Mynd: Birgir Þór Harðarson

Benedikt skekur Viðreisn

Helsta hvatamanni að stofnun Viðreisnar, og fyrsta formanni flokksins, var hafnað af uppstillingarnefnd fyrr í mánuðinum. Harðar deilur spruttu upp í kjölfarið. Í gang fór atburðarás til að reyna að sætta ólík sjónarmið og plástra persónuleg sárindi. Hún bar ekki árangur. Benedikt Jóhannesson verður ekki á lista Viðreisnar í komandi kosningum.

Oddvitar siðustu þriggja framboðslista Viðreisnar fyrir komandi kosningar voru kynntir í vikunni. Nú liggja fyrir heildarlistar flokksins í fimm af sex kjördæmum. Um var að ræða lista flokksins í þeim kjördæmum þar sem hann er sterkastur fyrir og þaðan sem allir núverandi þingmenn Viðreisnar koma. 

Ljóst var að fleiri sóttust eftir framgangi en myndu fá. Þeir fjórir þingmenn flokksins sem nú mynda þingflokk hans sóttust allir eftir því að vera í forystusveit Viðreisnar. Þrjú þeirra: formaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingflokksformaðurinn Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem tók sæti Þorsteins Víglundssonar þegar hann hætti á þingi í fyrra, sóttust eftir oddvitasæti.

Það gerði Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og lykilmaður í stofnun flokksins, líka. Benedikt leiddi Viðreisn í gegnum fyrstu þingkosningar flokksins árið 2016 þar sem hann náði eftirtektarverðum árangri og fékk 10,5 prósent atkvæða sem skilaði sjö þingmönnum. Eftir erfiða stjórnarkreppu settist Viðreisn svo í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð sem varð skammlífasta og óvinsælasta meirihlutastjórn lýðveldistímans. Hún sprakk með látum í september 2017 og kosið var á ný í lok október það ár. 17 dögum áður en þær kosningar fóru fram sagði Benedikt af sér sem formaður Viðreisnar eftir að hafa farið í viðtal á RÚV þar sem hann sagði að fólk myndi ekki eftir því hver hefði verið ástæða þess að ríkisstjórnin féll. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum en staða Viðreisnar í könnunum á þessum tíma var mjög döpur. 

Auglýsing

Þorgerður Katrín tók við formennsku og á endanum fékk flokkurinn 8,5 prósent atkvæða. Viðreisn lifði af, en Benedikt datt út af þingi.

Sjö ára ferli

Benedikt var þó fjarri því hættur í stjórnmálum. Hann hefur enda tileinkað líf sitt Viðreisn frá árinu 2014. Í febrúar það ár ákvað ríkisstjórn Íslands að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Alþjóðasinnar innan Sjálfstæðisflokksins urðu fokvondir. Þeir töldu sig svikna. Þeim hafði verið lofað af flokksforystu Sjálfstæðisflokksins, í aðdraganda þingkosninga 2013, að tillagan yrði ekki dregin til baka nema að fram færi fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla. Það var svo svikið eftir á með þeim orðum að „pólitískur ómöguleiki“ væri fyrir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem báðir voru að uppistöðu á móti aðild að Evrópusambandinu, að standa við loforðið. 

Hópur fjársterkra áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi og víðar, sem hafði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum allt sitt líf, hóf að hittast reglulega til að ræða möguleikann á nýju framboði og annar hópur stofnaði lokaða grúppu á Facebook undir nafninu „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn“.

Helsti hvatamaðurinn var Benedikt Jóhannesson, sem hélt innblásnar ræður á mótmælum á Austurvelli á þessum tíma til að mótmæla því að aðildarumsóknin væri dregin til baka. Með honum voru fólk eins og Þórður Magnússon, fjárfestir, Helgi Magnússon, sem nú á útgáfufélag Fréttablaðsins, fyrrverandi borgarfulltrúinn Jórunn Frímannsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Páll Árni Jónsson og Thomas Möller.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki langt undan þótt hún væri ekki formlegur hluti af hópnum. Hún fór í viðtal á þessum tíma og gagnrýndi stefnu flokksins harðlega og sagði að hún vildi ekki að harðlífið tæki yfir. „Við viljum ekki að svartstakkarnir í flokknum eigi flokkinn meira en ég og þú.“

Auglýsing

Í kjölfarið fór fram skipulagður undirbúningur að stofnun nýs stjórnmálaafls. Mikil vinna var lögð í að móta breiða stefnu, fjármagna flokkinn og koma boðskap hans á framfæri með greinarskrifum. Mikil áhersla var lögð á að þetta yrði ekki einsmálsflokkur sem myndi bara höfða til óánægðra Evrópusinna innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrsti formlegi fundur félagsskaparins var haldinn í júní 2014 og næstum tveimur árum síðar, 24. maí 2016, var Viðreisn formlega stofnað sem stjórnmálaafl. Í millitíðinni hafði fólkið sem stóð að stofnun flokksins fundað stíft, oftast á skrifstofu Benedikts í Borgartúni eða á skrifstofu Þórðar Magnússonar á Skólavörðustíg. 

Alls mættu um 400 manns á fundinn og Benedikt var kjörinn fyrsti formaður flokksins. Viðreisn ætlaði að vera frjálslyndur flokkur sem fyrst og fremst hugsaði um neytendur og almenning og myndi standa gegn sérhagsmunum. 

Það var ekki einfalt skref fyrir mann eins og Benedikt að stíga að gera þetta. Hann tilheyrir hinni svokölluðu Engeyjarætt, einni valdamestu ætt landsins í stjórnmálum og atvinnulífi. Fjölmörg dæmi eru um einstaklinga innan hennar sem hafa verið með mikil völd á báðum sviðum. Hann er til að mynda náskyldur Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Fjölskyldan hefur áratugum saman verið nánast samgróin við Sjálfstæðisflokkinn. Til viðbótar þurfti Benedikt, og aðrir úr hans nánustu fjölskyldu, að færa ýmsar fórnir þegar hann steig inn á hið pólitíska svið. Hann seldi fjölmiðlafyrirtækið sitt og sagði af sér trúnaðarstörfum í atvinnulífinu. Nánir ættingjar fyrirgerðu atvinnutækifærum. 

Flokknum gekk vel í fyrstu kosningunum sínum 2016. Hin mikla vinna sem lögð hafði verið í undirbúninginn skilaði árangri. Benedikt tók mikla áhættu og bauð sig fram í Norðausturkjördæmi, en fylgi Viðreisnar er, og hefur alltaf verið, að meginuppistöðu á höfuðborgarsvæðinu. Hann náði inn sem uppbótarþingmaður. Ári síðar var allt í uppnámi og Benedikt tapaði þingsæti sínu. Síðan þá hefur hann beðið þolinmóður.

Boðuð endurkoma

Í fyrrahaust, um miðjan september 2020, greindi Benedikt frá því að ætlaði sér að verða oddviti flokksins í einu þriggja kjördæma höfuðborgarsvæðisins í þingkosningunum sem færu fram rúmu ári síðar. 

Frá þeim tíma varð ljóst að ekki yrði pláss fyrir alla sem vildu í leiðtogasætunum í lykilkjördæmum Viðreisnar. Ofan á þetta bættist að flokkurinn hafði kjörið nýjan varaformann í stað Þorstein Víglundssonar, Daða Má Kristófersson prófessor í hagfræði, tólf dögum eftir tilkynningu Benedikts. Þá fjölgaði oddvitaefnunum í fimm, en sætin voru áfram þrjú. Á sama tíma var Benedikt Jóhannesson kjörinn í stjórn Viðreisnar.

Daði Már Kristófersson var kjörinn varaformaður Viðreisnar í fyrra. Hann verður ekki í oddvitasæti hjá flokknum í komandi kosningum.
Mynd: Viðreisn

Til viðbótar við þessa stöðu var svo fjórði þingmaðurinn, Jón Steindór Valdimarsson, til staðar og vildi halda sínum stjórnmálaferli áfram. Hann hafði verið í öðru sæti í Suðvesturkjördæmi 2016 og 2017, á eftir formanninum, þar sem Viðreisn fékk sína bestu útkomu í síðustu kosningum. Ofan á þetta allt saman var vilji, að minnsta kosti hjá hluta lykilmanna innan Viðreisnar, að fá nýtt líf inn á listana á höfuðborgarsvæðinu. 

Meiri „kjörkynþokka“ eins og einn viðmælandi Kjarnans orðaði það.

Fyrirkomulag kynnt með almennum hætti

Þann 30. janúar var sendur út tölvupóstur til flokksmanna í Reykjavík. Innihald hans virtist nokkuð almennt. Yfirskriftin var „Fundur hjá Reykjavíkurráði Viðreisnar 4. febrúar kl. 20“. 

Á þessum fundi átti þó að taka afar stórar ákvarðanir. Í fyrsta lagi var félögum sem bjuggu í Reykjavík gefinn kostur á því að vera í áðurnefndu Reykjavíkurráði með því að skrá sig í gegnum hlekk sem sendur var með tölvupóstinum. Tekið var fram að mögulega myndu færri komast að en vildu vegna reglna um hámarksfjölda meðlima í Reykjavíkurráðinu. 

Í tölvupóstinum kom einnig fram að umræða yrði „fyrirkomulag við mönnun á framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmunum“. Síðar í saman pósti sagði hins vegar líka að á fundinum myndi stjórn Reykjavíkurráðsins bera upp tillögu um að farin yrði uppstillingarleið fyrir komandi kosningar. Svo sagði í póstinum: „Verði tillaga stjórnar Reykjavíkurráðs um uppstillingarleið samþykkt mun stjórn ráðsins einnig kynna tillögu að aðilum sem skipa munu fimm manna uppstillingarnefnd, til samþykktar á fundinum.“

Auglýsing

Á þessum fundi lagði Benedikt fram tillögu um að fram myndi fara prófkjör, en henni var hafnað af meirihluta fundarmanna. Helstu rökin voru þau að ekki væri nægjanlegur tími til þess að halda þau. Vert er að taka fram að Viðreisn hefur alltaf stillt upp á lista frá því að flokkurinn var stofnaður. Það hefði því verið nýlunda að halda prófkjör.

Það hvernig staðið var að boðun þessa fundar og hvernig valið var í áðurgreint Reykjavíkurráð sem síðar skipaði svo fimm manna uppstillingarnefnd hefur verið gagnrýnt harðlega af ýmsum flokksmönnum Viðreisnar, meðal annars í lokuðum spjallhópi þeirra á Facebook. Gagnrýnendum þótti yfirskrift tölvupóstsins hafa verið of almenn í ljósi þess að þarna átti að taka stórar ákvarðanir um leiðir til að velja á lista og hverjir myndu gera það. Mikilvægi fundarins hefði einfaldlega farið fram hjá mörgum sem héldu að þetta væri hefðbundinn fundur í Reykjavíkurráðinu. 

Boðið neðsta sætið eftir að hafa sóst eftir oddvitasæti

Uppstillingarnefndin var skipuð í byrjun febrúar og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og áhrifamaður í VIðreisn frá stofnun, var gerður að formanni hennar. Kjarninn hefur heimildir fyrir því að formaður Reykjavíkurráðs Viðreisnar hafi leitað víða eftir fólki til að sitja í nefndinni, meðan annars til aðila sem er ekki skráður í Viðreisn og hefur aldrei tekið þátt í starfi flokksins. Sá hafnaði boðinu.  

Þriðjudaginn 18. maí dró svo til tíðinda. Þorsteinn Pálsson bað Benedikt Jóhannesson að koma og hitta sig. Á fundi þeirra greindi Þorsteinn honum frá því að að það væri einróma niðurstaða uppstillingarnefndarinnar að bjóða Benedikt neðsta sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi. Það afþakkaði Benedikt, enda lá ljóst fyrir af opinberum yfirlýsingum hans að hann ætlaði sér virka stjórnmálaþátttöku, ekki að þiggja heiðurssæti á lista. 

Benedikt greindi opinberlega frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook 21. maí. Þar skrifaði hann meðal annars: „Þar með er útséð um að ég verði í framboði fyrir Viðreisn að þessu sinni, en ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja.“

Margir ósáttir

Við þessi tíðindi gaus upp mikil reiði á meðal hluta stuðningsmanna Benedikts. Í lokaða spjallhópnum „Viðreisn umræða“ á Facebook urðu hörð skoðanaskipti vegna þess. Einn stuðningsmaður Benedikts skrifaði þar að „örfáar manneskjur hentu út í hafsauga einum af okkar alsterkustu frambjóðendum og lykilmönnum í fylgi við flokkinn. Það er algerlega ólíðandi.“ Sami skrifaði á öðrum stað í hópnum að þessi aðferðarfræði væri fengin úr „smiðju Machiavellis. Kannski með líka dash af snilld Mao Zedong.“

Þorsteinn Pálsson var formaður uppstillingarnefndar Viðreisnar í Reykjavík og einn þeirra sem Benedikt vildi afsökunarbeiðni frá.
Mynd: RÚV

Annar stuðningsmaður skrifaði: „Ég er mjög hugsi yfir tíðindum dagsins, að fyrrverandi formaður og stofnandi flokksins sé hent út í kuldann án aðkomu flokksfélaga er virkilega dapurt.“ Undir það taka margir aðrir þátttakendur í hópnum. Enn annar skrifar: „Þessi tillaga uppstillingarnefndar er hrein móðgun við fjölda stuðningsmanna Viðreisnar.“

Einn veltir því fyrir sér hvort að það væri tæknilega eða fræðilega mögulegt að snúa ákvörðun uppstillingarnefndar við, segja uppstillingarnefndinni upp störfum og blása til prófkjörs. 

Ýmsir taka til varna fyrir fyrirkomulagið sem notast var við og bentu á að grasrót flokksins hefði valið að fara þessa leið ásamt því að hafna prófkjörsleiðinni á áðurnefndum fundi í byrjun febrúar.

Hitinn varð svo mikill að Benedikt sjálfur sá sig knúinn til að setja færslu inn í lokaða hópinn 23. maí þar sem hann sagðist vita að mörgum væri heitt í hamsi, „en ég bið fólk að vera hófstillt og ekki setja fram fullyrðingar nema vita að þær séu réttar. Engum þykir jafn leiðing og mér að sjá félaga mína og vini vegast á.“

Afsökunarbeiðnin sem ekki fékkst

En ljóst var að skjálfti skók Viðreisn. Benedikt var augljóslega afar ósáttur með niðurstöðuna og það átti líka við um fjölmarga stuðningsmenn hans. Fleiri afþökkuðu sæti á lista Viðreisnar og einhverjir, meðal annars stofnfélagar, sögðu sig úr flokknum með yfirlýsingum sem settar voru inn í „Viðreisn umræða“.

Í gang fór atburðarás til að reyna að lægja öldurnar. Hún fólst helst í því að reyna að bjóða Benedikt annað sætið og fá hann til að samþykkja það áður en listar Viðreisnar í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu yrðu kynntir í þessari viku. Fjölmargir, sem settu fram stuðningsyfirlýsingar við það ferli sem hafði verið samþykkt, bentu á að grasrót Viðreisnar stæði að því og bað sárt fólk að gæta orða sinna. Á endanum væru allir félagar í Viðreisn, samferðafólk í stjórnmálum.

Um tíma leit út fyrir að þetta myndi bera árangur. Benedikt að eigin sögn féllst á beiðni Þorgerðar Katrínar, formanns Viðreisnar, um að taka 2. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Ekki liggur ljóst fyrir hvað hefði þá átt að gera við Jón Steindór Valdimarsson, sitjandi þingmann sem mun skipa það sæti í haust. 

Benedikt vildi hins vegar fá afsökunarbeiðni frá þeim samstarfsmönnum sínum til magra ára, til að mynda Þorsteini Pálssyni og Þorgerði Katrínu sjálfri á því hvernig hefði verið staðið að málum gagnvart honum. Það snerist ekki um að honum hefði verið boðið síðasta sæti á listanum, heldur þeim samtölum og samskiptum sem urðu í kjölfarið.

Síðar orðaði hann það þannig í stöðuuppfærslu á Facebook, sem birtist 27. maí, að hann vildi að þeir sem hefðu komið fram við hann með „óviðurkvæmilegum hætti“ bæðu hann afsökunar. Í sömu stöðuuppfærslu sagði Benedikt að hann hefði tekið fram að þetta „væri einungis til þess að ljúka þessum málum af minni hálfu og leggja grunn að góðu samstarfi. Ég myndi ekki gera þær afsakanir opinberar. Þorgerður svaraði eftir umhugsun að slík persónuleg afsökunarbeiðni væri ekki í boði. Því fór sem fór.“

Auglýsing

Þetta er ekki sama saga og Þorgerður Katrín segir. Í viðtali við mbl.is á fimmtudag sagði hún að Benedikt hefði hafnað boði um að setjast í annað sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. 

Benedikt sagði í áðurnefndri stöðuuppfærslu að hann hefði ekki ætlað að tjá sig um þessi trúnaðarsamtöl en fyrst að Þorgerður Katrín hefði gert það opinberlega hefði hann skipt um skoðun. 

Röðun á tilkynningu lista tortryggð

Fyrir liggur, samkvæmt samtölum við marga flokksmenn Viðreisnar sem eru óánægðir með hvernig staðið var að uppstillingu á lista flokksins, að þeir telja það ekki tilviljun að byrjað hafi verið að velja þrjá karlmenn til að leiða lista flokksins í landsbyggðarkjördæmunum. Þótt að ekkert segi að það þurfi að vera jafnt hlutfall kynja í oddvitasætum Viðreisnar – lög flokksins kalla einungis eftir fléttulistum þar sem jafnræðis er gætt milli kynja innan lista – þá liggur fyrir að æskilegt væri fyrir flokk sem tekur jafnréttismál alvarlega að vera með jafnvægi í kynjahlutföllum oddvita. 

Það að karlar hefðu verið valdir til að leiða í landsbyggðarkjördæmunum hafi því styrkt stöðu Hönnu Katrínar Friðriksson og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur til að leiða í Reykjavíkurkjördæmunum, en fyrir lá að Þorgerður Katrín yrði alltaf í öndvegi í Kraganum. Þessi skoðun fékk byr undir báða vængi í fyrradag þegar Natan Kolbeinsson, sem var í Samfylkingunni til ársins 2018 en hefur síðan starfað með Viðreisn, og er einn þeirra sem sat í uppstillingarnefnd, setti stöðuuppfærslu á Facebook. Þar sagði hann meðal annars: „Núna er staðan þannig að út á landi eru þrír karlkyns oddvitar og því hefði það verið erfitt fyrir okkur að setja inn karlkyns oddvita. Þær þingkonur sem eru í Reykjavík núna hafa náð að lyfta flokknum upp í rúm 11% og þar að auki starfað af heilindum og dugnaði.“ 

Ég sat í uppstillingarnefnd fyrir Reykjavíkurráð Viðreisnar. Í störfum okkar og samskiptum við Benedikt kom það skýrt...

Posted by Natan Kolbeinsson on Thursday, May 27, 2021

Natan sagði auk þess að hann gæti ekki fyrir sitt litla líf „beðið hann eða nokkurn mann skriflega afsökunar á því að neita að hverfa frá jafnréttissjónarmiðum flokksins eða skilyrða sæti á framboðslista við kröfur eins frambjóðenda“. 

Kjarninn hefur fengið staðfest að Benedikt sóttist ekki með neinum hætti eftir afsökunarbeiðni frá Natan eða öðrum í uppstillingarnefnd. 

Endanlegir listar tilbúnir

Listar Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu liggja nú fyrir. Sá síðasti var samþykktur á fimmtudag og þeim verður ekki breytt úr þessu. Hanna Katrín og Þorbjörg Sigríður leiða í Reykjavíkurkjördæmunum og þar verða Daði Már, varaformaður flokksins, og Jón Steindór í öðru sæti í sitt hvoru kjördæminu. Miðað við núverandi stöðu í könnunum getur flokkurinn gert væntingar til þess að fá einn til tvo þingmenn kosna í hvoru Reykjavíkurkjördæmi fyrir sig.

Í Suðvesturkjördæmi verður Þorgerður Katrín áfram oddviti og þau óvæntu tíðindi urðu á fimmtudag að sá sem Jón Steindór var látinn víkja fyrir er Sigmar Guðmundsson, einn þekktasti fjölmiðlamaður landsins, sem söðlar nú um eftir þrjá áratugi í útvarpi og sjónvarpi. Hann sest í annað sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, sem gaf þingsæti haustið 2017. 

En Benedikt Jóhannesson, helsti hvatamaðurinn að stofnun Viðreisnar og fyrrverandi formaður hans, verður ekki á lista, fimm árum, nánast upp á dag, eftir að hafa verið kjörinn einróma til að leiða flokkinn inn í framtíðina á stofnfundi hans. Hann situr samt sem áður áfram í framkvæmdastjórn flokksins, sem annast daglegan rekstur hans og fjárreiður með framkvæmdastjóra. Auk Benedikts sitja þar formaður, varaformaður og Þórður Magnússon, formaður fjáröflunarnefndar, sem er áheyrnarfulltrúi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar