„Þetta mun nánast eyðileggja jörðina“
Landeigendur og ábúendur á fjórða tug bæja á því svæði sem Landsnet vill leggja Blöndulínu 3 eru ósáttir og hafna því margir alfarið að línan fari um þeirra land. Þeir gagnrýna að hana eigi að leggja í lofti um ósnortið eða lítt snortið land, í allt of mikilli nálægð við fjölda bæja og um hlíðar Mælifellshnjúks – eins helsta kennileitis svæðisins.
Hún er engin smásmíði, umhverfismatsskýrsla Landsnets um áformaða lagningu Blöndulínu 3 frá Blöndustöð til Akureyrar. Með viðaukum telur hún tæpar 1.800 blaðsíður, síður sem einstaklingar, stofnanir og félagasamtök höfðu einn mánuð og þrjár vikur til að lesa, greina og skrifa umsögn við. Sumir eru á launum við það, það á við um lögbundna umsagnaraðila s.s. stofnanir, en aðrir hafa þurft að eyða frítíma sínum til verksins og það yfir páska og upphaf sauðburðar.
Umsagnirnar sem skilað hefur verið til Skipulagsstofnunar telja svo nú þegar 347 blaðsíður og enn á eftir að bætast við. Auk stofnana og félagasamtaka lögðust þrátt fyrir allt tugir landeigenda og ábúenda á áhrifasvæði raflínunnar, sem samkvæmt aðalvalkosti Landsnets myndi liggja um 102 kílómetra leið í lofti, yfir skýrsluna ítarlegu og skiluðu umsögnum.
Þeir benda sumir hverjir á að vart sé á almenning leggjandi að rýna í allar þessar upplýsingar, sem oft eru flóknar, á svo stuttum tíma. „Hér er fólki drekkt í orðum á hundruðum blaðsíðna og tilgangurinn virðist augljós,“ segja til dæmis ábúendur á jörð einni í Hörgárdal í umsögn sinni.
En þeir og fleiri létu sig engu að síður hafa það. Og ástæðan er augljós: Hvar og hvernig Blöndulína 3 liggur, háspennulínan sem deilt hefur verið um í tvo áratugi, er þeim hjartans mál. Hvar hinum 342 stálmöstrum, allt að 32 metrum á hæð, verður komið fyrir. Hvar línuvegirnir löngu munu liggja. Efnisnámurnar verða staðsettar. Tengivirkin.
Það vilja nefnilega fæstir hafa Blöndulínu 3 fyrir augunum alla daga. Hana vilja flestir fá sem mest niðurgrafna svo hún spilli ekki útsýni og ásýnd. Fólk óttast áhrif á lífsviðurværi sitt, framtíðaráform og jafnvel heilsu.
Áður en lengra er haldið – örstutt upprifjun um Blöndulínu 3:
Blöndulína 3 á að flytja rafmagn milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Þessi tenging er þegar fyrir hendi í gegnum Blöndulínu 2 (Blöndustöð-Varmahlíð) og Rangárvallalínu 1 (Varmahlíð-Akureyri) en sú síðarnefnda var reist áður en Blönduvirkjun tók til starfa og svarar ekki kröfum um flutningsgetu dagsins í dag og til framtíðar. Landsnet hefur hafið uppfærslu á meginflutningskerfi raforku til að styrkja tengingar milli vinnslusvæða norðanlands og sunnan og Blöndulína 3 yrði hluti af þessari „nýju kynslóð“ byggðalínunnar eins og það er orðað í áætlunum Landsnets. Markmiðið er að geta afhent rafmagn þar sem þörfin er mest hverju sinni óháð því hvar það er unnið.
Blöndulína 3 er meira mannvirki á flestan máta en hin hálfrar aldar gamla Rangárvallalína. Hún mun m.a. einkennast af háum og miklum stálmöstrum og nýjum línuvegum. Hún myndi þar að auki ekki fara alfarið sömu leið og Rangárvallalínan heldur um nýjar slóðir að stórum hluta og sem fyrr segir í lofti sem er alls ekki það sem margir hagsmunaaðilar, t.d. landeigendur og sveitarfélög, áttu von á.
Þannig að gagnrýnin nú, í annað sinn sem framkvæmdin er tekin til umhverfismats, snýr fyrst og fremst að sömu þáttum og áður: Línuleiðinni og jarðstrengjum. Eða skorti á þeim réttara sagt.
Færri jarðir en engin sátt
Þessi hnífur sem staðið hefur í kúnni í blómlegustu landbúnaðarhéruðum landsins í árafjöld, virðist því lítið hafa haggast. Og ef Landsnet hélt að sátt myndi nást með því að fara með línuna stystu leið frá Blöndustöð til Skagafjarðar, um Kiðaskarð í stað Vatnsskarðs og Héraðsvötn, skjátlaðist því. Landareignirnar eru vissulega færri á Kiðaskarðsleiðinni en andstaðan er hins vegar ekkert minni ef marka má bróðurhluta þeirra athugasemda sem landeigendur og ábúendur á fjórða tug jarða gera við umhverfismatsskýrsluna og Kjarninn hefur fengið afhentar.
Sjötíu jarðir og um 300 landeigendur
Aðalvalkostur Landsnets er þessi: Loftlína frá Blöndustöð um Kiðaskarð og niður í Mælifellsdal í Skagafirði. Þaðan austur yfir Eggjar og Héraðsvötn rétt sunnan við ármót Norðurár og inn í mynni Norðurárdals sunnan Norðurár. Þaðan að mestu samhliða núverandi Rangárvallalínu 1 sem tekin verður niður, um Norðurárdal, Öxnadalsheiði, Öxnadal, Moldhaugnaháls, Kræklingahlíð og í tengivirki að Rangárvöllum á Akureyri.
Yrði þessi leið fyrir valinu myndi hún liggja um tæplega 70 jarðir, langflestar í einkaeigu. Eigendur þeirra eru um 300 talsins.
„Við landeigendur að Laugamel höfnum alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um lönd okkar.“
„Við landeigendur í Litladal höfnum alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um lönd okkar.“
Við landeigendur á Starrastöðum höfnum alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um lönd okkar.“
„Við landeigendur á Brúnastöðum 3 höfnum alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um land okkar.“
Við landeigendur á Litla-Horni höfnum alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um lönd okkar.“
„Undirrituð landeigandi á Hvíteyrum hafnar alfarið áformum Landsnets um lagningu loftlínu um land mitt. Byggingu tengivirkis á landareign minni á Hvíteyrum eða í óskiptu landi Hvíteyra og Mælifells á Mælifellsdal, í lítt snortnu náttúrulegu umhverfi utan alfaraleiðar, er alfarið hafnað.“
Þetta eru aðeins nokkur dæmi úr umsögnum landeigenda á áformaðri línuleið um Skagafjörð. Í þeim eru t.d. gerðar athugasemdir við að loftlína sé áformuð í mikilli nálægð við tíu bæi. Eigendur og ábúendur segjast ítrekað hafa komið þeirri afstöðu sinni á framfæri að loftlína verði ekki lögð í þeirra landi og um svæðið, ekki síst um hlíðar Mælifellshnjúks og yfir Eggjar, sem sé „með öllu ólíðandi vegna mikilla umhverfisáhrifa á ásýnd og landslag“.
Margar umsagnanna er lúta að jörðum í Skagafirði eru sambærilegar, prýddar myndum, kortum og annarri grafík, til áhersluauka. Af útsýni frá bæjum. Af og að Mælifellshnjúknum sem er eitt þekktasta kennileiti Skagafjarðar og fjölmörg fyrirtæki í héraðinu byggja markaðssetningu sína á. Myndi röskun á honum og nánasta umhverfi hans spilla fyrir þeirra ímynd, segir í umsögnunum. „Loftlína og tengivirki verður smánarblettur í hlíðum Mælifellshnjúks og áhrif á landslag og ásýnd þar eru verulega vanmetin.“
Jörðin Mælifell í Skagafirði er fornt höfuðból og prestssetur og þar hefur kirkja staðið nánast frá upphafi kristni í landinu. „Komi línan á fyrirhuguðum stað, mun hún valda mikilli sjónmengun og skera í augu þá horft er til fjallsins,“ skrifar séra Ólafur Hallgrímsson, ábúandi á Mælifelli.
Þjóðkirkjan (Biskupsstofa) á Mælifell og tekur undir með Ólafi presti í sinni umsögn. Hún er ekki alls kostar sammála Landsneti um að áhrif þess að leggja línuna „þvert yfir land Mælifells og þannig þvert á sjálfan Mælifellshnjúk“ séu aðeins nokkuð neikvæð. Mælifellshnjúkur sé „einkennisfjall“ svæðisins, gnæfi yfir öll nærliggjandi fjöll og vinsæll áfangastaður göngufólks. „Áhrif línu þvert undir fjallinu á ásýnd þess hljóta að teljast verulega neikvæð enda varla hægt að ímynda sér verri áhrif á ásýnd þess.“
Margir benda svo á að Kiðaskarðsleið fari um svæði sem sé að „stórum hluta ósnortið eða lítt snortið“ og fari auk þess „mjög nálægt mörgum býlum sem hyggja á frekari uppbyggingu á jörðum sínum“.
Blöndulína 3 mun samkvæmt aðalvalkosti Landsnets liggja um fimm sveitarfélög. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar segist í sinni umsögn hafa lagst í kostnaðarsama og umfangsmikla rýni til að ná sáttum um línuleiðina. Og að í aðalskipulagi, sem samþykkt var nýverið, hafi Héraðsvatnaleiðin svokölluð orðið ofan á með jarðstrengskafla í takti við fyrirliggjandi upplýsingar Landsnets um möguleika til slíks.
Hví Kiðaskarð?
Margir landeigendur í Skagafirði gera í umsögnum sínum „alvarlegar athugasemdir“ við að Landsnet fari gegn þessu nýsamþykkta skipulagi. Héraðsvatnaleiðin sé innan svokallaðs mannvirkjabeltis og þar sé þegar að finna Blöndulínu 2, Rangárvallalínu 1 og Þjóðveg 1.
Þeir velta fyrir sér af hverju Kiðaskarðsleiðin hafi orðið fyrir valinu en sjálft segir Landsnet að hún hafi ítrekað komið fram í umræðu um Blöndulínu 3 síðustu ár. Þar sem umhverfisáhrif beggja leiðanna séu áþekk þá „hvarflar það að þeim sem lesa rökstuðninginn að aðrar ástæður séu fyrir því að valkosturinn Kiðaskarð er valinn,“ segir m.a. í umsögnum hóps landeigenda. Fyrir liggi að fjöldi bújarða á Héraðsvatnaleið sé meiri og á Kiðaskarðsleið séu því færri beinir hagsmunaaðilar. „Óskað er eftir upplýsingum um hvort fjöldi bújarða á mögulegum línuleiðum hafi áhrif á ákvörðun um valinn kost.“
Margir landeigendur hafa hafið eða stefna á uppbyggingu á jörðum sínum sem þeir segja að muni spillast ef Blöndulína 3 fari um lönd þeirra. Eigendur Brúnastaða 3 segja t.d. að áformin setji fyrirhugaða byggingu íbúðarhúss „í algjört uppnám“, byggingu sem þeir hafa undirbúið „í góðri trú“ um að aðalskipulag sveitarfélagsins stæðist. „Lagning línunnar i gegnum land okkar hefði gríðarleg áhrif á nánasta umhverfi hússins.“
Eigendur Starrastaða og Starrastaða 2 segja í sinni umsögn að línan myndi liggja eftir landi þeirra endilöngu og því „gjörbreyta allri ásýnd og notum okkar á landinu“. Línan yrði „mjög nálægt okkur úr öllum áttum“ og „þetta mun nánast eyðileggja jörðina og takmarka verulega framtíðaruppbyggingu.“
Eigendur Hvammkots mótmæla línuleiðinni, sem myndi hafa mikil áhrif á útsýni frá bænum, harðlega. Þeir benda á að ferðamenn í „hundraða tali“ upplifi árlega hið „stórkostlega, óspillta útsýni á Mælifellshnjúk“ sem sé forsenda frekari uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu. Nágrannarnir á Lýtingsstöðum taka í sama streng og segja ferðamenn koma langt að til að „upplifa útreiðartúra á íslenska hestinum í óspilltri skagfirskri náttúru. Möstur sem Landsnet áætlar að reisa verða mjög vel sýnileg frá aðal reiðleiðum og spilla verulega upplifuninni sem ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum vill bjóða upp á“.
Ekki lengur „frábært útsýni til allra átta“
Landeigandi Háubrekku er á sömu nótum í sinni umsögn og bendir á að bærinn hafi verið markaðssettur sérstaklega sem „slow travel“-gististaður þar sem fólk geti dvalið í næði í nálægð við ósnortna náttúru og gönguleiðir fjarri manngerðu umhverfi. „Áformuð loftlína myndi blasa við af hlaði bæjarins og í það mikilli nálægð að hljóðmengunar gæti orðið vart. Því væri úti um að hægt væri að marka staðnum sérstöðu í harðri samkeppni í ferðaþjónustunni út frá slagorðinu „frábært útsýni til allra átta“.“
Landeigendur Lækjargerðis benda á að línan eigi að liggja um 500 metra frá íbúðarhúsinu og koma þvert yfir þeirra aðal útivistarsvæði. „Við munum þurfa að búa við hvininn frá línum í hvert skipti þegar við fáum suðvestan rok,“ benda þeir á. „Þegar við ákváðum að byggja árið 2012 þá var okkar framtíðarsýn að vera mögulega með ferðaþjónustu í einhverri mynd og fallega skógrækt í svæðinu þar sem fyrirhuguð lína á að koma þvert yfir. Nú finnst okkur verið að setja okkar framtíðarsýn í uppnám og ef við hefðum vitað fyrir að risastór rafmagnsmöstur og lína væri fyrirhuguð þarna þá hefðum við aldrei byggt okkur heimili á þessum stað.“
Ekki allir á móti Kiðaskarðsleið
Landeigendur Vindheima I og II aðhyllast Kiðaskarðsleiðina ólíkt flestum sem gefa umsögn við umhverfismatsskýrsluna. Þeir eiga það sameiginlegt með öðrum sem styðja leiðarval Landsnets að línan mun ekki, verði aðalvalkosturinn ofan á, liggja í lofti um eða í nágrenni þeirra landa líkt og aðrir kostir gera ráð fyrir.
Eigendur Vindheima benda hins vegar á að jarðstrengslögn um Skagafjörð hafi átt að sætta sjónarmið og því valdi afstaða og skýringar Landsnets um að setja línuna alfarið í loft vonbrigðum og ætti að endurskoða.
Lögmaður skrifar umsögn fyrir hönd eiganda Héraðsdals I, Stapa, Laugarsels og nokkurra landspildna úr Héraðsdal II í Skagafirði, bæja sem einnig eru utan þeirra leiðar sem Landsnet kýs nú helst. „Umbjóðandi minn telur að Landsnet hafi nú loks komist að ásættanlegri niðurstöðu um aðalvalkost fyrir línulögnina.“
Færri möstur í Skagafirði
Á fyrri stigum hafi landeigandinn ítrekað bent á að línulögn „um lönd hans í Dalsplássinu hafi verið óhagkvæmust af öllum valkostum“. Hann gagnrýnir helst að Landsnet kveði ekki nægilega fast að orði hvað varðar val á Kiðaskarðsleið og að koma þurfi fram „með áberandi hætti“ að með þeirri leið sé horfið frá því að leggja línuna um „sögufræg héruð Skagafjarðar og þar með valda ferðaþjónustunni skaða auk þess sem skógrækt í héraðinu mun ekki bera skaða af“.
Landeigendur Daufár lýsa ánægju sinni með að Vatnskarðssleið og Héraðsvatnaleið „hafi EKKI verið valin sem aðalvalkostur“ enda sé hún lengri og færi í gegnum fleiri landeignir. „Frá sýslumörkum Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu að Héraðsvötnum á móts við Flatartungu kæmu 82 möstur í gegnum 39 landareignir ef Héraðsfjarðarleið yrði farin,“ benda þeir á. „88 möstur í gegnum 37 jarðir ef B4 leið yrði farin,“ en það er sá valkostur sem færi um Daufá. „En ef Kiðaskarðsleið er farin þá koma 54 möstur í gegnum 10 landeignir og jarðstrengur í gegnum 20 jarðir.“
Vilja hliðra línu um Öxnadal
En það eru ekki aðeins landeigendur í Skagafirði sem eru á áhrifasvæði Blöndulínu 3 og hafa á henni skoðanir. Þá er einnig að finna í Öxnadal og Hörgárdal. Þar snýst gagnrýnin m.a. um að þrátt fyrir að línan eigi að fara um svipaðar slóðir og Rangárvallalína 1 er hún víða færð til með þeim hætti að eigendur telja hana jafnvel gera land sitt „ónothæft“ og krefjast þess að henni verði „hliðrað“.
Eigendur Garðshorns í Hörgárdal gera til dæmis athugasemd við að línan eigi að liggja í um 200 metra fjarlægð frá bænum og að þaðan myndu sjást 19-24 möstur hennar. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á ásýnd landslag jarðarinnar, „þar sem fyrir er fögur fjallasýn, grösugt valllendi og grónar hlíðar, beit fyrir skepnur, skógrækt, reið- og gönguleiðir“.
Ítarlegasta umsögnin kemur frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hóla í Öxnadal. Þeir gagnrýna skýrsluna í heild, benda t.d. á að enga greiningu sé þar að finna á óbyggðum víðernum sem eigi sér þó vernd í lögum. Þá sé mikið vanmat á votlendi í skýrslunni og nefna þeir sem dæmi sína eigin jörð sem línan eigi að leggja endilangt um.
Þá gagnrýna þeir einnig þá aðferðafræði sem beitt er við mat á samfélagsáhrifum. „Það sem höfundur gerði var að velja hóp viðmælenda sem höfundur segir byggt á dómgreind rannsakanda,“ segir í umsögninni. Það sé hins vegar „augljóslega ekki í lagi“ með val á viðmælendum meðal annars vegna þess að mjög halli á konur, þær séu aðeins fimm af þeim 32 einstaklingum sem rætt var við.
Jafnmargar vikur en mun fleiri blaðsíður
Eigendur Hóla benda ennfremur á að fyrri umhverfismatsskýrsla frá 2012 hafi verið 148 síður. Sú sem nú hafi verið lögð fram sé yfir 500 síður fyrir utan átján viðauka sem henni fylgja. „Vikurnar eru þó jafnlangar og áður og enn sem fyrr eru páskar og sauðburður í vikunum sem úthlutað er til athugasemda, líkt og fyrir áratug.“
Mikil og ólaunið vinna einstaklinga liggi að baki umsögninni og til þess hafi ekki allir tíma eða aðstæður „og hallar þá sífellt meira á almenning gagnvart framkvæmdaaðila sem nýtur ótakmarkaðs fjár og aðgangs að sérfræðingum í skjóli einokunar á raforkuflutningi“.
Samráð við landeigendur hafi ekki verið með þeim hætti sem Landsnet vilji meina í sinni skýrslu og í samfélagsumræðu. „Þau vita vel af andstöðu heimamanna við loftlínu en hafa ákveðið að neyta aflsmunar til að koma 329 möstrum og hundrað kílómetrum af vegslóðum í gegnum hvað sem fyrir verður.“
Og er Blöndulína 3 nauðsynleg? Landsnet telur svo en það draga sumir umsagnaraðilar í efa. Meðal þeirra er rafiðnaðarmaður og fyrrverandi starfsmaður Landsvirkjunar og Landsnets, sem segist hafa unnið að uppbyggingu raforkukerfisins, viðhaldi og eftirliti þess. Hann segir skynsamlegt, ódýrast, minnst kolefnisspor og „margfalt minni skemmd á landinu okkar dýrmæta sem við Íslendingar eigum í raun allir sameiginlega og er okkar gimsteinn“ að endurnýja báðar byggðalínurnar, Rangárvallalínu 1 og Blöndulínu 2, „en sleppa því að byggja Blöndulínu 3“.
Ólafur Hallgrímsson prestur og ábúandi á Mælifelli minnir á orðatiltækið að einhvers staðar þurfi vondir að vera. „Einhvers staðar þarf Blöndulína 3 að koma,“ skrifar hann, en þó aðeins að hún sé jafn aðkallandi og af sé látið, sem hann hefur raunar verulegar efasemdir um. „Það hlýtur að vera kappsmál að finna línunni þann farveg, þar sem hún veldur minnstum spjöllum.“ Kiðaskarðsleið með „tilheyrandi spjöllum á mörgum jörðum er ekki leiðin til að ná sem víðtækastri sátt í þessu máli. Svo mikið er víst.“
Hann muni ekki samþykkja lagningu Blöndulínu 3 um Mælifellsland. „Það verður þá að gerast með valdboði sem kann að hafa afleiðingar í för með sér, en vart verður því trúað að það sé leiðin sem Landsnet vill að farin verði.“