Bára Huld Beck

Þegar „háttvirtur ráðherra“ fékk sér grímulaus í glas – og löggan kjaftaði frá

Ráðherra og konan hans ganga inn á listasafn á Þorláksmessu, kasta kveðju á vinafólk sitt og þiggja léttvín. Undir venjulegum kringumstæðum myndi enginn hafa neitt við þetta að athuga en þarna eru kringumstæður ekki venjulegar. Lögreglan mætir á svæðið og í framhaldinu upphefst óvenjuleg atburðarás sem enn dregur dilk á eftir sér. Kjarninn fer yfir málið.

Árið 2020 mun seint hverfa landsmönnum úr minni fyrir þær augljósu sakir að um heim allan geisaði faraldur. Í lok árs giltu strangar sóttvarnareglur og hvöttu sóttvarnayfirvöld fólk til að halda svokölluð „jólakúlujól“ – þar sem 10 manns máttu koma saman.

„Rík hefð er fyrir því að fólk komi saman og njóti samverunnar og alls þess sem hátíðarnar hafa upp á að bjóða. Fyrir marga verður þessi tími frábrugðinn því sem við erum vön líkt og með annað á þessu ári. Samt sem áður höfum við ýmsa möguleika á því að gleðjast saman, þó ekki fleiri en 10 saman, því samkvæmt þeim reglum sem við fylgjum til 12. janúar þá mega ekki fleiri vera í hverri jólakúlu. Því er ljóst að þessi jól verði mögulega lágstemmdari og með breyttu sniði fyrir marga.“

Svona hljómaði hvatningin á covid.is fyrir jólin 2020. Sama fyrirkomulag hafði verið um páskana og hafði það gengið vel. Vonir stóðu til að það sama yrði upp á teningnum um jólin. Klukkan 6:08 að morgni aðfangadags sendi lögreglan frá sér upplýsingapóst úr dagbók lögreglu eins og vaninn er á hverjum morgni þar sem farið var yfir helstu verkefni hennar á Þorláksmessukvöld og aðfaranótt aðfangadags.

Auglýsing

Þriðja atriðið í póstinum vakti þó strax athygli – og átti eftir að hafa víðtækar afleiðingar. Þar var greint frá því að klukkan 22:25 á Þorláksmessu hefði lögreglan verið kölluð til vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur.

„Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40 til 50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista,“ sagði í pósti lögreglunnar.

Miklar vangaveltur um hver hinn „háttvirti ráðherra“ væri

Fjölmiðlar fóru strax í það að reyna að komast að því um hvaða „háttvirta ráðherra“ væri að ræða og miklar vangaveltur voru á sveimi á samfélagsmiðlum. Um tíuleytið fóru að birtast fréttir um að ráðherrann í samkvæminu hefði verið Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. 

Skömmu síðar birti Bjarni stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann gekkst við því að hafa verið á meðal gesta í samkvæminu. „Á heim­leið úr mið­borg­inni í gær­kvöldi fengum við Þóra sím­tal frá vina­hjón­um, sem voru stödd á lista­safn­inu í Ásmund­ar­sal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köst­uðum á þau jóla­kveðju. Þegar við komum inn og upp í sal­inn í gær­kvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyr­ir.

Eins og lesa má í fréttum kom lög­reglan og leysti sam­kom­una upp. Og rétti­lega. Þarna hafði of margt fólk safn­ast sam­an.

Ég hafði verið í hús­inu í um fimmtán mín­útur og á þeim tíma fjölg­aði gest­un­um. Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­mark­ana. Það gerði ég ekki og ég biðst inni­lega afsök­unar á þeim mis­tök­um,“ skrifaði Bjarni á Facebook.

„Ég hafði verið í hús­inu í um fimmtán mín­útur og á þeim tíma fjölg­aði gest­un­um. Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­mark­ana. Það gerði ég ekki og ég biðst inni­lega afsök­unar á þeim mis­tök­um,“ skrifaði Bjarni á Facebook.
Bára Huld Beck

„Við misstum yfirsýn og biðjumst afsökunar“

Í stöðuuppfærslu á Facebook sem birt var skömmu fyrir hádegi á aðfangadag, á síðu Ásmundarsalar, kom fram að eigendur og rekstraraðilar Ásmundarsalar vildu taka það fram vegna frétta að salurinn væri listasafn og verslun með leyfi til að hafa opið til klukkan 23 á Þorláksmessu.

„Einnig er salurinn með veitingaleyfi. Ekki var um einkasamkvæmi að ræða í gær heldur var sölusýningin „Gleðileg jól” opin fyrir gesti og gangandi.

Þegar klukkan var farin að ganga 22:30 dreif að fólk sem var að koma úr miðbænum og við gerðum mistök með að hafa ekki stjórn á fjöldanum sem kom inn. Flestir gestanna voru okkur kunnugir, fastakúnnar, listunnendur og vinir sem hafa undanfarin ár gert það að hefð að leggja leið sína til okkar á Þorláksmessu. Við misstum yfirsýn og biðjumst afsökunar á því,“ stóð í stöðuuppfærslu Ásmundarsalar.

Margir kröfðust þess að Bjarni segði af sér

Mikil reiði greip um sig víða, enda höfðu verið við lýði stífar takmarkanir vegna þriðju bylgju kórónuveirunnar, eins og áður segir. Að einn þeirra ráðherra, sem setti reglur um takmarkanir, hefði ekki farið eftir þeim sjálfur fór illa í marga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði strax á aðfangadag að það væri mjög slæmt þegar for­ystu­menn þjóð­ar­innar færu ekki eftir þessum reglum. „Ef það er rétt sem þar kemur fram þá er þetta klár­lega brot á sótt­varn­ar­reglum og mér finnst það miður að þetta hafi gerst.“

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði að Bjarni hlyti „að íhuga það alvar­lega að segja af sér. Ef hann er ekki að gera það þá hljóta sam­starfs­flokk­arnir tveir að pressa á hann vegna þess að ég trúi varla að hann hafi stuðn­ing allra ann­arra ráð­herra eða meiri­hluta Alþing­is.“ Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði hegðun Bjarna óforsvaranlega og að uppákoman væri „afsagnarsök“.

Auglýsing

Á jóladag steig Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fram og tjáði sig um málið. Hún sagði við Vísi að hún hefði rætt við Bjarna daginn áður og tjáð honum óánægju sína með mál­ið. „Svona atvik skaðar traustið á milli flokk­anna og gerir sam­starfið erf­ið­ara. Sér­stak­lega vegna þessa að við stöndum í stór­ræðum þessa dag­ana, hins vegar er sam­staðan innan stjórn­ar­innar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“ Hún gerði þó ekki kröfu um að Bjarni myndi segja af sér vegna málsins. 

Orðalag „á skjön við vinnureglur“

Á annan í jólum, 26. desember, barst tilkynning fá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem sagði að það hefði verið á skjön við vinnu­reglur hennar að láta upp­lýs­ingar um að „hátt­virtur ráð­herra“ hefði verið í samkvæminu á Þorláksmessu. Á þeim tíma sem tilkynningin barst hafði ekki birst nein frétt í fjölmiðlum landsins þar sem umrætt verklag hafði verið til umfjöllunar. 

Persónuvernd taldi ekki ástæðu til að aðhaf­ast vegna dag­bók­ar­færsl­unnar þar sem opin­berar per­sónur nytu almennt minni frið­helgi en aðr­ar. 

Þann 28. desember 2020 sendu eigendur Ásmundarsalar, þau Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, yfirlýsingu þar sem þau sögðu að fjöldatakmarkanir hefðu ekki verið brotnar í samkvæminu á Þorláksmessu. Þar sagði að sýningarsalurinn, sem er á efri hæð Ásmundasalar, væri verslunarrými og félli því undir þær sóttvarnarreglur sem um þau giltu á þessum tíma. Ekki hefði verið um einkasamkvæmi að ræða heldur opna sýningu.

„Á neðri hæð Ásmundarsalar er kaffihús með vínveitingaleyfi þar sem 15 manns mega koma saman og viðbótarrýmið Gryfjan sem allt að 10 manns mega vera í. Á efri hæð er aðalsýningarrými verka þar sem allt að 35 manns mega koma saman. Heildarfjöldi í byggingunni getur því verið allt að 60 manns að uppfylltum sóttvarnarreglum. Á Þorláksmessukvöld var Gryfjan lokuð og var því leyfi fyrir 50 manns í húsinu. Eigendur telja ótvírætt að fjöldi gesta hafi ávallt verið undir því viðmiði,“ sagði í tilkynningu eigendanna.

Lögreglan vildi ekki greina frá niðurstöðunni

Þennan sama dag fór Bjarni í viðtal í Kastljósi og sagðist hafa þegið léttvín í Ásmundarsal en hefði „aldrei [verið] stadd­ur í neinu par­tíi“. Hann hefði upplifað að hann hefði verið í salnum í korter og stæði við það mat. Bjarni taldi sig ekki hafa brotið sóttvarnalög. 

Þrátt fyrir þessa afstöðu ákvað lögreglan að hefja formlega rannsókn á mögulegu sóttvarnabroti í Ásmundarsal á Þorláksmessu og gerði grein fyrir því í tilkynningu 30. desember. Þar kom fram að rannsóknin myndi meðal annars fela í sér að yfir­fara upp­tökur úr búk­mynda­vélum lög­reglu­manna með til­liti til brota á sótt­vörn­um.

Þeirri rannsókn lauk í janúar og var málið í kjölfarið sent ákærusviði lögreglunnar 22. janúar sem átti að taka ákvörðun um hvort sektir yrðu gefnar út eða ekki.

Niðurstaða liggur nú fyrir en lögreglan vildi ekki greina frá henni opinberlega í vikunni sem leið. Samkvæmt yfirlýsingu frá eigendum Ásmundarsalar, sem birtist í fyrradag, brutu þeir einungis gegn ákvæði um grímuskyldu. Þeir segja að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjöldatakmarkanir í salnum né opnunartíma umrætt kvöld og að ekkert samkvæmi hafi verið haldið í listasafninu.

Lögreglan segir að engin tilraun hafi verið gerð til að leyna því sem fram kom á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Birgir Þór Harðarson

Hátt­semi lög­reglu­manna á vett­vangi getur talist „á­mælis­verð“ samkvæmt nefndinni

Þann 26. febrúar greindi mbl.is frá því að nefnd sem hefur eft­ir­lit með störfum lög­reglu væri að kanna sam­skipti hennar við fjöl­miðla eftir að sam­kvæmið í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu var leyst upp. Einnig yrði kannað hvort sam­ræmi væri milli þess sem kom fram á upp­töku og þess sem skrifað var í skýrslu lög­reglu. 

Í fyrrnefndri yfirlýsingu eigenda Ásmundarsalar kemur fram að nefndin hafi tekið starfshætti lögreglu til skoðunar og gert alvarlegar athugasemdir við háttsemi lögregluþjóna og vinnubrögð embættisins. Í frétt Fréttablaðsins um málið kemur síðan fram að í skýrslu nefndarinnar sé rakið sam­tal lög­reglu­manna á vett­vangi. Þar megi heyra á tal tveggja lög­reglu­manna.

Annar lögreglumaðurinn segir: „Hvernig yrði frétta­til­kynningin ... 40 manna einka­sam­kvæmi og þjóð­þekktir ein­staklingar..., er það of mikið eða?“ Hinn segir: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það ...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálf­stæðis ... svona ... frama­potarar eða þú veist.“

Samkvæmt Fréttablaðinu telur nefndin þessa hátt­semi lög­reglu­mannanna á vett­vangi geta verið á­mælis­verða og þess eðlis að til­efni sé til að senda þann þátt málsins til með­ferðar hjá lög­reglu­stjóranum á höfuð­borgar­svæðinu. Jafnframt kemur fram að fyrst þegar nefndin ætlaði að fara yfir upptökur úr búk­mynda­vélum lög­reglu­manna hafi komið í ljós að af­máður hafði verið hluti af hljóði upp­takanna. Fékk nefndin að lokum upptökur með hljóði.

Lögreglan mótmælti ásökunum um leynimakk

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu vegna málsins seinni partinn í gær en í henni segir að engin tilraun hafi verið gerð til að leyna því sem fram kom á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang í Ásmundarsal á Þorláksmessu.

Eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hafi fengið tæmandi endurrit af samræðum lögreglumanna á vettvangi fylgdi með til nefndarinnar strax í upphafi skoðunar hennar á málinu og þegar hún hafi beðið um nýtt eintak af upptöku úr búmyndavélum hafi rétt eintak verið sent til nefndarinnar.

Í tilkynningu lögreglu segir að það sé grundvallaratriði að viðhalda því góða trausti sem lögreglan nýtur. Eftirlit með störfum lögreglu sé einn af hornsteinum þess að viðhalda því trausti. „Hvað varðar afhendingu gagna til nefndarinnar er rétt að taka fram að tæmandi endurrit af samræðum lögreglumanna á vettvangi fylgdi með til nefndarinnar strax í upphafi. Nefndin hafði þar af leiðandi umrædd samtöl, sem vísað er til í niðurstöðum hennar, undir höndum allan tímann. Rétt er að hluti af upptökum úr búkmyndavélum á vettvangi var án hljóðs. Þegar nefndin gerði athugasemd við það var rétt eintak sent til nefndarinnar. Engin tilraun var gerð til að leyna því sem fram kom á upptökunum.

Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að vísbendingar séu um að dagbókarfærsla hafi verið efnislega röng telur embættið mikilvægt að taka fram að fyrstu upplýsingar lögreglu sem fengust á vettvangi voru á þann veg að um einkasamkvæmi væri að ræða og var það því skráð sem slíkt í dagbók lögreglu. „Hins vegar leiddi frekari rannsókn málsins í ljós að svo var ekki. Markmið með birtingu upplýsinga úr dagbókarfærslum er að fjalla um verkefni lögreglu eins og þau birtast á hverjum tíma. Eðli máls samkvæmt geta mál skýrst eða tekið aðra stefnu eftir því sem rannsókn miðar áfram,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Annar angi vatt upp á sig

Á svipuðum tíma í febrúar og fréttir bárust af því að nefndin væri að skoða málið þá opin­ber­aði RÚV að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði hringt tví­­­­­vegis í Höllu Berg­þóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, á aðfanga­dag 2020 í kjöl­far þess að lög­­­reglan hafði greint fjöl­miðlum frá því að „hátt­­­virkur ráð­herra“ hefði verið staddur í sam­­­kvæmi í Ásmund­­­ar­­­sal kvöldið áður. 

Áslaug Arna var boðuð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að ræða símtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
Bára Huld Beck

Áslaug Arna sagði við RÚV að sam­­­töl hennar við lög­­­­­reglu­­­stjór­ann hefðu verið vegna spurn­inga sem hún hafði um verk­lag og upp­­­lýs­inga­­­gjöf við gerð dag­bók­ar­færslna lög­reglu. „Fjöl­miðlar spurðu mig hvort hún væri eðli­leg. Ég þekkti ekki verk­lag dag­bók­ar­færslna lög­regl­unnar og spurði aðeins um það.“

Kjarninn greindi frá því í byrjun mars að í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn miðilsins hefði ekki komið skýrt fram hvort allir helstu fjölmiðlar landsins, sem hún sagði að hefði sett sig í samband við hana á aðfangadag, hefðu spurt sér­stak­lega út í verk­lags­reglur lög­reglu í tengslum við dag­bók­ar­færslu lögreglunnar á aðfangadag. Í skriflegu svari sagði Áslaug Arna: „Þegar ljóst var hvers eðlis málið var og hvernig það var að þró­ast þennan sama dag, taldi ég ekki við hæfi að tjá mig um það – hvorki um dag­bók­ar­færsl­una sjálfa né aðra anga máls­ins.“

Dómsmálaráðherra vissi að Bjarni væri „háttvirti ráðherrann“

Vegna þessa var Áslaug Arna boðuð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kom hún fyrir nefndina þann 1. mars. Hún sagði í áðurnefndu skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að hún hefði ekki átt sam­skipti við Bjarna áður en hún átti sam­skipti við lög­reglu­stjóra en að hún hefði átt sam­skipti við Bjarna síðar á aðfanga­dag.

Í viðtali við RÚV eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var hins vegar haft eftir dóms­mála­ráð­herra að hún hefði vitað að það var Bjarni sem hafði verið í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu áður en hún hringdi. 

Halla Bergþóra mætti svo sjálf fyrir nefndina daginn eftir. Hún vildi ekki tjá sig um símtölin opinberlega. Þegar hún var til viðtals í Silfrinu helgina áður bar hún það fyrir sig að málið væri til meðferðar hjá þingnefnd og vegna þess gæti lögreglustjórinn ekki tjáð sig um það.

Auglýsing

Málið farið að snúast um eitthvað sem „skiptir í raun ekki máli“

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar gerði lögreglumálið í Ásmundarsal að umræðuefni á Facebook-síðu sinni í gær. Hann sagði í samtali við Kjarnann umræðuna um málið dæmigerða um það hvernig hægt væri snúa frásögn á hvolf. Nú væri málið látið fara að snúast um eitthvað sem skipti í raun ekki máli.

Vísaði hann í þá umræðu sem nú er hvað háværust um málið – um aðgerðir lögreglunnar.

„Fjármálaráðherra og einn þriggja leiðtoga ríkisstjórnarinnar reyndist vera staddur í mannfagnaði á Þorláksmessu síðastliðinni á sama tíma og strangt samkomubann var í gildi samkvæmt reglugerð þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar.

Þetta samkomubann var afar íþyngjandi fyrir almenning: fólk gat ekki haldið jólaboð, stórfjölskyldur gátu ekki hist, gamalt fólk var fast á hjúkrunarheimilum eða heima hjá sér, tónleikar fóru ekki fram, veitingastaðir voru lokaðir, þjóðlífið var nánast lamað: en það var sem sagt hægt að halda mannfagnað í Ásmundarsal með því að kalla hann ýmist sýningu, kynningu, opnun eða annað eftir því hvað klukkan var. Og þar var leiðtogi ríkisstjórnarinnar sem sé að lyfta glasi í góðra vina hópi. Umræðan nú snýst um það hvort lögreglumenn sem komu á vettvang hafi haft óviðurkvæmileg orð um þetta í sinn hóp,“ skrifaði hann.

Bjarni aldrei yfirheyrður vegna málsins

En hvað með „háttvirtan ráðherrann“? Bjarni sagði í samtali við Vísi í fyrradag að hann hefði ekki haft veður af því að niðurstaða væri komin í málið. Hann kvaðst enda ekki hafa verið til rannsóknar svo að hann vissi til. „Ég er ekki aðili að málinu,“ sagði hann.

Jafnfram kom fram hjá Vísi í vikunni að Bjarni hefði aldrei verið andlag rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við málið.

Jafnframt hefði Bjarni aldrei verið yfirheyrður vegna málsins og nú þegar niðurstaða er komin í málið væri hann ekki á meðal þeirra sem boðið hefur verið að greiða sekt. „Við höfum aldrei verið í neinum samskiptum eða til rannsóknar svo að við vitum til vegna þessa máls. Við höfum ekki fengið neina tilkynningu eða beiðni um yfirheyrslu eða samtal,“ sagði aðstoðarmaður hans við Vísi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar