Hann var búinn að hugsa um flóttann árum saman. Heraginn sem hann ólst upp við kom sér kannski vel við skipulagninuna. En það var það sem hann var að flýja.
Svo rann dagurinn upp. Kaldur og drungalegur dagur í febrúar 2018. Hann ætlaði að hjálpa móður sinni og fimm yngri systkinum að komast undan ofríki föðurins á heimilinu.
Og það tókst.
„Ég lifði algjörlega undir ógnarstjórn andlegs hryðjuverkamanns,“ segir Dakota Adams, áður Dakota Stewart Rhodes, sem vill ekki lengur kenna sig við föður sinn á nokkurn hátt. Hann og móðir hans, Tasha Adams, segja frá hvernig þau, ásamt fimm yngri systkinum Dakota, flúðu Rhodes og vígasveitina sem hann leiddi, í ítarlegu viðtali við BBC.
Faðirinn, Elmer Stewart Rhodes, er stofnandi og leiðtogi öfga- og vígasveitarinnar the Oath Keepers. Í síðustu viku var Rhodes sakfelldur fyrir uppreisnaráróður gegn bandaríska ríkinu fyrir aðild sína að árásinni á bandaríska þinghúsið í janúar 2021. Hann á yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm. Fjölskyldan sér loks fram á að geta endurbyggt líf sitt.
Uppgangur vopnaðra sveita borgara með aukinni skautun
Elmer Stewart Rhodes er 57 ára fyrrverandi fallhlífahermaður með lögfræðigráðu frá Yale-háskóla. Kleinuhringjaskegg og leppur fyrir vinstra auganu gera það að verkum að hann er auðþekkjanlegur og varð hann fljótlega með þekktari leiðtogum vopnaðra sveita borgara (e. militias) í Bandaríkjunum.
Með aukinni skautun eða pólariseringu í bandarískum stjórnmálum hefur uppgangur vopnaðra sveita borgara ágerst og er the Oath Keepers gott dæmi um slíka sveit. Vígasveitir þessar hafa margar orðið uppvísar að því að hóta, hvetja til og beita ofbeldi í mótmælaaðgerðum sem breytast þá enn frekar í ofbeldisfullar óeirðir.
Vígaveitum sem þessum hefur fjölgað í forsetatíð Donalds Trump og enn frekar eftir að hann lét af embætti í ársbyrjun í fyrra. 92 vopnaðar sveitir borgara voru starfandi í Bandaríkjunum á síðasta ári í 30 ríkjum samkvæmt úttekt frjálsu félagasamtakanna Southern Poverty Law Center.
Vígasveitin the Oath Keepers eru öfgahægri-samtök þar sem herþjálfun er grunnþáttur. Starfsemi slíkra vopnaðra sveita er formlega ólögleg í öllum ríkjum Bandaríkjanna en þær hafa fengið að starfa að mestu óáreittar. Rhodes stofnaði samtökin eftir að Barack Obama var kjörinn forseti árið 2008. Rhodes sagði skoðanir Obama stangast á við bandarísku stjórnarskrána og vildi grípa til sinna ráða.
Fyrrverandi fallhlífarhermaður sem skaut sjálfan sig í augað
Mikill fjöldi vígamanna í sveitum sem þessum eru fyrrum eða núverandi her- og lögreglumenn. Rhodes er einmitt fyrrverandi hermaður. Fallhlífarhermaður.
Rhodes hætti í hernum eftir að hann bakbrotnaði við æfingar og hóf nám í stjórnmálafræði og starfaði sem aðstoðarmaður Ron Paul, þingmanns Repúblikana, árið 2001. Hann útskrifaðist sem lögfræðingur frá Yale-háskóla árið 2004 og starfaði sem lögmaður til ársins 2015 þegar hann var sviptur lögmannsréttindum fyrir að brjóta gegn siðareglum Hæstaréttar í Montana. Frá 2015 hefur hann því alfarið einbeitt sér að the Oath Keepers.
Rhodes hefur verið áhugamaður um byssur frá unga aldri. Árið 1993 varð hann fyrir því óhappi að skjóta sjálfan sig í augað með 22 kalibera skammbyssu sem hann átti. Rhodes er með gerviauga en kýs oftast að nota lepp sem hefur orðið að eins konar einkennistákni og er hann orðinn þekktur sem „maðurinn með leppinn“.
„Viljið þið koma heim með steik?“
Dakota flúði ásamt móður sinni, Tasha Adams, og fimm yngri systkinum hans frá heimili fjölskyldunnar í smábænum Kalispell í Montana.
Aðdragandi flóttans var langur en þegar þau létu til skarar skríða gekk allt upp. Systkini Dakota földu sig undir teppum í bílnum og Dakota og móðir hans sögðu við Rhodes að þau ætluðu að skjótast á ruslahaugana með gamalt drasl sem stóð til að henda fyrir löngu.
Rhodes kallaði á eftir þeim þegar þau voru í þann mund að leggja af stað og mæðginin voru sannfærð um að hann vissi hvað stóð til og óttuðust hið versta. „Viljið þið koma heim með steik?“
Það var allt og sumt. Þau keyrðu í burtu og komu aldrei heim aftur.
Heimsendirinn sem var yfirvofandi
Fjölskyldan flutti til Kalispell skömmu eftir stofnun the Oath Keepers árið 2009. Fljótlega varð til smátt samfélag liðsmanna vígasveitarinnar sem áttu það sameiginlegt að vilja helst vera látnir í friði og fá að undirbúa yfirvofandi árás frá bandarískum stjórnvöldum, hvort sem það yrði í formi heimsendis eða annars konar hamfara eða árásar.
Dakota ólst upp við að heimsendir væri yfirvofandi og á margar myrkar minningar um föður sinn. Eitt sinn þegar Dakota vakti föður sinn af blundi um miðjan dag spratt hann á fætur og ógnaði Dakota með hníf. Hann var fjögurra ára. „Hann grínaðist með að þetta væru hans karlmannlegu, dýrslegu, hellisbúa viðbrögð sem heilinn virkjaði áður en hann vaknaði,“ segir Dakota. „Ég hef aldrei heyrt talað um slík viðbrögð annars staðar.“
Dakota lýsir því hvernig hann eyddi heilu sumri í að grafa göng í garði fjölskyldunnar sem hugsuð voru sem flóttaleið þegar stjórnvöld myndu ráðast inn á landsvæði þeirra. Því það er það sem átti eftir að gerast.
Tasha og Rhodes höfðu verið gift í nærri 25 ár. Þegar þau kynntust var hann ekki sérstaklega pólitískur en var samt sem áður alltaf að leiða hugann að því hvernig hann myndi flýja ímyndaða óvini. Tasha nefnir sem dæmi að þegar Rhodes þurfti að athuga olíuna á bíl þeirra bað hann hana um að standa vörð og tryggja að enginn gæti „skellt húddinu á höfuð hans“.
„Yfirlýsing um fyrirmæli sem við munum ekki hlýða“
Eftir stofnun the Oath Keepers sat Rhodes við kvöld og nætur og skrifaði.
Eitt kvöldið ákvað hann að birta nokkurs konar lífsreglur, eða stefnuyfirlýsingu, vígasveitarinnar, sem felst á einn eða annan hátt í því hvað liðsmenn sveitarinnar ætla ekki að gera til að framfylgja vilja stjórnvalda.
„Tíu fyrirmæli sem við munum ekki gegna“ var yfirskrift bloggfærslu sem hann birti sem komst á flug og varla var að finna fréttastöð þar sem Rhodes var ekki til viðtals dagana á eftir.
Tasha segir Rhodes ítrekað hafa beitt ofbeldi og misst stjórn á skapi sínu. Hann baðst alltaf afsökunar og sagði hegðun sína orsakast af því að hann væri ekki búinn að finna tilgang sinn í lífinu. „Hluti af mér trúði því að þetta myndi hjálpa til við að laga það sem væri að hjá honum,“ segir Tasha.
Með „þetta“ á hún við andvökunætur Stewarts þar sem hann hamraði lífsreglur the Oath Keepers á lyklaborðið. Lífsreglur um allt það sem stjórnvöld vilja að almennir borgarar geri og liðsmenn the Oath Keepers ætluðu alls ekki að fara eftir.
Leiðtoginn sem ætlaði að bjarga Bandaríkjunum
Í fyrstu virtst Rhodes hafa fundið köllun sína. Fjölskyldan var öll hluti af the Oath Keepers. Dakota segir að þegar hann lítur til baka var fjölskyldan ekkert annað en „aukahlutur við vörumerkið Stewart Rhodes“.
Faðir hans hafði „gert fjölskylduna að miðpunkti persónunnar sem hann vildi sjálfur verða“. „Og í þessum raunveruleika er hann mesti bjargvætturinn í sögu Bandaríkjanna,“ segir Dakota.
Herklæðnaður var eitt af einkennismerkjum liðsmanna the Oath Keepers og Dakota leið alltaf jafn fáránlega þegar faðir hans skipaði honum að fara í herklæðnað frá toppi til táar. „Ég hef ekki hugmynd um hvort að mér finnst gaman að skjóta úr byssu eða hvort mér finnst gaman að vera „byssunörd“ af því að öll nýleg reynsla af byssum og notkun þeirra tengist Stewart eða Oath Keepers og það hefur verið mjög óþægileg reynsla,“ segir Dakota, sem ávarpar föður sinn með nafni en kallar hann ekki lengur pabba.
Fór að trúa að heimsendir væri ekki í nánd
Eftir að hafa þvælst um Bandaríkin með the Oath Keepers, þar sem Rhodes lofaði fjölskyldunni vellystingum, fór Dakota að sjá föður sinn í réttu ljósi.
Liðsmenn the Oath Keepers greiða árgjald. Í fyrstu var það 30 dollarar en hækkaði síðar í 50 dollara, eða sem nemur rúmum sjö þúsund krónum. Liðsmenn the Oath Keepers voru 38 þúsund í fyrra. Rhodes hefur ekki skilað skattaskýrslu frá stofnun samtakanna og óljóst er því í hvað fjármunirnir hafa farið. Tasha segir að eiginmaður hennar hafi farið illa með allt fjármagn sem hann komst yfir og varið því í það sem hanna kallaði „útbúnað til að lifa af“, skotfæri og ferðakostnað.
„Ég fór að sjá Stewart eins og hann er í raun og veru og ég trúði ekki lengur á endalokin. Ég trúði ekki að heimsendir væri yfirvofandi,“ segir Dakota.
Þegar það rann upp fyrir honum fór hann að sjá framtíðina í nýju ljósi. „Ég áttaði mig á að það eru hlutir í minni framtíð sem ég gat enn bjargað. En til þess þurfti ég að bjarga fjölskyldu minni frá Stewart.“
En hvernig?
Dakota átti enga peninga, hafði ekki fengið neina menntun, að undanskilinni heimakennslu frá föður sínum um frelsisstríð Bandaríkjanna, og félagslegt net hans var lítið sem ekkert. Hann byrjaði á því að taka bílpróf og lauk prófi sem samsvarar stúdentsprófi (e. GED).
Sjálfboðaliðastarf í slökkviliði leiðin út
Eftir að hann fékk bílpróf keyrði hann föður sinn af og til á fundi vígasamtakanna. Í einni slíkri ferð stoppaði hann á bensínstöð þar sem afgreiðslumaðurinn kynnti hann fyrir slökkvistarfi bæjarins og að þar væri hægt að gerast sjálfboðaliði. Mikil þörf væri á slíkum til að kljást við skógarelda.
Dakota sló til og kynntist þar nýju lífi og gildum. Í slökkviliðinu var ekki talað um aldagamla bardaga, mikilvægi þess að birgja sig upp af mat og skotfærum fyrir yfirvofandi heimsendi og að búa sig undir að takast á við stjórnvöld. Tilgangurinn var að fara út í samfélagið og hjálpa fólki.
Með því að ganga til liðs við slökkviliðið kynntist Dakota nýju fólki, ferðaðist um Bandaríkin og fékk greitt fyrir að berjast við skógarelda. Faðir hans gaf honum leyfi til að sinna starfinu þar sem það passaði vel við þau karlmannlegu gildi sem hann vildi að elsti sonur hans tileinkaði sér.
„Allt landið er öruggara með hann í fangelsi“
Allt var til reiðu í febrúar 2018 og flóttinn gekk eftir. Rhodes hefur einbeitt sér að the Oath Keepers. Án fjölskyldunnar.
Lífið eftir flóttann hefur reynst fjölskyldunni erfitt á ýmsa vegu þó léttirinn sé mikill.
„Þegar eitthvað slæmt kemur fyrir Stewart kemur eitthvað slæmt fyrir mig,“ segir Tasha. Hún sótti um skilnað kvöldið áður en þau flúðu en skilnaðurinn hefur enn ekki gengið í gegn og hefur hún áhyggjur af því að dómsmál Rhodes muni hafa bein áhrif á hana, til að mynda þegar kemur að greiðslu skaða- eða miskabóta.
„En ég vil að hann fari í fangelsi því það er eina leiðin til að tryggja öryggi okkar,“ segir Tasha. Ekki liggur fyrir hvenær dómur verður kveðinn upp yfir Rhodes, en hann á yfir höfði sér 20 ára fangelsidóm.
„Ég er öruggari. Börnin eru öruggari. Og allt landið er öruggara með hann í fangelsi,“ segir Tasha. Fjölskyldan býr enn í Montana og verkefnið þeirra nú snýst um að aðlagast lífinu utan vígasveitarinnar.
Dakota er 25 ára ára í dag og býr í lítilli íbúð við sveitaveg skammt fyrir utan smábæinn Kalispell í Montana, ekki langt frá heimili fjölskyldunnar sem hann flúði. Hann sinnir sjálfboðaliðastörfum í slökkviliði bæjarins sem honum líkar vel ásamt því að stunda háskólanám.
Vissu strax að þetta væri hann fyrir utan þinghúsið
Tasha býr sig undir að draugur Rhodes, þó hann sé enn sprellifandi, og the Oath Keepers muni ásækja hana og fjölskylduna alla tíð.
Það var einmitt tilfellið 6. janúar í fyrra þegar hópur fólks réðst á bandaríska þinghúsið. Tasha og Dakota fylgdust með í sjónvarpinu og á samfélagsmiðlum og þurftu ekki að sjá andlit Rhodes til að vera fullviss um að hann væri þarna.
Þau þekktu liðsmenn the Oath Keepers strax. Þeir röðuðu sér upp í einfalda röð og lögðu hendur á axlir mannsins fyrir framan sig og marseruðu þannig inn í þinghúsið.
Dakota og systkini hans hafa nokkrum sinn hitt föður sinn eftir flóttann. En eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út hafa þau ekki hitt hann en hann sendir Dakota SMS-skilaboð endrum og eins. Hann hefur ekki svarað neinu þeirra.
Tæp fimm ár eru liðin frá því að Dakota sagði skilið við föður sinn en reiði í hans garð er enn áþreifanleg. En það er léttirinn líka.
„Ég get andað rólegar.“
Þessu tengt: Bandaríkin
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
5. desember 2022Sonur mannsins með leppinn: „Svona flúði ég vígasamtök föður míns“
-
30. nóvember 2022„Maðurinn með leppinn“ sakfelldur fyrir árásina á bandaríska þinghúsið
-
21. nóvember 2022„Harmleikurinn í þessu er að frú Holmes er bráðgáfuð“