Hvað keyrir áfram bílamenninguna í Reykjavík?

Í nýlegri rannsókn reyndi fræðafólk við Háskóla Íslands og Aalto-háskóla í Finnlandi að kortleggja hvað útskýrir mikla bílaeign á höfuðborgarsvæðinu. Skipulagið skiptir miklu, í bland við slæma ímynd almenningssamgangna og sess einkabílsins í samfélaginu. „Það eru einfaldlega allt of margir bílar í Reykjavík,“ segir Jukka Heinonen, prófessor við Háskóla Íslands og aðalhöfundur greinarinnar.

Fyrir þá sem búa í borgum er valið um að eiga bíl eða ekki mótað af mörgum ólíkum þátt­um. Hið mann­gerða umhverfi skiptir máli, meðal ann­ars með til­liti til vega­lengda á milli staða og ferða­tíma. En sam­fé­lags­legir þætt­ir, eins og orð­spor almenn­ings­sam­göngu­kerf­is­ins eða það hversu hvers­dags­legt það þykir að bíll sé á hverju ein­asta heim­ili – jafn­vel margir – skipta líka máli. Það gera einnig per­sónu­legir þættir eins og við­horf, fjöl­skyldu­að­stæður og áhuga­mál.

Í nýlegri grein fræða­fólks við Háskóla Íslands og Aalto-há­skóla í Finn­landi er höf­uð­borg­ar­svæðið skoðað í þessu til­liti, en leit­ast er við því að svara því hvað útskýrir mikla einka­bíla­eign í Reykja­vík og nágranna­sveit­ar­fé­lög­un­um. Horft var á ald­urs­hóp­inn 25-40 ára, alda­mó­ta­kyn­slóð­ina svoköll­uðu, en erlendis eru vís­bend­ingar um að fólk á þessum ald­urs­bili hafi meiri áhuga á að skipu­leggja líf sitt án einka­bíls miðað við fyrri kyn­slóð­ir.

Það eru ekki mikil merki um það í Reykja­vík og nágrenni, sam­kvæmt rann­sókn­inni. Það sem stjórnar mik­ill bíla­eign á höf­uð­borg­ar­svæð­inu virð­ist vera bíla­miðað skipu­lag borg­ar­svæð­is­ins í bland við nei­kvæð við­horf gagn­vart almenn­ings­sam­göngum og rót­gróna bíla­menn­ingu sem við­heldur sér jafn­vel í hálf­gerðum víta­hring, kyn­slóð fram af kyn­slóð.

„Það eru ein­fald­lega allt of margir bílar í Reykja­vík. Að minnka fjölda þeirra myndi hafa marga góða hluti í för með sér. Ekki síst myndi það veita tæki­færi til þess að nota plássið í eitt­hvað annað en mal­bikuð mann­virki,“ segir Jukka Heinonen, pró­fessor í bygg­ing­ar­verk­fræði við Háskóla Íslands og aðal­höf­undur grein­ar­inn­ar, sem birt­ist í tíma­rit­inu Susta­ina­bility í upp­hafi árs.

Skipu­lag sem gerði bíl að kröfu

Í upp­hafi grein­ar­innar kynna höf­undar aðstæður á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til leiks. Fjallað er um að árið 1960 hafi verið um það bil sjö­þús­und öku­tæki á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Síðan tók Aðal­skipu­lag Reykja­víkur 1962-1983 gildi, en með því var lagður grunnur að víð­femu stofn­brauta­neti sem jók til muna „bíl­hæði og útþenslu byggð­ar“ – þrátt fyrir að þegar væri byrjað að gagn­rýna skipu­lag sem byggði á hinu sama í mörgum öðrum borgum í Evr­ópu.

Auglýsing

Í skipu­lag­inu frá sjö­unda ára­tugnum var lögð áhersla á að skipu­leggja vinnu­svæði fjarri íbúða­byggð og á upp­bygg­ingu úthverfa með stak­stæðum hús­um. „Húsin voru stað­sett fjarri breiðum göt­unum sem varð til þess að mikið land var ekki nýtt, sem jók enn á útþenslu byggð­ar­inn­ar,“ segir í grein­inni. Einnig er rifjað upp að AR1962-1983 var fyrsta aðal­skipu­lag borg­ar­innar sem studd­ist við umferð­ar­spá – og gert var ráð fyrir bíl á hverju heim­ili.

„Fimm árum áður en skipu­lags­tíma­bil­inu var lokið hafði far­þegum Strætó fækkað um helm­ing en bíla­eign þre­faldast,“ ­segja höf­undar grein­ar­inn­ar, sem einnig taka Aðal­skipu­lag Reykja­víkur 2001-2024 til umfjöll­unar og nefna að með því hafi verslun og þjón­usta innan hverfa orðið að lúffa fyrir súper­mörk­uðum og versl­un­ar­mið­stöðv­um, stað­settum við hlið þjóð­vega í útjaðri hverf­anna, sem enn jók á „bíl­hæð­ið“ – þörf hvers og eins til þess að eiga bíl til þess að geta sinnt sínum dag­legu erind­um.

„Stað­setn­ing­arnar gerðu það einnig að verkum að ómögu­legt varð fyrir versl­un­ar­mið­stöðv­arnar að verða líf­legar og göngu­vænar mið­stöðvar hverfa. Bíll­inn var áfram í for­grunni í þessu skipu­lagi, og því var spáð að árið 2024 myndi umferð vél­knú­inna öku­tækja aukast meira en sem næmi fjölgun íbúa. [Skipu­lag­ið] gerði ráð fyrir þess­ari umferð­ar­aukn­ingu og tók enga aðra far­ar­máta til athug­un­ar,“ segir í grein­inni.

Bílaeign á höfuðborgarsvæðinu er mikil í alþjóðlegum samanburði.
Bára Huld Beck

Breytt var um stefnu með Aðal­skipu­lagi Reykja­víkur 2010-2030. „Í fyrsta sinn í sög­unni [...] varð áherslan á þétt­ingu byggð­ar, bland­aða land­notkun og sjálf­bærar sam­göng­ur,“ segja höf­und­ar, en taka fram að þrátt fyrir þetta sé einka­bíla­eign enn að aukast. „Það eru um það bil tveir bílar á hvert heim­ili í Reykja­vík. Þessar tölur eru svip­aðar eða hærri en í nokkrum vel þekktum bíla­borgum í Banda­ríkj­un­um, eins og Los Ang­el­es, Phoenix eða San Díegó,“ skrifa höf­und­ar.

Í grein­inni er reynt að leggja mat á það, út frá bæði nið­ur­stöðum úr skoð­ana­könnun og við­töl­um, hvað veldur því að fólk kjósi að eiga bíl á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í jafn stórum stíl og raunin er. Hvort hið mann­gerða umhverfi vegi þyngra en per­sónu­bundnir eða sam­fé­lags­legir þætt­ir, eða öfugt.

Áhrif byggða umhverf­is­ins í þá átt að fólk eigi ekki bíl virð­ist vera veik og ein­skorð­ast alfarið við mið­borg Reykja­vík­ur, póst­númer 101. Bæði komust rann­sak­endur að því að var ein­ungis þar sem merki sáust um að fólk væri að velja sér búsetu­stað gagn­gert til þess að þurfa ekki að eiga bíl, en einnig var það eina svæðið þar sem ein­hverjir sem sögð­ust vilja eða þurfa að eiga bíl sögð­ust ekki geta hugsað sér að búa.

Grein­ar­höf­undar segja þó að áhrif hins byggða umhverfis gætu einnig verið túlkuð á þann hátt að þau séu tölu­verð, þá á þann hátt að þeir sem búi utan mið­borg­ar­innar hafi hvata, eða jafn­vel þörf, til þess að eiga bíl.

Áróra Árna­dótt­ir, einn með­höf­unda grein­ar­innar og dokt­or­snemi í umhverf­is­fræði við Háskóla Íslands, segir við Kjarn­ann að í borgum erlendis þar sem sam­bæri­legar rann­sóknir hafi verið gerðar séu merki um að fólk velji sér hverfi utan mið­borga út frá því hversu góðar almenn­ings­sam­göngur eru, eða hjóla­stíg­ar. „Við sjáum það ekki hérna í Reykja­vík,“ segir Áróra.

Áróra Árnadóttir er doktorsnemi í umhverfisfræði við Háskóla Íslands.
Aðsend

Þetta segja grein­ar­höf­undar að mögu­lega megi útskýra með þrennum hætti. Í fyrsta lagi ríki vel­megun í Reykja­vík og nágrenni, þannig að lág­tekju­fólk hefur efni á að eiga og reka sína bif­reið. Í öðru lagi séu þau hverfi utan mið­borg­ar­innar sem eru með bestu sam­göngu­teng­ing­arnar ef til vill ekki með sama þjón­ustu­stig og sam­bæri­leg hverfi í borgum erlend­is. Í þriðja lagi sé það svo bíla­menn­ingin í borg­inni, sem enn sé sterk. Bílar eru stöðu­tákn og almenn­ings­sam­göngu­kerfið hefur þá ímynd að það sé af afar lágum gæð­um.

Stræt­is­vagnar fyrir tekju­lága og próf­lausa

„Ef þú átt ekki bíl þá lítur fólk þannig á að þú sért fátæk­ur, eða náms­maður eða sért búinn að missa bíl­próf­ið. Að nota strætó er ekki álitið sem val, heldur sem nauð­syn,“ segir Áróra. Við gerð rann­sókn­ar­innar kom hún að því að taka við­töl við íbúa í borg­inni um við­horf til bíla og ann­arra sam­göngu­máta. Þar kom ýmis­legt fram varð­andi við­horf til stræt­is­vagna­kerf­is­ins. Þýð­ingar á ummælum við­mæl­enda eru blaða­manns.

„…ef þú ferð í starfsvið­tal, þá væri litið nei­kvætt á það að þú ættir ekki bíl, þú veist, eins og þú værir ekki sveigj­an­leg­ur,“ sagði einn við­mæl­andi. Annar sagði: „…fólk er stolt af því að keyra, og af því að taka ekki stræt­is­vagn­inn. Á Íslandi, umfram öll önnur lönd held ég.“

Sumt af því sem við­mæl­endur sögðu bendir til þess að Strætó eigi við tals­verðan ímynd­ar­vanda að stríða: „... í mínum huga er ímynd stræt­is­vagn­anna mjög góð, en ég veit að það er ekki (hehe) hjá öðrum, og ég, þú veist, les á net­inu þegar fólk er að froðu­fella úr reiði, yfir hinu og þessu,“ sagði enn einn. Sá sami sagð­ist telja að við­horf væru almennt á þá leið að það væri bara lág­tekju­fólk, fátækir, eldri borg­arar og inn­flytj­endur sem not­uðu strætó.

Einn strætónot­andi sagð­ist forð­ast það að tala um stræt­is­vagna­kerfið nema við aðra sem einnig taka strætó: „Af því að þú veist, þeir sem nota bíl­inn, þeir eru bara, „já ég veit, þetta er bara ömur­leg­t.“

Annar við­mæl­andi lýsti því sem svo að það fælist í því „orð­spors­á­hætta“ að taka strætó á höf­uð­borg­ar­svæð­inu: „...­fólki finnst það kannski dálítið vand­ræða­legt að taka strætó … það er ein­hver smá orð­sporðs­á­hætta (hehe) sem fylgir því,“ sagði þessi ein­stak­lingur og bætti við að hann teldi þetta algengt við­horf. „Ég veit að strætó­kerfið fær mikið hat­ur. ...allir sem ég þekki trúa ekki að mér líki það að nota [strætó],“ sagði einn við­mæl­andi til við­bót­ar.

Strætisvagnakerfið á höfuðborgarsvæðinu hefur neikvæða ímynd.
Mynd: Arnar Þór

Sumir ræddu um að þeir sem not­uðu ekki strætó væru lík­legri en aðrir til að tala illa um strætó: „...­fólk er bara mjög nei­kvætt gagn­vart strætó eins og oft á mínum vinnu­stað eru nokkrir sem eru mjög nei­kvæð­ir, og þeir eru bara, mjög háværir varð­andi það þrátt fyrir að hafa enga reynslu af því, þeir bara heyra þetta utan­frá,“ sagði einn.

Áróra segir að svörin í við­töl­unum bendi mörg til þess að fólki sem á ekki bíl sé vor­kennt. „Ég varð smá hissa þegar ég var að greina þessi gögn. Ég er kannski sjálf í mínum berg­máls­helli, á ekki bíl og þekki mikið af fólki sem er hlynnt bíl­lausum lífstíl og að heyra þetta, að ég væri álitin skrítin þegar ég er í strætó. Þá var ég bara, já okei, „got it,““ segir Áróra og hlær.

Börn geri bíl að nauð­syn

Sumir við­mæl­endur ræddu um þæg­indin sem fylgja því að eiga bíl til að sinna sínum erindum sínum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Einnig eru sterk tengsl á milli þess að eiga bíl og eiga börn. Sumir telja hið síð­ara gera hið fyrra að algjörri nauð­syn.

„… ef þú átt börn og þú … þarft að keyra þau í leik­skól­ann og sækja .. það gengur bara ekki með almenn­ings­sam­göng­um,“ sagði einn við­mæl­andi og annar sagði gott að eiga bíl barn­anna vegna. „Ég er alltaf á ferð­inni og annað hvort að keyra ein­hvern eitt­hvert eða sækja hluti, og það væri bara ekki ein­falt án bíls,“ sagði hinn sami og bætti einnig við:

„[Bíl­laus lífs­stíll] er fyrir fólkið sem á ekki börn. Ég held að það hljóti að vera þannig. Það er kannski val­kostur fyrir fólk sem á ekki börn. En ef þú átt eitt og tvö og þrjú börn, þá er það bara ekki val­kost­ur. Ég myndi ekki skilja hvernig það gengur upp.“

Sumir nefndu síðan að þeir ættu bíl til þess að geta farið úr borg­inni. „Ég fer oft í göng­ur. Og … þú þarft alltaf að keyra að fjöll­un­um,“ sagði einn. Það voru því ýmsar ástæður nefnd­ar.

Grein­ar­höf­undar segja að þrátt fyrir að það muni eflaust taka tölu­verðan tíma að breyta ferða­menn­ing­unni á höf­uð­borg­ar­svæð­inu ætti að reyna að rjúfa víta­hring bíl­hæð­is. Það væri hægt að gera, til dæm­is, með frek­ari þétt­ingu byggð­ar, sér­stak­lega í grennd við mið­borg­ina og með­fram sam­gönguás fyr­ir­hug­aðrar Borg­ar­línu og með því að bæta ímynd almenn­ings­sam­göngu­kerf­is­ins.

Áróra segir að ímynd sam­göngu­kerf­is­ins sé mik­il­vægur þátt­ur. Vís­bend­ingar séu um að í Reykja­vík sé ímynd stræt­is­vagna svo slæm í dag að fólk sé ekki til­búið að gefa þeim séns. „Við sáum af við­töl­unum að það voru þeir hafa ekki tekið strætó í tíu ár, eða bara aldrei, það voru þeir sem töl­uðu illa um strætó,“ segir hún.

Í grein­inni segir að ef gripið verði til aðgerða til að bæta ímynd almenn­ings­sam­gangna sam­fara því að Borg­ar­lína bygg­ist upp gæti inn­leið­ing hrað­vagna­kerf­is­ins haft veiga­mikil áhrif á ferða­máta­val í borg­inni. Sam­keppn­is­hæfni almenn­ings­sam­gangna miðað við einka­bíl­inn í ferða­tíma sé þó lyk­il­þáttur í því hvort nýtt kerfi breyti ferða­venjum mikið eða ekki.

Afleidd eft­ir­spurn

Grein­ar­höf­undar leggja til að skipu­lags­yf­ir­völd á höf­uð­borg­ar­svæð­inu tak­marki upp­bygg­ingu nýrra inn­viða fyrir bíla­um­ferð. Áróra segir það marg­sannað að „um leið og þú bætir við fleiri akreinum þá er auð­veld­ara að keyra og minna af umferð­ar­teppum og þá eru fleiri sem nota bíl­inn og þá koma fleiri umferð­ar­tepp­ur.“

Þessi spírall sem Áróra lýsir er birt­ing­ar­mynd fyr­ir­bæris sem nefnt hefur verið afleidd eft­ir­spurn. Eft­ir­spurn eftir bíla­innviðum sem verður til þegar inn­viðir eru byggðir sem leiðir til þess að fleiri kjósa að keyra.

Ef við ætlum að „halda áfram eins og við höfum gert und­an­farin 70 ár, að ein­blína á einka­bíl­inn og gera hann sem þægi­leg­astan, þá er það ekk­ert að fara að breytast,“ segir Áróra.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar