Mynd: Pexels

Faraldurinn stórjók áfengiskaup hjá ÁTVR en neftóbakssalan hrundi

ÁTVR stendur í stórræðum. Síðasta rekstrarár reyndist langt um betra en reiknað var með þar sem landsmenn keyptu nær allt áfengi sem þeir neyttu í vínbúðum fyrirtækisins. Það ástand mun ekki vera til lengdar og neftóbakssala ÁTVR hefur hrunið. Aðrir aðilar eru farnir að stunda smásölu í gegnum netið og ÁTVR reynir að fá lögbann á starfsemi þeirra.

Til­vera ÁTVR hefur verið umdeild lengi. Mikil póli­tísk hug­mynda­fræði­leg átök hafa verið um hvort hið opin­bera eigi yfir höfuð að reka vín­búð­ir. Þar fer hluti Sjálf­stæð­is­flokks­ins fremstur í flokki og hefur gert lengi, án þess að það hafi þó skilað miklu.

Fyr­ir­komu­lag ÁTVR sem fyr­ir­tækis er líka um margt óvenju­legt. Yfir fyr­ir­tæk­inu er ekki stjórn líkt og er yfir mörgum öðrum rík­is­fyr­ir­tækjum sem veita þjón­ustu, eins og Lands­virkj­un, Isa­via eða RÚV sem dæmi, heldur sitja helstu stjórn­endur ÁTVR í svoköll­uðu fram­kvæmda­ráði. Það heyrir svo beint undir fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­ið. 

ÁTVR er risa­stórt fyr­ir­tæki. Í fyrra rak það 17 stærri vín­búðir og 35 minni um allt land, alls 52 versl­an­ir. Á 35 ára tíma­bili hefur versl­unum ÁTVR fjölgað um 39 tals­ins. Sam­hliða hefur þjón­ustu­stigið auk­ist veru­lega. Vöru­fram­boðið er nú marg­falt það sem það var á síð­ustu öld. Árið 1986 seldi ÁTVR 550 teg­und­ir. Í lok árs 2013 voru þær 2.037. Í fyrra voru þær 4.407 tals­ins.

Opn­un­ar­tími hefur líka verið lengur þannig að sumar versl­anir eru nú opnar til klukkan 20:00 á virkum dögum og til klukkan 18:00 á laug­ar­dögum og opn­un­ar­dögum hefur fjölgað veru­lega. 

Spreng­ing í fyrra

Neyt­endur hafa tekið þess­ari útþenslu fagn­andi. Vín­búðir ÁTVR eru með fjórðu hæstu ein­kunn allra fyr­ir­tækja í mæl­ingum Íslensku ánægju­vog­ar­innar á ánægju við­skipta­vina og næst hæstu ein­kunn í flokki fyr­ir­tækja á smá­sölu­mark­aði. Gagn­rýnendur rekstrar ÁTVR hafa á móti bent á að þessi auknu umsvif séu í and­stöðu við skil­greind mark­mið laga um verslun með áfengi og tóbak, sem sett voru árið 2011. Í þeim segir að eitt þriggja mark­miða lag­anna sé að „tak­marka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skað­legum áhrifum áfeng­is- og tóbaksneyslu“.

Auglýsing

Þá hefur ÁTVR verið gagn­rýnt fyrir að aug­lýsa starf­semi sína þrátt fyrir að bann við áfeng­is­aug­lýs­ingum sé í gildi í land­inu. Vín­búðin má nefni­lega aug­lýsa sig svo lengi sem að að áhersla sé lögð á sam­fé­lags­lega ábyrgð í aug­lýs­ing­un­um. Á und­an­förnum árum hafa slíkar aug­lýs­ing­ar, þar sem fólk er minnt á að muna eftir skil­ríkjum sín­um(­bannað er sam­kvæmt lögum að selja fólki undir 20 ára áfeng­i), birst ítrekað í völdum fjöl­miðl­um.

Sala ÁTVR á áfengi hefur stór­auk­ist á und­an­förnum rúmum tveimur ára­tug­um. Árið 1999 seldi fyr­ir­tækið alls 12,4 millj­ónir lítra af áfengi. Í árs­lok 2019 hafði lítra­magnið næstum tvö­fald­ast og var 22,7 millj­ónir lítra. Rekstr­ar­tekjur ÁTVR voru í heild 11,8 millj­arðar króna árið 1999 og þar af komu um sjö millj­arðar króna af áfeng­is­sölu. Árið 2019 voru rekstr­ar­tekj­urnar orðnar 37 millj­arðar króna, rúm­lega þrisvar sinnum það sem þær voru í krónum talið 20 árum áður, og tekj­urnar af áfeng­is­sölu voru 27,3 millj­arðar króna, eða fjórum sinnum það sem þær voru árið 1999. 

Í fyrra varð svo spreng­ing í rekstri ÁTVR. Sala á áfengi jókst um heil 18,3 pró­sent á milli ára. Seldir lítrar urðu 26,8 millj­ónir alls. Þorri söl­unnar er á bjór,eða 77 pró­sent seldra lítra. Ástæð­an: heims­far­aldur kór­ónu­veiru.

Heima­drykkja þegar annað er ekki í boði

Þrátt fyrir að fjöldi ferða­manna sem heim­sóttu landið á síð­asta ári hafi farið úr um tveimur millj­ónum í færri en hálfa milljón þá jókst eft­ir­spurn eftir vörum Vín­búð­anna mik­ið. 

Ívar J. Arndal, for­stjóri ÁTVR, fjall­aði um þetta ástand í for­mála nýj­ustu árs­skýrslu fyr­ir­tæk­is­ins. „Veit­inga­hús og barir meira og minna lok­að­ir, Frí­höfnin á Kefla­vík­ur­flug­velli óstarf­hæf vegna þess hversu fáir voru á ferða­lagi og margir sem alla jafna eyða vetr­inum í útlöndum komnir heim. Fljót­lega jókst álagið í Vín­búð­unum og ljóst að beita þurfti öllum ráðum til þess að ráða við ástand­ið. Sölu­aukn­ingin fór langt fram úr öllum áætl­un­um.“

Ætla að fá lögbann á samkeppni

Fyrir skemmstu tilkynnti Arn­ar Sig­urðsson, vín­kaupmaður hjá Santewines SAS, að hann hefði hafið sölu á víni á vefsíðu fyr­ir­tæk­is­ins sem væri til afhendingar af lager hérlendis. Fyrirtækið er skráð í Frakklandi og því telur Arnar starfsemi þess vera í samræmi við lög. Fleiri dæmi eru um sambærilega starfsemi, til dæmis í gegnum síðuna Bjorland.is, sem selur bjór í heimsendingu.

ÁTVR er ósammála því að þessi starfsemi sé lögleg og 17. maí síðastliðinn sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem það fór fram á lögbann á starfsemi vefverslana sem selji áfengi í smásölu hérlendis beint til neytenda. „Starfseminni er beint gegn lögbundnum einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis, sem hefur verið ein grunnstoða íslenskrar áfengisstefnu.

Þrátt fyrir afdráttarlaus ákvæði áfengislaga og laga um verslun ríkisins með áfengi og tóbak um einkaleyfi ÁTVR til þess að selja og afhenda áfengi í smásölu fullyrða rekstraraðilar vefverslananna að starfsemi þeirra sé lögleg. Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið hjá til þess bærum aðilum. ÁTVR hefur því hafið undirbúning að beiðni um lögbann á hendur vefverslununum og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Samhliða er hafinn undirbúningur lögreglukæru vegna starfseminnar.

Einkaréttur ríkisins til smásölu áfengis byggir á lýðheilsusjónarmiðum og því mati löggjafans að markmiðum um heilsu þjóðarinnar verði ekki náð með öðru og vægara móti. Verði starfsemi vefverslana í beinni samkeppni við smásölu ÁTVR látin óáreitt felur það í sér grundvallarbreytingu á áfengisstefnunni og forsendum fyrir rekstri fyrirtækisins.“

Fyrir vikið ruku tekjur ÁTVR upp. Rekstr­ar­tekjur fyr­ir­tæk­is­ins í fyrra voru 44,9 millj­arðar króna, sem er um átta millj­örðum krónum meira en árið áður. Sala á tóbaki stóð nán­ast í stað sem þýðir að  aukið sala á áfengi orsak­aði þessa miklu aukn­ingu að nán­ast öllu leyt­i. 

Allt þetta skil­aði því að hagn­aður árs­ins 2020 var rúm­lega 1,8 millj­arðar króna, eða 72,4 pró­sentum meiri en árið áður. 

Ekki við­var­andi ástand

Við­búið er að þessi staða hafi haldið sér inn á árið 2021, á meðan að miklar tak­mark­anir voru enn í gildi vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins. Fólk drakk sitt áfengi aðal­lega í heima­húsum eða bústöðum í smærri hópum eftir að hafa keypt það í versl­unum ÁTVR. 

Auglýsing

En nú er þessi staða að breyt­ast. Með bólu­setn­ingum og losun tak­mark­ana – sem fela meðal ann­ars í sér að barir og veit­inga­staðir eru að opna að fullu á ný og ferða­lög milli landa verða auð­veld­ari nán­ast dag frá degi – þá má ætla að ásókn í áfengi í versl­unum ÁTVR drag­ist saman á ný á seinni hluta árs­ins. 

Þá mun vægi tóbaks­sölu í rekstri ÁTVR skipta meira máli á ný. Á und­an­förnum árum hefur verið umtals­vert fjallað um hversu mikið það er, eða allt frá því að fyr­ir­tækið Clever Data vann skýrslu fyrir hag­að­ila og var gerð opin­ber árið 2015. Helsta nið­ur­staða hennar var sú að það hefði ekki verið eig­in­legur hagn­aður af starf­semi ÁTVR á árinu 2014. Rekstr­ar­hagn­aður af sölu tóbaks væri langtum meiri en af sölu áfeng­is, enda sé tóbak­inu ein­ungis dreift í heild­sölu á meðan að áfengið er selt í versl­unum sem ÁTVR á og rekur út um allt land. Nið­ur­staðan var sú að tóbaks­salan byggi til allan hagnað ÁTVR. Eða, með öðrum orð­um, nið­ur­greiddi hina umfangs­miklu áfeng­is­sölu.

Ekki fært sér­stak­lega í bók­haldi

ÁTVR hefur ætið hafnað þess­ari nið­ur­stöðu en ekki lagt fram frek­ari gögn máli sínu til stuðn­ings. Kjarn­inn óskaði á sínum tíma eftir því að fá sund­ur­liðun á rekstr­ar­kostn­aði vegna sölu tóbaks ann­ars vegar og sölu á áfengi hins­veg­ar, en var hafn­að. Í svari ÁTVR sagði að kostn­aður vegna tóbaks­sölu væri ekki færður sér­stak­lega í bók­haldi ÁTVR. 

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR.
Mynd: ÁTVR

Í árs­­skýrslu ÁTVR fyrir árið 2018 kom hins vegar fram að alls hefðu sjö manns verið við störf í nef­tó­baks­fram­­leiðslu fyr­ir­tæk­is­ins og tólf við heild­­sölu og dreif­ingu tóbaks. Alls var kostn­aður ÁTVR vegna launa og launa­tengdra gjalda á árinu 2018 um 2,8 millj­­arðar króna og árs­verk voru 354. Það þýðir að árlegur með­al­kostn­aður við hvert árs­verk var um 7,9 millj­­ónir króna. Þau 19 árs­verk sem voru í tóbaks­­hluta fram­­leiðsl­unnar ættu því að hafa kostað um 150 millj­­ónir króna á ári. 

Það myndi þýða að um 1,5 millj­­arða króna hagn­aður stæði eftir af tóbaks­­­söl­unni eftir að búið væri að gera ráð fyrir tóbaks­­gjaldi og launa­­kostn­aði þeirra sem störf­uðu beint við tóbaks­­dreif­ingu, eða -fram­­leiðslu. Það er upp­­hæð sem var tæp­­lega 400 millj­­ónum krónum yfir heild­­ar­hagn­aði ÁTVR á árinu 2018.  

Þó verður að gera ráð fyrir því tóbaks­­­salan sé ábyrgð fyrir ein­hverjum við­­bót­­ar­­kostn­aði vegna skrif­­stofu­halds og ann­­arra sam­eig­in­­legra kostn­að­­ar­þátta í rekstri ÁTVR en sá kostn­aður nær lík­ast til ekki 400 millj­ónum króna. 

Engin áform um sund­ur­liðun

Á grund­velli þess­ara upp­lýs­inga lagði Þor­steinn Víglunds­son, þáver­andi þing­maður Við­reisn­ar, fram fyr­ir­spurn á Alþingi til Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, í fyrra þar sem hann kall­aði eftir því að fá upp­lýs­ingum um afkomu ÁTVR af sölu áfengis ann­ars vegar og tóbaks hins veg­ar. Þegar svar barst við fyr­ir­spurn­inni var Þor­steinn hættur á Alþing­i. 

Þorsteinn Víglundsson spurði um sundurliðun á afkomu ÁTVR af sölu áfengis og tóbaks.
Mynd: Bára Huld Beck

Í svar­inu, sem var birt í ágúst 2020, kom fram að engin áform væru uppi um það af hálfu fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins að skylda ÁTVR til að leggja fram árs­reikn­inga sína með öðrum hætti. ÁTVR greini ekki í sundur rekstr­ar­kostnað eftir áfengi ann­ars vegar og tóbaki hins veg­ar. „Árið 1961 voru Áfeng­is­verslun rík­is­ins og Tóbaks­verslun rík­is­ins sam­ein­aðar í eina stofnun Áfeng­is- og tóbaks­verslun rík­is­ins, ÁTVR. Nú er versl­unin rekin sem ein heild og rekstr­ar­kostn­aði ekki haldið aðskildum enda ekki gerð krafa um slíkt, hvorki í lögum né af hálfu eig­anda,“ sagði í svari Bjarna. 

Skömmu áður en að svar barst við fyr­ir­spurn hans greindi Frétta­blaðið frá því að Rík­is­end­ur­skoðun hefði óskað eftir því við for­svars­menn ÁTVR að þeir sund­ur­lið­uðu kostnað sinn vegna sölu á tóbaki ann­ars vegar og sölu á áfengi hins veg­ar. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá emb­ætt­inu var sú frétt hins vegar röng. ­Rík­is­end­ur­skoðun seg­ist ekki hafa óskað eftir þess­ari sund­ur­lið­un, enda ekki laga­legar for­sendur fyrir því að krefj­ast slíks aðskiln­aðar í bók­haldi fyr­ir­tæk­is­ins.

Arð­bær tóbaks­sala

Líkt og áður sagði voru rekstr­ar­tekjur ÁTVR 44,9 millj­arðar króna í fyrra. Af þeim runnu 30,8 millj­arðar króna til rík­is­sjóðs vegna tóbaks­gjalds (sex millj­arðar króna), áfeng­is­gjalds (17,6 millj­arðar króna), virð­is­auka­skatts (6,3 millj­arðar króna) og arð­greiðslu (einn millj­arður króna). 

Auglýsing

Það þýðir að um 69 pró­sent allra tekna ÁTVR renna í rík­is­sjóð. Allar þessar tekjur myndu skila sér þangað óháð því hver það væri sem seldi áfengi og tóbak, utan arð­greiðsl­unn­ar, enda eru álögur á áfengi á Íslandi þær hæstu í Evr­ópu að Nor­egi und­an­skild­um.

77 pró­sent allra rekstr­ar­tekna ÁTVR, alls 34,6 millj­arðar króna, koma til vegna sölu áfeng­is. Tekjur vegna tóbaks­sölu voru 10,1 millj­arðar króna og hafa meira og minna staðið í stað árum sam­an. 

Vöru­notkun tóbaks var 8,4 millj­arðar króna í fyrra. Þegar búið er að draga hana frá tekjum ÁTVR þá stendur eftir 1,6 millj­arður króna. Tóbaks­salan fer fram í gegnum mjög hag­kvæma mið­læga tóbaks­sölu þar sem vörur eru að mestu pant­aðar raf­rænt og sóttar á sama stað. Engin tóbaks­smá­sölu­verslun er rekin heldur er ein­ungis um heild­sölu að ræða. Því má ætla að arð­greiðslan sem greidd var til rík­is­ins í fyrra – einn millj­arður króna— sé að uppi­stöðu vegna hagn­aðar í tóbaks­hluta starf­sem­inn­ar. 

Hrun í sölu á „Rudda“

ÁTVR framleiðir líka tóbak, neftóbak, og hefur gert árum saman. Framlegð af þeirri framleiðslu er mikil enda hafa einungis sjö starfsmenn verið í því að framleiða vöruna, sem er unnin úr hrátóbaki frá tóbaksframleiðandanum Swedish Match.

Árið 1996 var innflutningur og sala á munntóbaki og fínkornuðu neftóbaki bannað með lögum á Íslandi. Markmiðið var að bæta heilsufar þjóðarinnar.

Það þýðir að grófa neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Tilraunir íslenskra heildsala til að komast inn á þann markað árið 2012 runnu út í sandinn eftir að ÁTVR hætti að kaupa það inn. Það sölubann stóð til ársins 2019. Þá hafði legið fyrir árum saman að ÁTVR taldi sig ekki hafa lagaheimild til að halda banninu við.

Frá því að sölubannið tók gildi jókst neysla á munntóbaki umtalsvert hérlendis. Þeir sem það notuðu keyptu annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði eða notuðu neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, oft kallaður „Ruddi“, sem munntóbak. Þessi aukna neysla skilaði auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munaði, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar.

Árið 2002 seldi ÁTVR 10,9 tonn af neftóbakinu sem fyrirtækið framleiðir. níu árum síðar seldi fyrirtækið næstum þrefalt það magn af þessari vöru. Árið 2019, þegar sala á „Rudda“ náði hámarki, seldu ÁTVR 46,1 tonn af honum.

Í fyrra hrundi hins vegar þessi sala niður í 25,4 tonn. Hún nánast helmingaðist og hefur ekki verið minni síðan árið 2009. Fimmtíu grömm af tóbaki eru í hverri íslenskri neftóbaksdollu. Þessi samdráttur nemur því um 414 þúsund dollum.

Ástæðan er einföld: svokallaðir níkótínpúðar, tóbakslausir púðar frá erlendum framleiðendum sem eru til notkunar undir efri vör, hófu innreið sína á markaðinn og tóku stóran hluta hans til sín hratt. Slíkir púðar eru meðal annars seldir í öllum helstu smásöluverslunum en einnig sérvöruverslunum. Þar eru verslanir undir merkjum Sven mest áberandi. Í könnun sem embætti landlæknis gerði síðasta sumar kom fram að tæplega fimmti hver karlmaðaur á Íslandi á aldrinum 18 til 34 ára notaði nikótínpúða. Þessi hraða aukning á neyslu hefur gert það að verkum að lagt var fram stjórnarfrumvarp í apríl síðastliðnum til að fella þessa nýju vöru undir lög um nikótínvörur, sem áður náðu einungis yfir rafrettur og áfyllingar fyrir þær.

Þannig hefur það verið ár eftir ár og oft­ast munað mun meiru en á hinu sér­kenni­lega ári 2020, þegar nær öll áfeng­is­sala í land­inu flutt­ist í versl­anir ÁTVR. 

Laun hækk­uðu umfram launa­vísi­tölu

Rekstr­ar­gjöld ÁTVR juk­ust einnig umtals­vert í fyrra og voru 43 millj­arðar króna. Þar skipti þó mestu aukin vöru­notkun vegna auk­innar eft­ir­spurn­ar. 

Laun og launa­tengd gjöld juk­ust um 8,1 pró­sent þrátt fyrir að reiknuð árs­verk – alls 356 – hafi ein­ungis verið tveimur fleiri en á árinu 2019. Launa­kostn­aður hjá ÁTVR var umfram hækkun launa­vísi­tölu í fyrra, sem var 7,2 pró­sent. 

Árs­laun for­stjóra ÁTVR, að með­töldum launa­tengdum gjöld­um, hækk­uðu um hálfa milljón króna árið 2020 í 22,3 millj­ónir króna. Það þýðir að hann hafi verið með tæp­lega 1,9 millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Stjórn­un­ar- og skrif­stofu­kostn­aður ÁTVR jókst um 8,4 millj­ónir króna í 381 milljón króna í fyrra. Á ​meðal þess sem fallið hefur undir þann lið er ferða­kostn­að­ur, aðkeypt sér­fræði­þjón­usta, rekstur tölvu­kerfa og hug­bún­að­ar, gjafir og risna og ýmis starfs­manna­kostn­að­ur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar