Metro undir Eyrarsund til Malmö

Fyrir níu árum sagði yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar að hann sæi fyrir sér að Metro lestarkerfið í Kaupmannahöfn næði yfir Eyrarsund til Malmö innan fárra áratuga. Fáir voru trúaðir á þessa framtíðarsýn. Nú er komið annað hljóð í strokkinn.

Metro kerfið í Kaupmannahöfn hefur notið fádæma vinsælda. Og nú er stefnt að því að láta það teygja sig til Svíþjóðar.
Metro kerfið í Kaupmannahöfn hefur notið fádæma vinsælda. Og nú er stefnt að því að láta það teygja sig til Svíþjóðar.
Auglýsing

Frank Jensen, þáverandi yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, lét ofangreind orð falla á fundi með fréttamönnum árið 2012. Tilefni fundarins var undirritun samkomulags borgarstjórna Kaupmannahafnar og Malmö um að ráðast í könnun á hugsanlegri Metro tengingu yfir Eyrarsund. Frank Jensen hafði þá verið yfirborgarstjóri (borgarstjórarnir eru sjö) í tvö ár. Hann var áhugasamur um skipulagsmál og beitti sér mjög í þeim efnum. Á borgarstjóraárum hans urðu miklar breytingar á Kaupmannahöfn, ekki síst á gömlu hafnarsvæðunum, Norður- og Suðurhöfninni. Frank Jensen hafði sömuleiðis mikinn áhuga á aukinni samvinnu við borgaryfirvöld í Malmö og lagði mikla áherslu á samvinnu „yfir sundið“ eins og hann komst gjarna að orði.

Á áðurnefndum fréttamannafundi sagði yfirborgarstjórinn að Metro lestarkerfið væri frábær samgöngubót. En „þetta væri bara byrjunin“ sagði yfirborgarstjórinn. Þetta var löngu áður en línurnar M3 „hringlínan“ og M4, sem liggur í Norðurhöfnina, voru teknar í notkun. Á hringlínunni eru 17 stöðvar, þar á meðal Ráðhústorgið og Aðal- járnbrautarstöðin (Hovedbanegården). Á M4 línunni eru nú 8 stöðvar en árið 2024 bætast 5 nýjar stöðvar við.

Ekki ofmælt

Frank Jensen yfirborgarstjóri tók ekki of djúpt í árinni þegar hann hældi Metro í hástert. Kerfið hefur reynst vel, ferðirnar eru mjög tíðar, á hánnatíma einungis 90 sekúndur á milli lesta, annars oftast einungis 2-3 mínútur, leiðakerfið auðskilið og greiðslukerfið einfalt. Þær ganga allan sólarhringinn, ferðir eru strjálli á nóttinni. Metro lestirnar byrjuðu að renna eftir teinunum 19. október árið 2002, og slógu strax í gegn ef svo mætti að orði komast.

Leiðakerfi Metro í dag. Hringleiðin er nýjasta viðbótin við kerfið.

Daglega ferðast að jafnaði hátt í 200 þúsund manns með lestunum og fjölgar sífellt. Metro hefur margoft verið valið besta borgarlestakerfi í heimi og víða um lönd er bent á það sem fyrirmynd í þessum efnum. Mörgum, sem ekki þekkja til, þykir einkennilegt að sjá lestina bruna inn á stöðina og enginn lestarstjóri sjáanlegur. Skýringin er einföld: það er enginn stjóri og ekkert stýri, allt tölvustýrt.

Hugsuðu ekki nógu stórt

Þegar skipulagning og undirbúningur Metro lestarkerfisins byrjaði á síðasta áratug liðinnar aldar var í mörg horn að líta. Þar á meðal var spurningin um lengd lestanna og þá jafnframt brautarpallanna á stöðvunum. Um þetta atriði voru skoðanir skiptar. Á endanum var ákveðið að í hverri lest yrðu þrír vagnar, samtals 39 metrar á lengd (2.65 metrar á breidd) og lengd brautarpallanna í samræmi við það.

Auglýsing

Hámarksfjöldi í hverri lest er 306, 234 stæði og 72 sæti. Í upphafi voru hugmyndir uppi um að hafa lestirnar og brautarpallana lengri en það hefði þýtt aukinn kostnað, sem var ærinn.

Ekki voru liðin mörg ár, frá því að lestirnar voru teknar í notkun, þegar stjórnendur Metro (og margir aðrir) fóru að velta fyrir sér hvernig hægt yrði að bregðast við síauknum farþegafjölda. Mjög erfitt er að lengja brautarpallana og fjölga þannig vögnum í hverri lest. Nýir vagnar sem keyptir hafa verið eru þannig að sætin eru langs í vögnunum, en ekki þversum, þannig nýtist plássið betur. Önnur leið til að mæta fjölgun farþega er að auka ferðatíðnina. Nú klóra stjórnendur og stjórnmálamenn sér í kollinum yfir að hafa ekki verið framsýnni á sínum tíma. „Horfðum meira í peningana en á framtíðina“ sagði einn stjórnenda Metro.

Fáir trúðu á framtíðarsýnina

Eins og fyrr var getið voru fáir trúaðir á framtíðarsýn Frank Jensen yfirborgarstjóra um Metro til Malmö þegar hann, árið 2012, kynnti fyrirhugaða könnun á möguleika og hagkvæmni slíkrar tengingar. Mikil vinna var lögð í þessa könnun og í síðustu viku lá skýrsla starfshópsins fyrir, eftir 9 ára vinnu. Þegar Frank Jensen hafði séð fyrstu drög að skýrslunni árið 2018 sagði hann að sú sýn sem sig hefði dreymt um árið 2012, liti nú út fyrir að geta ræst. Frank Jensen sá fyrir sér að Kaupmannahafnarsvæðið og Suður-Skánn yrðu eitt atvinnusvæði.

„Greater Copenhagen“ Metro eða Eyrarsunds Metro. Mynd: Úr skýrslu um Eyrarsunds Metro.

Bæjar- og sveitarstjórnarmönnum Svíþjóðarmegin sundsins leist mörgum vel á hugmyndir yfirborgarstjórans en síður á þá hugmynd að kalla svæðið „Greater Copenhagen“. Svíarnir vildu tengja nafnið Eyrarsundi með einhverjum hætti. Frank Jensen sagði hinsvegar að allir þekki Kaupmannahöfn en margir hafi ekki hugmynd um „þetta Eyrarsund“ eins og hann orðaði það. Það kom ekki í hans hlut að kynna skýrsluna því hann sagði af sér, sem yfirborgarstjóri og varaformaður danskra sósíalista í október á síðasta ári vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

Allt mælir með Metro til Malmö

Í skýrslunni, sem er mjög yfirgripsmikil, er farið nákvæmlega yfir kosti þess að leggja Metro milli borganna tveggja, Kaupmannahafnar og Malmö.

Því starfsfólki sem býr á svæðinu, og gæti komist frá heimili til vinnu á innan við klukkustund, myndi fjölga um að minnsta kosti hálfa milljón frá því sem nú er og verða að minnsta kosti 1,3 milljónir.

Ferðatíminn milli Kaupmannahafnar og Malmö styttist úr 40 mínútum í 23 mínútur og það sem skiptir meira máli í þessu samhengi er að ferðatíðnin verður miklu meiri. Gert er ráð fyrir að Metro lest bruni af stað með 90 sekúndna millibili, í báðar áttir.

Femern tengingin, yfir samnefnt sund milli Danmerkur og Þýskalands, verður, ef áætlanir standast, tekin í notkun árið 2029. Hún styttir ferðatímann til Mið- og Suður Evrópu og það hefur í för með sér aukna fragtflutninga frá Noregi og Svíþjóð um Danmörku. Fyrirséð er að „flöskuháls“ muni, að óbreyttu, myndast við Eyrarsundsbrúna, milli Danmerkur og Svíþjóðar, hún er nefnilega brátt komin að þolmörkum, hvað lestirnar varðar.

Svona líta hugmyndirnar út um Metro tengingu Amager og Malmö. Mynd: Úr skýrslu um Eyrarsunds Metro.

Í þessu sambandi er rétt að nefna að samkvæmt markmiðum Evrópusambandsins eiga 30% af öllum vörum sem fluttar eru lengri vegalengd en 300 kílómetra að fara fram með lestum, eða skipum.

Með tilkomu Metro tengingar yfir sundið myndi ferðum „hefðbundinna“ lesta yfir sundið fækka og það minnkar álagið á járnbrautarteinana á Eyrarsundsbrúnni.

Metrogöng undir sundið

Gert er ráð fyrir að gerð verði göng undir Eyrarsund fyrir Metro lestirnar. Þau verða fyrir norðan Eyrarsundsbrúna, um það bil 22 kílómetra löng frá strönd til strandar og eiga að liggja frá norðurhluta Amager til aðaljárnbrautarstöðvarinnar í Malmö.

Kostnaðaráætlun þessarar miklu framkvæmdar hljóðar upp á 30 milljarða danskra króna (591 milljarð íslenskra króna). Gert er ráð fyrir því í skýrslu starfshópsins að verkið verði fjármagnað með langtímalánum sem greidd verði með fargjöldum notendanna. Ennfremur er gert ráð fyrir sérstökum styrkjum úr framkvæmdasjóðum Evrópusambandsins.

Hvenær?

Skýrslan áðurnefnda er einungis fyrsta, en jafnframt mikilvægt, skref í hugsanlegri Metro tengingu yfir Eyrarsund. Ef samkomulag tekst um að ráðast í framkvæmdina og ljúka formsatriðum eigi síðar en árið 2025, gætu framkvæmdir hafist árið 2029. Þær gætu tekið sex ár og lokið árið 2035.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Radíó Efling
Radíó Efling
Radíó Efling – Heimsmet í skerðingum
Kjarninn 25. júní 2021
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar