Sautján líkkistur og ein þeirra mjög smá
„Ameríski draumur margra brann til ösku“ í eldsvoða í blokk í Bronx-hverfinu í New York nýverið, segir borgarstjórinn. Í húsinu bjuggu innflytjendur, flestir frá Gambíu. Gríðarlegur reykur myndaðist er eldur kviknaði í rafmagnshitara í einni íbúðinni. Krafist er umbóta í húsnæðismálum tafarlaust.
Sorgin vegna eldsvoðans mikla í fjölbýlishúsi í Bronx-hverfinu í New York fyrir viku nær heimsálfa á milli. Sautján létust, þar af átta börn. Það yngsta var aðeins tveggja ára gamalt.
Bruninn er sá mannskæðasti í New York-borg í áratugi. Flestir þeirra sem létust voru innflytjendur frá Gambíu, litla sólríka landinu á vesturströnd Afríku. Handan Atlantshafsins frá Bandaríkjunum. Ríki sem er eitt það fátækasta í heimi. Fólkið sem lést var aðallega úr tveimur smáþorpum þess, hafði flust til Bandaríkjanna til að freista gæfunnar, fá atvinnu og til að geta aðstoðað fjölskyldur sínar í heimalandinu.
Um helgina fór fram í New York útför fimmtán þeirra sem létust. Þar lágu þær í röðum, kisturnar fimmtán. Fimm þeirra litlar. Ein þeirra mjög lítil.
Meðal syrgjenda voru ástvinir sem einnig höfðu búið í Twin Parks North West-fjölbýlishúsinu en komist lífs af úr eldsvoðanum. Borgarstjórinn og fyrrverandi lögreglustjórinn Eric Adams, sem tók við embættinu fyrir skömmu, mætti til útfararinnar og háttsettir embættismenn og þingmenn. Fjölmargir slökkviliðsmenn, sem tekið höfðu þátt í björgunarstarfinu, voru þar einnig.
„Þau voru öll sakleysingjar, þessi ungu börn. Þau ættu ekki að liggja í þessum kistum,“ sagði Haji Dukuray við New York Times eftir athöfnina. Hann missti frænda sinn og eiginkonu hans og þrjú börn þeirra í eldsvoðanum. Börnin voru á aldrinum 5-12 ára.
Talið er að upptök eldsins megi rekja til rafmagnshitara. Gríðarlegur reykur myndaðist um alla ganga sem gerði fólki mjög erfitt fyrir að komast út úr blokkinni sem telur nítján hæðir.
„Ef þetta fólk hefði búið í miðborg Manhattan hefði þetta ekki gerst,“ sagði Musa Drammeh, leiðtogi menningarseturs múslíma þar sem útförin fór fram um helgina, í ávarpi sínu. „Þá hefðu þau ekki þurft rafmagnshitara. Aðstæðurnar sem þau bjuggu við í Bronx-hverfinu urðu þess valdandi að þau dóu.“ Hann beindi svo orðum sínum að borgarstjóranum og sagði: „Herra borgarstjóri, heyrir þú hvað ég segi?“
Adams borgarstjóri tók undir orð hans. „Það sem er að gerast hér í Bronx er að gerast víðar í borginni okkar þar sem samfélög svartra og innflytjenda eru. Það er tímabært að stöðva þetta misrétti svo að þurfum aldrei aftur að sjá börn og fjölskyldur teknar frá okkur í slíkum harmleik. Ameríski draumur of margra varð að ösku í þessum eldsvoða.“
Eldurinn kviknaði að morgni sunnudagsins 9. janúar og svo virðist sem á stuttri stundu hafi svartur og þykkur reykurinn og stæk lykt af brunnu plasti og timbri, náð að komast um alla bygginguna. Slökkviliðið sem fyrst fór á vettvang sá í hvað stefndi og sendi út örvæntingarfullt neyðarkall: „Við þurfum hjálp!“
Annað kall frá slökkviliðsmönnum úr húsinu barst skömmu síðar: „Við erum að leiðinni! Við erum á leiðinni að sjúkrabílnum með ungbarn!“
Í byggingunni voru 120 íbúðir. Eldurinn kviknaði í íbúð á þriðju hæð. Fjölskyldan sem þar bjó kom sér út en útihurðin á íbúðinni var biluð og ekki hægt að loka henni. Þannig náði eldurinn og ekki síst reykurinn fljótt að smeygja sér út og upp um alla ganga. Það sem gerði honum auðveldara um vik var að á fimmtándu hæðinni var einnig biluð hurð sem ekki var hægt að loka. Þannig myndaðist sog milli 3. og 15. hæðarinnar með skelfilegum afleiðingum. Stigagangarnir urðu að risastórum skorsteini. Reykurinn barst líka í gegnum raflagnakerfið, úr einni íbúð í aðra. Einnig í gegnum sprungur í veggjum. Húsið varð á augabragði að dauðagildru. Þrýstingurinn frá hitanum var svo mikill að hann sprengdi glugga á nokkrum hæðum.
Íbúarnir stóðu frammi fyrir skelfilegum valkostum. Sumir gripu til þess ráðs að freista þess að fara í gegnum reykjarmökkinn og niður stigana. Aðrir þorðu ekki út úr íbúðum sínum og biðu björgunar þar, jafnvel í yfir klukkustund. Aðrir fóru í örvæntingu út um gluggana og létu sig falla til jarðar.
Reykskynjarar höfðu farið í gang. En leigjendur í byggingunni voru orðnir svo vanir því að þeir gerðu það í tíma og ótíma að ástæðulausu að þeir kipptu sér sumir hverjir ekki upp við stöðugt hljóðmerki þeirra. Því töpuðust dýrmætar sekúndur og jafnvel mínútur til að flýja.
„Allir munu deyja,“ rifjar íbúi af 12. hæðinni, kasólétt kona, upp að hafa hugsað er hún var orðin innlyksa.
Slökkviliðsmönnunum varð ljóst að það yrði ekki eldurinn sem slíkur sem myndi bana fólki sem fast var inni í húsinu heldur hinn eitraði reykur. Þeim tókst að hjálpa mörgu fólki niður stigana og út. Báru suma og leiddu aðra. En sautján týndu lífi í eldsvoðanum. Öll létust þau úr reykeitrun.
Þeir sem tóku til máls í útförinni á sunnudag voru sammála um að miklu meira þurfi að gera til að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Í fjölmiðlum vestanhafs hefur komið fram að ítrekað hafði verið bent á að eldvarnahurðir í húsinu væru í ólagi. Á því hefðu íbúar sem og eftirlitsmenn vakið athygli eigenda hússins á. Í tvígang á síðustu fimm árum höfðu yfirvöld gefið eigendum áminningu vegna þess að eldvarnahurðir, sem eiga að lokast sjálfkrafa, gerðu það ekki.
Byggingin hefur síðustu tvö ár verið í eigu þriggja fasteignafélaga. „Við erum stolt að bæta Bronx við stækkandi safn okkar af íbúðum á viðráðanlegu verði,“ sagði Rick Gropper, forstjóri Camber Property Group, er félögin eignuðust blokkina. Hin tvö fasteignafélögin eru Belveron Partners og LIHC Investment Group. „Þessir leigusalar eru að græða mikla peninga af þessum byggingum og fá auk þess ýmsar ívilnanir frá yfirvöldum,“ segir lögfræðingurinn Judith Goldiner við Washington Post. Hún hefur í áravís aðstoðað leigjendur, m.a. í Bronx, við að leita réttar síns gagnvart leigusölum. „Þeir hefðu átt að nota peningana til að gera þessa byggingu örugga.“
Líkt og margar aðrar eldri byggingar var ekkert úðarakerfi í Twin Parks North West-fjölbýlishúsinu. Þótt það sé löglegt er það mat margra að í svo stórum og gömlum húsum, þar sem svo margir búa, eigi leigusalar að ganga lengra í eldvörnum en lög og reglur kveða á um. En fyrst og fremst eigi þeir að sjá til þess að eldvarnahurðir og annað sem skylt er að hafa í lagi sé í lagi. Þá var hitakerfi hússins lélegt sem gerði það að verkum að rafmagnshitarar, eins og sá sem kviknaði í, voru í mörgum íbúðum.
Talsmaður fasteignafélaganna þriggja segir að farið hafi verið eftir öllum reglum og að eldvarnahurðirnar hafi átt að lokast sjálfar. Hann segir að brugðist hafi verið við ábendingum um að blýmálning hefði verið farin að flagna af veggjum en það er meðal þess sem íbúar segja að geti hafa myndað hinn banvæna reyk.
Stjórnvöld hafa einnig verið gagnrýnd enda veita þau fjárfestum ýmsar ívilnanir við kaup á byggingum sem þessum sem ætlaðar eru efnaminna fólki til búsetu. „Það ætti ekki nokkur einstaklingur að þurfa að hafa rafmagnshitara inni hjá sér,“ sagði Letitia James, ríkissaksóknari New York, í ræðu sem hún hélt við útförina. „Það voru aðstæður í þessari byggingu sem hefði átt að vera búið að laga. Það voru aðstæður í þessari byggingu sem hefði átt að hafa meira eftirlit með.“