Kaflaskil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum?

Ríkjum heims hefur gengið treglega að uppfylla sáttmála um minni kolefnislosun. Nú kann að verða breyting á vegna harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína og þess að fjárfestingar í grænni tækni aukast hratt og örugglega.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Auglýsing

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna flutti nýlega ávarp þar sem hann lagði áherslu á nauðsyn þess að Bandaríkjamenn myndu taka forystu og verða leiðandi í loftslagsmálum – þar væri framtíð jarðarinnar í húfi. En það fælust einnig í því mikil tækifæri til að skapa góð störf fyrir komandi kynslóðir og sanngjarnt, heilbrigt og sjálfbært samfélag. Þetta eru háleit markmið eins og við er að búast frá nýjum ráðherra og spyrja má hvort þetta sé eitthvað meira en bara orðin tóm.

Þegar almenningur, fyrirtæki og hið opinbera stendur frammi fyrir því að mæta kröfum um umhverfisvernd og sjálfbærni vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar, er margt sem stendur í veginum. Það kostar tíma, fyrirhöfn og fjármuni að taka upp nýja starfs- og lifnaðarhætti, með minni útblæstri, mengun og kolefnisspori, flokkun sorps og úrgangs o.s.frv. Þrátt fyrir viðleitni á öllum sviðum samfélagsins, allt frá einstaklingum sem breyta kauphegðun til alþjóðasamstarfs um loftslagsmál, hefur staðið á nægilega róttækum viðbrögðum. Svo virðist að þar til beinn áþreifanlegur hagnaður af umbreytingunum er í augsýn verði aðgerðir hálf máttlitlar.

Umhverfismál verða stórveldastjórnmál

Gjarnan er talað um stórveldastjórnmál í neikvæðu ljósi, sem er eðlilegt því að þar sýna hin öflugri ríki oft vald sitt án þess að þurfa að svara fyrir afleiðingarnar. En baráttunni gegn loftslagsbreytingum hefur borist liðsauki úr óvæntri átt því að loftslagsmál eru farin að vera hluti af stórveldastjórnmálum – komin á dagskrá sem grundvallarmál í samkeppni um völd. Bandaríkin horfa nú fram á að Kína verði sífellt öflugri keppinautur um forystu í heiminum. Antony Blinken segir í fyrrnefndu ávarpi erfitt að sjá fyrir sér að Bandaríkin geti unnið þá samkeppni ef þau leiði ekki byltinguna í endurnýjanlegum orkugjöfum og segir þau vera að dragast aftur úr. Kína sé stærsti framleiðandi og útflytjandi heims á sólarsellum, vindmyllum, rafhlöðum og rafbílum og eigi næstum þriðjung einkaleyfa í endurnýjanlegri orku.

Blinken sagði jafnframt að ekki beri að líta á loftslagsbreytingar eingöngu sem ógn því að hvert og eitt ríki þurfi að gera tvennt: draga úr losun og búa sig undir óhjákvæmileg áhrif af loftslagsbreytingum. Þetta kalli á tæknilegar úrlausnir. Bandarísk nýsköpun og iðnaður geti þarna verið í fararbroddi á báðum vígstöðvum og hann vitnar í orð Joes Biden: „Þegar ég hugsa um loftslagsbreytingar hugsa ég um störf.“

Þetta kann að hljóma eins og dæmigerð innihaldslaus og jafnvel taktlaus yfirlýsing en nú er ýmislegt sem bendir til þess að landslagið sé að breytast og þetta sé raunsætt mat sem gæti haft afgerandi áhrif á þróun mála.

Umbreyting í áhættufjárfestingum

Það sem hefur staðið áhættufjárfestingum í grænum verkefnum fyrir þrifum er hin nýja óreynda tækni og hversu langur tími getur liðið þar til fjárfestingin skilar arði, en flestir vilja sjá ávöxtun eftir fimm til sjö ár. Nú eru merki um að fjárfestar séu í meira mæli tilbúnir til fjárfestinga í grænum verkefnum en áður. Orkufyrirtæki sem þróa grænar lausnir í orkuvinnslu og geymslu njóta nú t.d. stuðnings áhættufjárfesta eins og sjóða í eigu Bills Gates eða úr olíugeiranum. Þetta endurspeglar eðli þróunar græna markaðarins í áhættufjárfestingum.

Árið 2019 var fjárfesting sem tengdist grænum verkefnum á heimsvísu um 36 milljarðar dollara og hafði meira en tvöfaldast frá árinu 2015. Helmingurinn rann til sprotafyrirtækja í Norður Ameríku en í Kína var hluturinn á bilinu 15 til 30 prósent, allt eftir því hvernig greinin er skilgreind og í Evrópu um 15 af hundraði. Að sögn Bills Gates ætti þetta að ýta undir nýsköpun og vonandi lækka hlutfallslegan kostnað loftslagsvænnar tækni, jafnvel án þess að koma þurfi til íþyngjandi aðgerða stjórnvalda gagnvart mengandi iðnaði. Hann leggur áherslu á að þetta þurfi að gerast í öllu iðnaðarhagkerfinu, ekki einungis í orku- og flutningageiranum.

Auglýsing

Áhættufjárfestingar í grænum verkefnum hafa verið brokkgengar en í lok fyrsta áratugar aldarinnar varð mikil uppsveifla og síðan hrun. Ein ástæðan var sú að áhættufjárfestingarsjóðir notuðu fjármögnunarlíkan sem var hannað fyrir hugbúnaðarfyrirtæki á fyrirtæki sem framleiða eiginlegar vörur, aðallega sólarsellur og lífeldsneyti. Slík fyrirtæki þurfa langan tíma og mikið fjármagn áður en þau fara að skila tekjum og mörg fyrirtæki fóru á hausinn. Fjárfestar töpuðu þar meira en helmingi þeirra 25 milljarða Bandaríkjadala sem þeir höfðu lagt til og héldu að sér höndum í kjölfarið.

Nú verður svið grænnar tækni og þróunar sífellt fjölbreyttara með fleiri fjárfestingarkostum og fjármagn aftur tekið að streyma, en um það bil helmingur viðskipta snýst um kolefnislausar samgöngur. Einn hvatinn að því er gengi Tesla en árið 2004 keypti Elon Musk 14 prósenta hlut í rafbílaframleiðandanum fyrir 6,5 milljónir Bandaríkjadala. Sex árum síðar fór fyrirtækið á markað og er í dag 385 milljarða dollara virði, mun meira en nokkur annar bílaframleiðandi. Bara hlutur Elons Musk er 72 milljarða virði, sem er hátt í samanlagt virði bílaframleiðendanna General Motors og Ford.

Eignasöfn í grænum fyrirtækjum hafa jafnframt hækkað mjög hratt í verði að undanförnu, sum meira en tvöfaldast á rúmu ári. Þetta eru m.a. fjárfestingar sem beinast að sjóðum sem byggja á samfélagsábyrgð – UFS (e. En­vironmental-Social-Go­vern­ance) sem stend­ur fyr­ir þætti í rekstri sem tengj­ast um­hverfi, fé­lags­leg­um þátt­um og stjórn­ar­hátt­um. Á heimsvísu var fjárfesting í slíkum UFS-sjóðum um 178 milljarðar dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 38 milljarða á sama ársfjórðungi í fyrra.

Hefðbundnir fjárfestingarsjóðir hafa einnig snúið sér að grænum fjárfestingum. Ef skoðaðar eru eignir í tilteknum fyrirtækjum með hreina orku þá voru í lok árs 2020 að jafnaði 138 sjálfbærir sjóðir á bak við hvert fyrirtæki samanborið við 81 ári áður. Fjöldi eigenda utan UFS-staðla jókst einnig úr 390 í 624. Að sögn sérfræðinga er fjárfesting í hreinni orku að verða hluti af hefðbundnum fjárfestingum og er ekki lengur einhverskonar gæluverkefni einstakra sérhæfðra sjóða.

Björninn er ekki unninn

Það gæti þó verið varasamt að líta á þessa miklu aukningu í grænni fjárfestingu sem varanlega. Fjármálamarkaðir hafa tilhneigingu til að fara upp og niður, fjárfestingar í tilteknum geirum komast í tísku og markaðurinn einkennist af froðu sem á endanum myndar bólu – sem síðan springur.

Að sama skapi kynni einhver að draga í efa að ný stjórn í Bandaríkjunum breyti miklu til framtíðar því það gæti verið komin ný stjórn innan fárra ára sem sneri aftur til stefnu Donalds Trump. Sú stefna gefur grænum lausnum við að takmarka kolefnislosun langt nef, afgreiðir þær sem einhverja draumóra og þar fær þungaiðnaður knúinn jarðefnaeldsneyti frekar brautargengi.

Talið er að kostnaður ríkja heims af því að mistakast að efna Parísarsáttmálann um róttæka stefnubreytingu í losun gróðurhúsalofttegunda, gæti numið allt að 600 billjónum dollara – 600 þúsund milljörðum.

Slík stefna heldur enn velli víða og mörg ríki heims eiga langt í land með að ná settum markmiðum, m.a. Íslendingar. Samkvæmt Parísarsáttmálanum árið 2015 hétu ríkin því að dragar úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis til að halda hækkun hitastigs á jörðinni undir tveimur gráðum. Nú þegar meðalhiti hefur hækkað um eina gráðu frá byrjun iðnbyltingar eru afleiðingarnar þegar orðnar geigvænlegar, með hitabylgjum, þurrkum, skógareldum og óveðursbylgjum sem versna vegna hækkandi sjávarborðs. Ennþá halda ríki áfram að losa gróðurhúsalofttegundir sem með sama áframhaldi myndi valda milli 3–4 gráðu hækkun hitastigs í lok aldarinnar.

Því er einmitt haldið fram að mesta hindrunin sé af pólitískum toga því þarna snýst málið um að snúa við stefnu sem í mörgum tilfellum snertir grundvallaratvinnuvegi viðkomandi ríkja og lífsafkomu heilla samfélaga. Þetta eru ákvarðanir sem fram að þessu hafa snúist um óljósan framtíðarávinning þegar stjórnmálamenn hallast frekar að stefnumörkun sem gefur skjótari ávinning og kemur kjósendum í nærumhverfi til góða.

Grundvallarbreyting að verða

Allt bendir hins vegar til þess að nú sé að verða grundvallarstefnubreyting sem verði ekki viðsnúið. Afleiðingar loftslagsbreytinga og mengunar eru að verða áþreifanlegar og einnig sá hagnaður sem má uppskera af því að koma í veg fyrir hina neikvæðu þróun. Samfara því eru fjárfestar farnir að sjá áhættufjárfestingar í grænum verkefnum sem álitlegan kost og merki eru um að það sé ekki eingöngu bundið við sess-fjárfesta (e. niche investors) heldur sé hluti af fjárfestingarstefnu venjulegra fjárfestingarsjóða. Að sama skapi bendir einnig ýmislegt til þess að þrátt fyrir að ekki megi treysta til lengdar á þá sprengingu sem hefur orðið í fjárfestingum í grænum verkefnum undanfarin ár, sé ekki um tískufyrirbrigði og bólu að ræða heldur marki þetta upphaf að vexti til lengri tíma.

Talið er að kostnaður ríkja heims af því að mistakast að efna Parísarsáttmálann um róttæka stefnubreytingu í losun gróðurhúsalofttegunda, gæti numið allt að 600 billjónum dollara – 600 þúsund milljörðum. Það er svo há upphæð að erfitt er að átta sig á henni og er einmitt kannski bara tölur á blaði – og hingað til hafa slíkar tölur ekki hreyft við fólki. En nú þegar fyrirtæki sjá orðið hag af umbreytingunum og grundvallarstefnubreyting er að verða hjá stórum ríkjum eins og Bandaríkjunum og Kína – sem keppa munu um forystuhlutverk í heiminum – má búast við að stefnubreyting í baráttunni gegn loftslagsbreytingum gæti orðið markvissari og því skilað meiri árangri en fram að þessu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Radíó Efling
Radíó Efling
Radíó Efling – Heimsmet í skerðingum
Kjarninn 25. júní 2021
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar