Mynd: Skjáskot Þorsteinn Már Baldvinsson
Þorsteinn Már Baldvinsson, er forstjóri bæði Samherja hf. og Samherja Holding.
Mynd: Skjáskot

Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif

Í nýbirtum ársreikningi Samherja Holding kemur fram að samstæðan telji mikilvægt að unnið sé að heilindum og að hún líði ekki spillingu af neinu tagi. Samherji Holding og starfsmenn samstæðunnar eru til rannsóknar á Íslandi og í Namibíu vegna gruns um mútubrot, skattasniðgöngu og peningaþvætti.

„Hjá Sam­herja Hold­ing er mik­il­vægt að unnið sé af heil­indum og við líðum ekki spill­ingu af neinu tag­i.“ Þetta kemur fram í nýbirtum árs­reikn­ingi Sam­herja Hold­ing, félags sem heldur meðal ann­ars utan um erlenda starf­semi Sam­herj­a­sam­stæð­unn­ar. Umrædd yfir­lýs­ing er sett fram í svo­kall­aðri ófjár­hags­legri upp­lýs­inga­gjöf sem er óend­ur­skoðuð og birt­ist í lok reikn­ings­ins. Hún var ekki til staðar í árs­reikn­ingi Sam­herja Hold­ing í fyrra. 

Þar segir að undir spill­inum falli „mútu­greiðsl­ur, fyr­ir­greiðslur og ávinn­ingur af sér­hverju tagi í skiptum fyrir óeðli­leg áhrif á ákvarð­ana­töku. Þá er pen­inga­þvætti ekki liðið af neinu tagi og er Sam­herji Hold­ing stað­ráðið í að fara eftir gild­andi lögum gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka og munum grípa til við­eig­andi ráð­staf­ana til að koma í veg fyrir og koma auga á ólög­mætar greiðsl­ur.“

Úr ársreikningi Samherja Holding.

Sam­herji Hold­ing er að upp­­­­i­­­­­­stöðu í eigu for­­stjóra Sam­herja, Þor­­­­­steins Más Bald­vins­­­son­­­ar, Helgu S. Guð­­­munds­dóttur fyrr­ver­andi eig­in­­­konu hans og Krist­jáns Vil­helms­­­­­son­­­­­ar, útgerð­­­­ar­­­­stjóra Sam­herj­­­­a­­­­sam­­­­stæð­unn­­­­ar. Hinn hluti Sam­herj­a­sam­stæð­unn­ar, Sam­herji hf. sem heldur utan um inn­lenda sjáv­ar­út­vegs­starf­semi og fjár­fest­inga­starf­semi, er nú að mestu í eigu barna eftir að sam­stæðan var brotin upp í tvennt og meg­in­þorri eign­ar­hluta í  Sam­herja hf. færðir til þeirra. 

Saman áttu þessi tvö félög, Sam­herji hf. og Sam­herji Hold­ing, eigið fé upp á um 160 millj­arða króna um síð­ustu ára­mót. Þor­steinn Már er for­stjóri bæði Sam­herja hf. og Sam­herja Hold­ing. 

Í rann­sókn í Namibíu og á Íslandi

Helstu eignir Sam­herja Hold­ing eru fyr­ir­tæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjá­v­­­ar­af­­urða í Evr­­ópu og Norð­­ur­-Am­er­íku. Þá hefur Sam­herji Hold­ing einnig fjár­­­fest í flutn­inga­­starf­­semi og er stærsti hlut­haf­inn í Eim­­skip með 32,79 pró­­sent eign­­ar­hlut. Auk þess hélt Sam­herji Hold­ing utan um alla starf­semi Sam­herj­a­sam­stæð­unnar í Namib­íu, en sam­stæðan og lyk­il­­­starfs­­­fólk innan hennar hafa verið til rann­­­sóknar hjá emb­ætti hér­­­aðs­sak­­­sókn­­­ara og skatt­rann­­­sókn­­­ar­­­stjóra á Íslandi frá lokum árs 2019. Auk þess er málið í rann­­sókn og ákæru­­með­­­ferð í Namib­­íu. Átta manns hið minnsta hafa fengið rétt­­­­­ar­­­­­stöðu sak­­­­­born­ings við yfir­­­­­heyrslur hjá emb­ætt­i hér­­aðs­sak­­sókn­­ara vegna máls­ins. Þeirra á meðal er Þor­steinn Már.

Hér­­­lendis hófst rann­­sókn eftir að Kveikur og Stundin opin­ber­uðu að grunur væri á að Sam­herji hefði greitt mút­­­­­ur, meðal ann­­­ars til hátt­­­settra stjórn­­­­­mála­­­manna, til að kom­­­ast yfir fisk­veið­i­­kvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upp­­­lýs­ingar sem bentu til þess að Sam­herji væri mög­u­­­lega að stunda stór­­­fellda skatta­snið­­­göngu og pen­inga­þvætt­i.

Í umfjöllun Stund­­­ar­innar um rann­­sókn­ina fyrr í þessum mán­uði var haft eftir Ólafi Þór Hauks­­syni hér­­aðs­sak­­sókn­­ara að rann­­­sóknin á Íslandi væri langt kom­in.

Krafa á dótt­ur­fé­lagið utan um namibísku starf­sem­ina færð niður

Kjarn­inn greindi frá því í síð­ustu viku að end­­ur­­skoð­endur Sam­herja Hold­ing hafi und­ir­­ritað árs­­reikn­ing félags­­ins 2021 án fyr­ir­vara. Í árs­­reikn­ingi Sam­herja Hold­ing vegna árs­ins 2020 var fyr­ir­vari gerður við árs­­­reikn­ing­inn vegna óvissu „um mála­­­rekstur vegna fjár­­­hags­­­legra upp­gjöra sem tengj­­­ast rekstr­inum í Namib­­­íu.“ Sá fyr­ir­vari var gerður bæði af stjórn Sam­herja Hold­ing og end­­­ur­­­skoð­anda félags­­­ins. 

Í nýja reikn­ingnum kemur fram að dótt­ur­fé­lagið Hermono Invest­ments ltd., hafi haldið utan um starf­semi sam­stæð­unnar í Namib­íu. Í árs­lok 2019 var tekin ákvörðun um að leggja niður starf­semi Hermono Invest­ments og dótt­ur­fé­laga þess, selja eignir og gera upp skuld­ir. Starf­semi Hermono sam­stæð­unnar er því flokkuð sem aflögð starf­semi í efna­hags- og rekstr­ar­reikn­ingi sam­stæð­unn­ar. 

Hluti af eignum aflagðrar starf­semi var skipið Heina­ste, en skipið var selt í nóv­em­ber 2020 til þriðja aðila fyrir 18 millj­ónir Banda­ríkja­dala (2.682  millj­ónir króna á núvirð­i). Hluti sölu­verðs­ins, um sex millj­ónir Banda­ríkja­dala (894 millj­ónir króna á núvirð­i),  er ógreiddur en til greiðslu á árunum 2022-2023. 

Í árs­reikn­ingi fyrir 2021 segir að „sá hluti sem hefur verið greidd­ur, sam­kvæmt sér­stöku sam­komu­lagi við namibísk stjórn­völd, er geymdur á sam­eig­in­legum reikn­ingi með rík­is­sjóði Namib­íu, þar til nið­ur­stöður dóms­máls í Namibíu liggja fyr­ir. Það er því óljóst hvenær and­virði söl­unnar verður til­tækt til notk­unar fyrir sam­stæð­una og vegna þeirrar óvissu er krafan færð nið­ur.“

Fyrir vikið lækka eignir aflagðrar starf­semi Sam­herja Hold­ing úr 16,4 millj­ónum Banda­ríkja­dala (2.444 millj­ónir króna) í 471 þús­und Banda­ríkja­dali (70,2 millj­ónir króna).

Greint frá stöðu rann­sókna

Í árs­reikn­ingnum er Namib­íu­málið rakið að ein­hverju leyti. Þar segir að í októ­ber 2019 hafi fyrr­ver­andi starfs­maður erlends dótt­ur­fé­lags Sam­herja Hold­ing sakað félagið og starfs­menn sam­stæð­unnar um lög­brot, meðal ann­ars um mútur og spill­ingu. Þar er um að ræða upp­ljóstr­ar­ann Jóhannes Stef­áns­son.

Í reikn­ingnum segir að Sam­herji Hold­ing hafi tekið þessar ásak­anir alvar­lega og að stjórn þess hafi ráðið til sín alþjóð­legu lög­mann­stof­una Wik­borg Rein til að fram­kvæma ítar­lega rann­sókn á starf­semi dótt­ur­fé­laga sem tengd­ust starf­sem­inni í Namib­íu. „Rann­sókn Wik­borg Rein var mjög yfir­grips­mikil og voru nið­ur­stöður hennar kynntar stjórn félags­ins í júlí 2020,“ segir í reikn­ingnum en Sam­herj­a­sam­stæðan hafði boðað að nið­ur­stöð­urnar yrðu gerðar opin­ber­ar. Það hefur ekki gerst þrátt fyrir að næstum tvö og hálft ár sé liðið frá því að Wik­borg Rein lauk rann­sókn sinni.

Þorsteinn Már Baldvinsson og Bernhard Essau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Essau hefur verið ákærður ásamt fjölda samverkamanna í Namibíu fyrir að þiggja mútur frá Samherja í skiptum fyrir ódýran kvóta.

Í árs­reikn­ingnum er greint frá því að ásak­an­irnar séu til rann­sóknar hjá yfir­völdum í Namibíu og á Íslandi en að ekki hafi verið höfðað mál á hendur félag­inu né að neinn starfs­maður þess hafi verið ákærð­ur. Fyrir liggur þó að stjórn­völd í Namibíu hafa viljað ákæra þrjá starfs­menn sam­stæð­unnar þar og hafa leitað eftir aðstoð til að fá þá fram­selda, án árang­urs.

Félagið seg­ist hafa mót­mælt öllum ásök­unum um lög­brot og gert grein fyrir sjón­ar­miðum sínum opin­ber­lega. „Það hefur fjallað ítar­lega um hvað fór úrskeiðis í rekstr­inum í Namibíu og hvers vegna. Gripið hefur verið til víð­tækra ráð­staf­ana til að koma í veg fyrir að slík atvik geti hent á ný. Mik­il­vægir hags­muna­að­ilar sem félagið á í sam­skiptum við, bankar, birgjar og stórir við­skipta­vinir hafa haldið tryggð við félag­ið.“ 

Á Íslandi hafi rann­sókn Hér­aðs­sak­sókn­ara haldið áfram með óbreyttum hætti, henni sé ekki lokið og því óvíst hver nið­ur­staða hennar verð­ur. „Starf­semi dótt­ur­fé­laga í Namibíu var lögð niður í árs­lok 2019 og hefur verið lögð áhersla á að dótt­ur­fé­lög Sam­herja í land­inu muni upp­fylla skyldur sínar gagn­vart namibískum yfir­völd­um.“

Til­kynnt til lög­reglu í Fær­eyjum

Í árs­reikn­ingnum er einnig gerð grein fyrir því að Sam­herji hf., hafi greitt fyrir hönd Sp/f Tind­hólms, dótt­ur­fé­lags Sam­herja Hold­ing, sam­tals um 17 millj­ónir danskra króna til fær­eyskra skatt­yf­ir­valda vegna óvissu um gildi skatt­frelsis fyrir ákveðna áhafn­ar­með­lim­i. 

Í apríl á þessu ári var greint frá því í fær­eyskum fjöl­miðlum að stærstur hluti þess fjár sem Sam­herji greiddi til fær­eyskra skatta­yf­ir­valda, í kjöl­far þess að fram kom að félagið hefði skráð sjó­­menn sem voru við veiðar í Namibíu sem far­­menn á flutn­inga­­skipum í Fær­eyj­um, hefði verið sendur til íslenskra skatta­yf­ir­valda, alls um 250 millj­ónir króna

Skatt­yf­ir­völd í Fær­eyjum til­kynntu Tind­hólm til lög­reglu í fyrra vegna máls­ins. Í árs­reikn­ingnum segir að óljóst sé „hvort eða hvernig fær­eysk skatta­yf­ir­völd og lög­regla munu fylgja mál­inu eftir en á árinu 2022 var Sp/F Tind­hólmur úrskurðað gjald­þrota.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar