Af hverju vilja Rússar alltaf vera í vörn?

Bandaríkjamenn og Rússar reyna nú að koma samskiptum ríkjanna í samt lag. Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítinn áhuga á því að Rússland verði lýðræðissamfélag eftir höfði Vesturlanda – styrkur þess liggi í að vera óútreiknanlegt herveldi.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Auglýsing

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútín forseti Rússlands munu hittast til viðræðna í Genf í Sviss á miðvikudaginn. Ekki er líklegt að fundurinn valdi neinum straumhvörfum í samskiptum ríkjanna en þau hafa verið mjög stirð að undanförnu. Donald Trump hafði hreinlega hampað Pútín og því þurfti Biden að marka afgerandi stefnu til að aðgreina sig frá forvera sínum með hertum aðgerðum gagnvart Rússum. Biden og Pútín þekkjast frá fyrri tíð, er sá fyrrnefndi var varaforseti Bandaríkjanna og hefur látið í ljós að hann hafi ekkert allt of mikið álit á Rússlandsleiðtoganum.

Stirð samskipti við Bandaríkin

Rússland, sem var burðarríkið í Sovétríkjunum, tók hikandi skref í átt að opnara samfélagi og markaðshagkerfi á tíunda áratugnum. Þau skref hafa velflest verið stigin til baka, sér í lagi eftir að Pútín tók aftur við forsetaembætti árið 2012. Rússnesk stjórnvöld hafa í tíð Pútíns spyrnt við fótum gagnvart hinni vestrænu alþjóðavæðingu sem þeim hefur þótt flæða full hratt yfir með kröfum um aukið lýðræði og opið samfélag.

Þetta á einnig við um fyrrum lýðveldi heimsveldisins fyrrverandi eins og Hvíta Rússland og Úkraínu, sem mynda einskonar brjóstvörn gagnvart Vesturlöndum í hugum þeirra sem fylgja Pútín að málum. Frekari þróun í átt að vestrænum gildum ógnar þannig augljóslega stöðu Rússlands að þeirra mati, og afleiðingin er að landið hefur hrokkið til baka til einræðislegra stjórnarhátta fyrri tíma.

Auglýsing

Bandaríkjamenn hafa hert refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna ýmissa saka; afskipta af kosningum, ofsókna og jafnvel morðtilrauna gagnvart aðgerðasinnum, andófsfólki og rússneskum blaðamönnum, þar á meðal Alexei Navalny sem nú er í fangelsi, netárása víða um heim, og yfirgangs í Úkraínu og víðar. Rússar hafa aftur á móti gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir að hafa blandað sér í innanríkismál sín og ógnað alþjóðlegum stöðugleika.

Það er því af nógu að taka ef bæta á samskipti ríkjanna tveggja. Pútín segist ganga út frá því þeir Biden verði að reyna að finna leiðir til að bæta tvíhliða samskipti ríkjanna sem hann segir hafa verið í lágmarki. Pútín segir einnig þurfa að ræða strategískan stöðugleika milli ríkjanna, lausnir vegna helstu átakasvæða heimsins, baráttuna gegn hryðjuverkum, við heimsfaraldurinn og umhverfismál. Hann kveðst ekki búast við afgerandi árangri á fundinum í Genf en hann gæti orðið byrjunin að því að koma samskiptum ríkjanna í réttan farveg.

Vestræn áhrif – Pútín nýtir sér og kyndir undir þjóðernishyggju

Þegar fjallað er um alþjóðasamskipti er jafnan talað um að aðgreina yfirlýsingar sem séu til heimabrúks. Þá tala stjórnmálamenn á tiltekinn máta til hópa innanlands sem oft er fjarri raunveruleikanum í alþjóðlegu samhengi – oft til að styrkja stöðu sína eða koma höggi á andstæðinga. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar Rússland er annars vegar því þar ríkir mikil þjóðernishyggja sem stjórnvöld reyna að efla enn frekar með hörðum yfirlýsingum. Þar birtist sú mynd að Rússland og hin rússneska þjóð eigi í vök að verjast gegn ýmiskonar ógn, sér í lagi þeirri sem kemur frá Vesturlöndum.

Pútín hefur stjórnað að hætti einvalds undanfarin 20 ár og haldið á lofti þeirri hugmynd að með ágangi Vesturlanda sé í húfi einhverskonar guðleg arfleifð Rússlands. Pútín hefur í ræðum sett sjálfan sig í sögulegt samhengi, látið í það skína að hann sé heilagur Vladimir prins endurborinn, sá sem sameinaði hið forna ríki Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu á tíundu öld. Þessi tvö fyrrum Sovétlýðveldi hafa því ákveðna sérstöðu hjá Rússum og hvað sem alþjóðalögum um fullveldisrétt ríkja líður þá líta þeir svo á að þessi ríki tilheyri í raun Rússlandi.

Pútín á því dyggan stuðning innan tiltekins hóps, sem lítur á hann sem verndara Rússlands, þjóðarinnar og hinna sönnu rússnesku gilda. Með slíkri orðræðu – sem auðvitað hefur viðgengist lengi þó hún hafi verið á aðeins öðrum forsendum á tímum Sovétríkjanna – hefur þessum hópi verið talin trú um að vestræn menning sé á einhvern hátt óhrein og úrkynjuð. Nái hún útbreiðslu í Rússlandi þýði það hnignun þjóðarinnar.

Vestrænt lýðræði geti m.a. af sér samkynhneigð, úrkynjun og óeðli með auknum réttindum kvenna og hin- og kynsegin fólks – en samkvæmt opinberri stefnu þá er samkynhneigð ekki til í Rússlandi. Andstæðan og svarið við þessu er sönn karlmennska, eins og sú sem Pútín sýnir gjarnan. Pútín hefur þannig gert sjálfan sig að lykilmanni í þessari baráttu og beitir óspart gamalreyndum aðferðum til að sverta óvini ríkisins og þjóðarinnar, sem hann muni síðan veita vernd gegn.

Pútín hefur ítrekað reynt að viðhalda karlmennskuímynd sinni, meðal annars með því að láta mynda sig beran að ofan við veiðar. Mynd: Alexey Nikolsky/Getty.

Þarna þarf líka að skoða hugtökin þjóð og ríki í öðru ljósi en t.d. almennt á Vesturlöndum því að mörkin milli ríkisvaldsins og þjóðarinnar eru ógreinilegri í því fasíska stjórnarfari sem Pútín hefur innleitt. Jafnframt er einstaklingurinn minna metinn því hann tilheyrir þjóð sem hefur göfugri tilgang en hans eigin hagsmuni.

Hin eilífa ógn er grundvöllur valdakerfisins og sæti við borð stórveldanna

Rússum finnst þeir vera í varnarstöðu, eins og þeir hafa í raun löngum verið, því er þjóðhollusta og öryggi Rússlands grundvallaratriði í þjóðarsálinni – sé slíkt fyrirbæri til. Rússar byggja tilvist, framtíð og styrk ríkisins á hernaðarmætti sem verður þá hluti af karlmennskuímyndinni sem Pútín leggur áherslu á.

Þarna er mjög mikilvægt að hafa í huga að Rússar eru í bráð ekkert að fara að vera til friðs og reyna að aðlaga sig hinum vestræna hugsunarhætti. Þeir eru annað mesta hernaðarveldi heims og styrkur þeirra liggur í hernaðarmættinum þar sem kjarnorkuvopn liggja til grundvallar. Ekki einungis á táknrænan og óbeinan hátt heldur eru kjarnorkuvopn beinlínis hluti af hernaðar- og varnaráætlun Rússlands.

Það þjónar því rússneskum hagsmunum vel að vera í þessari varnarstöðu, sem kallar á að hnykla vöðvana, sýna hernaðarmátt og tryggja Rússum þannig sæti við borð stórveldanna. En þeir sjá einnig að með markvissri beitingu fjölþáttahernaðar geti þeir valdið usla og óróa og grafið undan keppinautum og óvinum en jafnframt stutt stjórnmálaöfl til valda sem eru hliðholl Rússum – hvort sem það er í Bandaríkjunum eða á Balkanskaga.

Þeir nota Hvíta-Rússland, hvar Lúkasjenkó forseti er algerlega undir hælnum á stjórnvöldum í Kreml, sem tilraunastofu til að sjá hversu langt þeir geta gengið. Má þar nefna þegar farþegaþotunni var snúið til Minsk þar sem blaðamaðurinn Roman Protasevich var handtekinn. Rússar segjast jafnframt vera að verjast yfirgangi Vesturlanda og nota gjarnan afsökunina: þið Bandaríkjamenn gerið svona, af hverju ættum við ekki alveg eins að mega það?

Þeir vilja samt sem áður halda opnum samskiptum við Bandaríkin á hefðbundnum stórveldagrunni því Rússar líta svo á að það séu í raun bara stórveldin sem skipti máli þegar fullveldi ríkja er annars vegar.

Rússar vilja halda áhrifum í fyrrum lýðveldum – skortir mjúkt vald?

Nú telja Rússar sig sjálfkjörna sem forysturíki á svæðinu sem áður tilheyrði Sovétríkjunum, og þeir vilja reyna að líma saman aftur að einhverju leyti. Þeir telja mikilvægt að halda áhrifum í þessum ríkjum, sem hafa veitt þeim ákveðið landfræðilegt skjól. Til þess hafa þeir beitt aflsmunum, en ef vel ætti að vera þyrftu Rússar miklu fremur að vera aðlaðandi í augum þessara fyrrum Sovétlýðvelda – sem Rússar kalla útlönd nær.

Til þess skortir þá þó efnahagslegan styrk en öðru máli gegnir um svæði og ríki eins og Evrópusambandið og Kína sem þessi fyrrum Sovétlýðveldi laðast sum frekar að. Rússar eiga þó heilmikið inni þegar kemur að mjúku valdi. Þeir eiga ríka menningarsögu, hvort sem það er á sviði alþýðumenningar eða í hámenningu, tónlist, bókmenntum eða ballet – og hafa einnig allar forsendur til að vera meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að efnahagslegri velsæld.

Núverandi stjórnvöld virðast þó ekki sjá þann flöt á málinu, að með því að efla slíka þætti og tefla fram á alþjóðavettvangi, gæti það orðið til að styrkja stöðu Rússa – bæði gagnvart fyrrum Sovétlýðveldum og umheiminum almennt.

Rússar vilja verja „status quo“ ástand í valdakerfi heimsins, þar sem hin voldugu ríki fara fram í krafti aflsmuna, og standa vörð um íhaldssöm gildi fortíðarinnar. Rússland er einungis ellefta stærsta hagkerfi heims en Rússar reyna með stefnu sinni að viðhalda stöðu sinni sem heimsveldi sem í raun er ekki innistæða fyrir. Eftir því sem alþjóðakerfið hefur þróast og vægi alþjóðasamstarfs hefur orðið meira þá er þetta stefna og framkoma sem verður sífellt erfiðara að halda til streitu.

Hafa Rússar ástæðu til að vantreysta Vesturlöndum?

Rússar hafa ýmsar sögulegar ástæður til að vantreysta Vesturlöndum og vera á varðbergi. Rússland hefur mátt þola innrásir og stríð allt frá innrás Mongóla á þrettándu öld, Frakka undir stjórn Napóleons á þeirri nítjándu eða Þjóðverja á þeirri tuttugustu, svo þær helstu séu nefndar. Rússneska sambandsríkið er víðfeðmt og þó ekki séu yfirvofandi nein afdrifarík skref ríkja innan þess í átt til sjálfstæðis er ekki sjálfsagt mál að það haldist í heilu lagi.

Rússum kann að hafa fundist vestrið koma af full miklum þunga og tillitsleysi í fangið á þeim eftir að Sovétríkin leystust upp. M.a. hefur lengi vel sú orðræða viðgengist að við lok kalda stríðsins hafi vesturveldin svikið gefin loforð um að NATO myndi ekki verða stækkað meira til austurs en út að landamærum sameinaðs Þýskalands. Rússar hafa haldið þessu á lofti til vitnis um að ekki sé hægt að treysta NATO-ríkjunum og orðræðan virðist hafa náð talsverðri fótfestu, m.a. meðal ráðamanna í Vestur-Evrópu.

Staðreyndin er hins vegar sú að eftir að Sovétríkin liðu undir lok var lítill vilji meðal ráðamanna í Rússlandi, sem þó var í raun arftaki Sovétríkjanna, til að setja fyrrum lýðveldum nein mörk. Rússland vildi þvert á móti aðgreina sig frá hinu sorglega tímabili sem þarna var lokið og Parísarsamningurinn árið 1990 sem Rússar undirrituðu, kvað á um að hin nýfrjálsu lýðveldi hefðu fullt frelsi til að haga sínum öryggismálum að vild.

Rússar hafa líklega óþarfar áhyggjur af hernaðarógn frá Vesturlöndum því það er engin hernaðarleg innrás yfirvofandi þaðan sem stendur. Málið snýst um tilkall þeirra til yfirráða í sjálfstæðum og fullvalda ríkjum – fyrrum Sovétlýðveldum sem mynduðu kragann í kringum Rússland. Ef reynt er að koma auga á einhverja raunverulega hernaðarlega ógn sem steðjar að rússneska sambandsríkinu þá kæmi hún frekar að austan, frá Kína sem er álíka ófyrirleitið og Rússland þegar kemur að því að eigna sér yfirráðasvæði.

Andstaða við Pútín – átök í aðsigi?

Stuðningur við Pútín hefur dvínað talsvert á undanförnum árum en hann hefur áður lent í hremmingum, m.a. í kosningunum 2011 og 2012 þegar hann varð uppvís að svindli. Nú hefur hrikt meira í stoðunum, má þar nefna mótmæli sem hafa harðnað vegna Navalny-málsins. Pútín hefur því verið að herða tökin á mótmælendum og varðhaldshúsnæði verið vel nýtt. Þeir sem gagnrýna stjórnvöld hafa verið skilgreindir sem erlendir erindrekar sem gefur stjórnvöldum aukin völd til að hefta starfsemina samkvæmt rússneskum lögum. Jafnframt hafa tilraunir til að miðstýra efnahagslífinu valdið óánægju sem svo enn eykur spennu og óróa.

Alexei Navalny, einn þekktasti andstæðingur ríkisstjórnar Rússlands. Mynd: EPA.

Þótt Rússum vegni að mörgu leyti betur og líti bjartari augum á framtíðina en áður eru möguleikar landsins vannýttir. Viðskiptaþvinganir sem settar voru í kjölfar innlimunar Krímskaga 2014 hafa haft hamlandi áhrif. Það er fólksflótti úr hinum dreifðu byggðum, 30 þúsund smábæir og þorp hafa tæmst, 7–800 flugvöllum verið lokað. Pútín tók ekki við góðu búi en lengst af hefur lítil innviðauppbygging þó átt sér stað. Hann hefur sannfært fólk að ekki sé gott að eiga of mikið samstarf við Vesturlönd og nýtt ástandið til að blása innlendum frumkvöðlum baráttuanda í brjóst og lagt áherslu á að ástandið sé áskorun fyrir þá.

Í háskólasamfélaginu gengur því allt út á að sýna að þar dafni framúrskarandi þekking og hátækniþróun. Hins vegar hefur gagnrýnni hugsun og tengslum við stjórnmálastarf verið kerfisbundið haldið niðri. Þar er ástandið þrúgandi því fólk er hrætt við ganga fram fyrir skjöldu af ótta við ofsóknir. Rússneskt samfélag er þó líklega mun kraftmeira og skapandi en Vesturlandabúar átta sig á. En um leið og það þróast og vill verða nútímalegra horfir ríkisstjórn Pútíns til fortíðar – þar er átakalínan dregin.

Þegar öllu er á botninn hvolft er stærsta áskorunin sú að leiðtogar Rússlands í dag eru í raun fangar gamaldags hugsunarháttar, þjakaðir af minnimáttarkennd og bjóða ekki upp á raunverulega framtíðarsýn. Hræddir við Vesturlönd, hræddir við Kína, hræddir við konur, hræddir við hin- og kynsegin fólk, hræddir við gagnrýni, hræddir við frelsi og þar með hræddir við framfarir.

Þetta heftir nýsköpun og efnahagsvanda á helst að leysa með auknum borunum eftir jarðefnaeldsneyti á Norðurslóðum. Jafnvel framúrskarandi þekking á innviðum internetsins og samfélagsmiðla er nýtt til niðurrifs og neikvæðra áhrifa. Meira að segja herveldið Rússland byggir styrk sinn frekar á forherðingu og miskunnarleysi, en raunverulegri herkænsku og lagni.

Erfitt að segja hvernig fer, hvort og hvenær muni sjóða upp úr. Þeir sem halda um stjórntaumana núna ólust upp á tímum Brésnévs sem sendi andófsmenn í Gúlagið. Ef þeir halda að hægt sé að hafa stjórn á samfélaginu með ógnarstjórn, óeirðalögreglu, handtökum og fangelsunum eru þeir líklega að misreikna stöðuna. Það er því ekki ólíklegt að haldi þessi þróun áfram, þar sem Pútín herðir tökin, muni sverfa til stáls og tekist verði harkalega á um framtíð rússnesks samfélags. Framtíðin kemur nefnilega, sama hversu fast er haldið í fortíðina.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar