Nánast lögmál að hlutabréf hækki og að eftirspurn sé meiri en framboð
Öll félög sem hafa verið skráð á íslenskan hlutabréfamarkað eftir hrun hafa hækkað í verði utan við eitt. Þá var umframeftirspurn í hlutafjárútboðum þeirra allra. Virði sumra félaganna hefur margfaldast á nokkrum árum þótt þau hafi mörg hver greitt út arð til hlutahafa sinna og borgað hratt niður skuldir á sama tíma.
Það virðist því nánast ófrávíkjanleg regla að hlutabréf í skráðum félögum á Íslandi hækki eftir að viðskipti með þau hefjast á markaði og það er jafn ófrávíkjanleg regla að meiri eftirspurn er eftir hlutabréfum þeirra í frumútboðum en framboð.
Betri fjárfestar en aðrir
Sú aðferðarfræði sem bankarnir hafa beitt við að selja hluti í fyrirtækjum sem þeir hafa annað hvort komist yfir, eða verið falið af öðrum eigendum að selja, hefur verið töluvert í sviðsljósinu að undanförnu vegna skráningar Símans á markað. Í aðdraganda þeirrar skráningar fékk hópur sem Orri Hauksson, forstjóri Símans, fór fyrir að kaupa fimm prósent hlut í félaginu á genginu 2,5 krónur á hlut.
Þegar Kjarninn leitaði upplýsinga hjá Arion banka um hvað hefði valdið því að hópurinn hafi fengið að kaupa þennan hlut í aðdraganda útboðs sagði bankinn að í fjárfestahópnum séu aðilar sem alla jafna fjárfesti ekki á Íslandi sem hafi auk þess mikla reynslu úr fjarskiptaheiminum. „Sú þekking sem þeir koma með að rekstri Símans var einn af þeim þáttum sem bankinn leit til við ákvörðun um söluna. Félagið stendur sterkara eftir með bæði lykilstjórnendur og einstaklinga með alþjóðlega reynslu úr fjarskiptaheiminum í hlutahafahópnum“.
Stærstu eigendurnir íslenskir fjárfestar
Hluti þeirra sem keyptu eru hins vegar íslenskir fjárfestar sem taka virkan þátt í fjárfestingum á Íslandi. Þar ber helst að Þar ber helst að nefna viðskiptafélaganna Árna Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurbjörn Þorkelsson sem keyptu stærsta hlutinn. Tveir aðrir íslenskir fjárfestar, Stefán Ákason, fyrrum forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings, og Ómar Svavarsson, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi, voru líka hluti af fjárfestahópnum. Auk þess hefur verið gagnrýnt að hluti þeirra stjórnenda sem fengu kauprétt hafi verið ráðnir til Símans eftir að hann gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og gekk frá ýmsum erfiðum samkeppnismálum og hafi því lítið með stöðu félagsins í dag að gera. Því sé óþarfi að verðlauna þá með ódýrum kauprétti.
Þessi hópur má ekki selja hlut sinn fyrr en í janúar 2017 og getur því ekki innleyst neinn hagnað strax. Virði hlutarins hefur samt sem áður aukist mikið, eða um 46 prósent. Þá var innan við vika síðan að Síminn var skráður á markað. Virðisaukningin er upp á mörg hundruð milljónir króna.
Arion banki hefur staðið með þessari aðferðarfræði við sölu á hlut í Símanum og sagt hana rétta. Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, og sá einstaklingur sem hefur mest um það að segja hvernig bankinn stendur að því að losa um eignir, skrifaði nýverið grein í Morgunblaðið þar sem hann varði hana. Halldór Bjarkar sagði gagnrýnina vera „eftiráspeki“. „Það var mat Arion banka að það myndi styrkja hlutafjárútboðið og Símann til framtíðar að fá að félaginu hóp alþjóðlegra fjárfesta með reynslu af fjárfestingum og fjarskiptum í fjölda landa. Þessi hópur er því ekki einungis að koma með fjármagn í félagið heldur einnig dýrmæta þekkingu og reynslu á sviði fjarskipta sem mun vonandi nýtast félaginu og hluthöfum þess til framtíðar,“ sagði Halldór Bjarkar.
Þessi afstaða var endurtekin í yfirlýsingu bankans sem send var út á föstudag. Stjórnendur hans standa fyllilega við þá ákvörðun að selja fimm prósent hlut til stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra á 2,5 krónur á hlut.
Fimmföld umframeftirspurn eftir Símabréfum
Arion banki var ekki síður gagnrýndur fyrir að selja hópi vildarviðskipta sinna, sem eru í eignastýringu hjá bankanum, annan fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut, í lok september. Valið var í þann hóp eftir umsvifum. Því fengu efnuðustu viðskiptavinir einkabankaþjónustu og markaðsviðskipta Arion banka þennan afslátt, aðrir ekki. Þá voru einungis nokkrir dagar þangað til að opið útboð á hlutum í félaginu fór fram. Þessi hópur, sem hefur ekki verið nafngreindur, má selja sína hluti í janúar. Virði þeirra hefur þegar hækkað um 30 prósent, eða 447 milljónir króna.
Gagnrýnin sem Arion banki hefur fengið á sig fékk byr undir báða vængi þegar útboði Símans lauk fyrr í þessum mánuði. Í ljós kom að mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í Símanum. Alls nam söluandvirði þess 21 prósent hlutar sem seldur var um 6,7 milljörðum króna. Heildareftirspurn var hins vegar 33 milljarðar króna. Því var eftirspurnin fimm sinnum meiri en framboðið. Verðið er hærra en flestir greiningaraðilar töldu að það yrði, eða 3,33 krónur að meðaltali.
Síðan að viðskipti hófust með bréf Símans í síðustu viku hefur gengið hækkað og var 3,64 krónur á hlut í lok liðinnar viku. Auk þess hefur velta með bréf í Símanum verið mikil. Þ.e. það eru margir að selja og kaupa.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sagði við skráningu Símans að bankinn hlusti og meðtaki gagnrýni sem fram hafi komið. „Við beitum bara þessari aðferð núna. Við meðtökum og hlustum á alla gagnrýni, innbyrðum hana og metum svo með tilliti til þess hvernig við gerum hluti fram á veginn,“ sagði Höskuldur við RÚV.
Bankinn viðurkenndi síðan fyrir helgi að salan til vildarviðskiptavinanna hefði ekki verið í lagi. Óljóst er hvort hún hafi frekari afleiðingar. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar, hefur til að mynda sagt að málinu sé ekki lokið. Leiðrétta þurfi mistökin sem Arion banki gerði. Ríkið á 13 prósent hlut í bankanum.
Nánast öll bréf hafa hækkað
Allir sem að viðskiptunum komu, bæði þeir sem seldu og þeir sem keyptu, hafa bent á að það hafi alls ekkert legið fyrir að verðið væri lágt þegar viðskiptin voru ákveðin. Það væri ekki hægt að sjá fyrir að eftirspurn yrði mikil né að fjárfestar myndu verða tilbúnir að greiða hátt verð fyrir hlutinn.
Og auðvitað er það rétt. Það er ekki hægt að sjá fyrir framtíðina. En það voru þó allar líkur á því að mikil eftirspurn yrði eftir bréfunum. Í þeim tólf útboðum sem farið hafa fram vegna nýskráningar félaga á Aðalmarkað frá hruni hefur verið umframeftirspurn í öllum. Hún hefur stundum verið margföld - í tilfelli TM var hún t.d. áttatíuföld - og í flestum tilfellum hefur skráningargengið verið við hærri mörk útboðsins.
Í raun er það þannig að eina félagið sem hefur verið nýskráð á markað þar sem gengið í dag er lægra en það var við skráningu er tryggingafélagið Sjóvá. Þar munar reyndar mjög litlu.
Gengi bréfa í Eik, Reitum, HB Granda, N1, TM, VÍS, Fjarskiptum (móðurfélags Vodafone), Eimskipa, Regins og Haga er hærra nú en það var í hlutafjárútboðunum sem haldin voru í aðdraganda skráningar félaga á markað, eða í tilfelli HB Granda útboðs sem endurvakti viðskipti með bréf félagsins. Við þennan hóp má svo bæta Icelandair, en félagið fór í hlutafjáraukningu í nóvember 2010 þar sem hlutir voru seldir á 2,5 krónur á hlut. Gengi bréfa Icelandair er nú um 32,1 krónur á hlut.
Auk þess hafa þau þrjú félög, sem lifðu ásamt Icelandair hrunið af sem skráð félög, hækkað mikið. Gengi hlutabréfa í Össuri var 73 krónur á hlut í mars 2009. Það er nú um 455 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa í Marel voru um 44 krónur á hlut í mars 2009 en er nú um 218,5 krónur á hlut og hefur tæplega fimmfaldast. Bréf Nýherja hafa hækkað umtalsvert á undanförnum árum eftir að hafa gengið í gegnum nokkra erfiðleika eftir hrun. Frá því að gengi bréfa í félaginu náði eftirhrunsbotni sínum í október 2013, þegar það var 2,9 krónur á hlut, hefur það hækkað mikið og er nú 13,4 krónur á hlut. Það hefur því tæplega fimmfaldast á tveimur árum.
Mörg hlutafjárútboð gagnrýnd harkalega
Þótt nánast öll hlutabréf hafi hækkað í verði þá er það ekki svo skráning Símans sé eina nýskráningin sem hefur vakið upp tortryggni og veikt tiltrú á markaðnum. Þvert á móti hafa gagnrýnismálin verið fjölmörg. Þegar Hagar voru skráðir á markað undir lok árs 2011 var þegar búið að selja stóran hlut í félaginu á lægra verði en bauðst í útboðinu. Auk þess var ekki greint frá því að hagnaður Haga gæti hækkað um 25 prósent að loknu útboði vegna gengislánadóms.
Þegar Eimskip var sett á markað varð allt vitlaust vegna hárra kaupréttarsamninga sem átti að gera við helstu stjórnendur félagsins, og varð að lokum til þess að fallið var frá þeim. Þegar tryggingarfélögin TM og VÍS voru sett á markað settu fjölmargir leikendur á markaði inn tilboð sem þeir höfðu enga möguleika að standa við, til að tryggja sér sem minnsta skerðingu að útboði loknu. Þess vegna var umframeftirspurn eftir bréfum í TM áttatíuföld.
Í aðdraganda þess að Reitir voru settir á markað ákvað Arion banki að selja völdum fjárfestum hlut í félaginu á lgæra gengi nokkrum mánuðum áður en að útboð fór fram. Þegar fasteignafélögin Landfestar og Eik voru sameinuð, um ári áður en sameinað félag var sett á markað, seldi Arion banki hluti í Eik til fjárfesta á lægra gengi en var í hlutafjárútboði þess.
Allt ofantalið hefur veikt tiltrú á íslenska hlutabréfamarkaðinum og fjármálakerfinu í heild. Í ljósi þess að stærstu bitarnir úr endurskipulagningu íslensks atvinnulífs, stóru viðskiptabankarnir þrír, eru líkast til allir á leið á markað í náinni framtíð er ljóst að sporin hræða ansi marga.