. Þessi lína er elsti hluti byggðalínunnar, var tekin í gagnið árið 1972 – fyrir hálfri öld síðan. Hún er veikbyggð og komin nálægt enda líftíma síns.
Veikasti hlekkurinn
Byggðalínan er sá hluti meginflutningskerfis Landsnets sem liggur frá Hvalfirði, vestur fyrir, um Norður- og Austurland, suður fyrir Vatnajökul og í Sigöldu. Og Rangárvallalína 1 er veikasti hlekkurinn á þeirri leið. Blöndulína 3, um 100 kílómetra löng 220 kV raflína, mun ef áætlanir Landsnets ganga eftir leysa Rangárvallalínu 1 af hólmi, auka flutningsgetu kerfisins, bæta orkunýtingu innan þess með tengingu milli virkjana og auka afhendingaröryggi víðsvegar um landið.
Í dag áætla orkuvinnslufyrirtæki á Norður- og Austurlandi að umframorkugeta, sem tapast árlega vegna flutningstakmarkana í kerfinu, sé á milli 300 og 400 GWst.
Það munar um minna.
En þrátt fyrir þessi mikilvægu markmið sem stefnt er að með Blöndulínu 3 er hún umdeild. Og hefur verið lengi. Nú er komið að endapunkti umhverfismats hennar, og það í annað sinn. Því í fyrra skiptið voru margir þættir gagnrýndir, m.a. af Skipulagsstofnun, sem gaf út álit sitt árið 2013, sem og fleiri aðilum. Af hverju átti ekki að leggja stærri hluta Blöndulínu 3 í jörð? Og af hverju voru ekki fleiri valkostir á línuleiðinni metnir með tilliti til umhverfisáhrifa?
Eigendur jarða sem línan átti að fara um voru enda margir hverjir ekki parhrifnir af áætlununum af ýmsum ástæðum og sögðu lítið sem ekkert samráð við þá haft. Sumir hafa kallað línuna „stóriðjulínu“, segja hana fyrst og fremst koma stóriðjufyrirtækjunum til góða og að tæknilega séð væri vel hægt að leggja stóran hluta hennar í jörð, öfugt við það sem Landsnet hélt og heldur enn fram.
Landsnet hóf að lokum allt umhverfismatsferlið á nýjan leik. Með að eigin sögn meira samráði við landeigendur, fjölda kynninga fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila, fleiri valkostum á línuleiðinni og síðast en ekki síst með greiningu á möguleikum á jarðstrengjum í stað loftlínu á þessum rúmlega hundrað kílómetrum sem eru frá Blöndustöð til Akureyrar.
Nú, tæpum áratug eftir að fyrra umhverfismati lauk, er komið að síðasta skrefi í því nýja. Landsnet telur að eins og nú var staðið að vinnunni hafi verið bætt úr þeim annmörkum sem voru á fyrra umhverfismati.
Í nýrri umhverfismatsskýrslu Landsnets, sem er auglýst til umsagna til 16. maí, kemur fram að aðalvalkostur fyrirtækisins sé að leggja Blöndulínu í loftlínu alla leiðina, um heiðar, fjöll og dali, mela, móa og ræktarlönd í fimm sveitarfélögum; Húnavatnshreppi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Akrahreppi, Hörgársveit og Akureyri.
Átján „raunhæfir valkostir“ voru metnir, segir Landsnet, kostir sem ýmist komu til vegna ábendinga í samráðsferli, við tæknilegar greiningar eða við aðrar rannsóknir.
Mikil umræða hefur verið um jarðstrengi undanfarin ár og hafa komið fram óskir um að nota þá í meira mæli við endurnýjun byggðalínunnar. Sú krafa hefur ekki hvað síst verið uppi á því svæði sem Blöndulína 3 mun liggja um, einkum í þeim köflum línunnar sem liggja um Skagafjörð og Hörgársveit enda spillir loftlína ásýnd staða og í tilviki Blöndulínu mun hún jafnvel blasa við fólki af bæjarhlaðinu og hafa neikvæð áhrif á upplifun íbúa og ferðamanna.
En það er takmörkunum háð hversu stór hluti kerfisins á ólíkum stöðum á landinu getur verið í jörðu og samkvæmt greiningu Landsnets getur lengd jarðstrengja í Blöndulínu mest verið á bilinu 4-7 kílómetrar sem er mun styttri kafli en talið er mögulegt við lagningu Suðurnesjalínu 2, svo dæmi sé tekið. Við val á því hvort aðalvalkostur væri loftlína alla leið eða loftlína með jarðstrengskafla horfði Landsnet svo til tveggja þátta: Heildar uppbyggingu flutningskerfisins til framtíðar og umhverfisáhrifa.
„Jafnvel útilokað“
Tekið var mið af raftæknilegum þáttum við lagningu jarðstrengja og metin þau áhrif sem geta orðið á milli lágspenntari (132kV og lægri) og háspenntari (220 kV) kerfa á svæðinu. Blöndulína 3 yrði hluti af háspenntara kerfi en samspil þess við lágspenntari kerfi hefur áhrif á svigrúm til jarðstrengslagna þar, segir í umhverfismatsskýrslu Landsnets. „Það gerir að verkum að nokkurra kílómetra stuttir 220 kV jarðstrengir í Blöndulínu 3 myndu takmarka verulega, jafnvel útiloka, að síðar væri hægt að leggja lengri (tugi kílómetra) lágspenntari jarðstrengi í nærliggjandi svæðisbundin kerfi.“
Jákvæð sjónræn áhrif fylgja jarðstrengslögnum umfram loftlínu, segir í skýrslunni en jarðrask er hins vegar töluvert meira en vegna loftlínu. „Samanburður leiðir í ljós að valkostir Blöndulínu 3 með jarðstrengjum hafa ívið meiri neikvæð umhverfisáhrif en hrein loftlína.“
Það var svo einmitt niðurstaðan: Aðalvalkostur Blöndulínu 3 er alfarið loftlína.
Framkvæmdin mun snerta íbúa í sveitarfélögunum fimm á mismunandi hátt. Eins og gefur að skilja verða þeir sem búa næst línunni fyrir neikvæðum áhrifum vegna rasks á framkvæmdatíma og breyttrar ásýndar í nærumhverfi. Jákvæð áhrif framkvæmdar, segir í skýrslu Landsnets, felast hins vegar í aukinni afhendingargetu og áreiðanleika flutningskerfisins. Þá geti aukið raforkuframboð stutt við byggðarþróun á svæðinu og skapað aukin atvinnu- og rekstrartækifæri.
Framkvæmdin mun einnig hafa áhrif á jarðmyndanir, fugla, flóru og vistgerðir enda mun línan, ef aðalvalkostur Landsnets verður fyrir valinu, t.d. liggja um votlendi, viðkvæm heiðarlönd og lítt raskað land, svæði sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og ekki skal raska nema að brýna nauðsyn beri til. Þá færi línan um svæði sem nýtt eru til ýmis konar útivistar og myndi sjást frá ýmsum þekktum gönguleiðum. Einnig myndi framkvæmdin skerða skógræktarlönd á einhverjum jörðum en skerðing beitilanda er hins vegar talin lítil að framkvæmdum loknum.
Blöndulína 3 mun liggja um tugi jarða í einkaeigu. Landeigendur er stór og fjölbreyttur hópur hagsmunaaðila en eigendur stærri og smærri jarða voru 316 talsins vorið 2020.
Í umhverfismatsskýrslu Landsnets kemur fram að til að lágmarka áhrif á landnýtingu jarðanna muni fyrirtækið ræða við landeigendur um nákvæmari legu mastra innan þeirra, staðsetningu vegslóða til samnýtingar og mögulegri nýtingu efnistökusvæða. Þá mun Landsnet að loknu umhverfismati hefja viðræður um greiðslu bóta fyrir framkvæmdahluta við landeigendur þeirra jarða sem aðalvalkostur fer um. Bótafjárhæðir eru meðal þess sem landeigendur hafa gagnrýnt.
Til að kanna hug landeigenda í mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 fékk Landsnet Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) til að vinna úttekt á áhrifum á samfélag. Hluti af þeirri úttekt fólst í viðtölum við tólf landeigendur.
Móðgandi smásummur
Flestir þeirra sem rætt var við voru andvígir að línan verði lögð yfir þeirra landareignir. Algengt var að breytt ásýnd og útsýni væri neikvæðast við línulögnina og nátengdur ótta við verðfall eigna í kjölfarið. Viðmælendum varð tíðrætt um að þær bætur sem Landsnet býður fyrir að fá að leggja línuna um þeirra land væru allt of lágar. Það eigi, líkt og einn landeigandi komst að orði, að „bæta almennilega fyrir skaðann, ekki að móðga með smásummum!“
Þessu tengt kom það sjónarmið fram að í raun væri rétt að Landsnet greiddi bætur fyrir allt land sem færi undir línu, þ.e. helgunarsvæði línunnar, en ekki bara fyrir þá staði þar sem línumöstrin koma til með að standa. Á sumum mátti skilja sem svo að lágar bætur væru stór hluti af andstöðu einhverra landeigenda við Blöndulínu 3.
Slóðagerð var yfirleitt talin neikvæð en þó var bent á dæmi um hið gagnstæða. Bent var t.d. á að með samráði við landeigendur um legu slóða gætu þeir nýst báðum aðilum til framtíðar. Þá var rætt um hátt raforkuverð í dreifbýli og að það væri ósanngjarnt að þeir sem leggja mikið land undir línur þurfi að greiða mun hærra verð fyrir dreifinguna.
Andinn í samfélaginu
Meðal mögulegra samfélagsáhrifa stórra framkvæmda eru deilur meðal íbúa sem geta haft skaðleg áhrif á samstöðu og samskipti, hreinlega klofið sveitir í herðar niður. Undirbúningur Blöndulínu 3 hefur staðið lengi og landeigendur sögðust í viðtölum við RHA vera orðnir þreyttir á umræðunni og andanum sem þetta hefði skapað í samfélaginu. Mátti skilja á sumum að þeir vildu „fá þetta út úr heiminum“.
Á vissan hátt má segja, segir í skýrslu RHA á samfélagsáhrifum, að mótmælaskilti gegn Blöndulínu 3 sem blasa við vegfarendum sem eiga leið um hringveginn, annars vegar við áningarstað Vegagerðarinnar á Arnarstapa og hins vegar við útskot gegnt Hrauni í Öxnadal, séu birtingarmynd átakanna um línuna. Segja má að almennt megi greina meiri andstöðu meðal viðmælenda sem búa eða eiga eignir nálægt mögulegum línustæðum eða hafa aðra hagsmuni af því að breyta ekki umhverfinu s.s. vegna ferðaþjónustu.
Nokkrir nefndu að þrátt fyrir að þeir væru ekki endilega sáttir við að fá línuna í „bakgarðinn hjá sér“ þá gerðu þeir sér grein fyrir mikilvægi raforkuöryggis og að nægt rafmagn þyrfti að vera til staðar. Á hinum endanum eru þeir sem eru ekki landeigendur og leggja áherslu á að fá byggðalínuna endurnýjaða þar sem þeir þurfa að reiða sig á örugga afhendingu og næga raforku.
Fulltrúar fyrirtækja sem RHA ræddi við í úttekt sinni nefndu að afhendingaröryggi þyrfti að vera betra og í flestum tilvikum var það nefnt sem hindrun fyrir þróun fyrirtækjanna að ekki sé hægt að fá meiri raforku. Þá væri tölvu- og tæknibúnaður orðinn það flókinn og viðkvæmur að hann þolir illa truflanir á spennu og tíðni en að slíkt sé fylgifiskur þeirrar veiku byggðalínu sem enn er notast við.
„Þarna er breytt bil á milli sjónarmiða og hagsmuna sem reynst hefur erfitt að brúa,“ segir í skýrslu RHA.
Samkvæmt kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 er ráðgert að framkvæmdir við Blöndulínu 3 hefjist á fyrri hluta árs 2023 og að þeim ljúki í lok árs 2024.
Umhverfismatsskýrslu Landsnets fyrir Blöndulínu 3 er hægt að nálgast á vef Skipulagsstofnunar. Allir geta veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar og skulu þær berast eigi síðar en 16. maí.
Að teknu tilliti til umsagna og athugasemda mun Landsnet skila loka skýrslu sinni og Skipulagsstofnun gefa álit sitt á henni.