„Sársaukinn við dæluna“ eykst: Lítrinn orðinn 72 prósentum dýrari en fyrir tveimur árum
Verð á lítra af bensíni á Íslandi er í dag frá tæpum 320 krónum upp í rúmar 350 krónur, þar sem það er dýrast. Olíufélögin eru einungis að taka til sín tæp 11 prósent af krónunum sem greiddar eru fyrir hvern seldan lítra um þessar mundir.
Viðmiðunarverð á bensíni á Íslandi er nú 341 krónur á lítra og stekkur lítraverðið upp um 33,9 krónur frá fyrri mánuði. Það er stærsta stökk sem orðið hefur á milli mánaða, að minnsta kosti frá árinu 2007, samkvæmt því sem lesa má út úr nýjustu bensínvakt Kjarnans.
Verðið á bensíni hefur aldrei verið hærra á Íslandi í krónum talið og kostar bensínlítrinn nú 72 prósentum meira en fyrir tveimur árum og 27 prósentum meira en í janúarmánuði.
Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra, sem samanstendur af virðisaukaskatti, almennu og sérstöku bensíngjaldi og kolefnisgjaldi er nú 155,4 krónur krónur á hvern lítra af seldu bensíni. Það þýðir að 45,6 prósent af hverjum lítra fer í ríkissjóð. Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra hefur aldrei verið hærri í krónum talið.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðmiðunarverðið sem hér er gengið út frá, 341 króna á lítra, miðar við næstlægstu verðtölu í yfirliti síðunnar Bensínverð.is, sem hugbúnaðarfyrirtækið Seiður heldur úti, til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó ætíð með lægstu verðum.
Hæstu verð á bensíni í dag er nú 352 krónur á bensínlítra, á ýmsum bensínstöðvum N1, en lægsta verðið er 318,7 krónur á lítra, á bensínstöð Costco. Verðið er svo ögn hærra eða tæpar 321 krónur á völdum bensínstöðvum Orkunnar, ÓB og Atlantsolíu.
Það munar því sem stendur stendur 10,4 prósentum á hæsta og lægsta verði bensínlítersins á Íslandi.
Olíufélögin að taka til sín tæp 11 prósent af hverjum seldum lítra
Innkaupaverð á bensínlítranum ræðst einkum af tveimur þáttum: heimsmarkaðsverði á olíu og gengi krónunnar gagnvart bandaríkjadal. Báðir þessir þættir hafa sveiflast mjög á undanförnu.
Samkvæmt því sem fram kemur í bensínvakt Kjarnans er líklegt innkaupaverð olíufélaganna á lítranum í dag 148,53 krónur, sem samsvarar 17 prósent hækkun á milli mánaða. Til samanburðar var líklegt innkaupaverð olíufélaganna einungis 69,1 króna á líterinn í desembermánuði og hefur því hækka um 114 prósent síðan þá.
Miðað við það er hlutur olíufélaganna af hverjum seldum lítra að rísa aðeins á milli mánaða og er nú 37,07 krónur á hvern seldan lítra. Inni í þessari tölu er álagning, auk kostnaðar við flutninga og tryggingar, en þær upplýsingar liggja ekki opinberlega fyrir og því er ekki hægt að reikna álagningu olíufélagsins sérstaklega.
Vísbendingar eru þó um að olíufélögin séu enn ekki búin að skila hækkunum á innkaupaverði að fullu út í sína eigin verðlagningu, en olíufélögin eru um þessar mundir að taka um 10,9 prósent af verði hvers lítra til sín, sem er við lægri mörk þess sem verið hefur raunin á undanförnum árum, en algengt hefur verið að olíufélögin taki til sín um 15-20 prósent af krónunum sem bensínlítrinn kostar.
Ný útfærsla umferðargjalda á leiðinni
Eins og fjallað var um í vikunni hafa stjórnvöld ákveðið að flýta innleiðingu nýrra gjalda vegna umferðar og eldsneytis. Gert er ráð fyrir því að þessum nýju gjöldum skili 3,4 milljörðum í ríkiskassann, strax á næsta ári, en þessi nýja skattlagning á akstur hefur ekki verið útfærð nákvæmlega.
Ljóst er þó að henni sé ætlað að ná að einhverju fé í ríkissjóð þeim sem í dag keyra um á rafbíl og láta sér þær miklu bensínverðshækkanir sem nú ganga yfir í léttu rúmi liggja.
Meirihluti fjárlaganefndar lagði til í nefndaráliti sínu að við breytta skattlagningu að meðal annars yrði horft til þyngdar ökutækja og lagði það fyrir ríkisstjórnina að láta breytingar sem endurspegla notkun allra ökutækja á vegakerfinu.
Samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er tekjuöflunarkerfið „í smíðum“ og með því „horft til þess að gera gjaldtöku einfaldari og aðgengilegri og að fyrirkomulagið miðist í auknum mæli við notkun og samræmist þörf á áframhaldandi útgjöldum við nýframkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins“.
Við lok síðasta árs voru um 292 þúsund bensín- og díselbílar á Íslandi en rúmlega 21 þúsund bílar sem ganga fyrir rafmagni eða eru með raftengi.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.