Mynd: Pexels

Meðallaun forstjóra í Kauphöll Íslands voru 4,8 milljónir á mánuði

Sá forstjóri í Kauphöll Íslands sem hafði hæstu mánaðarlaunin fékk 13,5 milljónir króna greiddar á mánuði. Það eru rúmlega tvöföld mánaðarlaun þess sem kemur á næst á eftir. Fleiri karlar sem heita Árni stýra skráðum félögum á Íslandi en konur.

Meðallaun forstjóra þeirra 19 félaga sem skráð eru á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands í fyrra voru rétt um 4,8 milljónir króna. Það eru aðeins hærri meðallaun en voru í Kauphöllinni árið 2019 og alls hækkuðu tíu forstjórar í launum í fyrra en níu lækkuðu. Í flestum tilfellum var um litlar breytingar að ræða.

Til samanburðar má nefna að miðgildi heildarlauna hérlendis árið 2019 var 655 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að helmingur vinnumarkaðarins var með mánaðarlaun undir þeirri tölu á því ári. Forstjórarnir í Kauphöllinni eru með rúmlega sjöföld miðgildislaun að meðaltali á mánuði.

Árni Oddur sker sig úr

Mestu skiptir að laun Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel, fóru úr um tólf milljónum króna í 13,5 milljónir króna á mánuði. Vert er að taka fram að laun Árna Odds eru í evrum og evran styrktist umtalsvert gagnvart krónu á árinu. Þegar þau eru skoðuð í evrum lækkuðu launin, sem eru bæði föst laun og árangurstengdir bónusar, um 1,7 prósent. Til viðbótar við þessi laun þá vann Árni Oddur sér inn umtalsverða kauprétti sem metnir voru á 334 þúsund evrur, um 52,1 milljónir króna, á síðasta ári og fékk umtalsverða upphæð í mótframlag í lífeyrissjóð. 

Auglýsing

Árni Oddur er með rúmlega tvöföld mánaðarlaun þeirra sem koma næst á eftir honum á listanum en þess ber að geta að Marel er langstærsta félagið sem skráð er í Kauphöll Íslands, auk þess sem bréf félagsins eru einnig skráð á markað í Amsterdam. Heildarvirði allra skráðra hlutabréfa á íslenska markaðnum, bæði Aðalmarkaði og First North, var 1.563 milljarðar króna í lok síðasta árs. Af þeirri upphæð var virði Marel um 608 milljarðar króna um síðustu áramót, eða 39 prósent af heildarvirði Kauphallarinnar.

Markaðsvirði Marel hækkaði alls um 28,3 prósent á síðasta ári og um 65,9 prósent árið 2019. Markaðsvirðið á síðasta ári einu saman jókst um 288 milljarða króna.

Kona á leiðinni í Kauphöllina

Eitt félag, Heimavellir, var afskráð úr Kauphöll Íslands í fyrra, og ekkert nýtt bættist við á Aðalmarkað. Félögin á honum voru því 19 í árslok. Búið er að tilkynna um skráningu tveggja nýrra félaga á markað það sem af er þessu ári, Íslandsbanka og Síldarvinnslunnar. Búist er við því að skráning þeirra beggja verði að veruleika seint í vor eða snemma í sumar. 

Verði skráning Íslandsbanka að veruleika mun það gerast að kona, Birna Einarsdóttir, stýrir skráðu félagi á Íslandi í fyrsta sinn í tæp fimm ár. Síðasta konan til að vera forstjóri hjá skráðu félagi var Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem var sagt upp störfum hjá VÍS í ágúst 2016. 

Það hafa samt sem áður verið vendingar á þeim tíma. Á árinu 2019 skiptu til að mynda átta af 20 félögum um forstjóra, en réðu öll karl í stað karls. Minna var um forstjóraskipti í fyrra, en þó hætti Finnur Árnason hjá Högum og Finnur Oddsson tók við af honum. Við það losnaði forstjórastaðan hjá Origo og Jón Björnsson var ráðinn í hana. 

Eins og stendur eru þó tveir karlar sem heita Árni forstjórar skráðra félaga á Íslandi en engar konur. Á tímabili voru líka tveir menn sem heita Finnur forstjórar í skráðum félögum. 

Auglýsing

Til að setja þá stöðu í samhengi þá hétu 1.587 manns Árni að fornafni á Íslandi í byrjun árs 2019. Á sama tíma báru 283 Finnur sem fyrsta eiginnafn. Í lok síðasta árs bjuggu 179.680 konur á Íslandi.

Svipað meðaltal og síðustu ár

Meðaltal launa forstjóra í Kauphöllinni lækkuðu lítillega milli áranna 2018 og 2019. Þau voru 4,8 milljónir króna árið 2018 en 4,7 milljónir króna ári síðar, samkvæmt samantekt Kjarnans á upplýsingum um launagreiðslur úr ársreikningum allra skráðra félaga. Í fyrra hækkuðu þau svo lítillega aftur, en að mestu, líkt og áður sagði, vegna hækkana á launum forstjóra Marel sem útskýrast af veikingu krónunnar.

Vert er að taka fram að inni í laununum eru í næstum öllum tilfellum ekki mótframlag í lífeyrissjóð en það var í mörgum tilfellum í kringum tíu milljónir króna á ári hjá Kauphallarforstjórum á síðasta ári. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, er í sérflokki þegar kemur að launakjörum.
Mynd: Skjáskot

Í öðru sæti á launalistanum eru forstjórar smásölurisanna sem skráð eru á markað, Eggert Þór Kristófersson hjá Festi og Finnur Árnason hjá Högum. ert er að taka fram að launakjör Finns eru fyrir rekstrarárið 2019/2020, en Hagar eru með annars konar uppgjörsár en önnur félög. Það hefst 1. mars, ekki 1. febrúar. Þeir lækkuðu þó báðir í launum, Eggert í 5,6 milljónir króna á mánuði og Finnur í 5,8 milljónir króna á mánuði, en báðir höfðu haft 6,1 milljón krónur á mánuði að meðaltali árið 2019.

Bankastjórar á svipuðu róli

Laun Benedikts Gíslasonar, forstjóra Arion banka, hækkuðu úr 4,7 í 4,8 milljónir króna að jafnaði á mánuði. Auk þess er við lýði kaupaukakerfi innan Arion banka sem mun gera honum kleift að fá allt að 25 prósent af árslaunum sínum í bónus og kaupréttarkerfi þar sem bankastjóranum býðst að kaupa bréf í bankanum á verði sem er vel undir núverandi markaðsvirði hans. 

Gildi lífeyrissjóður, stærsti einstaki eigandi Arion banka, hefur gert athugasemd við launakjör æðstu stjórnenda bankans og og mun leggja fram bókum þess efnis á aðalfundi bankans sem fram fer í dag. Þar segir meðal annars að laun stjórnenda bankans virðist að mati sjóðsins „þegar til­lit er tekið til mögu­leika á árang­urstengdum greiðsl­um, kaupréttum og áskrift­ar­rétt­ind­um, hærri en það sem gengur og ger­ist hjá öðrum íslenskum bönkum og skráðum fyr­ir­tækjum sem starfa á íslenskum mark­að­i.“

Mik­il­vægt er að mati Gildis að ef félög ákveði að not­ast við árang­urstengd launa­kerfi sé gætt heild­ar­sam­heng­is. Til dæmis að föst laun séu þá lægri sam­an­borið við félög þar sem slík kerfi eru ekki til stað­ar. „Þá er mik­il­vægt að slíkt kerfi hvetji ekki til óeðli­legar áhættu­töku,“ segir í bók­un­inni.

Hinn bankastjórinn á meðal kauphallarforstjóra, Marinó Örn Tryggvason hjá Kviku, var með 4,3 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali í fyrra og lækkaði lítillega á milli ára. 

Níu lækkuðu milli ára

Alls lækkuðu laun níu forstjóra á síðasta ári. Mest lækkuðu laun forstjóra Origo, úr 5,1 í 4,1 milljón króna, en Jón Björnsson tók við því starfi af Finni Oddssyni seint í ágúst 2020 þegar sá síðarnefndi færði sig í forstjórastólinn hjá Högum. Finnur hóf störf hjá Högum í lok júní. Í ársreikningi Origo kemur fram að hann hafi fengið alls 67,1 milljón krónur í uppgjörsgreiðslu í fyrra. 

Auglýsing

Laun Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, lækkuðu líka um 600 þúsund krónur á mánuði, úr 4,6 í fjórar milljónir króna. Icelandair tapaði enda 51 milljarði króna í fyrra og þurfti að sækja sér mikið nýtt hlutafé til að takast á við rekstrarerfiðleika sem skapast höfðu vegna kórónuveirufaraldursins. Þá var Icelandair það einstaka fyrirtæki sem fékk mesta aðstoð frá hinu opinbera í gegnum þau úrræði sem stjórnvöld buðu fyrirtækjum upp á vegna faraldursins. 

Meðallaun Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, lækka líka umtalsvert á milli ára en Sýn tapaði 405 milljónum krónum í fyrra.  Þá lækkuðu laun Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, niður í um 3,2 milljónir króna á mánuði. Hann fór í leyfi sem forstjóri félagsins hluta úr síðasta ári. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar