Reykjavíkurborg Hjólreiðaáætlun
Reykjavíkurborg

Tíu molar um hvernig Reykjavík hyggst verða „hjólaborg á heimsmælikvarða“

Ný hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var kynnt og samþykkt í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar í vikunni. Kjarninn skoðaði plaggið og tók saman nokkra mola um það sem í því felst.

Hjól­reiða­á­ætlun Reykja­vík­ur­borgar fyrir árin 2021 til 2025 var kynnt í skipu­lags- og sam­göngu­ráði borg­ar­innar í vik­unni. Verk­efnið hefur verið í vinnslu í um það bil ár og hefur Katrín Atla­dóttir borg­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks leitt vinn­una sem for­maður stýri­hóps.

Stóru lín­urnar í þess­ari hjól­reiða­á­ætlun eru þær að borgin ætlar að verja 5 millj­örðum króna fram til árs­ins 2025 í betri inn­viði fyrir hjólandi, með það að mark­miði að fleiri sjái sér fært að fara ferða sinna á hjóli innan borg­ar­inn­ar.

Eitt af þeim mark­miðum sem sett eru í áætlun borg­ar­innar er að innan borg­ar­markanna verði árið 2030 yfir 100 kíló­metrar af hreinum hjóla­stíg­um, en í dag eru þeir kíló­metrar af mal­biki sem ein­göngu eru ætl­aðir undir hjól 32 tals­ins.

Samanburður á hjólastíganetinu eins og það er núna og eins og stefnt er að því að það verði árið 2030.
Hjólreiðaáætlun 2021-2025

Kjarn­inn tók saman nokkra mola um þessa nýju hjól­reiða­á­ætlun borg­ar­innar og það sem í henni felst.

Stefnt að því að gefa fleirum kost á að nota hjól

Ein­hverjir spyrja sig ef til vill að því af hverju það sé verið að vinna sér­staka hjól­reiða­á­ætl­un. Raunin er sú að í Reykja­vík og nágrenni eru mun fleiri sem segja að þeir væru til í að hjóla til og frá vinnu en gera það.

Þess vegna er verið að leggja áherslu á að bæta inn­viði fyrir hjólandi, því rann­sóknir sýna að þegar inn­viðir eru bættir kjósa fleiri að nýta hjólið sem ferða­máta. Fyrsta hjól­reiða­á­ætlun Reykja­víkur var sam­þykkt árið 2010 og frá þeim tíma hefur hlut­deild hjól­reiða í öllum ferðum sem farnar eru í borg­inni auk­ist úr 2 pró­sentum upp í 7 pró­sent.

Auglýsing

Eins og Kjarn­inn fjall­aði um síð­asta haust er einka­bíll­inn enn langal­geng­asti ferða­mát­inn á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, en könnun Mask­ínu sem gerð var síð­asta sumar leiddi í ljós að margir sem í dag keyra vilja frekar hjóla á milli staða. Um 10 pró­sent segj­ast fara reglu­lega á hjóli til eða frá vinnu, en um 27 pró­sent segj­ast vilja það.

Eins og segir í hjól­reiða­á­ætl­un­inni: „Til­gangur sam­göngu­kerfa er að flytja fólk og vörur á milli staða, ekki far­ar­tæki. Fólk og fyr­ir­tæki velja þann ferða­máta sem hentar hverju sinni. Stjórn­völd geta lagt sitt af mörkum með því að bæta val­kosti fólks. Við þurfum að búa svo í hag­inn að þessi 27% geti valið að ferð­ast með þeim hætti sem það kýs hel­st, á hjól­i.“

Mestu sókn­ar­færin talin vestan Elliðaáa

Sam­kvæmt því sem segir í hjól­reiða­á­ætl­un­inni eru talin meiri tæki­færi til þess að fjölga hjólandi í hverf­unum vestan Elliðaáa sem umlykja helstu atvinnu- og þjón­ustu­hverfi borg­ar­inn­ar, en kann­anir sýna að þegar í dag eru yfir 10 pró­sent allra ferða íbúa í Hlíð­um, Laug­ar­dal og Vest­urbæ farnar á hjóli.

Í borg­inni allri er stefnt að því að 10 pró­sent allra ferða verði farnar á hjóli árið 2025, en sér­stök mark­mið verða sett fyrir aukn­ingu ferða á reið­hjóli á meðal íbúa í áður­nefndum hverfum borg­ar­inn­ar.

Konur á hjól­in!

Umtals­vert lægra hlut­fall kvenna en karla fara alla jafna ferða sinna á hjóli. Þetta er ekki ein­stakt hvað Reykja­vík varð­ar, heldur hafa kann­anir víða að sýnt að konur eru ólík­legri til þess að hjóla en karlar og því ráða ýmsar breytur.

Í löndum þar sem inn­viðir fyrir hjólandi eru hvað bestir og öruggast­ir, til dæmis í Dan­mörku og Hollandi, er þó lítið sem ekk­ert kynja­bil til staðar hvað hjól­reiðar varð­ar.

Reykja­vík­ur­borg er með það mark­mið að fjölga hjólandi fólki í öllum sam­fé­lags­hópum og greina þró­un­ina með reglu­bundnum hætti, til dæmis með könn­unum á örygg­is­til­finn­ingu og við­horfi fólks til hjól­reiða.

Sér­stök áhersla verður lögð á það af hálfu borg­ar­innar að auka hjól­reiðar þeirra hópa sem hjóla síst — og á jafn­ari hlut­deild ferða á milli kynja.

Hjóla­stígar fyrir alls konar hjól — líka hlaupa­hjól

Notkun raf­hlaupa­hjóla hefur auk­ist mikið á undra­skömmum tíma. Eins og getið er um í hjól­reiða­á­ætlun borg­ar­innar vilja not­endur þeirra helst nýta sömu inn­viði og hjól­reiða­fólk til að ferð­ast um borg­ina, enda er bannað að fara um akvegi á raf­hlaupa­hjól­um, sem einnig eru stundum kölluð raf­skút­ur.

Hjólreiðaáætlun 2021-25

Þessi nýj­ung er sögð í hjól­reiða­á­ætlun gefa enn meira til­efni til þess að setja auk­inn kraft í upp­bygg­ingu hjóla­stíga — sem hægt verði að nota fyrir bæði hjól­reiðar og hverskyns örflæð­i-­ferða­máta.

Það er ekki lengur neitt sér­lega hvasst í Reykja­vík (að með­al­tali)

Þrátt fyrir að það hafi blásið ansi hressi­lega í höf­uð­borg­inni er þessi grein var rit­uð, síð­degis í gær, er það stað­reynd að mældur með­al­vindur í Reykja­vík hefur farið lækk­andi á und­an­förnum ára­tug­um.

Ný mann­virki og auk­inn gróður hefur verið nefndur sem orsaka­vald­ur­inn í þessu. Mæl­ingar Veð­ur­stof­unnar sýna að með­al­vindur í Reykja­vík fór úr 6,8 m/s á ára­tugnum 1950-59 niður í 3,9 m/s á ára­tugnum 2010-19. Á sama tíma hélst með­al­vind­ur­inn í Kefla­vík um það bil sá sami, eða 6,8 m/s á hvorum ára­tug.

Árni Dav­íðs­son for­maður Lands­sam­taka hjól­reiða­manna skrif­aði grein um þetta í Stund­ina síð­asta haust, sem vitnað er til í hjól­reiða­á­ætl­un­inni. Þar færði hann rök fyrir því að vindur væri póli­tísk ákvörð­un.

„Síð­ast­liðna tvo ára­tugi hefur með­al­vindur í Reykja­vík verið á pari við með­al­vind í okkar fornu höf­uð­borg Kaup­manna­höfn. Árs með­al­vind­ur­inn í Reykja­vík virð­ist meira að segja komin um 1 m/s niður fyrir flug­völl Kaup­manna­hafnar í Kastr­up. Gamla góða afsök­unin að það sé ekki hægt að hjóla vegna þess að það sé ekki logn eins og í Köben virð­ist því ekki lengur gild.“

Í hjól­reiða­á­ætl­un­inni er lagt til að umhverfi hjóla­stíga verði „líf­legt“ og að þar verði hafður „gróður til að mynda skjól.“

Unnið að því að koma hjóla­neti höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins í Google Maps

Ein þeirra fjöl­mörgu aðgerða sem lagðar eru til í hjól­reiða­á­ætl­un­inni er sú að þrýsta á um að hjól­net höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins verði fært inn í korta­vef Goog­le, Google Maps.

Þar til borgin nær eyrum Google og hjól­reiða­fólk í Reykja­vík fer að finna sínar ferða­leiðir á Google Maps skal bent á að hægt er að nota sam­bæri­legt tól sem heitir Open Street Map til að finna ákjós­an­legar hjóla­leiðir um höf­uð­borg­ar­svæðið og áætla ferða­tíma.

Sér­stök áhersla á fram­halds­skóla­nema

Grunn­skóla­nemar í Reykja­vík, sér­stak­lega þeir sem yngri eru, hjóla mjög mik­ið, en um 25 pró­sent allra ferða þeirra sem eru á aldr­inum 6-12 ára eru farnar á hjóli.

Síðan hallar undan fæti. Ung­lingar hjóla minna en yngri börnin og fram­halds­skóla­nemar hjóla minna en full­orðnir almennt, en árið 2019 fóru ein­ungis 5 pró­sent fram­halds­skóla­nema á hjóli til skóla.

Mark­mið borg­ar­innar er að að minnsta kosti 25 pró­sent ferða grunn­skóla­nema til skóla verði farnar á hjóli árið 2025 og að minnsta kosti 10 pró­sent ferða fram­halds­skóla­nema.

Mark­visst á að bæta aðstæður fyrir hjól við grunn­skól­ana og hvetja börn til að hjóla, en ein þeirra aðgerða sem til­tekin er í hjól­reiða­á­ætl­un­inni er að tryggja að hjóla­stæði verði fyrir 20 pró­sent allra nem­enda í hverjum grunn­skóla.

Einnig ætlar Reykja­vík­ur­borg sér að „opna á sam­tal“ við mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið um bættar aðstæður til vist­vænna sam­gangna við fram­halds­skóla.

Bætt í vetr­ar­þjón­ustu svo fleiri kjósi hjól allt árið

Vetr­ar­að­stæður geta verið vanda­mál fyrir hjól­reiða­fólk, eðli máls­ins sam­kvæmt. Reykja­vík­ur­borg stefnir að því að gera fleirum kleift að hjóla allt árið með því að bjóða upp á fram­úr­skar­andi vetr­ar­þjón­ustu á helstu leið­um.

Auglýsing

„Kann­anir sýna að slæm þjón­usta við hjóla­leiðir getur komið í veg fyrir að fólk hjóli. Með bættri þjón­ustu við hjóla­netið fjölgum við þeim sem hjóla að stað­aldri. Því er lagt til að vetr­ar­þjón­usta við stíga­kerfið verði aukin og stígar verði upp­hit­aðir þar sem því verður komið við. Rekstr­ar­fjár­magn verði tryggt til að ná mark­mið­un­um,“ segir í hjól­reiða­á­ætl­un­inni.

Í dag eru 110 kíló­metrar af stígum orðnir greið­færir í borg­inni kl. 8 að morgni á virkum dögum – árið 2025 eiga kíló­metr­arnir að verða orðnir 150 tals­ins.

Hjóla­und­ir­göng undir Reykja­veg við Suð­ur­lands­braut

Fram kemur í hjól­reiða­á­ætl­un­inni að til standi að byggja und­ir­göng fyrir hjólandi, svo­kall­aða hjólar­ás, undir Reykja­veg við Suð­ur­lands­braut.

Stefnt er að því að halda hönn­un­ar­sam­keppni um þessa hjólarás árið 2022 og „styrkja þannig enn frekar þessa meg­in­leið hjólandi milli aust­urs og vest­urs í borg­inn­i.“

Alltaf verði hugsað um hjá­leiðir fyrir hjólandi fram­hjá fram­kvæmda­svæðum

Farartálmar á göngu- og hjólastígum eru algeng sjón í kringum framkvæmdasvæði, án þess að hugsað sé um hvernig gangandi og hjólandi eigi að komast leiðar sinnar á öruggan máta. Þessi mynd var tekin fyrr í vikunni.
Arnar Þór Ingólfsson

Hjól­reiða­fólk og gang­andi veg­far­endur í Reykja­vík kvarta ítrekað yfir því að lítið sé hugsað til þeirra, þegar rask verður á stígum vegna fram­kvæmda við hús­bygg­ingar og annað slíkt.

Sam­kvæmt hjól­reiða­á­ætl­un­inni á að gera „átak í úrbót­um“ hvað þetta varð­ar, fylgj­ast betur með og bæta leið­bein­ingar til verk­taka ef þörf kref­ur.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent