Ekkert komið fram sem kalli á breytingu á stefnu um hágæða Borgarlínu

Framkvæmdastjóri Betri samgangna svaraði á dögunum erindi sem þrýstihópur sem vill ódýrari Borgarlínu sendi á ýmsa aðila í vor. Í umfjöllun Betri samgangna er meðal annars bent á að það væri dýrast fyrir samfélagið að verja langmestu fé í stofnvegi.

Ekk­ert hefur komið fram sem kallar á breyt­ingar á þeirri stefnu að fjár­fest verði í hágæða hrað­vagna­kerfi fyrir höf­uð­borg­ar­svæðið og hug­myndir um létt hrað­vagna­kerfi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hafa þegar verið skoð­að­ar, í aðdrag­anda vinnu við svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 2015.

Þetta kemur fram í bréfi frá stjórn opin­bera hluta­fé­lags­ins Betri sam­gangna, sem bregst þar við erindi frá þrýsti­hópi sem kallar sig Áhuga­fólk um sam­göngur fyrir alla (ÁS).

Sá hópur vill að horfið verði frá áformum um Borg­ar­línu eins og þau líta út í dag og að stofn­vega­fram­kvæmdir fái stór­aukið vægi í sam­göngu­fram­kvæmdum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu næsta rúma ára­tug­inn.

Stjórn Sam­bands sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (SSH) var á meðal ýmissa aðila sem fengu erindið frá ÁS sent í vor og tók stjórn SHH þá ákvörðun að vísa erind­inu til Betri sam­gangna, félags­ins sem hefur það verk­efni að fylgja Sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins úr hlaði.

Auglýsing

Davíð Þor­láks­son fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna svar­aði bréf­inu fyrir hönd stjórnar félags­ins þann 7. júní og fór þar yfir, í nokkrum lið­um, af hverju þær hug­myndir sem ÁS hefur verið að koma á fram­færi um „létta“ Borg­ar­línu þykja ekki lík­legar til að skila hag­kvæm­ari nið­ur­stöðu fyrir sam­fé­lagið en núver­andi áætl­anir um hágæða hrað­vagn­ar­kerfi Borg­ar­línu.

Búið að skoða létt hrað­vagna­kerfi

Í fyrsta lagi er rekið í bréfi Dav­íðs að hug­myndir um létt hrað­vagna­kerfi séu ekki nýjar af nál­inni og hafi verið skoð­aðar áður.

Davíð Þorláksson var ráðinn framkvæmdastjóri Betri samgangna nýlega.
Mynd: Aðsend

„Þetta er einn af þeim val­kostum sem var skoð­aður í aðdrag­anda þess að svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 2015 var sett. Þá var nið­ur­staðan að létt hrað­vagna­kerfi myndi ekki ná sama árangri og hágæða hrað­vagna­kerfi og að sam­fé­lags­legur kostn­aður yrði mun hærri ef ekki væri farið í hágæða hrað­vagna­kerfi. Ekk­ert hefur komið fram sem sýnir fram á að for­sendur hafi breyst sem ættu að leiða til ann­arrar nið­ur­stöð­u,“ segir í bréfi fram­kvæmda­stjór­ans.

Dýr­ast fyrir sam­fé­lagið að verja lang­mestu í stofn­vegi

Einnig rekur Davíð í bréf­inu að nið­ur­stöður umferð­ar­spáa sem unnar hafi verið í tenglsum við svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins hefðu sýnt það skýrt að það að beina „stærstum hluta fjár­magns í upp­bygg­ingu stofn­vega myndi leiða til tuga pró­senta aukn­ingar í vexti bíla­um­ferðar og auk­inna tafa.“

„Það að beina stærstum hluta fjár­magns í stofn­vega­fram­kvæmdir er því dýr­ast fyrir sam­fé­lag­ið, hvort sem litið er til tafa, lýð­heilsu, útblást­urs, slysa eða beins kostn­að­ar. Það að ná að stoppa línu­legan vöxt bíla­um­ferðar er tal­inn góður árangur í stórum sam­göngu­verk­efnum og það að ná að minnka vöxt bíla­um­ferðar er tal­inn mjög góður árang­ur. Þessar nið­ur­stöður eru ástæða þess að sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og ríkið sam­mælt­ust um að stefna að upp­bygg­ingu hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerf­is,“ segir í bréf­inu frá fram­kvæmda­stjór­an­um.

Áreið­an­leiki létts hrað­vagna­kerfis minni

Í sam­an­tekt Dav­íðs er einnig farið yfir það hverju það skilar að ráð­ast í hágæða hrað­vagna­kerfi sam­an­borið við það létta hrað­vagna­kerfi sem ÁS hefur talað fyrir að und­an­förnu.

Davíð skrifar að við mat á gæðum sam­göngu­kerfa sé litið til þess hvort fólk kom­ist áreið­an­lega, án bið­ar, tím­an­lega og þægi­lega á áfanga­stað og aftur heim. „Ljóst er að létt hrað­vagna­kerfi stendur hágæða hrað­vagna­kerfi að baki í öllum þessum þáttum og mun því ekki ná sama árangri,“ segir í erindi Dav­íðs.

Hann rekur að ástæðan fyrir þessu sé sú að sér­a­kreinar hægra megin í götu­rými, sem ÁS hefur lagt til að verði byggðar í stað þeirra áforma um að láta Borg­ar­línu keyra í sér­rými fyrir miðju, tryggi ekki áreið­an­leika á sama hátt þar sem önnur umferð geti villst inn á for­gangsakreinar sem eru til hægri.

„Meira er um þver­anir ann­arar umferðar með slak­ara umferð­ar­ör­yggi og lélegra aðgengi, ásamt því að erf­ið­ara er að veita kerf­inu for­gang á gatna­mót­um. Þetta gerir það að verkum að kerfið verður óáreið­an­legt og getur því ekki flokk­ast sem hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerf­i,“ segir í bréf­inu frá Betri sam­göng­um.

Hágæða kerfi til staðar í borgum sem ÁS nefni

Í grein­ar­gerð um ódýrt hrað­vagna­kerfi á vef ÁS eru tekin dæmi um þrjú létt hrað­vagna­kerfi í Norð­ur­-Am­er­íku sem mögu­lega fyr­ir­mynd að léttu og ódýr­ara hrað­vagna­kerfi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, en þessi kerfi eru í Seatt­le, Los Ang­eles og Saskatoon í Kanada.

Í bréf­inu frá Betri sam­göngum segir að vert sé að benda á að í þessum borgum séu þegar til staðar hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfi í formi lesta. „Léttu hrað­vagna­kerfin eru því ein­göngu við­bót við kerfi sem fyrir er. Borg­ar­línan er hins vegar stefna um að búa til hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfi í fyrsta sinn á Ísland­i.“

Ef aðrar leiðir þættu betri yrði það lagt fyrir hlut­hafa

Í bréfi Betri sam­gangna er að end­ingu rekið að það hafi verið nið­ur­staða sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu að stefna á hágæða almenn­ings­sam­göngur með sam­þykkt svæð­is­skipu­lags­ins 2015-2040. Ríkið hafi svo komið að borð­inu með gerð Sam­göngusátt­mál­ans í sept­em­ber árið 2019.

„Væri það mat Betri sam­gangna að rétt­ara væri að fara aðrar leiðir en gert er ráð fyrir í Sam­göngusátt­mál­anum myndi fyr­ir­tækið leggja það til við hlut­hafa sína, ríkið og sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, sem myndu þurfa að taka end­an­lega ákvörðun um það,“ segir í bréfi Betri sam­gangna.

Hag­kvæmni verði ekki á kostnað árang­urs

Í bréf­inu er einnig rakið að hönn­un­ar­ferli Borg­ar­lín­unnar sé skammt á veg kom­ið. „Hönn­un­ar­stigin eru þrjú; frum­drög, for­hönnun og verk­hönn­un. Aðeins liggja fyrir frum­drög að fyrstu lotu af sex. Ljóst er að Borg­ar­línan mun taka breyt­ingum í þessu ferli. Á öllum stigum munu Betri sam­göngur tryggja að leitað verði hag­kvæm­ustu leiða, þó þannig að þeim mark­miðum sem að er stefnt sé náð,“ segir í bréf­inu.

Auglýsing

En nið­ur­staðan er sú, skrifar Dav­íð, að „á þessu stigi hafi ekk­ert komið fram sem kalli á breyt­ingar á þeirri stefnu að fjár­fest verði í hágæða hrað­vagna­kerfi fyrir höf­uð­borg­ar­svæð­ið.“

Stjórn SSH sam­þykkti á fundi sínum í vik­unni að vísa þessu erindi Betri sam­gangna til kynn­ingar hjá sveit­ar­stjórnum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent