Ekkert komið fram sem kalli á breytingu á stefnu um hágæða Borgarlínu

Framkvæmdastjóri Betri samgangna svaraði á dögunum erindi sem þrýstihópur sem vill ódýrari Borgarlínu sendi á ýmsa aðila í vor. Í umfjöllun Betri samgangna er meðal annars bent á að það væri dýrast fyrir samfélagið að verja langmestu fé í stofnvegi.

Ekkert hefur komið fram sem kallar á breytingar á þeirri stefnu að fjárfest verði í hágæða hraðvagnakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og hugmyndir um létt hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar verið skoðaðar, í aðdraganda vinnu við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015.

Þetta kemur fram í bréfi frá stjórn opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, sem bregst þar við erindi frá þrýstihópi sem kallar sig Áhugafólk um samgöngur fyrir alla (ÁS).

Sá hópur vill að horfið verði frá áformum um Borgarlínu eins og þau líta út í dag og að stofnvegaframkvæmdir fái stóraukið vægi í samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu næsta rúma áratuginn.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) var á meðal ýmissa aðila sem fengu erindið frá ÁS sent í vor og tók stjórn SHH þá ákvörðun að vísa erindinu til Betri samgangna, félagsins sem hefur það verkefni að fylgja Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins úr hlaði.

Auglýsing

Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna svaraði bréfinu fyrir hönd stjórnar félagsins þann 7. júní og fór þar yfir, í nokkrum liðum, af hverju þær hugmyndir sem ÁS hefur verið að koma á framfæri um „létta“ Borgarlínu þykja ekki líklegar til að skila hagkvæmari niðurstöðu fyrir samfélagið en núverandi áætlanir um hágæða hraðvagnarkerfi Borgarlínu.

Búið að skoða létt hraðvagnakerfi

Í fyrsta lagi er rekið í bréfi Davíðs að hugmyndir um létt hraðvagnakerfi séu ekki nýjar af nálinni og hafi verið skoðaðar áður.

Davíð Þorláksson var ráðinn framkvæmdastjóri Betri samgangna nýlega.
Mynd: Aðsend

„Þetta er einn af þeim valkostum sem var skoðaður í aðdraganda þess að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015 var sett. Þá var niðurstaðan að létt hraðvagnakerfi myndi ekki ná sama árangri og hágæða hraðvagnakerfi og að samfélagslegur kostnaður yrði mun hærri ef ekki væri farið í hágæða hraðvagnakerfi. Ekkert hefur komið fram sem sýnir fram á að forsendur hafi breyst sem ættu að leiða til annarrar niðurstöðu,“ segir í bréfi framkvæmdastjórans.

Dýrast fyrir samfélagið að verja langmestu í stofnvegi

Einnig rekur Davíð í bréfinu að niðurstöður umferðarspáa sem unnar hafi verið í tenglsum við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefðu sýnt það skýrt að það að beina „stærstum hluta fjármagns í uppbyggingu stofnvega myndi leiða til tuga prósenta aukningar í vexti bílaumferðar og aukinna tafa.“

„Það að beina stærstum hluta fjármagns í stofnvegaframkvæmdir er því dýrast fyrir samfélagið, hvort sem litið er til tafa, lýðheilsu, útblásturs, slysa eða beins kostnaðar. Það að ná að stoppa línulegan vöxt bílaumferðar er talinn góður árangur í stórum samgönguverkefnum og það að ná að minnka vöxt bílaumferðar er talinn mjög góður árangur. Þessar niðurstöður eru ástæða þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið sammæltust um að stefna að uppbyggingu hágæða almenningssamgöngukerfis,“ segir í bréfinu frá framkvæmdastjóranum.

Áreiðanleiki létts hraðvagnakerfis minni

Í samantekt Davíðs er einnig farið yfir það hverju það skilar að ráðast í hágæða hraðvagnakerfi samanborið við það létta hraðvagnakerfi sem ÁS hefur talað fyrir að undanförnu.

Davíð skrifar að við mat á gæðum samgöngukerfa sé litið til þess hvort fólk komist áreiðanlega, án biðar, tímanlega og þægilega á áfangastað og aftur heim. „Ljóst er að létt hraðvagnakerfi stendur hágæða hraðvagnakerfi að baki í öllum þessum þáttum og mun því ekki ná sama árangri,“ segir í erindi Davíðs.

Hann rekur að ástæðan fyrir þessu sé sú að sérakreinar hægra megin í göturými, sem ÁS hefur lagt til að verði byggðar í stað þeirra áforma um að láta Borgarlínu keyra í sérrými fyrir miðju, tryggi ekki áreiðanleika á sama hátt þar sem önnur umferð geti villst inn á forgangsakreinar sem eru til hægri.

„Meira er um þveranir annarar umferðar með slakara umferðaröryggi og lélegra aðgengi, ásamt því að erfiðara er að veita kerfinu forgang á gatnamótum. Þetta gerir það að verkum að kerfið verður óáreiðanlegt og getur því ekki flokkast sem hágæða almenningssamgöngukerfi,“ segir í bréfinu frá Betri samgöngum.

Hágæða kerfi til staðar í borgum sem ÁS nefni

Í greinargerð um ódýrt hraðvagnakerfi á vef ÁS eru tekin dæmi um þrjú létt hraðvagnakerfi í Norður-Ameríku sem mögulega fyrirmynd að léttu og ódýrara hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu, en þessi kerfi eru í Seattle, Los Angeles og Saskatoon í Kanada.

Í bréfinu frá Betri samgöngum segir að vert sé að benda á að í þessum borgum séu þegar til staðar hágæða almenningssamgöngukerfi í formi lesta. „Léttu hraðvagnakerfin eru því eingöngu viðbót við kerfi sem fyrir er. Borgarlínan er hins vegar stefna um að búa til hágæða almenningssamgöngukerfi í fyrsta sinn á Íslandi.“

Ef aðrar leiðir þættu betri yrði það lagt fyrir hluthafa

Í bréfi Betri samgangna er að endingu rekið að það hafi verið niðurstaða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að stefna á hágæða almenningssamgöngur með samþykkt svæðisskipulagsins 2015-2040. Ríkið hafi svo komið að borðinu með gerð Samgöngusáttmálans í september árið 2019.

„Væri það mat Betri samgangna að réttara væri að fara aðrar leiðir en gert er ráð fyrir í Samgöngusáttmálanum myndi fyrirtækið leggja það til við hluthafa sína, ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem myndu þurfa að taka endanlega ákvörðun um það,“ segir í bréfi Betri samgangna.

Hagkvæmni verði ekki á kostnað árangurs

Í bréfinu er einnig rakið að hönnunarferli Borgarlínunnar sé skammt á veg komið. „Hönnunarstigin eru þrjú; frumdrög, forhönnun og verkhönnun. Aðeins liggja fyrir frumdrög að fyrstu lotu af sex. Ljóst er að Borgarlínan mun taka breytingum í þessu ferli. Á öllum stigum munu Betri samgöngur tryggja að leitað verði hagkvæmustu leiða, þó þannig að þeim markmiðum sem að er stefnt sé náð,“ segir í bréfinu.

Auglýsing

En niðurstaðan er sú, skrifar Davíð, að „á þessu stigi hafi ekkert komið fram sem kalli á breytingar á þeirri stefnu að fjárfest verði í hágæða hraðvagnakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið.“

Stjórn SSH samþykkti á fundi sínum í vikunni að vísa þessu erindi Betri samgangna til kynningar hjá sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent