Mynd: Birgir Þór Harðarson

Opinberir starfsmenn gáfu eftir lífeyrisréttindi fyrir hærri laun – Það loforð hefur enn ekki verið efnt

Opinberir starfsmenn samþykktu að hækka lífeyristökualdur, byggja sjóðssöfnun á föstum iðgjöldum og að ávinnsla réttinda yrði aldurstengd árið 2016. Á móti átti að hækka launin þeirra þannig að þau yrðu í takti við laun á almenna markaðnum áratug síðar. Nú, þegar tæp fimm ár eru liðin, er langt í land að það takmark náist.

Þann 19. sept­em­ber 2016,  rúmum mán­uði fyrir þing­kosn­ingar sem fram fóru í lok októ­ber sama ár, var und­ir­ritað sam­komu­lag. Til­gangur þess var að sam­ræma opin­bera og almenna líf­eyr­is­kerfið með þeim hætti að opin­berir starfs­menn myndu ekki njóta lengur betri líf­eyr­is­rétt­inda en þeir sem starfa á einka­mark­aði. Í stað­inn áttu þeir að fá betur borgað og meiri launa­hækk­anir næsta ára­tug­inn til að jafna stöðu opin­berra starfs­manna og ann­arra í launa­þró­un.  

Með því að sam­ræma líf­eyr­is­kerfin átti loks að vera hægt að nálg­ast kjara­samn­inga heild­rænt og vinna skipu­lega að því að koma í veg fyrir að höfr­unga­hlaup launa­hækk­ana myndi grafa undan því mark­miði að bæta kjör íslenskra launa­manna. 

Í sam­komu­lag­inu var sömu­leiðis fjallað um að launa­kjör opin­berra starfs­manna yrðu jöfnuð við þau sem tíðkast á almennum mark­aði. Sam­kvæmt sam­komu­lag­inu átti launa­jöfn­unin að nást innan ára­tugar en iðgjöld áttu að hækka á móti í almenna kerf­inu í 15,5 pró­sent.

Auglýsing

Á móti áttu opin­berir starfs­menn að sam­þykkja stór­tækar breyt­ingar á líf­eyr­is­rétt­inda­vinnslu sinni. Stærstu breyt­ing­arnar voru þær að líf­eyr­i­s­töku­aldur var hækk­aður úr 65 í 67 ár, sjóðs­söfnun myndi byggja á föstum iðgjöldum og ávinnsla rétt­inda yrði ald­urstengd. 

Sam­hliða yrði ábyrgð launa­greið­enda, ríkis og sveit­­ar­­fé­laga, á sjóð­unum afnum­in.

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans, sem send var til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins í sept­em­ber 2016, kom fram að laun opin­berra starfs­manna væru um það bil 16 pró­sent lægri en starfs­manna á almennum vinnu­mark­aði á þeim tíma.  Það var því launa­mun­ur­inn sem þurfti að vinna upp næsta ára­tug­inn umfram almennar launa­hækk­an­ir. 

Svarið byggði á sam­an­burði Hag­stofu Íslands á launa­mun opin­berra starfs­manna og þeirra sem starfa á almennum vinnu­mark­aði. Sá fyr­ir­vari var þó gerður á því að launa­sam­an­burð­ur­inn væri erf­iður og aðilar sam­komu­lags­ins töldi sig ekki geta byggt frek­ari vinnu um launa­sam­an­burð á grunni nið­ur­stöðu Hag­stof­unn­ar. Því varð ofan á að byggja þyrfti vinn­una á „betri for­sendum og ræð­ast frekar á milli aðila.“

SALEK er dáið

Þetta var allt gert á grunni nýs samn­ings­lík­ans, sem svo­kall­aður SALEK-hópur gerði og hluti vinnu­mark­að­ar­ins skrif­aði undir haustið 2015, og gerði ráð fyrir grund­vall­ar­breyt­ingum á íslenskum vinnu­mark­aði, þ.e. að að tryggja op­in­berum starfs­­mönnum aukna hlut­­deild í launa­skriði á almenna vinn­u­­mark­aðn­­um og að jafna líf­eyr­is­rétt­ind­i. 

Frá undirritun samkomulagsins í september 2016.
Mynd: Aðsend

SALEK stendur fyrir „sam­starf um launa­upp­lýs­ingar og efna­hags­for­sendur kjara­samn­ing­ar“ og mark­miðið með sam­starf­inu, sem stór hluti vinnu­mark­að­ar­ins sam­þykkti að taka þátt í upp­haf­lega, var að auka kaup­mátt á grund­velli lágrar verð­bólgu, lágra vaxta og stöðugs geng­is. Auk þess átti sam­komu­lagið að stuðla að friði á vinnu­mark­aði og auknum stöð­ug­leika. 

SALEK-­samn­ings­líkanið lifði ekki lengi eftir að nýtt fólk var kjörið í for­ystu stærstu stétt­ar­fé­laga lands­ins, VR og Efl­ingu. Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR, sagði strax árið 2018 að útför SALEK hefði þegar farið fram. Þeirra sýn var sú að ekki væri hægt að fara í nor­rænt vinnu­mark­aðs­módel þegar rætt yrði um launa­hækk­anir á meðan að önnur kjör á Íslandi, til dæmis vaxta­kjör og hús­næð­is­mál, væru verri hér en á hinum Norð­ur­lönd­un­um. 

Í síð­ustu stóru kjara­samn­inga­lotu var því farið af stað með ýmsar kröfur sem rím­uðu ekki við mark­mið eða reglur SALEK. 

Langt í land

Þrátt fyrir að SALEK sé ekki lengur til staðar þá stendur eftir að opin­berir starfs­menn sam­þykktu að gefa eftir hærri líf­eyri gegn því að laun þeirra yrðu jöfnuð við það sem tíðkast á almenna mark­aðnum fyrir lok árs 2026. 

Það tíma­bil er nú næstum hálfn­að. 

Auglýsing

Kjarn­inn óskaði nýverið eftir upp­lýs­ingum frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu um hver launa­mun­ur­inn milli opin­berra starfs­manna og þeirra sem starfa á almenna mark­aðnum væri í dag. Þeirri fyr­ir­spurn var ekki svarað með beinum hætt­i. 

Í svari ráðu­neyt­is­ins sagði að það hefði tekið þátt í starfi Kjara­töl­fræði­nefndar og að í nýlegri skýrslu henn­ar, sem kom út 30. apr­íl, væri að finna upp­lýs­ingar um laun og vinnu­mark­að. 

Í skýrslu Kjara­töl­fræði­nefndar er vinnu­mark­aðnum skipt í fjóra hluta: almenna mark­að­inn, rík­is­starfs­menn, Reykja­vík­ur­borg og starfs­menn ann­arra sveit­ar­fé­laga. „Í skýrslu KTN er varpað ljósi á launa­stig og launa­þróun og útskýrt að launa­sam­an­burður er vanda­sam­ur, sam­setn­ing hópa er mis­mun­andi jafn­vel innan sömu sam­taka og vanda­samt er að finna sam­bæri­lega hópa, einnig er mis­mun­andi útkoma eftir því hvort við­mið er grunn­laun, reglu­leg laun eða heild­ar­laun og með­al­tal launa er sem dæmi ekki alltaf lýsandi fyrir launa­stig,“ segir í svari ráðu­neyt­is­ins.

Mik­ill munur

Þar er þó sér­stak­lega bent á eina mynd úr síð­ustu skýrslu Kjara­töl­fræði­nefndar sem sýnir reglu­leg laun fyrir fullt starf í jan­úar 2021. Á mynd­inni má sjá hver laun hvers hluta vinnu­mark­að­ar­ins er hjá fjórum mis­mun­andi félögum eða sam­bönd­um. Innan Alþýðu­sam­bands Íslands (ASÍ) eru full­vinn­andi starfs­menn á almenna mark­aðnum með 623 þús­und krónur að með­al­tali á mán­uði. Það er 16,4 pró­sent meira en rík­is­starfs­menn innan ASÍ og 32 pró­sent meira en starfs­menn ann­arra sveit­ar­fé­laga og 38,1 pró­sent meira en starfs­menn höf­uð­borg­ar­innar voru með í byrjun árs 2021.

Auglýsing

Innan BHM voru reglu­leg laun á almenna mark­aðnum 896 þús­und krónur sem er 14,6 pró­sent meira en starfs­menn allra sveit­ar­fé­laga. Mun­ur­inn á milli almenna mark­að­ar­ins og rík­is­starfs­manna hjá BHM var 23,6 pró­sent.

Hjá BSRB var sama saga að mestu og hjá ofan­greind­um. Almenni starfs­mað­ur­inn var með 680 þús­und krónur að með­al­tali í reglu­leg laun sem var 15,6 pró­sent meira en starfs­menn ann­arra sveit­ar­fé­laga en Reykja­vík­ur, 17,6 pró­sent meira en rík­is­starfs­menn og 29,2 pró­sent hærri laun en starfs­menn höf­uð­borg­ar­innar sem til­heyra BSRB eru með. 

Þetta er staðan þrátt fyrir að starfs­menn ríkis og sveit­ar­fé­laga hafi hækkað hlut­falls­lega mun meira í launum frá því að lífs­kjara­samn­ing­arnir svoköll­uðu voru gerðir í vorið 2019. Innan ASÍ hafa laun starfs­manna Reykja­víkur hækkað mest, eða um 28,6 pró­sent frá þeim tíma og fram til jan­úar 2021. Laun starfs­manna ann­arra sveit­ar­fé­laga innan ASÍ hækk­uðu um 25,2 pró­sent og laun rík­is­starfs­manna um 19 pró­sent. Á sama tíma hækk­uðu laun á almenna mark­aðnum um 15,5 pró­sent. Ástæður þessa eru þær að samið var um krónu­tölu­hækk­anir í lífs­kjara­samn­ing­unum sem eðli­lega hækka lág laun um mun hærri hlut­falls­tölu en há laun. 

Bilið minnkar hægt

Ef horft er til dæmis á þá sem til­heyra félögum sem mynda ASÍ þá hafa laun starfs­manna Reykja­vík­ur­borgar sem til­heyra því mengi hækkað hlut­falls­lega mest allra, eða 28,6 pró­sent. Með­al­tal reglu­legra launa þeirra hefur farið úr 351 þús­und krónum í 451 þús­und krónur og hækkað um 100 þús­und krónur á mán­uði frá mars­mán­uði 2019. 

Hér getur þú stutt við frjálsa og öfluga fjölmiðlun:

Vertu með
Styrktu sjálfstæðan íslenskan fjölmiðil með mánaðarlegu framlagi.

Sá hópur innan ASÍ sem er með hæstu reglu­legu launin að með­al­tali eru þeir sem vinna á almenna mark­aðn­um. Með­al­laun þess hóps er 623 þús­und krónur á mán­uði og hafa hækkað um 15,5 pró­sent frá mars­mán­uði 2019, sem er mun minni pró­sentu­hækkun sem starfs­menn Reykja­vík­ur­borgar hafa feng­ið. Þeir hafa samt sem áður fengið 84 þús­und krónur á mán­uði í launa­hækkun á tíma­bil­in­u. 

Því hefur launa­bilið milli almenna hóps­ins innan ASÍ, sem er með 172 þús­und krónum meira að með­al­tali á mán­uði en starfs­menn Reykja­vík­ur­borgar innan sama hóps, og síð­ar­nefnda hóps­ins minnkað um 16 þús­und krónur á mán­uði frá mars­mán­uði 2019. 

Ofan­greindar tölur sýna að það að í dag, þegar næstum fimm ár eru liðin frá því að sam­komu­lag var und­ir­ritað um að sam­ræma opin­bera og almenna líf­eyr­is­kerfið með þeim hætti að opin­berir starfs­menn myndu ekki njóta lengur betri líf­eyr­is­rétt­inda en þeir sem starfa á einka­mark­aði, þá skortir enn tölu­vert upp á það að búið sé að efna hluta sam­komu­lags­ins. 

Þ.e. þann anga sem snýr að því að hækka átti laun opin­berra starfs­manna þannig að þau yrð­u i takti við laun á almenna mark­aðnum fyrir árs­lok 2026.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar