Ungi maðurinn og forna fjallið
Grænlendingar eiga að finna sína eigin styrkleika. Ekki láta stór alþjóðleg fyrirtæki stjórna ferðinni. Þessi skilaboð Múte Inequnaaluk Bourup Egede hafa heyrst hátt og skýrt um heimsbyggðina eftir úrslit þingkosninganna í síðustu viku.
Upptökin er að finna í fjöllunum. Pólitíska skriðan fór um Narsaq, litlu byggðina á Suður-Grænlandi. Fyrst felldi hún einn bæjarstjóra. Svo annan. Og eftir því sem atburðarásinni vatt fram varð ljóst að valdaskipti voru í uppsiglingu um allt landið.
Á þessum orðum hefst ítarleg fréttaskýring blaðamannsins Simon Kruse í danska dagblaðinu Berlinske um það sem á undan er gengið í hinu pólitíska landslagi á Grænlandi. Í landi þar sem búa um 56 þúsund manns sem ætla augljóslega ekki að láta stórfyrirtæki utan úr heimi koma sér eða fjalli sínu úr jafnvægi.
Orð Kruse lýsa stöðunni vel. Hvernig áformuð námuvinnsla fyrirtækis sem heitir Greenland Minerals varð að stærsta kosningamáli í hinu víðfeðma landi, stærstu eyju heims, og hvernig andstaðan við þau áform varð til þess að næsti formaður landsstjórnarinnar, forsætisráðherra Grænlands, verður að öllum líkindum hinn 34 ára Múte Bourup Egede. Hann er formaður vinstri flokksins Inuit Ataqatigiit (IA), flokksins sem barist hefur gegn námuvinnslunni og sigraði í þingkosningunum í síðustu viku, hlaut 37 prósent atkvæða og tryggði sér þar með 12 af 31 sæti á þinginu í Nuuk, Inatsisartut. IA jók fylgi sitt um heil tíu prósent frá síðustu kosningum.
Siumut-flokkurinn, sem hefur haldið um stjórnartaumana í landinu nær samfleytt áratugum saman, studdi áformin og landsstjórnin, sem flokkurinn Demokraatit sat einnig í, samþykkti nýlega umhverfismatsskýrslu Greenland Minerals. Mikill meirihluti Grænlendinga er hins vegar andvígur vinnslunni og afstaða Siumut í málinu, sem þó hefur orðið óljósari síðustu mánuði, er því ein helsta ástæða þess að Egede fær stjórnarmyndunarumboðið. Hann er þegar farinn að hitta formenn annarra flokka á óformlegum kaffifundum. Það er verið að undirbúa jarðveginn fyrir stjórnarskipti.
Kosningarnar voru raunar um ári fyrr en til stóð. Innanflokksátök í Siumut skýra það að miklu leyti en þar var gerð hallarbylting síðasta haust er Erik Jensen bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Kim Kielsen, og hafði betur.
Kínverskir fjárfestar í meirihluta
Greenland Minerals var stofnað árið 2007 og hefur allar götur síðan haft námuvinnslu í landinu sem það kennir sig við á stefnuskrá sinni. En fyrirtækið er ekki grænlenskt þótt nafnið kunni að gefa það til kynna. Það er ekki einu sinni tengt herraþjóðinni Dönum. Það er ástralskt og höfuðstöðvar þess eru því að finna hinum megin á hnettinum. Árið 2016 varð hins vegar kínverskt fyrirtæki, Shenghe Resources Holding Co Ltd., stærsti hluthafinn.
Á heimasíðu Greenland Minerals segir að höfuðáhersla sé lögð á þróun verkefnis við vinnslu fágætra jarðefna úr Kvanefjeld og að það muni verða „hornsteinn“ að framboði slíkra efna til framtíðar – efna sem séu „miðjan í þeirri byltingu“ sem sé að eiga sér stað í orkunotkun.
Þetta byltingarkennda verkefni Greenland Minerals átti að verða að veruleika í bænum Narsaq. Sama bæ og Múte Egede ólst upp í. Hann kallaði fjallið með sjaldgæfu efnunum þó ekki Kvanefjeld (Hvannarfjall á íslensku) heldur sínu grænlenska nafni: Kuannersuit. Fjallið er sagt geyma eitt mesta magn mjög sjaldgæfra jarðefna í víðri veröld. Sannkölluð fjársjóðskista ef metið yrði til fjár. „Þetta er það stóra. Þetta er það risastóra,“ hefur Greg Barnes, forstjóri annars námufyrirtækis, Tanbreez, sagt um umfang hinnar fyrirhuguðu námuvinnslu. Þó að Barnes, sem er ástralskur jarðfræðingur, hafi eytt tíu árum og miklum fjármunum til rannsókna á svæði þar sem einnig er að finna mikið magn hinna sjaldgæfu jarðefna, segist hann vera tilbúinn að bíða enn lengur eftir leyfinu til að byrja að bora og grafa. Svo risastórt sé þetta.
Námuvinnsla sem þessi verður hins vegar ekki að veruleika ef Egede fær einhverju um það ráðið. Sú einarða afstaða hefur örugglega þegar fengið blóðið að ólga í æðum kínversku fjárfestanna en mögulega róað taugar einhverra í Hvíta húsinu sem hafa varað við auknum umsvifum Kínverja á norðurslóðum. Ekki þó af eintómri manngæsku heldur frekar vegna þeirrar stöðugu valdabaráttu sem verið hefur milli stórveldanna tveggja síðustu ár og áratugi. Og líklega ekki síst vegna þess að Bandaríkjamenn þykjast sjá tækifæri fyrir sjálfa sig opnast.
Hin sjaldgæfu frumefni sem fjallið geymir, og hefur raunar geymt í milljónir ára, er hægt að nýta í alls konar framleiðslu á borð við vindmyllur og sólarrafhlöður en einnig til vopnaframleiðslu. Í því er m.a. úran og þótt það sé aðeins sagt „aukaafurð“ vinnslunnar sem miðar að því að grafa eftir enn sjaldgæfari efnum er það efnið sem Grænlendingar óttast hvað mest og ekki að ástæðulausu. Úran er óstöðugt og geislavirkt. Það yrði notað til framleiðslu kjarnavopna. Grænlenska hagkerfið byggir í dag á fiskveiðum, ferðamennsku og landbúnaði. Friðsæld og ró. Þetta rímar því að margra mati ekki saman.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, fór fyrir nefnd um samstarf Íslands og Grænlands fyrir núverandi utanríkisráðherra Guðlaug Þór Þórðarson. Hann lýsti fjallinu með þessum hætti í morgunútvarpinu á Rás 1 nýverið: „Þetta er gríðarstór gígtappi, sem hefur storknað mjög hægt, lyfst upp úr jarðskorpunni, snúist þvert, skorinn í tvennt af skriðjökli. Þetta er fjall fullt af sjaldgæfum málmum og af því að þetta storknaði svo hægt þá settist þetta eftir eðlisþyngd. Öðru megin fjarðarins eru svokallaðir léttir sjaldgæfir málmar sem eru vinnanlegir, hinu megin eru þungu málmarnir þar sem úraníum er líka.“
Grænlendingar hafa verið undir stjórn Dana í aldir. Árið 1979 fengu þeir heimastjórn og í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2008 var mikill meirihluti Grænlendinga fylgjandi aukinni sjálfstjórn. Skref í þá átt var tekið um hálfu ári síðar er Grænlendingar lýstu yfir fullum sjálfsákvörðunarrétti í málum er tengjast réttarfari, stefnumótun og náttúruauðlindum. Danska ríkið heldur enn eftir stjórn utanríkis- og varnarmála.
Talið er að nær hvergi í heiminum finnist jafn margar tegundir sjaldgæfra jarðefna og í jafn miklu magni og á Grænlandi. Þetta hefur löngum orðum til þess að stórveldin hafa gjóað þangað augunum en síðustu ár hafa þau farið í störukeppni – þar sem leynt og ljóst er barist fyrir réttindum til vinnslu þessara auðlinda. Því hefur ítrekað verið haldið fram við fólkið sem byggir eyjuna stóru að fjöllin fögru séu lykill þeirra að framtíðinni. Að með því að heimila vinnslu jarðefnanna sé leiðin að auknum hagvexti greið. Að þá verði hægt að skapa hundruð starfa í bæ á borð við Narsaq.
Allir horfa til norðurs
Áhugi stórveldanna á Grænlandi hefur orðið til þess að beina sjónum alþjóðasamfélagsins og fréttaskýrenda til norðurs. Kína er með algjöra sérstöðu þegar kemur að því að vinna sjaldgæf jarðefni, fer með 80 prósent af allri slíkri vinnslu í heiminum. Kínverska fyrirtækið sem fer með meirihluta í Greenland Minerals er stórtækast allra slíkra fyrirtækja veraldar. Þetta finnst valdafólki í bæði Evrópu og Bandaríkjunum slæm þróun. Það vill ekki vera nær alfarið háð Kína með efni til að framleiða alla vega varning, allt frá símaskjám til vindmyllutúrbína og rafhlaðna í rafmagnsbíla. Áhyggjurnar snúast þó líklega helst um ákveðna notkun efnanna sem ekki er endilega flaggað opinberlega: Til vopnaframleiðslu. Til að framleiða eina bandaríska F-35 orrustuþotu þarf hvorki meira né minna af 427 kíló af hinum sjaldgæfu efnum. Í hvern kjarnorkukafbát þarf 4,2 tonn.
Viðskiptastríð milli Kína og Bandaríkjanna, sem harðnaði mikið í valdatíð Donalds Trump, er nú farið að snúast um þessi sjaldgæfu jarðefni. Kínverjar hafa gefið til kynna að þeir hyggist setja útflutningsbann á þau til Bandaríkjanna. Einn ráðgjafi kínversku ríkisstjórnarinnar spurði einfaldlega: Myndi það koma ykkur illa þegar kemur að framleiðslu F-35 orrustuþota?
Svarið við því er auðvitað já. Það þarf að finna nýjar leiðir til að afla þessara dýrmætu efna. Þess vegna eru bæði Bandaríkin og Evrópusambandið líkleg til að blikka angurblítt til Grænlendinga á næstunni.
Sá sem þau þurfa núna að blikka er Múte Inequnaaluk Bourup Egede. Ungi stjórnmálamaðurinn á Grænlandi sem hefur engu að síður margra ára reynslu á hinu pólitíska sviði. Hann varð formaður IA árið 2018, þá aðeins 31 árs. Yngsti formaður í fjörutíu ára sögu flokksins. Hann yrði einnig yngsti formaður landsstjórnar Grænlands frá upphafi. „Já, ég er ungur og í því tel ég meðal annars styrk minn felast,“ sagði hann er hann tók við valdataumunum í flokknum.
Það verður að teljast ólíklegt að stórveldum heimsins takist að heilla Egede með því að veifa framan í hann seðlabúntum. Hann ætlar að setja menntun og uppbyggingu innviða á oddinn. Hann vill fjölbreyttara atvinnulíf og segir þessa tvo þætti undirstoðir þeirrar framtíðarsýnar. Hann hefur sagt að Grænlendingar eigi að byggja sjálfir upp landið, að finna sjálfir sína styrkleika.
IA hlaut meirihluta atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum í bænum Naleraq, heimabæ Egede. Það þykir til marks um það að íbúarnir hafni námuvinnslu í fjallinu sem yfir bænum gnæfir.
Sigur Egede og flokks hans í þingkosningunum er áfall fyrir þá sem studdu námuvinnsluna í Kuannersuit. Í sigrinum felast einnig skilaboð til umheimsins: Grænlendingar láta ekki freistast af peningum alþjóðlegra stórfyrirtækja. Eða eins og Aqqaluk Lyngje, einn stofnandi Inuit Ataqatigiit-flokksins orðar það í samtali við Berlinske: „Svarið sem gefið hefur verið námufyrirækjunum er þetta: Þetta verður að gerast á okkar forsendum. Við viljum ekki eyðileggja vistkerfin á Suður-Grænlandi, þar sem við byggjum okkar lífsviðurværi á landbúnaði, sauðfjárrækt sem er hluti af okkar fæðukeðju.“