Bára Huld Beck

Þegar „háttvirtur ráðherra“ fékk sér grímulaus í glas – og löggan kjaftaði frá

Ráðherra og konan hans ganga inn á listasafn á Þorláksmessu, kasta kveðju á vinafólk sitt og þiggja léttvín. Undir venjulegum kringumstæðum myndi enginn hafa neitt við þetta að athuga en þarna eru kringumstæður ekki venjulegar. Lögreglan mætir á svæðið og í framhaldinu upphefst óvenjuleg atburðarás sem enn dregur dilk á eftir sér. Kjarninn fer yfir málið.

Árið 2020 mun seint hverfa lands­mönnum úr minni fyrir þær aug­ljósu sakir að um heim allan geis­aði far­ald­ur. Í lok árs giltu strangar sótt­varna­reglur og hvöttu sótt­varna­yf­ir­völd fólk til að halda svokölluð „jólakúlu­jól“ – þar sem 10 manns máttu koma sam­an.

„Rík hefð er fyrir því að fólk komi saman og njóti sam­ver­unnar og alls þess sem hátíð­arnar hafa upp á að bjóða. Fyrir marga verður þessi tími frá­brugð­inn því sem við erum vön líkt og með annað á þessu ári. Samt sem áður höfum við ýmsa mögu­leika á því að gleðj­ast sam­an, þó ekki fleiri en 10 sam­an, því sam­kvæmt þeim reglum sem við fylgjum til 12. jan­úar þá mega ekki fleiri vera í hverri jólakúlu. Því er ljóst að þessi jól verði mögu­lega lág­stemmd­ari og með breyttu sniði fyrir marga.“

Svona hljóm­aði hvatn­ingin á covid.is fyrir jólin 2020. Sama fyr­ir­komu­lag hafði verið um pásk­ana og hafði það gengið vel. Vonir stóðu til að það sama yrði upp á ten­ingnum um jól­in. Klukkan 6:08 að morgni aðfanga­dags sendi lög­reglan frá sér upp­lýs­inga­póst úr dag­bók lög­reglu eins og van­inn er á hverjum morgni þar sem farið var yfir helstu verk­efni hennar á Þor­láks­messu­kvöld og aðfara­nótt aðfanga­dags.

Auglýsing

Þriðja atriðið í póst­inum vakti þó strax athygli – og átti eftir að hafa víð­tækar afleið­ing­ar. Þar var greint frá því að klukkan 22:25 á Þor­láks­messu hefði lög­reglan verið kölluð til vegna sam­kvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykja­vík­ur.

„Veit­inga­rekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lok­aður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40 til 50 gestir voru sam­an­komin í saln­um, þar á meðal einn hátt­virtur ráð­herra í rík­is­stjórn Íslands. Tölu­verð ölvun var í sam­kvæm­inu og voru flestir gest­anna með áfengi við hönd. Lög­reglu­menn veittu athygli að eng­inn gest­anna var með and­lits­grímur fyrir and­liti. Lög­reglu­menn sögðu að nán­ast hvergi voru fjar­lægð­ar­tak­mörk virt. Lög­reglu­menn sáu aðeins 3 spritt­brúsa í saln­um. Lög­reglu­menn ræddu við ábyrgð­ar­menn skemmt­un­ar­innar og þeim kynnt að skýrsla yrði rit­uð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp and­lits­grímu. Gest­irnir kvödd­ust margir með faðm­lögum og ein­hverjir með koss­um. Einn gest­anna var ósáttur með afskipti lög­reglu og líkti okkur við nas­ista,“ sagði í pósti lög­regl­unn­ar.

Miklar vanga­veltur um hver hinn „hátt­virti ráð­herra“ væri

Fjöl­miðlar fóru strax í það að reyna að kom­ast að því um hvaða „hátt­virta ráð­herra“ væri að ræða og miklar vanga­veltur voru á sveimi á sam­fé­lags­miðl­um. Um tíu­leytið fóru að birt­ast fréttir um að ráð­herr­ann í sam­kvæm­inu hefði verið Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. 

Skömmu síðar birti Bjarni stöðu­upp­færslu á Face­book þar sem hann gekkst við því að hafa verið á meðal gesta í sam­kvæm­inu. „Á heim­­leið úr mið­­borg­inni í gær­­kvöldi fengum við Þóra sím­­tal frá vina­hjón­um, sem voru stödd á lista­safn­inu í Ásmund­­ar­­sal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köst­uðum á þau jóla­­kveðju. Þegar við komum inn og upp í sal­inn í gær­­kvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyr­­ir.

Eins og lesa má í fréttum kom lög­­reglan og leysti sam­kom­una upp. Og rétt­i­­lega. Þarna hafði of margt fólk safn­­ast sam­­an.

Ég hafði verið í hús­inu í um fimmtán mín­útur og á þeim tíma fjölg­aði gest­un­­um. Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­­­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­­mark­ana. Það gerði ég ekki og ég biðst inn­i­­lega afsök­unar á þeim mis­­tök­um,“ skrif­aði Bjarni á Face­book.

„Ég hafði verið í hús­inu í um fimmtán mín­útur og á þeim tíma fjölg­aði gest­un­um. Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­mark­ana. Það gerði ég ekki og ég biðst inni­lega afsök­unar á þeim mis­tök­um,“ skrifaði Bjarni á Facebook.
Bára Huld Beck

„Við misstum yfir­sýn og biðj­umst afsök­un­ar“

Í stöðu­upp­færslu á Face­book sem birt var skömmu fyrir hádegi á aðfanga­dag, á síðu Ásmund­ar­sal­ar, kom fram að eig­endur og rekstr­ar­að­ilar Ásmund­ar­salar vildu taka það fram vegna frétta að sal­ur­inn væri lista­safn og verslun með leyfi til að hafa opið til klukkan 23 á Þor­láks­messu.

„Einnig er sal­ur­inn með veit­inga­leyfi. Ekki var um einka­sam­kvæmi að ræða í gær heldur var sölu­sýn­ing­in „­Gleði­leg jól” opin fyrir gesti og gang­andi.

Þegar klukkan var farin að ganga 22:30 dreif að fólk sem var að koma úr mið­bænum og við gerðum mis­tök með að hafa ekki stjórn á fjöld­anum sem kom inn. Flestir gest­anna voru okkur kunn­ugir, fastakúnn­ar, list­unn­endur og vinir sem hafa und­an­farin ár gert það að hefð að leggja leið sína til okkar á Þor­láks­messu. Við misstum yfir­sýn og biðj­umst afsök­unar á því,“ stóð í stöðu­upp­færslu Ásmund­ar­sal­ar.

Margir kröfð­ust þess að Bjarni segði af sér

Mikil reiði greip um sig víða, enda höfðu verið við lýði stífar tak­mark­anir vegna þriðju bylgju kór­ónu­veirunn­ar, eins og áður seg­ir. Að einn þeirra ráð­herra, sem setti reglur um tak­mark­an­ir, hefði ekki farið eftir þeim sjálfur fór illa í marga.

Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði strax á aðfanga­dag að það væri mjög slæmt þegar for­yst­u­­menn þjóð­­ar­innar færu ekki eftir þessum regl­um. „Ef það er rétt sem þar kemur fram þá er þetta klár­­lega brot á sótt­­varn­­ar­­reglum og mér finnst það miður að þetta hafi gerst.“

Logi Ein­ars­son for­maður Sam­fylk­ing­ar­innar sagði að Bjarni hlyti „að íhuga það alvar­­lega að segja af sér. Ef hann er ekki að gera það þá hljóta sam­­starfs­­flokk­­arnir tveir að pressa á hann vegna þess að ég trúi varla að hann hafi stuðn­­ing allra ann­­arra ráð­herra eða meiri­hluta Alþing­­is.“ Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir þing­maður Pírata sagði hegðun Bjarna ófor­svar­an­lega og að upp­á­koman væri „af­sagn­ar­sök“.

Auglýsing

Á jóla­dag steig Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra fram og tjáði sig um mál­ið. Hún sagði við Vísi að hún hefði rætt við Bjarna dag­inn áður og tjáð honum óánægju sína með mál­ið. „Svona atvik skaðar traustið á milli flokk­anna og gerir sam­­starfið erf­ið­­ara. Sér­­stak­­lega vegna þessa að við stöndum í stór­ræðum þessa dag­ana, hins vegar er sam­­staðan innan stjórn­­­ar­innar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“ Hún gerði þó ekki kröfu um að Bjarni myndi segja af sér vegna máls­ins. 

Orða­lag „á skjön við vinnu­regl­ur“

Á annan í jól­um, 26. des­em­ber, barst til­kynn­ing fá lög­regl­unni á höf­uð­borg­ar­svæð­inu þar sem sagði að það hefði verið á skjön við vinn­u­­reglur hennar að láta upp­­lýs­ingar um að „hátt­virtur ráð­herra“ hefði verið í sam­kvæm­inu á Þor­láks­messu. Á þeim tíma sem til­kynn­ingin barst hafði ekki birst nein frétt í fjöl­miðlum lands­ins þar sem umrætt verk­lag hafði verið til umfjöll­un­ar. 

Per­sónu­vernd taldi ekki ástæðu til að aðhaf­­ast vegna dag­­bók­­ar­­færsl­unnar þar sem opin­berar per­­sónur nytu almennt minni frið­­helgi en aðr­­ar. 

Þann 28. des­em­ber 2020 sendu eig­endur Ásmund­ar­sal­ar, þau Aðal­heiður Magn­ús­dóttir og Sig­ur­björn Þor­kels­son, yfir­lýs­ingu þar sem þau sögðu að fjölda­tak­mark­anir hefðu ekki verið brotnar í sam­kvæm­inu á Þor­láks­messu. Þar sagði að sýn­ing­ar­sal­ur­inn, sem er á efri hæð Ásmunda­sal­ar, væri versl­un­ar­rými og félli því undir þær sótt­varn­ar­reglur sem um þau giltu á þessum tíma. Ekki hefði verið um einka­sam­kvæmi að ræða heldur opna sýn­ingu.

„Á neðri hæð Ásmund­ar­salar er kaffi­hús með vín­veit­inga­leyfi þar sem 15 manns mega koma saman og við­bót­ar­rýmið Gryfjan sem allt að 10 manns mega vera í. Á efri hæð er aðal­sýn­ing­ar­rými verka þar sem allt að 35 manns mega koma sam­an. Heild­ar­fjöldi í bygg­ing­unni getur því verið allt að 60 manns að upp­fylltum sótt­varn­ar­regl­um. Á Þor­láks­messu­kvöld var Gryfjan lokuð og var því leyfi fyrir 50 manns í hús­inu. Eig­endur telja ótví­rætt að fjöldi gesta hafi ávallt verið undir því við­mið­i,“ sagði í til­kynn­ingu eig­end­anna.

Lög­reglan vildi ekki greina frá nið­ur­stöð­unni

Þennan sama dag fór Bjarni í við­tal í Kast­ljósi og sagð­ist hafa þegið létt­vín í Ásmund­ar­sal en hefði „aldrei [ver­ið] stadd­ur í neinu par­­tí­i“. Hann hefði upp­lifað að hann hefði verið í salnum í korter og stæði við það mat. Bjarni taldi sig ekki hafa brotið sótt­varna­lög. 

Þrátt fyrir þessa afstöðu ákvað lög­reglan að hefja form­lega rann­sókn á mögu­legu sótt­varna­broti í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu og gerði grein fyrir því í til­kynn­ingu 30. des­em­ber. Þar kom fram að rann­sóknin myndi meðal ann­ars fela í sér að yfir­­fara upp­­­tökur úr búk­­mynda­­vélum lög­­­reglu­­manna með til­­liti til brota á sótt­­vörn­­um.

Þeirri rann­sókn lauk í jan­úar og var málið í kjöl­farið sent ákæru­sviði lög­regl­unnar 22. jan­úar sem átti að taka ákvörðun um hvort sektir yrðu gefnar út eða ekki.

Nið­ur­staða liggur nú fyrir en lög­reglan vildi ekki greina frá henni opin­ber­lega í vik­unni sem leið. Sam­kvæmt yfir­lýs­ingu frá eig­endum Ásmund­ar­sal­ar, sem birt­ist í fyrra­dag, brutu þeir ein­ungis gegn ákvæði um grímu­skyldu. Þeir segja að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjölda­tak­mark­anir í salnum né opn­un­ar­tíma umrætt kvöld og að ekk­ert sam­kvæmi hafi verið haldið í lista­safn­inu.

Lögreglan segir að engin tilraun hafi verið gerð til að leyna því sem fram kom á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Birgir Þór Harðarson

Hátt­­semi lög­­­reglu­­manna á vett­vangi getur talist „á­­mæl­is­verð“ sam­kvæmt nefnd­inni

Þann 26. febr­úar greindi mbl.is frá því að nefnd sem hefur eft­ir­lit með störfum lög­­­reglu væri að kanna sam­­skipti hennar við fjöl­miðla eftir að sam­­kvæmið í Ásmund­­ar­­sal á Þor­láks­­messu var leyst upp. Einnig yrði kannað hvort sam­ræmi væri milli þess sem kom fram á upp­­­töku og þess sem skrifað var í skýrslu lög­­­reglu. 

Í fyrr­nefndri yfir­lýs­ingu eig­enda Ásmund­ar­salar kemur fram að nefndin hafi tekið starfs­hætti lög­reglu til skoð­unar og gert alvar­legar athuga­semdir við hátt­semi lög­reglu­þjóna og vinnu­brögð emb­ætt­is­ins. Í frétt Frétta­blaðs­ins um málið kemur síðan fram að í skýrslu nefnd­ar­innar sé rakið sam­­tal lög­­­reglu­­manna á vett­vangi. Þar megi heyra á tal tveggja lög­­­reglu­­manna.

Annar lög­reglu­mað­ur­inn seg­ir: „Hvernig yrði frétta­til­kynn­ingin ... 40 manna einka­­sam­­kvæmi og þjóð­þekktir ein­stak­ling­ar..., er það of mikið eða?“ Hinn seg­ir: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það ...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálf­­stæðis ... svona ... frama­potarar eða þú veist.“

Sam­kvæmt Frétta­blað­inu telur nefndin þessa hátt­­semi lög­­­reglu­­mann­anna á vett­vangi geta verið á­mæl­is­verða og þess eðlis að til­­efni sé til að senda þann þátt máls­ins til með­­­ferðar hjá lög­­­reglu­­stjór­anum á höf­uð­­borg­ar­­svæð­inu. Jafn­framt kemur fram að fyrst þegar nefndin ætl­aði að fara yfir upp­tökur úr búk­­mynda­­vélum lög­­­reglu­­manna hafi komið í ljós að af­máður hafði verið hluti af hljóði upp­­tak­anna. Fékk nefndin að lokum upp­tökur með hljóði.

Lög­reglan mót­mælti ásök­unum um leyni­makk

Lög­reglan á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sendi frá sér til­kynn­ingu vegna máls­ins seinni part­inn í gær en í henni segir að engin til­raun hafi verið gerð til að leyna því sem fram kom á upp­tökum úr búk­mynda­vélum lög­reglu­manna sem komu á vett­vang í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu.

Eft­ir­lits­nefnd með störfum lög­reglu hafi fengið tæm­andi end­ur­rit af sam­ræðum lög­reglu­manna á vett­vangi fylgdi með til nefnd­ar­innar strax í upp­hafi skoð­unar hennar á mál­inu og þegar hún hafi beðið um nýtt ein­tak af upp­töku úr búmynda­vélum hafi rétt ein­tak verið sent til nefnd­ar­inn­ar.

Í til­kynn­ingu lög­reglu segir að það sé grund­vall­ar­at­riði að við­halda því góða trausti sem lög­reglan nýt­ur. Eft­ir­lit með störfum lög­reglu sé einn af horn­steinum þess að við­halda því trausti. „Hvað varðar afhend­ingu gagna til nefnd­ar­innar er rétt að taka fram að tæm­andi end­ur­rit af sam­ræðum lög­reglu­manna á vett­vangi fylgdi með til nefnd­ar­innar strax í upp­hafi. Nefndin hafði þar af leið­andi umrædd sam­töl, sem vísað er til í nið­ur­stöðum henn­ar, undir höndum allan tím­ann. Rétt er að hluti af upp­tökum úr búk­mynda­vélum á vett­vangi var án hljóðs. Þegar nefndin gerði athuga­semd við það var rétt ein­tak sent til nefnd­ar­inn­ar. Engin til­raun var gerð til að leyna því sem fram kom á upp­tök­un­um.

Hvað varðar nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar um að vís­bend­ingar séu um að dag­bók­ar­færsla hafi verið efn­is­lega röng telur emb­ættið mik­il­vægt að taka fram að fyrstu upp­lýs­ingar lög­reglu sem feng­ust á vett­vangi voru á þann veg að um einka­sam­kvæmi væri að ræða og var það því skráð sem slíkt í dag­bók lög­reglu. „Hins vegar leiddi frek­ari rann­sókn máls­ins í ljós að svo var ekki. Mark­mið með birt­ingu upp­lýs­inga úr dag­bók­ar­færslum er að fjalla um verk­efni lög­reglu eins og þau birt­ast á hverjum tíma. Eðli máls sam­kvæmt geta mál skýrst eða tekið aðra stefnu eftir því sem rann­sókn miðar áfram,“ segir í til­kynn­ingu lög­reglu.

Annar angi vatt upp á sig

Á svip­uðum tíma í febr­úar og fréttir bár­ust af því að nefndin væri að skoða málið þá opin­ber­aði RÚV að Áslaug Arna Sig­ur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra hefði hringt tví­­­­­­­vegis í Höllu Berg­þóru Björns­dótt­ur, lög­reglu­stjóra höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, á aðfanga­dag 2020 í kjöl­far þess að lög­­­­reglan hafði greint fjöl­miðlum frá því að „hátt­­­­virkur ráð­herra“ hefði verið staddur í sam­­­­kvæmi í Ásmund­­­­ar­­­­sal kvöldið áður. 

Áslaug Arna var boðuð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að ræða símtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
Bára Huld Beck

Áslaug Arna sagði við RÚV að sam­­­­töl hennar við lög­­­­­­­reglu­­­­stjór­ann hefðu verið vegna spurn­inga sem hún hafði um verk­lag og upp­­­­lýs­inga­­­­gjöf við gerð dag­­bók­­ar­­færslna lög­­­reglu. „Fjöl­miðlar spurðu mig hvort hún væri eðli­­leg. Ég þekkti ekki verk­lag dag­­bók­­ar­­færslna lög­­regl­unnar og spurði aðeins um það.“

Kjarn­inn greindi frá því í byrjun mars að í svari dóms­mála­ráð­herra við fyr­ir­spurn mið­ils­ins hefði ekki komið skýrt fram hvort allir helstu fjöl­miðlar lands­ins, sem hún sagði að hefði sett sig í sam­band við hana á aðfanga­dag, hefðu spurt sér­­stak­­lega út í verk­lags­­reglur lög­­­reglu í tengslum við dag­­bók­­ar­­færslu lög­regl­unnar á aðfanga­dag. Í skrif­legu svari sagði Áslaug Arna: „Þegar ljóst var hvers eðlis málið var og hvernig það var að þró­­ast þennan sama dag, taldi ég ekki við hæfi að tjá mig um það – hvorki um dag­­bók­­ar­­færsl­una sjálfa né aðra anga máls­ins.“

Dóms­mála­ráð­herra vissi að Bjarni væri „hátt­virti ráð­herrann“

Vegna þessa var Áslaug Arna boðuð fyrir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd og kom hún fyrir nefnd­ina þann 1. mars. Hún sagði í áður­nefndu skrif­legu svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um málið að hún hefði ekki átt sam­­skipti við Bjarna áður en hún átti sam­­skipti við lög­­­reglu­­stjóra en að hún hefði átt sam­­skipti við Bjarna síðar á aðfanga­dag.

Í við­tali við RÚV eftir fund stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar var hins vegar haft eftir dóms­­mála­ráð­herra að hún hefði vitað að það var Bjarni sem hafði verið í Ásmund­­ar­­sal á Þor­láks­­messu áður en hún hringd­i. 

Halla Berg­þóra mætti svo sjálf fyrir nefnd­ina dag­inn eft­ir. Hún vildi ekki tjá sig um sím­tölin opin­ber­lega. Þegar hún var til við­tals í Silfr­inu helg­ina áður bar hún það fyrir sig að málið væri til með­ferðar hjá þing­nefnd og vegna þess gæti lög­reglu­stjór­inn ekki tjáð sig um það.

Auglýsing

Málið farið að snú­ast um eitt­hvað sem „skiptir í raun ekki máli“

Guð­mundur Andri Thors­son þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar gerði lög­reglu­málið í Ásmund­ar­sal að umræðu­efni á Face­book-­síðu sinni í gær. Hann sagði í sam­tali við Kjarn­ann umræð­una um málið dæmi­gerða um það hvernig hægt væri snúa frá­sögn á hvolf. Nú væri málið látið fara að snú­ast um eitt­hvað sem skipti í raun ekki máli.

Vís­aði hann í þá umræðu sem nú er hvað hávær­ust um málið – um aðgerðir lög­regl­unn­ar.

„Fjár­mála­ráð­herra og einn þriggja leið­toga rík­is­stjórn­ar­innar reynd­ist vera staddur í mann­fagn­aði á Þor­láks­messu síð­ast­lið­inni á sama tíma og strangt sam­komu­bann var í gildi sam­kvæmt reglu­gerð þeirrar hinnar sömu rík­is­stjórn­ar.

Þetta sam­komu­bann var afar íþyngj­andi fyrir almenn­ing: fólk gat ekki haldið jóla­boð, stór­fjöl­skyldur gátu ekki hist, gam­alt fólk var fast á hjúkr­un­ar­heim­ilum eða heima hjá sér, tón­leikar fóru ekki fram, veit­inga­staðir voru lok­að­ir, þjóð­lífið var nán­ast lamað: en það var sem sagt hægt að halda mann­fagnað í Ásmund­ar­sal með því að kalla hann ýmist sýn­ingu, kynn­ingu, opnun eða annað eftir því hvað klukkan var. Og þar var leið­togi rík­is­stjórn­ar­innar sem sé að lyfta glasi í góðra vina hópi. Umræðan nú snýst um það hvort lög­reglu­menn sem komu á vett­vang hafi haft óvið­ur­kvæmi­leg orð um þetta í sinn hóp,“ skrif­aði hann.

Bjarni aldrei yfir­heyrður vegna máls­ins

En hvað með „hátt­virtan ráð­herrann“? Bjarni sagði í sam­tali við Vísi í fyrra­dag að hann hefði ekki haft veður af því að nið­ur­staða væri komin í mál­ið. Hann kvaðst enda ekki hafa verið til rann­sóknar svo að hann vissi til. „Ég er ekki aðili að mál­in­u,“ sagði hann.

Jafn­fram kom fram hjá Vísi í vik­unni að Bjarni hefði aldrei verið and­lag rann­sóknar lög­regl­unnar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í tengslum við mál­ið.

Jafn­framt hefði Bjarni aldrei verið yfir­heyrður vegna máls­ins og nú þegar nið­ur­staða er komin í málið væri hann ekki á meðal þeirra sem boðið hefur verið að greiða sekt. „Við höfum aldrei verið í neinum sam­skiptum eða til rann­sóknar svo að við vitum til vegna þessa máls. Við höfum ekki fengið neina til­kynn­ingu eða beiðni um yfir­heyrslu eða sam­tal,“ sagði aðstoð­ar­maður hans við Vísi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar