Mynd: Bára Huld Beck Katrín Jakobsdóttir
Mynd: Bára Huld Beck

Katrín með öll tromp á hendi ... enn sem komið er

Tvö ríkisstjórnarmynstur virðast líkleg eins og er, miðað við stöðu mála í könnunum. Sitjandi ríkisstjórn nýtur nánast sama fylgis og útgáfa af svokölluðu Reykjavíkurmódeli. Ákvörðunarvaldið um hvað yrði myndi að óbreyttu liggja hjá langvinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar, Katrínu Jakobsdóttur. Enn er þó langt í kosningar og margt getur breyst.

Nýjasta könnun Gallup sýnir að sitj­andi rík­is­stjórn myndi rétt halda velli ef kosið yrði í dag. Allir stjórn­ar­flokk­arnir þrír: Vinstri græn, Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur myndu tapa smá­vægi­legu fylgi og sam­an­lagt fylgi þeirra er undir 50 pró­sent, eða alls 48,6 pró­sent. Slík nið­ur­staða myndi samt sem áður skila þeim 34 þing­mönnum og áfram­hald­andi meiri­hluta. 

Könn­unin sýnir líka að Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­maður Vinstri grænna, for­sæt­is­ráð­herra og sá stjórn­mála­maður sem lang­flestir Íslend­ingar vilja að leiði næstu rík­is­stjórn, á val­kosti í stöð­unni. Skýr mögu­leiki er að mynda fjög­urra flokka rík­is­stjórn frá miðju til vinstri. Í slíkri rík­is­stjórn gætu ver­ið, auk Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokkur og Sam­fylk­ing og annað hvort Við­reisn eða Pírat­ar. Sam­an­lagður þing­manna­fjöldi henn­ar, miðað við könnun Gallup, yrði 33 og sam­an­lagt fylgi á bak­við hana yrði það sama og yrði á bak­við óbreytta rík­is­stjórn. Hið svo­kall­aða Reykja­vík­ur­mód­el, með skírskotun í það meiri­hluta­sam­starf sem er við lýði í Reykja­vík­ur­borg, er því sann­ar­lega í kort­un­um. 

Auglýsing

Auk þess væri hægt að skipta út annað hvort Fram­sókn­ar­flokki eða Sam­fylk­ingu en þá færi þing­manna­fjöld­inn niður í 32, sem er minnsti mögu­legi meiri­hluti.

Fræði­legur mögu­leiki er einnig á því að mynda rík­is­stjórn Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Við­reisn­ar, en lík­urnar á því að Vinstri græn velji að fara í stjórn með þeim tveimur flokkum sem þau telja að séu mest til hægri í íslenskum stjórn­málum verða að telj­ast hverf­and­i. 

Enn eru þó tæpir fjórir mán­uðir í kosn­ing­ar, kosn­inga­bar­áttan er ekki hafin sem neinu nemur og ansi margt getur breyst þangað til að talið verður upp úr kjör­köss­unum 25. sept­em­ber næst­kom­andi.

Sós­í­alist­arnir eiga ýmis­legt inni

Línur eru þó farnar að skýr­ast á listum flestra stjórn­mála­flokka fyrir kom­andi kosn­ing­ar. Mann­valið sem er í boði liggur að mestu fyr­ir, þótt Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins eigi eftir að raða end­an­lega lista.

Þeir sem eiga eftir að sýna end­an­lega á mönn­un­ar­spil­in, af þeim flokkum sem mæl­ast með raun­hæfan mögu­leika á að ná inn á þing, eru Sós­í­alista­flokk­ur­inn og Mið­flokk­ur­inn. Nær ekk­ert hefur spurst út um hverjir muni leiða lista Sós­í­alista­flokks­ins og Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­stjórnar flokks­ins, hefur sagt að ekk­ert liggi á að birta list­anna, enda langt í kosn­ing­ar. Á móti hefur Sós­í­alista­flokk­ur­inn verið að birta ýmis kosn­inga­til­boð. Eitt þeirra snýst um að byggja 30 þús­und íbúðir á tíu árum fyrir um 650 millj­arða króna. Annað um að leggja þrepa­skiptan auð­legð­ar­skatt á rík­ustu eitt pró­sent lands­menn en lækka skatta skarpt á miðl­ungs­tekjur og þar und­ir. Sós­í­alista­flokk­ur­inn hefur verið að mæl­ast reglu­lega inni á þingi í könn­unum og gerir það áfram í nýj­ustu könnun Gallup, þar sem hann mælist með 5,4 pró­sent fylgi og þrjá þing­menn. 

Mið­flokk­ur­inn fékk sjö þing­menn í kosn­ing­unum 2017 og vann kosn­inga­sig­ur. Eng­inn flokkur hefur fengið jafn mörg atkvæði í fyrstu kosn­ingum sín­um. Tveir þing­menn bætt­ust svo við eftir Klaust­ur­mál­ið, þegar Ólafur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son gengu til liðs við flokk­inn, og þing­menn­irnir þar með orðnir níu. 

Auglýsing

Hjá Mið­flokknum virð­is­t vera meira fram­boð en eft­ir­spurn. Þ.e. kann­anir hafa um nokk­urt skeið mælt flokk­inn tölu­vert undir kjör­fylgi en þing­menn hans, að Gunn­ari Braga Sveins­syni und­an­skild­um, vilja halda áfram þing­setu. Sam­kvæmt nýj­ustu könnun Gallup myndu 7,2 pró­sent kjós­enda setja X við Mið­flokk­inn ef kosið yrði nú sem myndi skila honum fimm þing­mönn­um. 

Flokkur fólks­ins er sá flokkur sem lík­leg­astur er til að víkja af þingi fyrir Sós­í­alista­flokknum þannig að fjöldi flokka verði áfram átta, eins og hann hefur verið á þessu kjör­tíma­bili. Hann hefur ein­ungis einu sinni mælst með fimm pró­sent fylgi frá lokum árs 2018 og mælist nú með 4,3 pró­sent. Vert er þó að hafa hug­fast að Flokkur fólks­ins mæld­ist með fjögur pró­sent fylgi í síð­ustu könnun Gallup fyrir kosn­ing­arnar 2017, en frammi­staða Ingu Sæland, for­manns flokks­ins,  í kapp­ræðum í sjón­varps­sal þann sama dag skil­aði flokknum nægj­an­legri aukn­ingu til að ná inn. 

Við­reisn má vel við una

Eini stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ur­inn sem mælist með umtals­vert meira fylgi nú en hann fékk fyrir fjórum árum er Við­reisn. Fylgi flokks­ins mælist 10,9 pró­sent sem myndi skila Við­reisn sinni bestu nið­ur­stöðu í kosn­ingum frá því að flokk­ur­inn var stofn­aður og sjö þing­mönn­um, en þeir eru fjórir í dag. 

Við­reisn er búin að kynna odd­vita í öllum kjör­dæmum og lista sína í öllum nema Norð­vest­ur­kjör­dæmi. Í nýj­ustu könnun Gallup mælist fjöl­miðla­mað­ur­inn Sig­mar Guð­munds­son, sem óvænt til­kynnti að hann yrði í öðru sæti á Lista Við­reisnar í Krag­anum í haust, inni sem kjör­dæma­kjör­inn þing­maður og flokk­ur­inn mælist auk þess með kjör­dæma­kjör­inn þing­mann í Suð­ur­kjör­dæmi, þar sem Guð­brandur Ein­ars­son leiðir lista hans. 

Sam­fylk­ingin virð­ist vera búin að finna botn­inn sinn í fylgi – í kringum tólf pró­sent kjör­fylgi – eftir að hafa fallið skarpt í könn­unum á þessu ári eftir að hafa kynnt fram­boðs­lista sína fyrir kom­andi kosn­ing­ar. Fylgið virð­ist aðal­lega rata yfir á Vinstri græn sem hafa á sama tíma styrkt sig.

Erf­ið­lega virð­ist ganga fyrir Sam­fylk­ing­una að koma áherslum sínum með nægj­an­legum þunga inn í umræð­una og sömu sögu er að segja með suma af nýju fram­bjóð­endum hans sem raðað var í for­ystu fyrir næstu kosn­ing­ar. 

Kristrún Frostadóttir leiðir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi suður og Oddný Harðardóttir er oddviti flokksins í Suðurkjördæmi.
Mynd: Samfylkingin

Í kosn­ing­unum 2017 fékk Sam­fylk­ingin nán­ast jafn mörg atkvæði í sitt hvoru Reykja­vík­ur­kjör­dæm­inu og var yfir kjör­fylgi í þeim báð­um. Í könnun Gallup mælist staða flokks­ins mun sterk­ari í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi Norð­ur, þar sem Helga Vala Helga­dóttir leiðir list­ann og fylgið er 15 pró­sent, en í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi Suður þar sem Kristrún Frosta­dóttir leiðir og fylgið mælist ell­efu pró­sent. 

Píratar geta vel við unað ef staða þeirra í könn­unum verður nið­ur­staða kosn­inga. Flokk­ur­inn myndi bæta við sig smá­vægi­legu fylgi og einum þing­manni. Píratar eru þó en aðeins frá því að ná þeim hæðum sem flokk­ur­inn var í árið 2016 þegar 14,5 pró­sent lands­manna kusu hann og þing­menn­irnir urðu tíu tals­ins. 

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ekki mælst yfir kjör­fylgi síðan 2018

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn siglir nokkuð lygnan sjó og hefur gert það í könn­unum Gallup allt kjör­tíma­bil­ið. Engar stórar dýfur – fylgi flokks­ins hefur farið lægst niður í 21,6 pró­sent – en fylgið hefur ekki mælst yfir kjör­fylgi síðan í októ­ber 2018. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk 25,2 pró­sent atkvæða haustið 2017 en mælist nú með 23,5 pró­sent. Það myndi þó skila flokknum sama þing­manna­fjölda en, í ljósi þess að tveir flokkar (Sam­fylk­ing og Pírat­ar) hafa úti­lokað sam­starf við hann þá eru ekki margar aðrar sýni­legar leiðir sem stendur í áfram­hald­andi rík­is­stjórn­ar­setu en núver­andi rík­is­stjórn­ar­sam­starf, haldi það. Í könnun sem Mask­ína gerði nýverið fyrir frétta­stofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgj­unnar kom auk þess fram að þeim fækkar sem vilja að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks, leiði næstu rík­is­stjórn. Ein­ungis 12,2 pró­sent eru á þeirri skoð­un, sem er langt um minni hópur en seg­ist ætla að kjósa flokk­inn. 

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir að flokkurinn sé stærsti flokkur landsins samkvæmt könnunum þá vilja einungis 12,2 prósent hann sem forsætisráðherra.
Mynd: Bára Huld Beck

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er búinn að kynna sína helstu lista og nokkuð aug­ljóst hvernig þorri þess hóps sem flokk­ur­inn bindur vonir við að skili sér inn á þing muni líta út. Fylgið mælist nú aðeins undir kjör­fylgi, eða 10,4 pró­sent. Í sögu­legu sam­hengi þýðir það að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er að fá verstu útkomu sína í kosn­ingum frá upp­hafi, gangi þetta eft­ir, en í þeim póli­tíska veru­leika sem er uppi í dag má flokk­ur­inn ágæt­lega við una. Fylgi hans mæld­ist 6,7 pró­sent í haust, einu ári fyrir kosn­ingar og hann er annar af tveimur flokkum sem virð­ist vera í stöðu til að mynda rík­is­stjórn til hægri eða vinstri eftir næstu kosn­ing­ar. 

Lang­flestir vilja Katrínu sem for­sæt­is­ráð­herra

Hinn flokk­ur­inn eru Vinstri græn, flokkur Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra. Tölu­verð end­ur­nýjum hefur orðið á listum flokks­ins og nýir odd­vitar eru í fjórum af sex kjör­dæm­um. Síð­ustu mán­uði hefur fylgi Vinstri grænna verið að aukast hægt og rólega og mælist nú 14,3 pró­sent. Það hefur ekki mælst hærra síðan í febr­úar 2018, skömmu eftir að sitj­andi rík­is­stjórn var mynd­uð. Til við­bótar eru per­sónu­vin­sældir Katrínar mikl­ar.

Auglýsing

Í könnun sem Gallup gerði í apríl kom fram að 67 pró­sent lands­manna væru ánægðir með hennar störf og í áður­nefndri könnun Mask­ínu sögðu 46,1 pró­sent aðspurðra að þeir vildu að hún yrði for­sæt­is­ráð­herra eftir næstu kosn­ing­ar. Það er nán­ast sama hlut­fall og nefndi leið­toga Sjálf­stæð­is­flokks, Pírata, Fram­sókn­ar­flokks, Sam­fylk­ing­ar, Við­reisn­ar, Mið­flokks og Flokks fólks­ins til sam­an­s. 

Allt bendir því til þess, eins og sakir standa nú, að Katrín sé lang­lík­leg­ust til að verða áfram for­sæt­is­ráð­herra eftir næstu kosn­ingar og að hún muni hafa val­kosti í stöð­unni. Þeir val­kostir munu einnig styrkja stöðu hennar við samn­inga­borðið þegar kemur að myndun nýrrar rík­is­stjórn­ar. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar