EPA

Mona Lisa frímerkjaheimsins og frægasta frímerki Bandaríkjanna saman á uppboði

Á dögunum var mesta fágæti frímerkjaheimsins boðið upp, 165 ára gamalt einstakt frímerki frá Breska Gvæjana sem seldist á milljarð króna. Á uppboðinu mátti einnig finna þekktasta galla bandarískrar frímerkjasögu – flugvélina Jenny á hvolfi. Dýrasta mynt í heimi var slegin hæstbjóðanda á uppboðinu en Stuart Weitzman, safnarinn sem átti þessa dýrgripi ætlar að gefa söluandvirðið til góðgerðamála.

Verðmætasta frímerki í heimi, 165 ára gamalt eins senta frímerki frá Bresku Gvæjana, var selt á uppboði Sotheby’s á dögunum fyrir 8,3 milljónir Bandaríkjadala eða rétt rúmlega milljarð króna. Endanlegt söluverð var að vísu nokkuð undir upphaflegu verðmati Sotheby’s en matið stóð í 10 til 15 milljónum dala fyrir uppboðið sem samsvarar 1,2 til 1,8 milljörðum króna. Söluverðið er einnig lægra heldur en það verð sem skókaupmaðurinn og -hönnuðurinn Stuart Weitzmann greiddi fyrir frímerkið þegar hann keypti það árið 2014, en þá nam kaupverðið 9,5 milljónum dala.

Þessi litli rauði og svarti pappírssnepill hefur stundum verið nefndur Mona Lisa frímerkjaheimsins og ekki að ástæðulausu. Því hefur verið hampað meðal frímerkjasafnara síðan á ofanverðri nítjándu öld þegar það var útnefnt fágætasta frímerki heims af frímerkjasöfnurum í París.

Í ritgerð um frímerkið sem birtist á vef Sotheby’s segir að ferð frímerkisins frá hitabeltisloftslagi Suður-Ameríku til Evrópu sé stórmerkileg og að það sé nánast fyrir tilvlijun að enn finnist eitt stakt frímerki úr þessari seríu. Frímerkið sat á sínum stað, límt á dagblað í sautján ár allt þar til að ungur ættingi viðtakandans fékk að hirða blaðiði. Ættinginn ungi sá þarna tækifæri, hann leysti frímerkið djúprauða frá fölnuðum dagblaðapappírnum sem það hafði verið límt á til þess að selja það fyrir nokkra skildinga og kaupa fjölda nýrra frímerkja fyrir ágóðann.

Auglýsing

Sá sem keypti frímerkið, hinn rúmlega tvítugi Neil Ross McKinnon, áttaði sig hins vegar á því að það væri eitthvað merkilegt við þennan grip sem hann hafði keypt fyrir smápeninga. Á þeim fimm árum sem hann átti frímerkið fóru augu frímerkjaheimsins að snúast að Bresku Gvæjana og áhugi evrópskra safnara á frímerkjum þaðan fór vaxandi. Verð gamalla frímerkja frá nýlendunni óx hratt, frímerki sem örfáum árum fyrr hafði verið hægt að kaupa fyrir nokkra skildinga kostuðu nú nokkur pund. McKinnon lét á endanum undan freistingunni til að selja og sendi allt safnið sitt til Englands.

Í Liverpool festi frímerkjakaupmaður kaup á eins senta frímerkinu. Þaðan ferðaðist merkið yfir Ermarsundið og rataði í safn hins sérvitra Philipp von Ferrary en frímerkjasafn hans er talið vera það merkilegasta sem til hefur verið. Það var eftir að frímerkið komst í safn hans sem að helstu frímerkjasafnarar urðu sammála um að þetta tiltekna frímerki væri það sjaldgæfasta í heimi. Eftir andlát hans var frímerkið selt á uppboði árið 1922 fyrir 32,500 Bandaríkjadali. Sú sala rataði í heimspressuna og frægð frímerkisins náði því út fyrir heim frímerkjasafnara og grúskara.

Núverandi eigandi vill dreift eignarhald

Frímerkið gekk nokkrum sinnum kaupum og sölum það sem eftir lifði tuttugustu aldarinnar fyrir sífellt hærri fjárhæðir. Árið 2014 uppfyllti skóhönnuðurinn Stuart Weitzmann æskudraum þegar hann eignaðist frímerkið fyrir 9,5 milljónir dala á uppboði Sotheby’s. Síðan hann keypti frímerkið hefur það lengst af verið til sýnis á póstsafni Smithsonian, Smithsonian National Postal Museum, sem staðsett er í Washington D.C.

Dýrasta frímerki í heimi, eins senta frímerki frá Bresku Gvæjana, gefið út árið 1856. Eigendur frímerkisins hafa í gegnum tíðina sett mark sitt á frímerkið. Vel má greina merkingu síðasta eiganda, fangamarkið SW og hælaskó.
Sotheby's

Í fyrsta sinn í 165 ár er frímerkið ekki í eigu einstaklings. Það var breska frímerkjasalan Stanley Gibbons sem festi kaup á frímerkinu á uppboðinu sem haldið var síðasta þriðjudag. Fyrirtækið ætlar að dreifa eignarhaldinu og selja hlutdeildarskírteini í frímerkinu í gegnum netið og bjóða söfnurum þar með hlutdeild í gróðanum sem skapast verði frímerkið selt síðar fyrir hærra verð.

Í umfjöllun Reuters segir að það geti reynst fyrirtækinu erfitt að fanga hylli safnara sem sækjast eftir hagnaði úr viðskiptum með safngripi. Sú staðreynd að söluverðið hafi lækkað frá því að Weitzmann festi kaup á því sé ekki heillandi í augum safnara. Gripurinn sé því einn af fáum fágætum munum sem lækkað hafi í verði að undanförnu, rándýrir fágætir safngripir hafa að jafnaði tvöfaldast í verði undanfarinn áratug. Frímerkjasafnarar hafi auk þess mestan áhuga á frímerkjum sem komist hafa í dreifingu þrátt fyrir að mistök hafi verið gerð við prentun þeirra.

Weitzman skrifar hér aftan á bakhlið frímerksins dýra.
Smithsonian's National Postal Museum

800-faldaðist í verði á einni viku

Einn þeirra þriggja muna sem seldir voru á uppboðinu, samhliða eins senta frímerkinu, er einmitt einn slíkur gallagripur. Fjögurra frímerkja blokk sem sýnir flugvél af gerðinni Curtiss JN-4H sem iðulega er kölluð Jenny. Það sem gerir þessi tilteknu frímerki svona eftirsótt er að mynd flugvélarinnar er á hvolfi vegna mistaka sem gerð voru við prentun frímerkjanna.

Frímerki með þessum galla urðu á örskömmum tíma afar eftirsótt meðal safnara. Frímerkin voru sérstaklega gerð fyrir flugpóst milli Washington borgar, Fíladelfíu og New York og var útgefið verð þeirra 24 sent. Til stóð að hefja póstsendingar milli borganna með flugi þann 15. maí 1918 en prentun frímerkjanna hófst fimm dögum fyrr. Tveimur dögum fyrir áætlað upphaf póstsendinga með flugi komust frímerkin til skila á nokkur pósthús í höfuðborginni.

Degi síðar festi William T. Robey kaup á örk með 100 frímerkjum á pósthúsi fyrir 24 Bandaríkjadali. Hann veitti frímerkjunum ekki mikla athygli enda hafði hann einfaldlega séð fyrir sér að líma þau á umslög sem hann myndi síðan senda frá sér. Örkin sem hann keypti fór þó í sitt fyrirséða ferðalag, þó með óhefðbundnu sniði. Innan við viku eftir að Robey gekk út úr pósthúsinu með frímerkin seldist örkin á 20 þúsund Bandaríkjadali í New York, en hún hafði þá þegar haft viðkomu í Fíladelfíu þar sem frímerkin skiptu um hendur fyrir 15 þúsund dali. Verðmætið hafði því áttahundruðfaldast á örfáum dögum.

Auglýsing

Þar komust frímerkin í hendurnar á Edward Green en sá var sonur kaupsýslukonu að nafni Hetty Green. Hetty var gjarnan kölluð ríkasta kona Bandaríkjanna á þeim uppgangstíma 19. aldarinnar í Bandaríkjunum sem kallaður hefur verið The Gilded Age. Hún var annálaður nískupúki og gjarnan uppnefnd nornin á Wall Street. Edward Green hóf að búta örkina niður og seldi hluta frímerkjanna. Hann hélt þó eftir mikilvægustu hlutum arkarinnar, til að mynda frímerkjunum fjórum sem hér eru í aðalhlutverki en þau voru hluti átta frímerkja blokkar í safni Green. Sú blokk var seld eftir andlát Green á 27 þúsund dali árið 1944. Tíu árum síðar birtist hluti þeirrar blokkar að nýju, nú sem fjórblokkin sem seld var í vikunni.

Frímerkin handleikin af Homer Simpson

Síðan þá hefur fjórblokkin gengið kaupum og sölum nokkrum sinnum. Í október árið 2014 festi Stuart Weitzman kaup á frímerkjunum fyrir rúmar 4,8 milljónir Bandaríkjadala. Hann hafði fyrr það sama ár keypt eins senta frímerkið frá Bresku Gvæjana, svo með kaupunum á fjórblokkinni gat Weitzman státað sig af því að eiga eftirsóttustu frímerki í heimi í flokki bæði notaðra og ónotaðra.

Á uppboði Sotheby’s á þriðjudag seldist fjórblokkin á svipuðu verði og árið 2014, fyrir tæpar 4,9 milljónir dala með öllum gjöldum sem falla á kaupandann, það gera rétt tæpar 600 milljónir. Það er ögn undir því mati sem Sotheby’s setti á frímerkin en verðmatið stóð í fimm til sjö milljónum dala, sem eru um 610 til 850 milljónir króna.

Óhætt er að segja að þessi frímerki séu þekktustu frímerki bandarískrar frímerkjasögu. Til að mynda hafa frímerki úr þessari seríu ratað í sjónvarpsþáttinn The Simpsons en í einum þættinum er haldinn flóamarkaður. Úr kassa í einum básnum dregur Homer Simpson hvern dýrgripinn á fætur öðrum sem honum líst þó ekki mikið á, til að mynda Stradivarius fiðlu, fyrstu útgáfu myndasögublaðsins Action Comics, sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og frímerkjablokk með flugvélinni Jenny á hvolfi. Með vandlætingu vekur Homer athygli á því að mynd flugvélarinnar á frímerkjunum sé á hvolfi áður en hann kastar þeim frá sér líkt og hverju öðru rusli.

Síðasti gullpeningurinn

Þá er enn ótalinn verðmætasti munurinn úr fórum Stuart Weitzman sem seldur var hjá Sotheby’s á þriðjudag og sá eini sem seldist yfir matsverði. Það var gullpeningur, svokallaður tvöfaldur örn, frá árinu 1933 en saga peningsins er um margt áhugaverð og samofin hagsögu Bandaríkjanna.

Á fjórða áratug síðustu aldar var gullfóturinn afnuminn í Bandaríkjunum. Nánar má lesa um gullfót á Vísindavefnum en í stuttu máli, þá er gjaldmiðill sagður vera á gullfæti ef að baki hans er gullforði, þannig að hver seðill eða mynt er í raun ávísun á tiltekið magn gulls. Á þeim tíma þegar gullfóturinn var við lýði var algengt að gull væri notað við myntsláttu og árið 1933 voru tæplega 450 þúsund tvöfaldir ernir slegnir í myntsláttunni í Fíladelfíu. Virði nýslegins penings af þessari gerð var á sínum 20 Bandaríkjadalir en í hverri mynt var tæplega únsa af gulli.

Vegna afnáms gullfótarins var tekin sú ákvörðun að stöðva útgáfu myntarinnar og hún fór því aldrei í umferð. Nýslegna myntin, auk allra annarra gullpeninga í eigu alríkisins, skyldi brædd í gullstykki sem síðan færu í Fort Knox. Það varð því ólöglegt að eiga tvöfalda örninn sem sleginn var 1933. Ekki rataði öll myntin frá 1933 í bræðslupottinn þegar kom loks að því að bræða myntina og komust því nokkrir peningar í hendur safnara.

Svona lítur dýrasta mynt í heimi út.
EPA

Árið 1944 átti að bjóða upp einn slíkan pening hjá uppboðshúsi sem ber heitið Stack’s. Bandaríska leyniþjónustan brá sér á staðinn áður en uppboðið va haldið og gerði peninginn upptækan vegna þess að um þýfi var að ræða. Í kjölfarið fengu allir eigendur myntarinnar frá 1933 bréf þar sem óskað var eftir því að peningunum yrði skilað. Alls voru átta peningar sem skiluðu sér aftur til yfirvalda með þessum hætti.

Vottorð sem segir myntina vera löglega

Með peningnum sem seldur var á þriðjudag fylgir eins konar vottorð frá bandarísku myntsláttunni þar sem fram kemur að ekki sé ólöglegt að eiga þennan tiltekna pening, öll önnur eintök frá 1933 séu hins vegar eign bandarískra yfirvalda. Þetta er því eini peningurinn úr síðustu myntsláttunni árið 1933 sem einstaklingur má eiga. Þetta vottorð var gefið út eftir að myntsali hafði verið handtekinn á Waldorf Astoria hótelinu árið 1996, þegar hann var að reyna að selja peninginn.

Eftir mikinn málarekstur var ákveðið að gefa út þetta tiltekna leyfi og peningurinn var seldur með skilmálum. Helmingur söluandvirðisins rann í vasa myntsalans en hinn helmingurinn fór til yfirvalda.

Auglýsing

Stuart Weitzman keypti tvöfalda örninn frá 1933 fyrir metfé árið 2002. Þá var peningurinn boðinn upp á sameiginlegu uppboði Sotheby’s og Stack’s og nam kaupverðið tæplega 7,6 milljónum dala. Á uppboðinu á þriðjudag seldist myntin fyrir tæpar 18,9 milljónir dala, það er um 2,3 milljarðar króna. Upphaflegt verðmat hljóðaði upp á 10 til 15 milljónir dala, sem samsvara um 1,2 til 1,8 milljörðum króna.

Börnin vildu ekki erfa munina

Í samtali við New York Times sagði Weitzman að æskudraumar hans hefðu verið uppfylltir þegar hann eignaðist þá hluti sem hann seldi aftur frá sér í vikunni. Hann hefði byrjað að safna frímerkjum og myntum af áhuga sem ungur strákur en sem fullorðinn maður hefði hann einbeitt sér af fágætari munum í faginu.

Með sölunni væri hann aftur á móti að búa í haginn, því ekki hefðu börnin hans áhuga á að erfa þessa safngripi. „Það tekur enginn flutningabíl með sér í kirkjugarðinn,“ sagði hinn 79 ára gamli Weitzman við New York Times, „við þurfum að finna út úr því hvað við viljum gera við allt þetta dót.“

Söluandvirðið fyrir þessa þrjá muni, alls um 3,9 milljarðar króna mun fara í góðgerðastarf, meðal annars í góðgerðasamtök fjölskyldunnar, The Weitzman Family Foundation.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiErlent