„Skunkurinn í lautarferðinni“ yfirgefur Hvíta húsið
Hann leiddi bandarísku þjóðina í gegnum faraldra HIV, inflúensu, ebólu og COVID-19. Hans stærsta orrusta var þó ef til vill af allt öðrum toga: Við forsetann fyrrverandi, Donald Trump.
Seint að kvöldi 23. september árið 2020 stóð Anthony Fauci loks í stofunni heima hjá sér í Washington. Dagurinn hafði byrjað fyrir klukkan sex um morguninn og um hann miðjan hafði hann setið fyrir svörum þingnefndar í þrjár klukkustundir. Umræðuefnið var COVID-19. Eftir það tók hann þátt í opnum umræðufundi á netinu um faraldurinn.
En þótt það sé áliðið er vinnudegi Faucis langt í frá lokið. Hann á enn eftir að lesa yfir 200 tölvupósta sem bíða hans. „Ég þarf svo að vakna klukkan 3 í nótt,“ segir hann við blaðamann sem er kominn heim til hans á þessum ókristilega tíma til að taka viðtal við manninn er nýverið hafði prýtt forsíðu tímaritsins Time sem hafði valið hann einn af áhrifamestu mönnum veraldar.
23. september var ekkert óvenjulegur vinnudagur á tímum farsóttarinnar. Langt í frá. Þannig vann Fauci mánuðum saman. Var vakinn og sofinn, í bókstaflegri merkingu, yfir velferð bandarísku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar.
Það ætti ekki að koma á óvart þegar fólk á níræðisaldri greinir frá því að það hyggist láta af störfum. En það þóttu engu að síður tíðindi þegar maðurinn sem hefur unnið hjá Smitsjúkdóma- og ónæmisfræðistofnun Bandaríkjanna (NIAID) frá árinu 1968 og stýrt henni í 38 ár, í tíð sjö forseta, sagðist ætla að láta af embætti í desember – „hefja nýjan kafla“. Hann mun samhliða hætta sem ráðgjafi Joes Biden forseta í vörnum gegn smitsjúkdómum og annarri aðsteðjandi heilsufarsógn.
Það er hins vegar engin hætta á því að hinn stálhrausti Fauci setjist alfarið í helgan stein. Hann ætlar sér að ferðast, skrifa og halda áfram að hvetja ungt fólk til starfa í þágu hins opinbera. „Svo lengi sem ég er heilsuhraustur, sem ég er, svo lengi sem ég er fullur orku, sem ég er, og svo lengi sem ég hef ástríðuna, sem ég hef, þá vil ég halda áfram að gera hluti þótt það verði ekki í opinberu starfi,“ sagði Fauci, sem er 81 árs, í viðtali við New York Times fyrir nokkrum vikum. Þá gaf hann í skyn að starfslokin væru nærri en lýsti þeirri ákvörðun sinni svo yfir fyrir nokkrum dögum. Starfið hafi verið ein helsta gæfa lífs hans.
Biden hrósar Fauci í hástert fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar. „Hann hefur veitt styrka leiðsögn með visku og innsæi að vopni,“ sagði forsetinn er tíðindin voru kunngerð. „Vegna starfa sinna hefur hann bjargað mannslífum í Bandaríkjunum og víðar um heim.“
Fauci hefur auðvitað verið þekktur í heimi vísindanna í áratugi. Og þótt hann hafi áður staðið í ströngu í baráttu við faraldra (og stjórnmálamenn) var það ekki fyrr en faraldur COVID-19 skall á að hann varð, líkt og okkar eigin sóttvarnalæknir Þórólfur Guðnason, daglegur gestur á sjónvarpsskjánum – maðurinn sem þótti líklegastur til að leiða Bandaríkjamenn með vísindin að vopni í gegnum skaflinn. Hreinskiptinn læknir og ónæmisfræðingur, fæddur á aðfangadegi jóla, alinn upp í Brooklyn-hverfi New York, með áratuga reynslu.
Er hann tók við embætti sóttvarnalæknis vestanhafs sat repúblikaninn Ronald Reagan í stóli forseta. Og síðasti forsetinn sem hann mun veita ráðgjöf, ef áform hans halda, verður demókratinn Joe Biden.
Fauci fékk risavaxið verkefni í fangið fljótlega eftir að hann tók við Smitsjúkdómastofnuninni. Á níunda áratugnum hóf áður óþekktur sjúkdómur að breiðast út í Bandaríkjunum og víðar. Þetta var HIV sem veldur alnæmi (AIDS). Hann var í fyrstu útbreiddastur meðal samkynhneigðra karlmanna og lenti Fauci á þessum tíma upp á kant við mannréttindahópa sem börðust fyrir aukinni ákefð í leit að meðferðum við honum. Hann varð síðar virtur bandamaður þeirra.
Eitt hans helsta afrek, að hans eigin mati og annarra, var að þróa og setja á stofn alþjóðlegt verkefni, PEPFAR, til að berjast gegn útbreiðslu HIV. Talið er að verkefnið hafi bjargað yfir 20 milljónum mannslífa. Þetta gerði hann í valdatíð George W. Bush sem sæmdi hann forsetaorðu árið 2008.
Það er af nógu að taka úr tíð Fauci í embætti sóttvarnalæknis. Árið 2001 var hann í brúnni er árásir og ótti við frekari árásir með miltisbrandi skók Bandaríkin líkt og fleiri ríki, m.a. Ísland. Árið 2009 varð faraldur svínaflensu og nokkrum árum síðar blossuðu upp faraldrar ebólu og zika-veirunnar. Fauci var ekki bundinn við skrifborð þessi ár heldur sinnti einnig sjúklingum, m.a. sjúklingum sem smitaðir voru af ebólu.
Fauci varð hins vegar goðsögn í lifanda lífi í COVID-faraldrinum. Klæddur stuttermabol í sjónvarpsviðtölum, yfirvegaður og staðreyndamiðaður. Eiginleikar sem við Íslendingar þekkjum af góðu frá okkar sóttvarnalækni.
Hann átti að veita Donald Trump forseta ráðgjöf, líkt og fyrri forsetum, en óhætt er að segja að stundum hafi þeir ekki verið á sömu blaðsíðu. Sumir myndu kannski jafnvel ganga svo langt að segja að þeir hefðu ekki verið í sömu bók. Fauci þurfti ekki aðeins að glíma við skæða, nýja veiru, heldur forseta sem fór margsinnis með fleipur, gaf samsæriskenningum byr undir báða vængi og ógnaði jafnvel heilsu þjóðar sinnar með kolröngum fullyrðingum.
Trump var seinn til að grípa til aðgerða til varnar veirunni og talaði þær svo gjarnan niður. Fauci þurfti því margsinnis að leiðrétta Trump – þótt hann færi yfirleitt fínt í það. „Ég gat ekki stokkið fyrir framan hljóðnemann og ýtt honum frá,“ sagði Fauci spurður um þetta allt saman í viðtali við vísindatímaritið Science í miðjum faraldrinum árið 2020. „Mér þykir það leitt, ég er ekki að reyna að grafa undan forsetanum. En það er eitthvað til sem heitir raunveruleiki.“
Raunveruleikinn er oft ekki augljós í fílabeinsturnum og reykfylltum bakherbergjum. Þetta minnti Fauci aðgerðateymi Hvíta hússins, sem skipað var til að fást við COVID-faraldurinn, á þegar stjórnvöld með Trump í broddi fylkingar gáfu út ótímabærar yfirlýsingar um að allir sem vildu gætu farið í COVID-próf. Þetta var á tímum sem slík próf voru enn af skornum skammti og heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir þegar undir gríðarlegu álagi. Ekki bætti úr skák þegar rangar upplýsingar um aðgengi að prófum voru auglýstar.
Fauci notaði reynslu sína af samskiptum við aðgerðahópa í upphafi HIV-faraldursins í nálgun sinni á málið. „Ef þú vilt raunverulega vita hvað er í gangi þá áttu að tala við fólkið sem er í skotgröfunum,“ sagði hann. „Þannig að þegar því var haldið fram að prófin væru svarið og að allir sem vildu gætu farið í próf þá þýddi það að ég var í símanum langt fram á nótt að tala við fólkið á gólfinu, fólk sem var að vinna á gjörgæsludeildum í New York, Chicago, New Orleans, Seattle og Los Angeles. Ég gerði þetta reglulega og það sem þetta fólk sá í skotgröfunum var ekki alltaf það sama og rætt var í fundarherbergjum.“
Fauci fékk hins vegar oft bágt fyrir en hélt þó ótrauður sínu striki enda starf hans að veita stjórnvöldum ráðgjöf í heilsufarslegum þrengingum og hvika hvergi frá vísindunum. Hann er þekktur fyrir að kunna að stíga fínlegan jafnvægisdans á milli stjórnmála og vísinda. „Ég er sá sem hikar ekki við að segja forsetanum og varaforsetanum það sem þeir vilja ef til vill ekki heyra,“ sagði hann í viðtali árið 2020. Hann viðurkenndi að það væri sannarlega fólk í Hvíta húsinu sem ætti erfitt með að kyngja staðreyndum um ástandið eins og hann lýsti því á fundum aðgerðateymisins. „Þá fékk ég viðurnefnið skunkurinn í lautarferðinni.“
Honum var bent á að vera jákvæðari, að það væri t.d. jákvætt þegar smitum fækkaði á ákveðnum svæðum. Það er rétt, sagði hann en benti svo á að engum sigri væri náð á meðan hver bylgjan á fætur annarri risi hátt á öðrum. „Landið er einn skógur í þessu sambandi og þegar það geisa eldar á einhverjum svæðum í skóginum er hann allur í hættu.“
Samvinna hans og forseta Bandaríkjanna hefur yfirleitt verið góð. En það breyttist nokkuð snögglega í tíð Donalds Trump á valdastóli þótt Fauci hafi, jafnvel eftir að Trump fór úr embætti, lítið sagt um þeirra persónulegu samskipti. Þeir hittust reyndar ekki í fyrsta skipti fyrr en Trump hafði verið þrjú ár í embætti og ný og skæð veira, „nýja kórónuveiran“ eins og hún var kölluð, stakk upp kollinum.
Trump hótaði því oftar en einu sinni næstu mánuðina á eftir að reka hann og ýjaði nokkrum sinnum að því opinberlega, þótt hann hefði reyndar vart vald til slíks. Í stað þess grófu einstaklingar sem unnu náið með forsetanum stöðugt undan Fauci.
Þannig ýtti Trump undir gagnrýni á störf Faucis sem stóð í eldlínunni, með manninn í Hvíta húsinu fyrir framan sig að hella olíu á eldinn. Hann var sakaður um athyglissýki, að hefta frelsi fólks af nauðsynjalausu og þar fram eftir götunum. Honum og fjölskyldunni bárust ítrekað líflátshótanir svo hann þurfti – og þarf reyndar enn – stranga öryggisgæslu allan sólarhringinn.
Hann er langur listinn yfir ágreiningsefni Fauci og Trump.
Dæmi:
Trump sagði snemma í faraldrinum að kórónuveiran myndi „fyrir kraftaverk“ hverfa – án bóluefna.
Fauci sagði að það að sleppa veirunni lausri án aðgerða myndi kosta „gríðarlega mörg“ mannslíf.
Trump kallaði veiruna í upphafi „Kína-veiruna“ enda sannfærður um að hún hefði verið fundin upp á rannsóknarstofu í Whuan.
Fauci benti strax á að engar vísindalegar vísbendingar væru um að veiran hefði verið búin til á rannsóknarstofu.
Í apríl árið 2020 viðraði Trump þá hugmynd á blaðamannafundi að fólk drykki sótthreinsiefni til að verja sig gegn COVID-19.
„Almáttugur,“ segist Fauci hafa hugsað og óttast afleiðingar þess að svo valdamikill maður setti fram slíkar rangfærslur. Hann óttaðist að fólk myndi gera „hættulega“ og „heimskulega“ hluti.
HIV mótaði allt hans líf
Fauci segir HIV hafa mótað allt hans líf og starf til þessa dags. Hann sinnti sjálfur fólki með alnæmi á fyrstu árum faraldursins, eignaðist í þeim góða vini sem hann sá svo veikjast alvarlega og deyja áður en gagnleg meðferð við sjúkdómnum kom nokkrum árum seinna. „Áfallastreita. Það er það sem það er,“ náði hann með erfiðismunum að segja, grátklökkur, í heimildarmynd um HIV er hann var spurður hvaða áhrif þessir tímar höfðu á hann.
„Ég hef aldrei hitt jafn góða manneskju,“ segir Peter Staley, einn ötulasti baráttumaður réttinda hinsegin fólks á níunda áratug síðustu aldar, um kynni sín af Fauci hin seinni ár. Staley sótti oft mjög hart að Fauci á árum áður, mótmælti hástöfum aðgerðaleysi stjórnvalda fyrir utan vinnustað hans en segir hann þó alltaf hafa verið tilbúinn að hlusta.
Daginn sem þau gleðitíðindi bárust í nóvember árið 2020 að fyrsta bóluefnið gegn COVID-19 hefði samkvæmt rannsóknum 90 prósent virkni gegn alvarlegum veikindum hélt Fauci blaðamannafund. Það var þó ekki til að ræða um COVID heldur niðurstöður rannsókna á verkefni sem hann hefur farið fyrir og stutt með ráðum og dáð í langan tíma. Verkefnið var að gera lyf sem kemur í veg fyrir að fólk smitist af HIV-veirunni. Og þennan dag, sama dag og Pfizer kynnti jákvæðar niðurstöður á bóluefni gegn COVID-19, greindi Fauci frá því að tilraunir sýndu að lyfið cabotegravir veitti konum góða vörn gegn því að smitast af HIV-veirunni.
„Ég vildi að heimurinn vissi, með fullri virðingu fyrir því ótrúlega ástandi og álagi sem við vorum undir vegna COVID, stæði baráttan við HIV enn,“ sagði Fauci í viðtali um þetta nokkru síðar.
Eftir löngu vinnudagana í faraldrinum fór Fauci heim til sín, í húsið sitt í Washington-borg sem hann hefur átt og búið í allt frá árinu 1977. Hann hafði átt þetta hús í átta ár er hann giftist hjúkrunar- og lífsiðfræðingnum Christine Grady. Þau hjón eiga þrjár uppkomnar dætur.
Á milli ferðalaga sem Fauci hyggst taka eftir starfslokin hjá hinu opinbera, má gera ráð fyrir að hann dvelji löngum stundum í húsinu með stóra garðinum við skriftir. Því að þeim hyggst hann einbeita sér. En það gætu orðið gárur á því friðsæla lífi sem hann sér fyrir sér. Enn standa að honum spjótin. Þingmenn Repúblikanaflokksins ætla ekki að sleppa af honum takinu strax.
„Það er gott að vita að þegar Fauci sest í helgan stein hefur hann nægan tíma til að koma fyrir þingið og deila eiðsvarinn því sem hann vissi um Wuhan-rannsóknarstofuna, og síbreytilegar leiðbeiningar í faraldrinum á hans vakt sem urðu til þess rangar kvaðir voru settar á almenning í Bandaríkjunum,“ sagði fulltrúadeildarþingmaðurinn Steve Scalise í yfirlýsingu er Fauci tilkynnti um áformuð starfslok.