Mynd: Eyþór Árnason Helga Rakel Guðrúnardóttir
Mynd: Eyþór Árnason

Hakkarinn „getur gert allt sem ég“

Móðir í Kópavogi var hökkuð í fyrrahaust. Sá sem það gerði hefur deilt persónulegum upplýsingum um hana á netinu og hótað því að gera meira. Hún hefur líka fengið bréf heim til sín sem hún telur að sé fyrst og síðast skilaboð um að hakkarinn viti hvar hún eigi heima. Afleiðingarnar hafa verið miklar, bæði persónulega og faglega. Konan, Helga Rakel Guðrúnardóttir, kærði brotin til lögreglu sem hefur þó ekki viljað rannsaka þau. Upplifun Helgu Rakelar af því að kæra brot gegn friðhelgi einkalífs er fyrir vikið hræðileg.

Helga Rakel Guð­rún­ar­dóttir spilar tölvu­leiki. Hún gerir raunar meira en það. Hún þjálfar tölvu­leikja­spil­ara, birtir mynd­bönd úr tölvu­leiknum Minecraft sem hún hefur tekjur af því að birta og býr til efni innan sama leiks. 

Hún er líka fjöl­skyldu­kona, að verða 45 ára göm­ul, sem býr með manni og syni í Kópa­vog­i. 

Um miðjan nóv­em­ber í fyrra hafði kona sam­band við Helgu Rakel á sam­skipta­for­rit­inu Discord, sem er mikið notað af tölvu­leikja­not­end­um. Hún sagð­ist vera frá Hollandi og vildi gera tölvu­leik eftir sögu sem Helga hafði gert. Konan sendir í kjöl­farið skjá­mynd sem átti að vera úr leiknum og skrá sem átti að vera leik­ur­inn sjálf­ur. 

Skráin var hins vegar ekki leik­ur, heldur inn­brots­for­rit til að stela aðgangs­upp­lýs­ingum Helgu Rakelar að Discor­d-­for­rit­in­u. 

Hún átt­aði sig strax á því að það væri senni­lega verið að hakka hana. 

„Hann getur gert allt sem ég“

Þann 18. nóv­em­ber 2021 hringdi Helga Rakel í lög­regl­una á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og sagði þeim að það sé verið að brjót­ast inn í tölv­una henn­ar. Hún sagði lög­reglu­mann­inum sem hún tal­aði við líka að hún vissi hver stæði á bak­við inn­brot­ið. Það væri tæp­lega tví­tugur Kanada­maður sem hún hefði þekkt í tvö ár í gegnum sam­skipti á Discord og talið vera vin sinn. „Ég sagði þeim að það væri verið að hakka mig. Að það væri verið að reyna að ná per­sónu­upp­lýs­ingum um mig. Lög­reglan bað mig um að senda lýs­ingu á máls­at­vikum í tölvu­pósti og segja hverjar kröfur mínar til þeirra væru.“

Hún seg­ist ekki vita nákvæm­lega allt sem mað­ur­inn hafi gert í tölv­unni henn­ar, en að það sé margt hafi hann haft vilja til þess. „Hann getur gert allt sem ég. Hann getur haft sam­band við fólk sem ég. Hann getur breytt upp­lýs­ing­um. Ef hann hefði kom­ist inn í mynda­vél­ina á tölv­unni gæti hann farið gegn mér og fjöl­skyldu minni. Með því að fara í gegnum sam­skiptin mín á Discord þá fer hann gegn öllum sem eru í sam­skiptum við mig. Hann fer inn í gögn sem aðrir hafa sent mér. Það eru heim­il­is­föng og alvöru nöfn hjá YouTu­berum sem hafa aldrei gefið upp nafn eða heim­il­is­fang opin­ber­lega. Hann getur sent hluti í mínu nafni. Ég kenni líka börn­um. Hann hefur aðgang að þeim krökkum sem eru þarna inn­i.“ 

Per­sónu­legar upp­lýs­ingar fóru að leka

Fyrst var Helga Rakel ekki með á hreinu hvað hún vildi að lög­reglan gerði. Hún var ekki viss um hvort mann­inum hafi tek­ist ætl­un­ar­verk­ið. Til­gang­ur­inn var fyrst og síð­ast að láta lög­regl­una vita að það væri verið að reyna að brjóta á henni með þessum hætti. Að athæfið yrði skráð og henni yrði leið­beint um hvað hún ætti að gera í stöð­unni. „Ég fæ svar til baka um að málið hafi verið bókað og fengið núm­er. Mér er einnig sagt að ef eitt­hvað meira ger­ist þá sé ég með til­vísun um að hafa til­kynnt þetta.“

Helga Rakel segir að hakkarinn hafi getað haft aðgang að börnum sem hún kennir og komið fram í samskiptum við þau sem hún.
Mynd: Eyþór Árnason

Dag­inn eftir sendi Helga Rakel lög­regl­unni á höf­uð­borg­ar­svæð­inu frek­ari upp­lýs­ingar um inn­brots­for­ritið sem notað var og hvernig það steli lyk­il­orð­um. „Ég óska eftir að lög­reglan nálgist gögn frá Discord varð­andi málið því það sé hægt að rekja það niður á kredit­kort hver standi á bak við þetta. Ég segi að ég ótt­ist að hakk­ar­inn hafi illt eitt í hyggju. Ég fæ ekk­ert svar.“

20. nóv­em­ber var Helga Rakel nokkuð viss um að henni hafi tek­ist að koma í veg fyrir að árás­armað­ur­inn næði því sem hann ætl­aði sér. Og birti mynd­band um atburða­rás­ina á YouTube þar sem hún rakti mála­vexti. Mynd­bandið er tæp­lega tólf mín­útna langt og er með rúm­lega 20.400 áhorf sem stend­ur. Það er hægt að sjá hér að neð­an:

Strax í kjöl­farið sá Helga Rakel það þó á umræðum sem áttu sér stað á Discord að hún hefði sann­ar­lega verið hökk­uð. Per­sónu­legar upp­lýs­ingar um hana fóru að leka út á spjall­rás­ina. „Það sem ég hef séð er að hann hefur tekið upp­lýs­ing­ar. Ég hef séð fólk vera að vitna í ýmis­legt hjá mér sem það á ekki að vita. Vitna beint í hluti sem ég hef sagt og upp­lýs­ingar sem eng­inn á að hafa nema þeir sem hafa aðgang að upp­lýs­ing­unum mín­um. Þannig að það eina sem ég veit fyrir víst er að hann hefur verið að dreifa upp­lýs­ing­um.“ 

Hún hafi verið hluti af hópi tölvu­leikja­spil­ara sem voru þekkt í þessu mengi. „Meðal ann­ars nokkrir Youtu­berar með hund­ruð þús­unda fylgj­endur á bak­við sig. Það var einn úr þessum hópi sem var að hakka mig. 19 ára strákur í Kanada.“

Sögðu að hún hafi átt þetta skilið

Þegar hún greindi frá því innan Discord að það væri annar með­limur hóps­ins að hakka hana, þá við­ur­kenndi Kanada­mað­ur­inn það strax. „Hann sagði að það væri vegna þess að ég væri svo vond mann­eskja sem hefði „pyntað fólk“. Ég hafi átt þetta skil­ið.“ 

Hakkarinn viðurkenndi í samskiptum við Helgu Rakel að hann hefði brotist inn í tölvuna hennar. Hún tók skjáskot af þeirri játningu.
Mynd: Aðsend

Margir aðrir virkir með­limir hafi ákveðið að standa með hakk­ar­an­um, og styðja það sem hann gerði. Þá seg­ist Helga Rakel hafa áttað sig á að það voru senni­lega fleiri á bak­við inn­brotið í tölvu henn­ar. „Það átti að koma mér út úr hópn­um. Það átti að finna eitt­hvað slæmt á mig og birta það opin­ber­lega til að láta mig hverfa. Við þessu gekkst hann. Ástæðan var „to ruin me“. Það voru orðin sem hann not­að­i.“

Hún telur ástæðu þessa meðal ann­ars vera þá að hún hafi beitt sér gegn öðrum með­limi hóps­ins, Argent­ínu­manni í vin­fengi við Kanada­mann­inn, sem hafi verið að biðja ungar trans­stúlk­ur, 15-17 ára, sem noti Discord um myndir af sér og að hitta sig. „Hann vildi losna við mig vegna þess að ég var að koma upp um þessa hegðun hans. Ég er móðir tíu ára stráks og kenni krökkum frá átta ára aldri. Ég er með trans nem­endur og  þau eru inni á Discor­d.“

Ætl­un­ar­verkið tókst. Helgu Rakel var sparkað út úr hópn­um. 

Lög­reglan hvatti hana til að tala við fjöl­miðla

Þegar allt þetta lá fyr­ir, og Helga Rakel fengið stað­fest­ingu á að brot­ist hafi verið inn í tölv­una henn­ar, þá sendi hún lög­reglu­mann­inum sem hún hafði verið í sam­bandi við upp­lýs­ingar um stöðu máls­ins. „Ég segi honum að hakk­ar­inn hafi við­ur­kennt brotið en telji að ég hafi bara átt þetta skil­ið. Ég segi honum líka frá því að önnur fórn­ar­lömb sama hakk­ara hafi haft sam­band við mig, þar á meðal einn af for­rit­ur­unum hjá Moj­ang tölvu­leikja­fyr­ir­tæk­inu sem gerir tölvu­leik­inn Minecraft. Moj­ang er í eigu Microsoft.“

Málið hefur haft mikil áhrif á Helgu Rakel, bæði persónulega og faglega.
Mynd: Eyþór Árnason

Hún sagði lög­regl­unni líka að fjöl­miðlar hefðu haft sam­band við hana eftir að mynd­bandið fór í loftið en að hún væri ekki til­búin að tala við þá strax. 

Einu svörin sem Helga Rakel fékk frá lög­regl­unni voru hvatn­ing til að tala við fjöl­miðla um mál­ið. Hún gekk út frá því á þessum tíma að verið væri að rann­saka mál­ið, sem hún hafði kært.

Kærði í kór­ónu­veiru­far­aldri

Næstu mán­uði hafði Helga Rakel reglu­lega sam­band við lög­regl­una til að kanna hvar rann­sókn á máli hennar stæði. Það gerði hún bæði í gegnum tölvu­póst og með því að hringja. Hún fékk engin eig­in­leg svör. Í milli­tíð­inni sendi sá sem hakk­aði Helgu Rakel henni ítrekuð skila­boð þar sem hann hót­aði henni mál­sókn fyrir æru­meið­ingar vegna þess að hún hafði nefnt hann í YouTu­be-­mynd­band­inu í nóv­em­ber. Hún svar­aði engum þeirra skila­boða. 

Kæru­ferlið hafði farið fram í gegnum net­ið, þar sem kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn með til­heyr­andi tak­mörk­unum á sam­skipti fólks geis­aði enn þegar Helga Rakel taldi sig hafa lagti fram kæru. Snemma í vor  fóru að renna á hana tvær grímur um hvort lög­reglan hafi ekki alveg örugg­lega litið á til­kynn­ingu hennar sem kæru, og kröfu um að rann­sókn færi fram. 

Umfjöllun um mál Vitalíu lét hana efast

Í mars birt­ust fréttir af máli Vitalíu Laz­arevu, og ætl­uðu kyn­ferð­is­of­beldi í hennar garð úr hendi manna úr efsta lagi íslensks við­skipta­lífs, eftir að hún deildi skjá­skoti af mót­töku­kvittun lög­reglu. ​​Í kjöl­farið var greint frá því að Vitalía hefði lagt fram kæru til lög­­regl­unn­ar á höf­uð­borg­­ar­­svæð­inu vegna kyn­­ferð­is­of­beld­­is. 

Helga Rakel sá þessar fréttir og fékk auknar áhyggjur af því að kæran hennar hefði ekki verið tekin alvar­lega. „Ég hafði bara fengið eitt­hvað númer og fór að velta fyrir mér hvort það væri ekki alveg örugg­lega stað­fest að ég hefði kært. Ég hafði ekki mætt í neina eig­in­lega kæru­mót­töku, heldur sent kæru í miðjum kór­ónu­veiru­far­aldri.“

Eftir að hafa ráð­fært sig við lög­mann skráði Helga Rakel sig í kæru­mót­töku í gegnum netið í byrjun maí. Tæpri viku síðar sendi hún enn og aftur tölvu­póst á lög­reglu­mann­inn sem átti að vera rann­saka málið og til­kynnti að hún hafi gefið lög­mann­inum umboð til að fara með sitt mál. „Ég sendi honum sönnun þess að hakk­ar­inn hafi farið inn á tölv­una mína. Eitt­hvað sem ég fann sjálf þegar ég fór í gegnum mín eigin gögn sem ég fékk send frá Discord. Þar er IP-tala, tíma­setn­ing og stað­setn­ing í Kanada.“

Umfangsmikil rannsókn á blaðamönnum

Í nóv­em­ber 2020 lagði þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, fram frum­varp til laga um breyt­ingu á almennum hegn­ing­ar­lögum. Það var unnið af Maríu Rún Bjarna­dóttur lög­fræð­ingi og byggði á skýrslu sem hún vann fyrir stýri­hóp sem for­sæt­is­ráð­herra skip­aði í mars 2018. Til­efni laga­setn­ing­ar­innar var aukið staf­rænt kyn­ferð­is­of­beldi í íslensku sam­fé­lagi og þörf fyrir skýr­ari „rétt­ar­vernd frið­helgi ein­stak­linga, sem skap­ast hefur með auk­inni tækni­væð­ingu í mann­legum sam­skipt­u­m.“

Gerðar voru breyt­ingar á 228. og 229. grein hegn­ing­ar­laga til að ná þessu fram. Eftir breyt­ingar myndi fyrr­nefnda greinin hljóma þannig að hver „sem brýtur gegn frið­helgi einka­lífs ann­ars með því að hnýs­ast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heim­ild­ar­leysi skjöl­um, gögn­um, myndefni, upp­lýs­ingum eða sam­bæri­legu efni um einka­mál­efni við­kom­andi, hvort heldur sem er á staf­rænu eða hlið­rænu formi, skal sæta sektum eða fang­elsi allt að 1 ári, enda er hátt­semin til þess fallin að valda brota­þola tjón­i.“ Sú síð­ari myndi hljóma þannig að hver „sem í heim­ild­ar­leysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða for­ritum ann­arra sem geymd eru á tölvu­tæku formi skal sæta sektum eða fang­elsi allt að 1 ári.“

Eftir að frum­varpið var lagt fram gekk það til alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar til umfjöll­un­ar. Þar var það unnið áfram í þverpóli­tískri sátt og þegar nefndin skil­aði áliti sínu á frum­varp­inu var það gert í nafni allra nefnd­ar­manna, full­trúa sjö mis­mun­andi flokka á Alþing­i.

Í nefnd­ar­á­lit­inu var hins vegar gerð breyt­ing­ar­til­laga þar sem nefndin taldi æski­legt að ofan­greindar breyt­ingar á ákvæðum almennra hegn­ing­ar­laga ættu ekki við „þegar hátt­semin er rétt­læt­an­leg með vísan til almanna- eða einka­hags­muna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tján­ing­ar­frelsi fjöl­miðla, m.a. í þeim til­vikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða for­ritum sem hefur verið aflað í heim­ild­ar­leysi og geti varðað almanna­hags­mun­i.“

Þann 17. febr­úar 2021 fór fram atkvæða­greiðsla um frum­varpið með ofan­greindum breyt­ing­um, sem eru í sam­ræmi við það sem tíðkast í nágranna­löndum okk­ar. Allir við­staddir þing­menn, úr öllum flokkum á þingi, sam­þykktu það.

Opinberlega hefur verið greint frá einni virkri lögreglurannsókn þar sem verið er að rannsaka möguleg brot á umræddum greinum hegningarlaga. Sú rannsókn snýr að því hvort að blaðamenn Kjarnans, Stundarinnar og RÚV hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs manns með umfjöllum um gögn sem voru andlag umfjöllunar sem birtist í Kjarnanum og Stundinni um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“. Þær umfjallanir birtust í maí 2021. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur haft málið til rannsóknar síðan þá, í rúma 15 mánuði. Þrátt fyrir tilgreint refsileysi blaðamanna í lögunum hefur hún gefið fjórum blaðamönnum stöðu sakbornings í rannsókn sinni og yfirheyrt þá alla. Í þeim yfirheyrslum hafa blaðamennirnir verið ítrekað spurðir um hverjir heimildarmenn þeirra séu þrátt fyrir að vernd heimildarmanna sé tryggð með 25. grein fjölmiðlalaga og blaðamenn megi ekki svara slíkum spurningum án þess að fremja lögbrot.

Höf­undur þessarar umfjöllunar er einn þeirra blaða­manna sem hefur stöðu sak­born­ings í rann­sókn lög­regl­unnar á Norð­ur­landi eystra á brotum gegn frið­helgi einka­lífs.

Loks barst svar frá lög­reglu­mann­in­um. Í tölvu­pósti sem hann sendi sagði: „Ég man vel eftir okkar sam­skiptum í byrjun en ég er ekki að rann­saka þetta mál, í raun er það ákveð­inn ómögu­leiki þar sem við höfum lítið sem ekk­ert að segja um einka­fyr­ir­tæki sem reka sam­fé­lags­miðla og eru stað­sett erlend­is. Hvaða vænt­ingar myndir þú hafa til slíkrar rann­sókn­ar?“.

Af hverju fæ ég ekki að kæra eins og aðr­ir?

Helga Rakel brást sam­dæg­urs við. Hún sagð­ist ekki skilja ómögu­leik­ann í mál­inu. Þarna hafi verið framin lög­brot og að hún vildi að brota­mað­ur­inn yrði hand­tek­inn og ákærð­ur. „Ég seg­ist einnig ekki skilja hvernig lög­reglu­mað­ur­inn geti bara ákveðið að rann­saka ekki mál­ið. ég spyr hverjir aðrir hafi komið að þeirri ákvörðun og af hverju ég hafi ekki fengið svör við öllum fyr­ir­spurnum mínum og sím­tölum mán­uðum sam­an? Ég spyr hver hvort hægt sé að kæra þessa ákvörð­un? Og ég spyr af hverju ég fái ekki að kæra eins og aðr­ir?“

Síðar sama dag var hringt frá lög­reglu og Helga Rakel boðuð í kæru­mót­töku rúmri viku síð­ar. Þá var næstum hálft ár liðið frá því að hún taldi sig hafa kært mál­ið. Þegar hún loks lagði fram kæruna, 19. maí 2022, þá afhenti hún lög­regl­unni ítar­legt yfir­lit um mála­vexti, ýmis fyr­ir­liggj­andi sönn­un­ar­gögn sem hún hafði sjálf aflað og skrif­lega kröfu um að mann­inum sem braut gegn henni yrði gerð refs­ing. Síðar sendi lög­maður Helga Rakelar lög­regl­unni heim­il­is­fang manns­ins og net­fang sem lög­reglan gæti notað í sam­skiptum við Discor­d. 

Hót­anir fara að ber­ast

Í júlí tók málið á sig aðra mynd. Þá ákvað Helga Rakel að ræða um það á Twitter hvernig henni hefði verið sparkað út úr sam­fé­lagi sem var henni mik­il­vægt eftir að hún greindi frá því að hún hefði verið hökk­uð. Þar greindi hún einnig frá því hvernig umrætt sam­fé­lag hefði frekar staðið með ger­and­anum frekar en að styðja við sig. „Hakk­ar­inn sendi mér þá skila­boð á Twitter og á slatta af vinum mínum þar sem hann kall­aði mig lygara og sagði að hann og aðrir væru að und­ir­búa skjal sem þeir ætl­uðu að birta um mig.“

Helga Rakel upplifir það ástand sem hún hefur búið við þannig að hún sé með eltihrelli á eftir sér.
Mynd: Eyþór Árnason

Í kjöl­farið blokk­aði hún hakk­ar­ann og vini hans á Twitt­er. „Ég segi einum vini mín­um, sem er einnig vinur hakk­ar­ans, að ef hann vilji ein­hvern tím­ann vinna úr þessu og biðja mig afsök­unar og svo­leiðis þá geti hann náð í mig á annan hátt. Hann sé nú auð­vitað með heim­il­is­fangið mitt þar sem það var í gögn­unum sem hann hakk­að­i.“

„Ég veit hvar þú átt heima“

Fyrir rúmum mán­uði, 26. júlí, fékk Helga Rakel bréf sent heim til sín og fjöl­skyldu sinnar frá Banda­ríkj­un­um. „Bréfið er það sem kall­ast „glimmer sprengja“. Þetta er bréf sem inni­heldur fullt af glimmeri sem ætlað er að fara út um allt þegar þú opnar bréf­ið. Það er sent af þjón­ustu í Banda­ríkj­unum sem ein­hver hefur borgað fyrir og í bréf­inu sagði meðal ann­ars að ein­hver vildi gera dag­inn minn verri. Í raun er þetta bara hótun sem seg­ir: Ég veit hvar þú átt heima.“

Bréfið sem Helga Rakel fékk sent heim til sín.

Hún tók mynd­band af því þegar hún opn­aði bréfið og hafði strax sam­band við lög­reglu til að óska eftir upp­lýs­ingum um hvað hún ætti að gera. „Ég fæ sam­band við lög­reglu­mann á vakt og hann flettir mál­inu mínu upp í kerf­inu og segir mér að það sé búið að fella niður kæruna. Ég kem að fjöllum þar sem ég hafði ekki fengið neina til­kynn­ingu um það.“

Eftir að lög­maður hennar óskaði eftir frek­ari svörum stað­festi lög­reglan að rann­sókn máls­ins hafi verið felld niður og að Helga Rakel hefði fengið bréf þess efnis 1. júní, tæpum tveimur vikum eftir að hún mætti í kæru­mót­töku. „Ég fékk aldrei það bréf.“

Helga Rakel sendi ljós­mynd af „glimmer-­sprengj­unni“ sem henni barst heim til sín á lög­regl­unni ásamt enn ítar­legri upp­lýs­ingum um hvar væri hægt að nálg­ast gögn um það sem hafði verið gert, meðal ann­ars hjá net­þjón­ustu­fyr­ir­tækj­um.

Í byrjun ágúst fékk Helga Rakel loks tölvu­póst frá lög­reglu­manni. Þar sagði: „„Eftir sam­ráð með ákæru­sviði þá er talið að ekki sé um lög­reglu­mál að ræða. Afar óljós hót­un.“

Sama dag birt­ist bréf inni á vef­svæði hennar á Ísland.is þar sem sagði að rann­sókn máls­ins hafi verið hætt þar sem ekki væri tal­inn grund­völlur til að halda henni áfram. „Málið ekki talið lög­reglu­mál hér á Íslandi. Kærunni lok­að. Kær­andi getur fengið afrit af kærunni til nota erlendis eins og íað er að í skýrsl­unni. Komi ný sak­ar­gögn fram í mál­inu er hins vegar unnt að taka rann­sókn­ina upp að nýju.“

Hafði sjálf sam­band við lög­regl­una í Kanada

Helga Rakel gafst ekki upp og bað lög­regl­una um að setja sig í sam­band við lög­regl­una í Kana­da, en fékk ekk­ert svar. „Ég hef sam­band við lög­regl­una í hverf­inu þar sem hakk­ar­inn á heima í Kanada og seg­ist vita af því að hakk­ari sé að fremja afbrot. Eftir nokkur bréfa­skipti þá spjalla ég við lög­reglu­mann í síma og segir hann eins og ég veit, að brot skuli rann­sakast á þeim stað þar sem fórn­ar­lambið er. Íslenska lög­reglan geti svo talað við þá kanadísku eftir settum boð­leið­um. Þeir geti því ekk­ert gert fyrir mig. Hann býðst þó til að fara heim til hakk­ar­ans og tala við hann og biðja hann um að hætta.“

Búin að kæra niðurfellingu til ríkissaksóknara

Lögmaður Helgu Rakelar kærði ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókninni til ríkissaksóknara í gær. Í bréfi sem sent var vegna þessa segir meðal annars: „Að mati undirritaðs og skjólstæðings míns hefur mál þetta ekki fengið þá athygli embættisins sem því ber skv. lögum og í ljósi alvarleika þess. Um auðkenna og einkenna stuld er að ræða og alvarlega árás á einkalíf og friðhelgi skjólstæðings míns. Lögreglan hefur ítrekað komið fram og hvatt borgara landsins til að kæra og vera á varðbergi gagnvart tölvuárásum og auðkenna þjófnaði og þykir undirrituðum því miður og afar einkennilegt hvernig þetta mál var meðhöndlað. Skjólstæðingur minn hefur lagt sig fram við að afla gagna og staðfestinga á háttsemi hins kærða og m.a. verið í samskiptum við erlend löggæsluembætti sem sýnt hafa málinu áhugaen beðið hafa aðgerða og rannsóknar íslenskra löggæsluyfirvalda. Því kann trúverðugleiki embættisins að bíða hnekki ef mál þetta fær ekki þá athygli og rannsókn sem nauðsynleg er.“

Hún ákvað að segja aftur frá því á Twitter að hún hefði verið hökkuð og væri með elti­hrelli á sér sem héldi yfir henni hótun um að birta upp­lýs­ingar sem hann hefði stolið af henni ef hún drægi ekki áður fram­settar upp­lýs­ingar um málið til baka. „Ég hafði lesið mér til um kúg­un­ar­til­burði og að þetta væri það besta sem hægt væri að gera í svona stöðu. Hakk­ar­inn not­aði annan aðgang til að bregð­ast við tví­tinu og end­ur­tók hót­un­ina um að bráðum yrði „sann­leik­ur­inn“ birt­ur.“

Upp­lifun af því að kæra hræði­leg

Að sögn Helgu Rakelar hefur þessi atburða­rás haft gríð­ar­leg áhrif á hana. „Ég fékk áfallastreiturösk­un. Ég hrundi alveg saman og ég hef þurft að vera hjá sál­fræð­ingi til að vinna úr þessu. Líf mitt svo­lítið hrundi við þetta. Ég bjóst aldrei við því að ein­hver myndi gera mér svona. 

Það lok­uð­ust líka ofboðs­lega margar dyr fyrir mig fag­lega. Ég bý til YouTu­be-­mynd­bönd og þetta hafði áhrif á tekjur mínar af þeim. Það eru sam­keppn­is­að­ilar mínir sem eru að gera þetta. Tæki­færum fækk­aði. Keppnir sem ég var að taka þátt í, allt í einu lok­að­ist á þær. Fólk hætti að tala við mig. Þetta hafði miklar afleið­ingar fyrir mig, bæði per­sónu­lega og fag­lega.“

Hún segir að þegar það rann upp fyrir henni að hún væri með staf­rænan elti­hrelli þá hafi hún hætt að geta skap­að. „Það bara læs­ist á mig. Ef ég er að tala við fólk í gegnum þetta for­rit, þá er ég alltaf að hugsa um hvort það sé verið að fylgj­ast með mér? Það er svo óþægi­leg til­finn­ing.“

Aðspurð hver upp­lifun hennar sé af því að kæra brot gegn frið­helgi einka­lífs síns til lög­regl­unnar á Íslandi segir Helga Rakel að hún sé hræði­leg. „Ég upp­lifði að þeim kæmi ekk­ert við að á mér væri brot­ið. Þeir eru ekki að vernda mig. Þeir eru bara að rann­saka það sem þeir vilja.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar