Mynd: Birgir Þór Harðarson

Opinberir starfsmenn gáfu eftir lífeyrisréttindi fyrir hærri laun – Það loforð hefur enn ekki verið efnt

Opinberir starfsmenn samþykktu að hækka lífeyristökualdur, byggja sjóðssöfnun á föstum iðgjöldum og að ávinnsla réttinda yrði aldurstengd árið 2016. Á móti átti að hækka launin þeirra þannig að þau yrðu í takti við laun á almenna markaðnum áratug síðar. Nú, þegar tæp fimm ár eru liðin, er langt í land að það takmark náist.

Þann 19. september 2016,  rúmum mánuði fyrir þingkosningar sem fram fóru í lok október sama ár, var undirritað samkomulag. Tilgangur þess var að samræma opinbera og almenna lífeyriskerfið með þeim hætti að opinberir starfsmenn myndu ekki njóta lengur betri lífeyrisréttinda en þeir sem starfa á einkamarkaði. Í staðinn áttu þeir að fá betur borgað og meiri launahækkanir næsta áratuginn til að jafna stöðu opinberra starfsmanna og annarra í launaþróun.  

Með því að samræma lífeyriskerfin átti loks að vera hægt að nálgast kjarasamninga heildrænt og vinna skipulega að því að koma í veg fyrir að höfrungahlaup launahækkana myndi grafa undan því markmiði að bæta kjör íslenskra launamanna. 

Í samkomulaginu var sömuleiðis fjallað um að launakjör opinberra starfsmanna yrðu jöfnuð við þau sem tíðkast á almennum markaði. Samkvæmt samkomulaginu átti launajöfnunin að nást innan áratugar en iðgjöld áttu að hækka á móti í almenna kerfinu í 15,5 prósent.

Auglýsing

Á móti áttu opinberir starfsmenn að samþykkja stórtækar breytingar á lífeyrisréttindavinnslu sinni. Stærstu breytingarnar voru þær að lífeyristökualdur var hækkaður úr 65 í 67 ár, sjóðssöfnun myndi byggja á föstum iðgjöldum og ávinnsla réttinda yrði aldurstengd. 

Sam­hliða yrði ábyrgð launa­greið­enda, ríkis og sveit­ar­fé­laga, á sjóð­unum afnumin.

Í svari við fyrirspurn Kjarnans, sem send var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september 2016, kom fram að laun opinberra starfsmanna væru um það bil 16 prósent lægri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði á þeim tíma.  Það var því launamunurinn sem þurfti að vinna upp næsta áratuginn umfram almennar launahækkanir. 

Svarið byggði á samanburði Hagstofu Íslands á launamun opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Sá fyrirvari var þó gerður á því að launasamanburðurinn væri erfiður og aðilar samkomulagsins töldi sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á grunni niðurstöðu Hagstofunnar. Því varð ofan á að byggja þyrfti vinnuna á „betri forsendum og ræðast frekar á milli aðila.“

SALEK er dáið

Þetta var allt gert á grunni nýs samningslíkans, sem svokallaður SALEK-hópur gerði og hluti vinnumarkaðarins skrifaði undir haustið 2015, og gerði ráð fyrir grundvallarbreytingum á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að að tryggja op­in­berum starfs­mönnum aukna hlut­deild í launa­skriði á almenna vinnu­mark­aðn­um og að jafna lífeyrisréttindi. 

Frá undirritun samkomulagsins í september 2016.
Mynd: Aðsend

SALEK stendur fyrir „samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamningar“ og markmiðið með samstarfinu, sem stór hluti vinnumarkaðarins samþykkti að taka þátt í upphaflega, var að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Auk þess átti samkomulagið að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika. 

SALEK-samningslíkanið lifði ekki lengi eftir að nýtt fólk var kjörið í forystu stærstu stéttarfélaga landsins, VR og Eflingu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði strax árið 2018 að útför SALEK hefði þegar farið fram. Þeirra sýn var sú að ekki væri hægt að fara í norrænt vinnumarkaðsmódel þegar rætt yrði um launahækkanir á meðan að önnur kjör á Íslandi, til dæmis vaxtakjör og húsnæðismál, væru verri hér en á hinum Norðurlöndunum. 

Í síðustu stóru kjarasamningalotu var því farið af stað með ýmsar kröfur sem rímuðu ekki við markmið eða reglur SALEK. 

Langt í land

Þrátt fyrir að SALEK sé ekki lengur til staðar þá stendur eftir að opinberir starfsmenn samþykktu að gefa eftir hærri lífeyri gegn því að laun þeirra yrðu jöfnuð við það sem tíðkast á almenna markaðnum fyrir lok árs 2026. 

Það tímabil er nú næstum hálfnað. 

Auglýsing

Kjarninn óskaði nýverið eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hver launamunurinn milli opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almenna markaðnum væri í dag. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað með beinum hætti. 

Í svari ráðuneytisins sagði að það hefði tekið þátt í starfi Kjaratölfræðinefndar og að í nýlegri skýrslu hennar, sem kom út 30. apríl, væri að finna upplýsingar um laun og vinnumarkað. 

Í skýrslu Kjaratölfræðinefndar er vinnumarkaðnum skipt í fjóra hluta: almenna markaðinn, ríkisstarfsmenn, Reykjavíkurborg og starfsmenn annarra sveitarfélaga. „Í skýrslu KTN er varpað ljósi á launastig og launaþróun og útskýrt að launasamanburður er vandasamur, samsetning hópa er mismunandi jafnvel innan sömu samtaka og vandasamt er að finna sambærilega hópa, einnig er mismunandi útkoma eftir því hvort viðmið er grunnlaun, regluleg laun eða heildarlaun og meðaltal launa er sem dæmi ekki alltaf lýsandi fyrir launastig,“ segir í svari ráðuneytisins.

Mikill munur

Þar er þó sérstaklega bent á eina mynd úr síðustu skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem sýnir regluleg laun fyrir fullt starf í janúar 2021. Á myndinni má sjá hver laun hvers hluta vinnumarkaðarins er hjá fjórum mismunandi félögum eða samböndum. Innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) eru fullvinnandi starfsmenn á almenna markaðnum með 623 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Það er 16,4 prósent meira en ríkisstarfsmenn innan ASÍ og 32 prósent meira en starfsmenn annarra sveitarfélaga og 38,1 prósent meira en starfsmenn höfuðborgarinnar voru með í byrjun árs 2021.

Auglýsing

Innan BHM voru regluleg laun á almenna markaðnum 896 þúsund krónur sem er 14,6 prósent meira en starfsmenn allra sveitarfélaga. Munurinn á milli almenna markaðarins og ríkisstarfsmanna hjá BHM var 23,6 prósent.

Hjá BSRB var sama saga að mestu og hjá ofangreindum. Almenni starfsmaðurinn var með 680 þúsund krónur að meðaltali í regluleg laun sem var 15,6 prósent meira en starfsmenn annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur, 17,6 prósent meira en ríkisstarfsmenn og 29,2 prósent hærri laun en starfsmenn höfuðborgarinnar sem tilheyra BSRB eru með. 

Þetta er staðan þrátt fyrir að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga hafi hækkað hlutfallslega mun meira í launum frá því að lífskjarasamningarnir svokölluðu voru gerðir í vorið 2019. Innan ASÍ hafa laun starfsmanna Reykjavíkur hækkað mest, eða um 28,6 prósent frá þeim tíma og fram til janúar 2021. Laun starfsmanna annarra sveitarfélaga innan ASÍ hækkuðu um 25,2 prósent og laun ríkisstarfsmanna um 19 prósent. Á sama tíma hækkuðu laun á almenna markaðnum um 15,5 prósent. Ástæður þessa eru þær að samið var um krónutöluhækkanir í lífskjarasamningunum sem eðlilega hækka lág laun um mun hærri hlutfallstölu en há laun. 

Bilið minnkar hægt

Ef horft er til dæmis á þá sem tilheyra félögum sem mynda ASÍ þá hafa laun starfsmanna Reykjavíkurborgar sem tilheyra því mengi hækkað hlutfallslega mest allra, eða 28,6 prósent. Meðaltal reglulegra launa þeirra hefur farið úr 351 þúsund krónum í 451 þúsund krónur og hækkað um 100 þúsund krónur á mánuði frá marsmánuði 2019. 

Hér getur þú stutt við frjálsa og öfluga fjölmiðlun:

Vertu með
Styrktu sjálfstæðan íslenskan fjölmiðil með mánaðarlegu framlagi.

Sá hópur innan ASÍ sem er með hæstu reglulegu launin að meðaltali eru þeir sem vinna á almenna markaðnum. Meðallaun þess hóps er 623 þúsund krónur á mánuði og hafa hækkað um 15,5 prósent frá marsmánuði 2019, sem er mun minni prósentuhækkun sem starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa fengið. Þeir hafa samt sem áður fengið 84 þúsund krónur á mánuði í launahækkun á tímabilinu. 

Því hefur launabilið milli almenna hópsins innan ASÍ, sem er með 172 þúsund krónum meira að meðaltali á mánuði en starfsmenn Reykjavíkurborgar innan sama hóps, og síðarnefnda hópsins minnkað um 16 þúsund krónur á mánuði frá marsmánuði 2019. 

Ofangreindar tölur sýna að það að í dag, þegar næstum fimm ár eru liðin frá því að samkomulag var undirritað um að samræma opinbera og almenna lífeyriskerfið með þeim hætti að opinberir starfsmenn myndu ekki njóta lengur betri lífeyrisréttinda en þeir sem starfa á einkamarkaði, þá skortir enn töluvert upp á það að búið sé að efna hluta samkomulagsins. 

Þ.e. þann anga sem snýr að því að hækka átti laun opinberra starfsmanna þannig að þau yrðu i takti við laun á almenna markaðnum fyrir árslok 2026.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar