Skuggar fortíðar í stúlknakórnum

Michael Bojesen, einn þekktasti hljómsveitarstjóri Danmerkur og núverandi forstjóri Malmö óperunnar er kominn í ótímabundið leyfi. Ástæðan er frásagnir stúlkna sem voru í Stúlknakór danska útvarpsins undir hans stjórn frá 2001 – 2010.

Pigekoret, stúlknakór danska ríkisútvarpsins, með núverandi kórstjóra.
Pigekoret, stúlknakór danska ríkisútvarpsins, með núverandi kórstjóra.
Auglýsing

Fyrir rúmri viku, laug­ar­dag­inn 5. júní, birti dag­blaðið Politi­ken langa umfjöllun um Stúlkna­kór danska útvarps­ins, Pig­ekor­et. Umfjöllun blaðs­ins vakti mikla athygli og nær allir danskir fjöl­miðlar greindu frá umfjöllun blaðs­ins og því sem þar kom fram.

Kór­inn var stofn­aður árið 1938, hét þá Radi­opig­ekoret en síðar var nafn­inu breytt í DR pig­ekor­et. Eins og nafnið gefur til kynna er kór­inn ein­göngu skip­aður stúlk­um, á aldr­inum 15 – 22 ára, dæmi eru þó um að stúlkur niður í 13 ára gamlar hafi sungið í kórn­um. Að jafn­aði eru 50 stúlkur í kórn­um, flestar þeirra hafa áður sungið í einum eða fleirum þeirra þriggja kóra sem til­heyra kór­skóla danska útvarps­ins, fyrir yngri stúlk­ur. Mjög eft­ir­sótt er að kom­ast í stúlkna­kór­inn, sem er virtur og mik­ils met­inn, langt út fyrir danska land­steina. Að jafn­aði heldur kór­inn árlega í kringum 60 tón­leika, flesta í heima­land­inu. Einnig ferð­ast kór­inn til ann­arra landa til tón­leika­halds enda mjög eft­ir­sótt­ur. Líf stúlkn­anna snýst að veru­legu leyti um kór­starfið og það sem því til­heyr­ir.

Sex stjórn­endur

Frá stofnun kórs­ins árið 1938 hafa aðeins sex stjórn­end­ur, allt karl­ar, haldið um tón­sprot­ann. Einn þeirra, Tage Morten­sen, stjórn­aði kórnum í 35 ár, frá 1966 – 2001. Þá tók Mich­ael Bojesen við stjórn­inni, hann hélt um sprot­ann til árs­ins 2010. Núver­andi stjórn­andi Philip Faber tók við sem stjórn­andi árið 2013.

Auglýsing

Gátu ekki þagað lengur

Fyrir nokkru hafði fyrr­ver­andi félagi í kórn­um, kona sem nú er rúm­lega þrí­tug, sam­band við blaða­mann dag­blaðs­ins Politi­ken, og sagði frá því sem hún kall­aði „leynd­ar­málið í stúlkna­kórn­um“, í tíð Mich­ael Bojesen. Blaða­mað­ur­inn spurði strax hvort fleiri sem voru í kórnum gætu stað­fest frá­sögn henn­ar. „Hvað viltu fá mörg nöfn“ var svar­ið. Í fram­haldi af þessu sím­tali komst blaða­mað­ur­inn í sam­band við á annan tug kvenna sem verið höfðu í kórnum á ára­bil­inu 2001 – 2010. Þær höfðu allar sömu sögu að segja. „Af hverju viljið þið tala núna“ spurði blaða­maður Politi­ken. „Við getum ekki þagað leng­ur“ sögðu kon­urnar og sögðu að þegar þær voru í kórnum hefðu þær verið ungar og ekki þorað að gera, eða segja, neitt af ótta við að það myndi skaða fram­tíð þeirra í kórn­um.

Mich­ael Bojesen

Michael Bojesen, fyrrum kórstjóri stúlknakórs DR. Mynd: Lars Skaaning.

Eins og nefnt var hér að framan tók Mich­ael Bojesen við stjórn Stúlkna­kórs­ins árið 2001. Hann var fer­tugur að aldri, vel mennt­aður og reyndur kór­stjórn­andi. Mich­ael Bojesen tók við góðu búi af Tage Morten­sen, sem á sínum 35 kór­stjóra­árum skap­aði kórnum þann virð­ing­ar­sess sem hann nýtur nú. Danskir fjöl­miðlar töl­uðu um nýtt blóð og ferska vinda sem fylgdu nýjum stjórn­anda en hrósuðu jafn­framt Tage Morten­sen í hástert fyrir hans mikla starf.

Útlitið og klæðn­að­ur­inn skipti máli

Fljót­lega eftir að Mich­ael Bojesen tók við stjórn kórs­ins töldu margar stúlkn­anna sig skynja ákveðna breyt­ingu. Hún sneri ekki að söng og laga­vali, þar varð engin breyt­ing.

Vegna þess að kór­inn er ald­urs­bland­að­ur, stúlk­urnar á aldr­inum 15 – 22 ára end­ur­nýj­ast hluti kórs­ins nán­ast árlega.

Stúlkur sem sóttu um að kom­ast í kór­inn, og líka þær sem fyrir voru, veittu því athygli að eftir að Mich­ael Bojesen tók við stjórn­inni breytt­ist eitt­hvað. Þeim fannst sem þær væru skyndi­lega komnar inn í ein­hvers­konar „karla­klúbb“, orðnar stúlk­urnar hans Mich­ael. Það var skyndi­lega orðin aukin áhersla á útlitið og klæðn­að­inn. Ein þeirra sem Politi­ken tal­aði við sagði greini­legt að Mich­ael Bojesen hefði veitt þeim stúlkum sem voru djarfari í klæða­burði meiri athygli. Sama hefði gilt um gesta­söngv­ara sem unnu með kórn­um. „Það var verið að reyna að ýta okkur út í að vera ein­hvers­konar kyn­tákn, okkur sem vorum vart af barns­aldri. Það fór ekki fram hjá okkur að athygli gesta­söngv­ar­anna beind­ist að þeim okkar sem voru djarfari í klæða­burð­i.“

Ekki hlustað á kvart­anir

Þegar stúlk­urnar fóru að tala um þessi mál heima fyrir var for­eldr­unum brugð­ið. Nokkrir þeirra kvört­uðu til yfir­stjórnar kórs­ins en það bar engan árang­ur. Einn við­mæl­andi Politi­ken sagð­ist hafa fundið andúð stjórn­and­ans þegar hann vissi að for­eldrar sínir hefðu kvart­að. Hún gafst á end­anum upp og hætti í kórn­um. Önnur stúlka, 17 ára, kvart­aði til yfir­stjórn­ar­innar eftir að hún hafði séð skila­boð sem stjórn­and­inn sendi jafn­öldru henn­ar.

Íslands­ferðin

Eins og áður sagði tók Mich­ael Bojesen við stjórn kórs­ins árið 2001. Hann hafði reyndar stjórnað kórnum á jólatón­leik­unum 2020 vegna veik­inda Tage Morten­sen. Meðal fyrstu verk­efna kórs­ins undir stjórn Mich­ael Bojesen var tón­leika­ferð til Íslands vorið 2001. Þar söng kór­inn meðal ann­ars í Hall­gríms­kirkju, við góðar und­ir­tekt­ir.

Stúlk­urnar í kórnum veittu því athygli að það var eitt­hvað „í gangi“ milli stjórn­and­ans og einnar stúlku í kórn­um. Þetta þótti stúlk­unum mjög óþægi­legt og gátu vart um annað rætt, stjórn­and­inn var rétt að verða 41 árs en stúlkan 17 ára. Þegar Mich­ael Bojesen frétti af því að stúlk­urnar væru í upp­námi boð­aði hann þær til fund­ar. Hann var að sögn við­mæl­enda Politi­ken æstur og reið­ur, sagði að þær ættu ekki að vera að pískra eitt­hvað sín á milli og kannski væru ein­hverjar öfund­sjúkar yfir hver fengi að syngja ein­söng á tón­leik­un­um.

En skömmu síðar kom í ljós að pískrið var ekki ástæðu­laust, þetta sem var „í gangi“ milli stjórn­and­ans og stúlkunnar var upp­haf ást­ar­sam­bands. Stúlkan hætti skömmu síðar í kórnum og þau stjórn­and­inn gift­ust og það hjóna­band stendur enn.

Karla­veldi

Þegar blaða­menn Politi­ken spurðu hvers vegna stúlk­urnar hefðu ekki snúið sér til hljóm­sveit­ar­stjór­ans Per Erik Veng sögðu þær að það hefði ekk­ert þýtt. Hann hefði verið í „karla­klúbbn­um“ með Mich­ael Bojesen. Hann hefði verið klæm­inn og sent stúlkum í kórnum óvið­eig­andi skila­boð eins og til dæmis „giftur en til í tusk­ið“.

Talsverð endurnýjun er í kórnum á hverju ári, þar sem hann inniheldur einungis stelpur á aldrinum 15-22 ára. Mynd: Kim Mathäi Leland.

Árið 2003 fór kór­inn í tón­leika­ferð til Suð­ur­-Afr­íku. Þeirrar ferðar minn­ast þær sem Politi­ken ræddi við, og tóku þátt í ferð­inni, vel. Mat­ar­eitrun kom upp í hópnum og margar urðu mjög veik­ar. Ein nefndi að þegar stúlk­urnar lágu á sund­laug­ar­bakka hefði þær rætt um hvernig karl­arn­ir, kór­stjór­inn og fleiri, gláptu á þær. „það var ekk­ert ólög­legt við þetta, en mjög óþægi­leg­t“.

M Mag­azine

Haustið 2002 fékk yfir­stjórn Stúlkna­kórs­ins bréf frá rit­stjóra tíma­rits­ins M Mag­azine. Rit­stjór­inn sagð­ist hafa fengið um það ábend­ingu frá Mich­ael Bojesen að ef til vill væri til­valið að fá stúlkur úr Stúlkna­kórnum til að sitja fyrir á myndum sem síðar yrðu birtar í blað­inu. Rit­stjór­inn spurði hvort þessi hug­mynd nyti stuðn­ings yfir­stjórnar kórs­ins. Yfir­stjórnin svar­aði að engin slík mynda­taka kæmi til greina. Mich­ael Bojesen sagði að rit­stjóri M Mag­azine hefði haft sam­band við sig og viðrað hug­mynd­ina.

M Mag­azine kall­aði sig stráka­blað og þar birt­ust myndir af fáklæddum stúlkum og ýmis­konar kjafta­sög­ur, heil­ræði um kyn­líf og fleira í þeim dúr. Blaðið kom fyrst út árið 2000 en útgáf­unni var hætt árið 2015.

Kína­ferðin

Í júlí 2004 fór Stúlkna­kór­inn til Kína og söng í Shang­hai og Beijing. Kór­inn vakti mikla athygli og Alex­andra, þáver­andi eig­in­kona Jóakims prins var með í för. 35 ára gesta­söngv­ari tók sömu­leiðis þátt í ferð­inni, hann hafði sungið mikið með kórnum eftir að Mich­ael Bojesen tók við sem stjórn­andi. Nokkrar stúlkur í kórnum fengu send skila­boð frá hon­um, með skila­boðum sem ekki var hægt að mis­skilja. Nokkru eftir heim­kom­una skrif­aði ein þeirra kvört­un­ar­bréf til yfir­stjórnar danska útvarps­ins. Í kjöl­farið var hún kölluð á fund með kór­stjór­anum og hátt­settum starfs­manni útvarps­ins. Í við­tali við Politi­ken sagð­ist stúlkan sem blaðið nafn­grein­ir, að hún hafi verið neydd til að draga bréfið til baka. Hún gerði það ekki á staðnum og þegar nokkur tími var lið­inn fékk hún orð­send­ingu frá starfs­mann­inum þar sem hann bauðst til að hjálpa henni að skrifa bréf­ið. Undir þessum þrýst­ingi dró hún bréfið til baka en hætti í kjöl­farið í kórn­um.

Karl­arnir muna ekk­ert

Ein­ungis tveir karlar eru nafn­greindir í umfjöllun Politi­ken og ann­arra danskra fjöl­miðla. Mich­ael Bojesen og Per Erik Veng. Þeir og aðrir sem nefndir voru í frá­sögnum stúlkn­anna kann­ast ekki við lýs­ingar þeirra. Mich­ael Bojesen sagð­ist í við­tali við Politi­ken ekki kann­ast við lýs­ingar stúlkanna á flestu sem fram kom í umfjöllun blaðs­ins. Varð­andi sam­band hans við stúlk­una, sem síðar varð eig­in­kona hans, sagði Mich­ael Bojesen að það hefði gert hinar stúlk­urnar í kórnum óör­uggar að verða vitni að upp­hafi þessa ást­ar­sam­bands.

Áber­andi í tón­list­ar­líf­inu

Menn­irnir tveir sem nafn­greindir eru í umfjöllun Politi­ken og ann­arra danskra fjöl­miðla hafa um ára­bil verið áber­andi í dönsku tón­list­ar­lífi.

Per Erik Veng var í tæpa tvo ára­tugi stjórn­andi sin­fón­íu­hljóm­sveitar danska útvarps­ins en var rek­inn árið 2007. Þá hafði nem­andi við Hafn­ar­há­skóla skrifað rit­gerð um sam­skipta­vanda í hljóm­sveit­inni. Ári eftir brott­rekst­ur­inn var hann ráð­inn til Dönsku tón­list­araka­dem­í­unn­ar. Starf hans þar var að sjá um skipu­lagn­ingu tón­leika og við­burða. Síðar var hann menn­ing­ar­full­trúi við sendi­ráð Dan­merkur í Berlín og árið 2016 ráð­inn for­stöðu­maður Menn­ing­ar­stofn­unar Brus­sel­borgar í Belg­íu.

Sagði af sér og kom­inn í leyfi

Mich­ael Bojesen stjórn­aði Stúlkna­kórnum til árs­ins 2010.

Á árunum 2012- 2016 var hann fram­kvæmda­stjóri árlegrar tón­list­ar­há­tíðar í Kaup­manna­höfn, Copen­hagen Opera Festi­val.

Árið 2017 var hann ráð­inn stjórn­andi óper­unnar í Malmö í Sví­þjóð. Sama ár var hann jafn­framt skip­aður stjórn­ar­for­maður Lista­sjóðs danska rík­is­ins, Statens kunstfond. Sjóður þessi er mjög áhrifa­mik­ill í dönsku lista- og menn­ing­ar­lífi og úthlutar á þessu ári um 500 millj­ónum danskra króna (um 10 millj­arðar íslenskir) til lista og menn­ing­ar­mála.

Eftir að dag­blaðið Politi­ken birti umfjöllun sína sagði Mich­ael Bojesen af sér for­mennsku og jafn­framt setu í sjóðs­stjórn­inni.

Stjórn Malmö óper­unnar sendi frá sér yfir­lýs­ingu í kjöl­far umfjöll­unar Politi­ken og lýsti fullu trausti og stuðn­ingi við Mich­ael Bojesen sem óperu­stjóra. Blekið var varla þornað á und­ir­skrift stjórn­ar­innar þegar Mich­ael Bojesen til­kynnti að hann færi í ótíma­bundið leyfi frá óper­unni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar