Borgirnar taka völdin

Borgir stækka sífellt á kostnað dreifbýlis og hugmyndir eru uppi um að öflugar borgir geti spilað stærri þátt í skipan og stjórn heimsmála, styrkt lýðræði og staðið í vegi fyrir einangrunar- og einræðistilburðum.

Búdapest
Auglýsing

Nýverið bárust fréttir af því að borgarstjórinn í Búdapest væri kominn upp á kant við yfirvöld í  Ungverjalandi vegna áforma um viðamikla uppbyggingu Kínverja í borginni. Þar hyggjast þeir reisa háskóla með tilheyrandi byggingum samkvæmt samkomulagi við ríkisstjórn Victors Orban. Þetta hefur vakið úlfúð meðal borgarbúa sem óttast aukin ítök Kínverja í landinu, en þeir eru þekktir fyrir ritskoðun og skoðanakúgun. Svar borgaryfirvalda er að nefna götur sem umkringja svæðið nöfnum sem koma mjög illa við kínversk stjórnvöld, eins og Frelsið Hong Kong-vegur, Dalai Lama-stræti og Uyghur Píslarvottavegur. 

Heimskerfi hins fullvalda ríkis 

Með aukinni hnattvæðingu leika stórborgir sífellt stærra hlutverk enda kjósa fleiri og fleiri að búa þar, á kostnað dreifbýlisins. Nú býr meira en helmingur mannkyns í borgum og hingað til hefur þróunin haldið áfram í þá átt, þó COVID-19 kunni að setja strik í reikninginn tímabundið.

Almennt hefur verið litið svo á að það sé hið fullvalda ríki sem sé megingerandinn í alþjóðakerfinu en fleiri hafa verið að gera sig gildandi, alþjóðlegar stofnanir, stórfyrirtæki og félagasamtök – og það sem hér er til umfjöllunar: borgir og borgarstjórar. 

Auglýsing
Aðgerðir borgaryfirvalda í Búdapest sem þarna ögra stjórnvöldum bæði í Kína og Ungverjalandi allhressilega sýna að borgir geta látið að sér kveða í málum sem hafa alþjóðlega skírskotun. Þegar Donald Trump tilkynnti úrsögn Bandaríkjamanna úr Parísarsamkomulaginu brugðust margir bandarískir borgar- og fylkisstjórar við með því að segjast ætla að halda sínu striki með framkvæmd samkomulagsins hvað sem tilkynningu forsetans liði. 

Þarna má spyrja hver sé þá grundvöllur hins lýðræðislega samfélags, hverjir standi vörð um það, hvert við sækjum borgararéttinn og hverjir séu hagsmunir okkar sem borgara. Þurfa þeir hagsmunir endilega að vera bundnir við ríkið sem við tilheyrum? Þetta leiðir okkur að stóru spurningunni: hvort borgarstjórar geti leikið einleik í utanríkismálum? Hvað verður þá um hið fullvalda ríki og óskoraða utanríkisstefnu þartilbærra stjórnvalda?

Úrelt þjóðríki?

Stjórnmálafræðingurinn Benjamin Barber sem nú er látinn setti fram áhugaverðar og djarfar hugmyndir um alþjóðakerfið og þátt borga í því. Hann hélt því fram að þjóðríkið væri í raun úrelt fyrirbæri. Það væri í eðli sínu gamaldags og byggði á margra alda gömlum hugsunarhætti sem þjónaði alls ekki nútímakröfum um lýðræði og mannréttindi. Borgirnar væru lykilgerendur í nútímasamfélagi og mun betur í stakk búnar til að tryggja praktískar lausnir á vandamálum sem hingað til hefur verið talið eðlilegt að sé á forræði ríkisvaldsins að leysa.

Barber benti á að nú þegar sé til öflugt net borga og borgarstjóra sem hafi tekið höndum saman um að leysa erfið mál eins og löggæslu og öryggismál, en síðast en ekki síst loftslagsmál. Þarna spili stóra rullu sú staðreynd að borgarstjórar hafi vanist því að þurfa að leysa málin og leggja hefðbundin valdastjórnmál til hliðar. Þar sé grundvallaratriðið að valdið komi að neðan þar sem málin séu leyst á praktískan hátt með aðkomu þeirra sem til þekkja. 

Barber sagði hið fullvalda ríki standa ákveðinn vörð um þjóð og þjóðerni innan tiltekins ríkis. Hins vegar kallaði sú þjóðernislega samstaða sem þjóðríkið tryggir líka fram útskúfun, aðskilnað og jafnvel stríð. Hið hefðbundna ríkjafyrirkomulag þjónaði því ef til vill ekki markmiðum um að allir jarðarbúar gætu búið við velmegun og frið, væri það takmarkið á annað borð.

Borgarstjórar taka til sinna ráða

Þegar þjóðarleiðtogar segjast ekki geta eða vilja fórna hagsmunum þjóðar sinnar eða ríkis til að stíga afgerandi skref í baráttunni gegn loftslagsbreytingum getur einnig búið eitthvað allt annað og meira að baki. Bent hefur verið á að t.d. forseti Bandaríkjanna sé jafnan undir miklum þrýstingi frá stórfyrirtækjum sem byggja afkomu sína á olíu- og gasvinnslu og varði ekkert um hugsanlegar loftslagsbreytingar. Hér kristallast hin klassíska togstreita milli stundar- og langtímahagsmuna – gróðann í dag gegn tapi morgundagsins. 

Þegar til á að taka getur hið óskoraða fullveldi ríkis þannig hindrað samvinnu í slíkri viðureign eins og sýndi sig á Kaupmannahafnarfundinum um loftslagsbreytingar 2009. Þar yfirgáfu þjóðarleiðtogarnir fundinn án sýnilegs árangurs – hikandi við að taka ákvarðanir um íþyngjandi skuldbindingar vegna óljósrar framtíðarhættu. Svar borgarstjóra Kaupmannahafnar var hins vegar að bjóða 200 borgarstjórum víðs vegar að úr heiminum til fundar. Komust þeir að samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, enda kemur meirihluti mengunar frá borgum og þær geta því gert mikið hvað sem aðgerðum ríkisvaldsins líður.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA

Aðgerðir borgaryfirvalda í Búdapest, sem er umhugað um lýðræði, eru andsvar við gjörðum stjórnvalda sem eru tilbúin að tryggja einræðisveldinu Kína fótfestu í því sem á að heita evrópskt lýðræðissamfélag. Með slíkum aðgerðum er Victor Orban í raun að gefa lýðræðishugsjónum Evrópusambandsins langt nef, eins og margt í hans stjórnarfari gerir reyndar einnig. Um leið nýtir hann sér vogaraflið sem fylgir tengslunum við Kína til að tryggja völd sín og færa þau nær einræði.

Mikilvægi þjóðríkisins 

Þessar hugmyndir um aukinn hlut borga í stjórnun heimsmála og borgarstjóra sem leiðtoga eru talsvert sannfærandi. Sérstaklega þegar kemur að því að bæta almenn lífsgæði, jafnvel snúa við þróuninni í loftslagsmálum og tryggja betur lýðræði. En einleikur einstakra borgarstjóra gæti jafnframt verið varasamur því ríki þarfnast trúverðugleika og það þarf ákveðna samheldni út á við til að tryggja hann. 

Skemmst er að minnast hugmynda Jóns Gnarr þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur um að banna komur herskipa til borgarinnar. Þótt hugmyndin sé í sjálfu sér virðingarverð hefði slíkt bann getað sett öryggis- og varnarsamstarf Íslendinga í mikið uppnám. Að ógleymdum þeim augljósa agnúa að  slíkt bann hefði strax sett lífsnauðsynlegt samstarf Íslands og Danmerkur um björgunarmál á Norður-Atlantshafi í algert uppnám, en þau herskip sem heimsækja Reykjavíkurhöfn oftast eru dönsk og sinna landhelgisgæslu og leitar- og björgunarstörfum í lögsögum Færeyja og Grænlands. 

Jón Gnarr þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík. Mynd: Birgir Þór Harðarson.

Það beinir sjónum að mikilvægi samheldni samfélaga. Þjóðríki voru ekki fundin upp til að vera upp á punt, þau eiga sér djúpar rætur sem sprottnar eru úr jarðvegi sem kallaði á samheldni og samtakamátt. Þjóðríkið hefur að mörgu leyti sannað sig að því leyti, má nefna baráttu og árangur Íslendinga í viðureigninni við COVID-19. Þar hefur sýnt sig að samfélag með mikla félagslega samheldni, að miklu leyti byggt á þjóðríki með skilvirkar stofnanir, skiptir sköpum. 

Mikilvægi fjölbreyttra samskiptaleiða – þvert á þjóðríkið

Hins vegar er það gömul saga og ný að borgir verða miðpunktur sem fólk sækir til. Á miðöldum þróuðust borgaraleg réttindi í borgríkjum Evrópu þegar handverksmenn og landeigendur börðu á borgarhliðin og gerðu tilkall til réttinda og aðgangs að borgunum í krafti stöðu sinnar. Nútímahöfuðborgir eru ekki bara borgir íbúanna heldur miðstöð þeirra sem búa í landinu öllu og í mörgum tilfellum alþjóðlegar miðstöðvar.

Heimurinn byggir á samkeppni, landamærum og hindrunum. Þó er hann í raun án landamæra því loftslag lýtur ekki landamærum, né heldur nútíma samskiptatækni, viðskipti, hryðjuverk og stríð – eða farsóttir og sjúkdómar eins og reynslan hefur sannarlega kennt okkur

Auglýsing
Borgir spila þarna stórt hlutverk og hafa möguleika á því að stækka og blómgast án þess að ógna öðrum borgum. Að því leyti eru borgir ólíkar þjóðríkinu því þegar ríki vex og dafnar verður það um leið ákveðin ógn við önnur ríki. Það sem gerði framtak borgar- og fylkisstjóranna sem brugðust við aðgerðum Trumps gagnvart Parísarsamkomulaginu merkilegt er að það er dæmi um vald sem kemur að neðan. Það er á byggt á praktískum forsendum, en ekki að ofan þar sem forsendurnar eru óljósar eins og rakið var að framan.

Ein af neikvæðu hliðum hnattvæðingarinnar er að hún máir út einkenni og sérstöðu fólks og þjóða og getur þannig grafið undan hagsmunum hópa, trú og siðum. Það kallar oft á andstöðu, skerpir átakalínur og veldur einangrun viðkomandi hópa sem telja sig hlunnfarna. Þjóðarleiðtogar sem hallast að einræði nýta sér þann ótta sem gjarnan er að baki og skerpa á honum til að tryggja stöðu sína. Fleiri og fjölbreyttari samskiptaleiðir fólks og fyrirtækja þvert á þjóðríki og landamæri, þar sem borgir koma inn með afgerandi hætti, geta átt þátt í brjóta upp eða í það minnsta vega á móti þeirri tilhneigingu.

Öflug höfuðborg þarf ekki að vera andstæðingur dreifbýlis

Enginn  heldur því fram að lausnin sé að færa valdið frá ríkisstjórnum í hendur borgarstjóra, ríki og borg þannig teflt fram sem andstæðum. Hugmyndin varpar hins vegar ljósi á þá staðreynd að lýðræðinu er kannski ekki sjálfkrafa þjónað á vettvangi hinna fullvalda ríkja. Hugsanlega ýtir þetta undir einskonar samkeppni um völd á lýðræðislegum forsendum, þar sem fleiri koma að málum og gæti verið góð leið til að auka lýðræði.

Sé horft til stöðu þessara mála hér þá hafa Íslendingar eins og aðrir upplifað þær miklu breytingar hvar fólk flykkist til borgarinnar úr sveitunum með tilheyrandi fólksfækkun og hnignun landsbyggðarinnar – sem var meginstefið í þróun samfélagsgerðar á Íslandi á nýliðinni öld. Hér kynni því einhver að hrökkva við þegar rætt er um aukið vægi borga – þá mögulega á kostnað landsbyggðar?

Ágætt er að hafa í huga að um 80% landsmanna búa á suð-vesturhorninu – höfuðborgarsvæðinu. Stjórnsýsla á svæðinu er hins vegar ennþá sundurlaus og skipt á milli fjölda sveitarfélaga af hverjum hin eiginlega höfuðborg Reykjavík er aðeins einn leikenda. Engu að síður er það svo Reykjavík er eina sveitarfélag landsins sem hefur haft bolmagn til að taka á sig, eða a.m.k. leggur metnað sinn í það, alla lögbundna starfsemi og þjónustu sem ríkisvaldinu hefur hugnast að færa til sveitarfélaga. Það er því ekki óeðlilegt að Reykjavík og fulltrúar hennar muni vilja taka sér meira pláss á sviði lands- og alþjóðamála – í umhverfis- og friðarmálum sem kynni að þrýsta á íslensk stjórnvöld. 

En það þurfa ekki að vera slagbrandar fyrir borgarhliðunum eins og í borgríkjunum forðum þar sem fólk þurfti að hafa tiltekna stöðu til að fá aðgang. Öflug nútímahöfuðborg er mikilvægur vettvangur þjóðarinnar allrar og þyrfti síður en svo að mynda klofning milli borgar og sveitar. Því þó þar séu miklar andstæður, þá þarfnast þær hvor annarrar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki veirð meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Fjármálastöðugleikanefnd SÍ
Hafa áhyggjur af þróun á fasteignamarkaði
Þróunin á húsnæðismarkaði var meðal þess sem var rætt á síðasta fundi fjármálastöðugleikanefndar en meirihluti nefndarmanna taldi hana benda til vaxandi ójafnvægis.
Kjarninn 28. júlí 2021
Vel yfir 100 smit annan daginn í röð
Í þessum mánuði hafa 810 manns greinst með kórónuveiruna innanlands. Yfir 77 prósent þeirra sem greindust í gær voru utan sóttkvíar. Síðustu tvo daga hefur smitfjöldinn farið vel yfir 100.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar