Skjáskot af bréfi lögmanns Samherja til Lilju Alfreðsdóttur. brefLex123213.JPG

Vildu að Lilja útskýrði orð sín um að Samherji hefði gengið „of langt“

Lögmaður á vegum Samherja óskaði eftir því 27. apríl að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra útskyrði nákvæmlega hvað hún átti við, þegar hún sagði á þingi deginum áður að Samherji hefði gengið „of langt“ í viðbrögðum sínum. „Þess er óskað að þér útskýrið af töluverðri nákvæmni ummæli yðar á þingi um þessi efni,“ sagði í bréfi lögmannsins til ráðherra. Erindinu frá Samherja hefur ekki verið svarað. Lilja sjálf segist hafa sett brýnni hluti í forgang.

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji fól lögmanni á vegum fyrirtækisins að senda formlegt erindi á Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í lok apríl, í kjölfar þess að Lilja sagði á Alþingi að Samherji hefði gengið „of langt“ í viðbrögðum sínum við fréttaflutningi af hinu svokallaða Namibíumáli.

Ráðherra er í bréfi lögmannsins krafin um svör og nánari útskýringar á ummælum sínum og yfirlýstum stuðningi sínum við Ríkisútvarpið og stjórn þess. Erindinu hefur ekki verið svarað af hálfu ráðherra, samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en lögmaður Samherja óskaði eftir því að svörum yrði beint til sín eigi síðar en viku eftir að bréfið var sent.

Kjarninn fékk bréf lögmanns Samherja afhent í dag, eftir að hafa óskað eftir því við öll ráðuneyti á grundvelli upplýsingalaga að fá samskipti Samherja eða fulltrúa fyrirtækisins við ráðuneytin eða ráðherra undanfarna tvo mánuði afhent, ef einhver væru til staðar.

Lilja sagði Samherja vera að „þreyta laxinn“

„Mér finnst Sam­herji ganga of langt. Hann geng­ur of langt í sín­um viðbrögðum. Og mér finnst að þetta sé gert til að þess að þreyta lax­inn og von­ast til þess að hann gef­ist upp,“ sagði Lilja á þingi 26. apríl, í svari við óundirbúinni fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni þingmanni Samfylkingarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Bára Huld Beck

Fyrirspurn Guðmundar Andra laut meðal annars að myndbandsgerð Samherja um störf fréttamannsins Helga Seljan. „Ég er spurð út í það hvort ég styðji ekki Rík­is­út­varpið. Jú, að sjálf­sögðu geri ég það í þess­ari um­fjöll­un og þess­ari orra­hríð,“ sagði Lilja einnig í þinginu þann 26. apríl.

Ráðherra berst bréf

Daginn eftir sendi Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á lögmannsstofunni Lex, bréf fyrir hönd Samherja á mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem Lilja var beðin um nánari útskýringar á ummælum sínum um að Samherji hefði gengið „of langt“.

„Var það t.d. of langt gengið að skjóta málinu til siðanefndar Ríkisútvarpsins eða að fjalla um niðurstöðuna? Var það myndbandsgerðin um niðurstöðuna sem gekk of langt? Þess er óskað að þér útskýrið af töluverðri nákvæmni ummæli yðar á þingi um þessi efni,“ segir í bréfi lögmannsins til ráðherra.

Auglýsing

Þetta er ekki það eina sem Lilja var krafin um að skýra fyrir í Samherja í bréfinu frá lögmanninum. Hún var einnig beðin um að skýra það að hún hefði lýst yfir eindregnum stuðningi við Ríkisútvarpið og stjórnendur þess.

„Skiptir í því samhengi engu máli, að yðar dómi, það siðareglubrot starfsmanns Ríkisútvarpsins sem slegið hefur verið föstu með úrskurði siðanefndar Ríkisútvarpsins? Skipta viðbrögð stjórnenda Ríkisútvarpsins við úrskurðinum heldur engu máli í þessu sambandi?“ sagði í bréfi lögmannsins.

Lögmaðurinn spurði ráðherra einnig út í það, fyrir hönd Samherja, hvort í stuðningi hennar við stjórn Ríkisútvarpsins fælist einnig stuðningur við ummæli stjórnarmannsins Marðar Árnasonar um afgreiðslu stjórnar RÚV á erindi frá Samherja. Mörður lét hafa eftir sér í viðtali við Mannlíf, í kjölfar þess að stjórn RÚV sagði Samherja að það væri ekki í hennar verkahring stjórnarinnar að skipta sér af því hvort fréttamaðurinn Helgi Seljan fjallaði um eitt mál eða annað, að hans túlkun á bréfinu væri sú að stjórnin hefði verið að segja „fokkið ykkur“ við Samherja.

Spurningar um hæfi Helga Seljan

Í erindi lögmanns Samherja til Lilju er vísað til þess að hún hafi sagt á þingi að stjórn RÚV hefði brugðist rétt við í málinu. „Óskar umbj. minn eftir útskýringum á ummælum þessum, sérstaklega í ljósi þess að í úrskurði siðanefndar Ríkisútvarpsins er beinlínis kveðið á um að viðkomandi frétta- og dagskrárgerðarmaður hafi með ummælum sínum gerst hlutdrægur og brotið alvarlega gegn siðareglum Ríkisútvarpsins,“ segir í bréfinu frá Arnari Þór.

Auglýsing

Þar sagði ennfremur að slíkt hlyti að vekja upp spurningar um hæfi Helga Seljan til umfjöllunar um málefni Samherja, í ljósi hlutlægnisskyldu sem kveðið væri á um í lögum um Ríkisútvarpið, sem heyrðu undir málefnasvið Lilju sem ráðherra.

Ný viðmið um hvenær megi bera hönd fyrir höfuð sér?

„Það er mat umbj. míns að rétt sé, í ljósi ummæla yðar á Alþingi í gær, að þér, sem sá aðili sem fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu sem og stjórnarfarslega með málefni fjölmiðla og menningarmála yfirleitt, gerið fyllri grein fyrir því hvort einhvern ný viðmið hafi verið sett á yðar vegum um það hvenær aðilar, sem vegið er að, megi bera hönd fyrir höfuð sér í opinberi umræðu og hvort þar skipti máli hvort í hlut á Ríkisútvarpið eða aðrir fjölmiðlar.

Í bréfi lögmannsins segir einnig að það sé „rétt að minna á“ að í gildi sé þjónustusamningur á milli ráðherra og Ríkisútvarpsins og í þeim samningi væri m.a. fjallað um hlutverk og skyldur RÚV. „Þá hefur ráðherra heimildir til aðgerða á grundvelli samningsins, sbr. 16. gr. hans,“ segir í bréfi Arnars Þórs.

Ráðherra lítur svo á að málinu sé lokið

Kjarninn beindi síðdegis í dag spurningum til mennta- og menningarmálaráðherra um þetta erindi frá lögmanni Samherja. Blaðamaður falaðist eftir svörum um það hvaða augum ráðherra liti þetta bréf, af hverju því hefði ekki verið svarað, hvort algengt væri að fyrirtæki krefðu þingmenn eða ráðherra um útskýringar á tilteknum ummælum sem féllu á þingi og einnig, hvort hún liti á bréfið sem þrýsting um að hún sem menntamálaráðherra beitti sér á einhvern hátt fyrir því að Helgi Seljan fjallaði ekki frekar um málefni Samherja.

Lilja segir í skriflegum svörum til Kjarnans, sem lesa má í heild sinni hér að neðan, að brýnni mál hafi verið sett í forgang hjá sér en að svara þessu erindi. Hún líti svo á að málinu sé lokið.

Þó kemur fram í svari ráðherra að það sé ekki algengt að formlegar beiðnir sem þessar berist um útskýringar á orðum sem falla á þingi, enda segi í stjórnarskrá lýðveldisins að enginn alþingismaður verði krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hafi sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

„Á grundvelli ákvæðisins njóta alþingismenn þinghelgi og felur það í sér víðtækt málfrelsi þingmanna,“ segir Lilja í svari við spurningu blaðamanns.

Svör mennta- og menningarmálaráðherra:

1) Af hverju hefur þessu erindi ekki verið svarað?

Hér hafa brýnni mál verið sett í forgang. Orð mín skýra sig sjálf og raunar hefur fyrirtækið gengist við því að hafa gengið of langt í sínum viðbrögðum. Ég lít svo á, að þessum hluta málsins sé lokið.

2) Hvaða augum lítur þú þetta erindi?

Hverjum og einum er heimilt að senda erindi til stjórnvalda. Ég lít svo á að málinu sé lokið.

3) Er algengt að formlegar beiðnir berist frá fyrirtækjum um nákvæmar útskýringar á orðum sem þingmenn eða ráðherrar láta falla í umræðum á þingi? Hefur þú upplifað slíkt áður, sem þingmaður eða ráðherra?

Nei, enda njóta alþingismenn þinghelgi samkvæmt ákvæði í stjórnarskrá. Í 2. mgr. 49. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, kemur fram að enginn alþingismaður verði krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi. Á grundvelli ákvæðisins njóta alþingismenn þinghelgi og felur það í sér víðtækt málfrelsi þingmanna.

4) Upplifir þú þetta erindi sem þrýsting um að þú sem ráðherra beitir þér á þann hátt að Helgi Seljan fréttamaður á RÚV verði látinn víkja frá frekari umfjöllun um málefni Samherja, vegna niðurstöðu siðanefndar í máli hans?

RÚV er sjálfstætt félag, með stjórn sem kjörin er af Alþingi. Ég gef RÚV ekki fyrirmæli um neitt, né hef ég afskipti af innri málum þess. Lög um Ríkisútvarpið eru afdráttarlaus varðandi það og útilokað að ráðherra beiti sér í einstökum málum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent