Norðurál rekur meðal annars álverið á Grundnartanga.
Mynd: Birgir Þór

Móðurfélagi Norðuráls spáð miklum þrengingum og jafnvel gjaldþroti

Greiningarvefsíðan Seeking Alpha spáir því í nýrri greiningu að gjaldþrot sé mögulega framundan hjá Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls, í Bandaríkjunum. Hlutabréfaverð geti lækkað um meira en 50 prósent og í versta falli horfi það fram á gjaldþrot. Til að forða því sé því líklegt að eigið fé félagsins verði aukið á næstunni.

Í greiningunni eru færð rök fyrir því að Century hafi grætt á því fráviki sem varð á Midwest álaginu ofan á álverð. Midwest álagið (MWP) er álagið sem ákvarðar verð á allri sölu á áli í Bandaríkjunum. Álagið fór í hæstu hæðir í upphafi ársins 2014 og það jók tekjur Century Aluminum verulega árið 2014 og á fyrri helmingi þessa árs. Nú hefur þessi staða hins vegar gjörbreyst og álagið hríðlækkað. Lækkunin hefur hins vegar ekki enn komið almennilega fram í tölum fyrirtækisins og hlutabréfaverði þess, að mati greinarhöfundar hjá Seeking Alpha. Hlutabréfalækkun sem vissulega hefur orðið undanfarið hafi að megninu til stafað af almennum áhyggjum af efnahagsástandi og veikara álverði. Hins vegar hafi Midwest álagið veruleg áhrif hjá Century Aluminum.

Þessi gríðarlega hækkun á álaginu varð til þess að EBITDA hagnaður Century fór úr 11 milljónum Bandaríkjadala árið 2013 í 217 milljónir dala árið 2014. Næstum öll hækkunin var vegna hærra álags, þar sem álverð á álmarkaði London Metal Exchange (LME) hélst nánast það sama, en það fer nú lækkandi eins og kunnugt er. Breyting á álaginu um 22 dollara á tonn jafngildir fimmtán milljóna dala breytingum á EBIDTA hjá fyrirtækinu, svo að jafnvel þótt álagið haldist þar sem það er nú muni EBIDTA hagnaður Century Aluminum lækka um 200 milljónir Bandaríkjadala.

Greiningaraðilar spá því að minni eftirspurn á alþjóðavísu, og offramboð af áli, muni halda áfram að ýta verði á áli niður á við á næstu tveimur árum. Spár sem Seeking Alpha taka með í reikninginn gera ráð fyrir því að verðið lækki um tíu prósent á næsta ári til viðbótar við þá lækkun sem orðið hefur á þessu ári.

„Í bjartsýnni sviðsmynd þar sem LME verð haldast flöt á núverandi verðinu 1.550 dalir á tonn mun EBITDA félagsins lækka um 270 milljónir dala. Ef markaðurinn hefur rétt fyrir sér og verðin lækka um tíu prósent, lækkar EBITDA um 50 milljónir dala til viðbótar,“ segir í greiningunni á Seeking Alpha.

Mynd: Birgir Þór

Hlutabréfin hafa lækkað mikið og afkastagetan minnkuð

Eflaust eru skiptar skoðanir á þessari greiningu. Fyrirtækið mun birta uppgjör þriðja árshluta þann 29. október næstkomandi og þá verður væntanlega hægt að fá aðeins gleggri mynd af stöðunni.

En ef litið er á hlutabréfaverð Century Aluminum undanfarið ár sést að það hefur lækkað verulega eftir miklar hækkanir nánast allt árið 2014. Verð á hlut fór hæst í um 31 dollara í lok nóvember í fyrra en við lokun markaða í gær var það 4,86 dollarar á hlut.

Fyrirtækið hefur rekið fjögur álver í Bandaríkjunum, auk álversins á Grundartanga. Í ágúst síðastliðnum tilkynnti félagið að það hygðist stöðva framleiðslu í álverinu í Hawesville í Kentucky frá og með lokum október, vegna lágs álverðs og mikils útflutnings frá Kína, nema að mjög miklar breytingar yrðu á verðumhverfinu. Í lok september var hins vegar tilkynnt að ekki yrði lokað alveg heldur yrði framleiðslan í kringum 40 prósent af afkastagetu álversins. Þá sagði forstjórinn Michael Bless að það væri einfaldlega ekki hægt að keppa við útflutning Kínverja á álvörum, sem væri niðurgreiddur á ósanngjarnan hátt. Það væri þessu að kenna að álverð hefði lækkað og að þetta fyrirmyndarálver í Kentucky væri sett í hættu. Fleiri álframleiðendur hafa talað á svipuðum nótum og kvartað yfir aðferðum Kínverja.

Þessi ákvörðun um álverið í Hawesville kom í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti í júní að það myndi endanlega loka álveri sínu í Ravenswood í Vestur-Virginíu, en framleiðsla þar var stöðvuð árið 2009. Stjórnendur fyrirtækisins sagði aukinn útflutning Kínverja hafa mikið um það að segja, og einnig það að ekki hefði tekist að tryggja samkeppnishæfan orkusamning fyrir álverið.

Norðurál greiðir minnst fyrir orkuna en þarf að semja aftur

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut.Álverið á Grundartanga er sem fyrr segir eitt álveranna sem Century Aluminum á, en eignarhaldið er í gegnum Norðurál. Í álverinu hér á landi starfa um 600 manns og í fyrra voru tæplega 300 þúsund tonn af áli framleidd. Samkvæmt ársreikningi Norðuráls fyrir síðasta ár var hagnaður álversins hér á landi 10,7 milljarðar íslenskra króna, eða 82,7 milljónir Bandaríkjadala, þrefalt meira en árið 2013. Miklu munar um tekjur vegna gengishagnaðar, sem voru 2,7 milljarðar króna, en árið á undan var gengistap upp á 2,3 milljarða króna.

Samkvæmt greiningum á raforkuverði til álvera hér á landi, sem Ketill Sigurjónsson hefur gert, greiðir Norðurál lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar, en lágt verð til Norðuráls og Fjarðaáls dragi niður meðalverð á raforku til álvera hér á landi niður í rúmlega 26 Bandaríkjadali á megawattstund.

Norðurál kaupir líka orku af Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku, en samningur á milli HS Orku og Norðuráls hefur verið mikið í umræðunni vegna þess að HS Orka vill losna út úr honum. Samningurinn kveður á um orkusölu vegna álvers í Helguvík, sem ekki eru taldar neinar líkur á að rísi, en Norðurál vill ekki rifta þeim samningi. Ein kenning um ástæður þess er að fyrirtækið vilji nota orkuna í álverið á Grundartanga.

Samningar Norðuráls við Landsvirkjun eru nefnilega að renna út árið 2019, með möguleika á framlengingu, og fram hefur komið að þegar eru hafnar viðræður um framhaldið. Landsvirkjun hefur hins vegar gert allt öðruvísi samninga undanfarin ár en tíðkaðist þegar núverandi orkusölusamningur var gerður og því ljóst að verðið sem Norðuráli býðst verður hærra en það sem nú er.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórunn Elísabet Bogadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar