Reykjavíkurborg Hjólreiðaáætlun

Tíu molar um hvernig Reykjavík hyggst verða „hjólaborg á heimsmælikvarða“

Ný hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var kynnt og samþykkt í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar í vikunni. Kjarninn skoðaði plaggið og tók saman nokkra mola um það sem í því felst.

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021 til 2025 var kynnt í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í vikunni. Verkefnið hefur verið í vinnslu í um það bil ár og hefur Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks leitt vinnuna sem formaður stýrihóps.

Stóru línurnar í þessari hjólreiðaáætlun eru þær að borgin ætlar að verja 5 milljörðum króna fram til ársins 2025 í betri innviði fyrir hjólandi, með það að markmiði að fleiri sjái sér fært að fara ferða sinna á hjóli innan borgarinnar.

Eitt af þeim markmiðum sem sett eru í áætlun borgarinnar er að innan borgarmarkanna verði árið 2030 yfir 100 kílómetrar af hreinum hjólastígum, en í dag eru þeir kílómetrar af malbiki sem eingöngu eru ætlaðir undir hjól 32 talsins.

Samanburður á hjólastíganetinu eins og það er núna og eins og stefnt er að því að það verði árið 2030.
Hjólreiðaáætlun 2021-2025

Kjarninn tók saman nokkra mola um þessa nýju hjólreiðaáætlun borgarinnar og það sem í henni felst.

Stefnt að því að gefa fleirum kost á að nota hjól

Einhverjir spyrja sig ef til vill að því af hverju það sé verið að vinna sérstaka hjólreiðaáætlun. Raunin er sú að í Reykjavík og nágrenni eru mun fleiri sem segja að þeir væru til í að hjóla til og frá vinnu en gera það.

Þess vegna er verið að leggja áherslu á að bæta innviði fyrir hjólandi, því rannsóknir sýna að þegar innviðir eru bættir kjósa fleiri að nýta hjólið sem ferðamáta. Fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 og frá þeim tíma hefur hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum sem farnar eru í borginni aukist úr 2 prósentum upp í 7 prósent.

Auglýsing

Eins og Kjarninn fjallaði um síðasta haust er einkabíllinn enn langalgengasti ferðamátinn á höfuðborgarsvæðinu, en könnun Maskínu sem gerð var síðasta sumar leiddi í ljós að margir sem í dag keyra vilja frekar hjóla á milli staða. Um 10 prósent segjast fara reglulega á hjóli til eða frá vinnu, en um 27 prósent segjast vilja það.

Eins og segir í hjólreiðaáætluninni: „Tilgangur samgöngukerfa er að flytja fólk og vörur á milli staða, ekki farartæki. Fólk og fyrirtæki velja þann ferðamáta sem hentar hverju sinni. Stjórnvöld geta lagt sitt af mörkum með því að bæta valkosti fólks. Við þurfum að búa svo í haginn að þessi 27% geti valið að ferðast með þeim hætti sem það kýs helst, á hjóli.“

Mestu sóknarfærin talin vestan Elliðaáa

Samkvæmt því sem segir í hjólreiðaáætluninni eru talin meiri tækifæri til þess að fjölga hjólandi í hverfunum vestan Elliðaáa sem umlykja helstu atvinnu- og þjónustuhverfi borgarinnar, en kannanir sýna að þegar í dag eru yfir 10 prósent allra ferða íbúa í Hlíðum, Laugardal og Vesturbæ farnar á hjóli.

Í borginni allri er stefnt að því að 10 prósent allra ferða verði farnar á hjóli árið 2025, en sérstök markmið verða sett fyrir aukningu ferða á reiðhjóli á meðal íbúa í áðurnefndum hverfum borgarinnar.

Konur á hjólin!

Umtalsvert lægra hlutfall kvenna en karla fara alla jafna ferða sinna á hjóli. Þetta er ekki einstakt hvað Reykjavík varðar, heldur hafa kannanir víða að sýnt að konur eru ólíklegri til þess að hjóla en karlar og því ráða ýmsar breytur.

Í löndum þar sem innviðir fyrir hjólandi eru hvað bestir og öruggastir, til dæmis í Danmörku og Hollandi, er þó lítið sem ekkert kynjabil til staðar hvað hjólreiðar varðar.

Reykjavíkurborg er með það markmið að fjölga hjólandi fólki í öllum samfélagshópum og greina þróunina með reglubundnum hætti, til dæmis með könnunum á öryggistilfinningu og viðhorfi fólks til hjólreiða.

Sérstök áhersla verður lögð á það af hálfu borgarinnar að auka hjólreiðar þeirra hópa sem hjóla síst — og á jafnari hlutdeild ferða á milli kynja.

Hjólastígar fyrir alls konar hjól — líka hlaupahjól

Notkun rafhlaupahjóla hefur aukist mikið á undraskömmum tíma. Eins og getið er um í hjólreiðaáætlun borgarinnar vilja notendur þeirra helst nýta sömu innviði og hjólreiðafólk til að ferðast um borgina, enda er bannað að fara um akvegi á rafhlaupahjólum, sem einnig eru stundum kölluð rafskútur.

Hjólreiðaáætlun 2021-25

Þessi nýjung er sögð í hjólreiðaáætlun gefa enn meira tilefni til þess að setja aukinn kraft í uppbyggingu hjólastíga — sem hægt verði að nota fyrir bæði hjólreiðar og hverskyns örflæði-ferðamáta.

Það er ekki lengur neitt sérlega hvasst í Reykjavík (að meðaltali)

Þrátt fyrir að það hafi blásið ansi hressilega í höfuðborginni er þessi grein var rituð, síðdegis í gær, er það staðreynd að mældur meðalvindur í Reykjavík hefur farið lækkandi á undanförnum áratugum.

Ný mannvirki og aukinn gróður hefur verið nefndur sem orsakavaldurinn í þessu. Mælingar Veðurstofunnar sýna að meðalvindur í Reykjavík fór úr 6,8 m/s á áratugnum 1950-59 niður í 3,9 m/s á áratugnum 2010-19. Á sama tíma hélst meðalvindurinn í Keflavík um það bil sá sami, eða 6,8 m/s á hvorum áratug.

Árni Davíðsson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna skrifaði grein um þetta í Stundina síðasta haust, sem vitnað er til í hjólreiðaáætluninni. Þar færði hann rök fyrir því að vindur væri pólitísk ákvörðun.

„Síðastliðna tvo áratugi hefur meðalvindur í Reykjavík verið á pari við meðalvind í okkar fornu höfuðborg Kaupmannahöfn. Árs meðalvindurinn í Reykjavík virðist meira að segja komin um 1 m/s niður fyrir flugvöll Kaupmannahafnar í Kastrup. Gamla góða afsökunin að það sé ekki hægt að hjóla vegna þess að það sé ekki logn eins og í Köben virðist því ekki lengur gild.“

Í hjólreiðaáætluninni er lagt til að umhverfi hjólastíga verði „líflegt“ og að þar verði hafður „gróður til að mynda skjól.“

Unnið að því að koma hjólaneti höfuðborgarsvæðisins í Google Maps

Ein þeirra fjölmörgu aðgerða sem lagðar eru til í hjólreiðaáætluninni er sú að þrýsta á um að hjólnet höfuðborgarsvæðisins verði fært inn í kortavef Google, Google Maps.

Þar til borgin nær eyrum Google og hjólreiðafólk í Reykjavík fer að finna sínar ferðaleiðir á Google Maps skal bent á að hægt er að nota sambærilegt tól sem heitir Open Street Map til að finna ákjósanlegar hjólaleiðir um höfuðborgarsvæðið og áætla ferðatíma.

Sérstök áhersla á framhaldsskólanema

Grunnskólanemar í Reykjavík, sérstaklega þeir sem yngri eru, hjóla mjög mikið, en um 25 prósent allra ferða þeirra sem eru á aldrinum 6-12 ára eru farnar á hjóli.

Síðan hallar undan fæti. Unglingar hjóla minna en yngri börnin og framhaldsskólanemar hjóla minna en fullorðnir almennt, en árið 2019 fóru einungis 5 prósent framhaldsskólanema á hjóli til skóla.

Markmið borgarinnar er að að minnsta kosti 25 prósent ferða grunnskólanema til skóla verði farnar á hjóli árið 2025 og að minnsta kosti 10 prósent ferða framhaldsskólanema.

Markvisst á að bæta aðstæður fyrir hjól við grunnskólana og hvetja börn til að hjóla, en ein þeirra aðgerða sem tiltekin er í hjólreiðaáætluninni er að tryggja að hjólastæði verði fyrir 20 prósent allra nemenda í hverjum grunnskóla.

Einnig ætlar Reykjavíkurborg sér að „opna á samtal“ við mennta- og menningarmálaráðuneytið um bættar aðstæður til vistvænna samgangna við framhaldsskóla.

Bætt í vetrarþjónustu svo fleiri kjósi hjól allt árið

Vetraraðstæður geta verið vandamál fyrir hjólreiðafólk, eðli málsins samkvæmt. Reykjavíkurborg stefnir að því að gera fleirum kleift að hjóla allt árið með því að bjóða upp á framúrskarandi vetrarþjónustu á helstu leiðum.

Auglýsing

„Kannanir sýna að slæm þjónusta við hjólaleiðir getur komið í veg fyrir að fólk hjóli. Með bættri þjónustu við hjólanetið fjölgum við þeim sem hjóla að staðaldri. Því er lagt til að vetrarþjónusta við stígakerfið verði aukin og stígar verði upphitaðir þar sem því verður komið við. Rekstrarfjármagn verði tryggt til að ná markmiðunum,“ segir í hjólreiðaáætluninni.

Í dag eru 110 kílómetrar af stígum orðnir greiðfærir í borginni kl. 8 að morgni á virkum dögum – árið 2025 eiga kílómetrarnir að verða orðnir 150 talsins.

Hjólaundirgöng undir Reykjaveg við Suðurlandsbraut

Fram kemur í hjólreiðaáætluninni að til standi að byggja undirgöng fyrir hjólandi, svokallaða hjólarás, undir Reykjaveg við Suðurlandsbraut.

Stefnt er að því að halda hönnunarsamkeppni um þessa hjólarás árið 2022 og „styrkja þannig enn frekar þessa meginleið hjólandi milli austurs og vesturs í borginni.“

Alltaf verði hugsað um hjáleiðir fyrir hjólandi framhjá framkvæmdasvæðum

Farartálmar á göngu- og hjólastígum eru algeng sjón í kringum framkvæmdasvæði, án þess að hugsað sé um hvernig gangandi og hjólandi eigi að komast leiðar sinnar á öruggan máta. Þessi mynd var tekin fyrr í vikunni.
Arnar Þór Ingólfsson

Hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur í Reykjavík kvarta ítrekað yfir því að lítið sé hugsað til þeirra, þegar rask verður á stígum vegna framkvæmda við húsbyggingar og annað slíkt.

Samkvæmt hjólreiðaáætluninni á að gera „átak í úrbótum“ hvað þetta varðar, fylgjast betur með og bæta leiðbeiningar til verktaka ef þörf krefur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent