Margt skrýtið í danska kýrhausnum

Der er noget galt í Danmark heitir þekkt danskt lag. Þessi titill ætti kannski vel við mál dansks athafnamanns sem fékk milljónir í styrki en var á sama tíma dæmdur í háar fjársektir, og fangelsi.

Burger King-verslun á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn
Burger King-verslun á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn
Auglýsing

Líklega kannast fáir lesendur Kjarnans við Riaz Butt, 63 ára athafnamann, búsettan í Danmörku. Nafn hans hefur ekki heldur verið á hvers manns vörum í heimalandinu og stundum hefur hann verið kallaður huldumaðurinn í dönsku atvinnulífi.

Riaz Butt hefur verið eigandi fjölmargra veitingastaða í Kaupmannahöfn, Hróarskeldu og víðar í Danmörku. Sömuleiðis á hann að minnsta kosti eitt keiluhús ásamt hóteli. Þekktustu veitingastaðirnir undir stjórn Riaz Butt eru án vafa Burger King, en átta slíkir voru í hans eigu í Danmörku.

Fyrirkomulagið á rekstri Burger King í Danmörku, eins og víðast hvar, er með þeim hætti að tiltekinn einstaklingur, eða fyrirtæki hefur rekstrarleyfi sem móðurfyrirtækið, í þessu tilviki í Bandaríkjunum, hefur samið um. Útlit staðanna fylgir ákveðnum reglum, sem móðurfyrirtækið hefur ákveðið og sama gildir um matseðilinn. Leyfishafinn greiðir svo sérstakt gjald til móðurfyrirtækisins. Þetta fyrirkomulag er alþekkt. Sá sem ræður yfir rekstrarleyfinu getur svo samið við svonefnda undirverktaka um reksturinn á einum eða fleiri stöðum.

Umfangsmikil rannsókn

Snemma árs 2016 hafði lögreglan fengið veður af því að sitthvað í rekstri fyrirtækja Riaz Butt samræmdist ekki lögum og reglum. 1. mars gerði lögreglan mikla „rassíu“ í fyrirtækjum Riaz Butt, hald var lagt á tölvur, farsíma og skjöl. Í kjölfarið hófst svo umfangsmikil rannsókn á rekstrinum. Rannsóknin spannaði þriggja ára tímabil, frá 2013 til 2016. Lögreglan komst fljótt að því að grunurinn um óhreint mjöl í pokahorni athafnamannsins átti við rök að styðjast.

Auglýsing

Niðurstaða rannsóknarinnar var í stuttu máli sú að Riaz Butt og sex samstarfsmenn hans hefðu gerst brotlegir við lög. Svindlið fór meðal annars þannig fram að, á pappírum, var starfsfólk veitingastaðanna, hótelsins og keiluhússins skráð hjá starfsmannaleigum (vikarbureauer) sem í reynd voru skúffufyrirtæki, skraldespandsselskaber. Eigandi þessara skúffufyrirtækja, sem voru fimm, var einn samstarfsmanna Riaz Butt, Ali Hashem að nafni. Þessi fyrirtæki stóðu ekki skil á sköttum og gjöldum, og fóru svo á hausinn, og áttu öll sameiginlegt að „engar eignir fundust í búinu“.

Auk þess fann lögreglan fjöldann allan af „heimatilbúnum“ reikningum, vegna vinnu iðnaðarmanna, en sú vinna hafði aldrei átt sér stað. Fleira af svipuðu tagi fannst í bókhaldinu, allt gert í þeim tilgangi að búa til frádrátt og lækka þannig virðisaukaskattsgreiðslur. Peningar, sem skúffufyrirtækin drógu af starfsfólkinu, vegna skatta, voru fluttir úr landi og sama gilti um launatengd gjöld.

Rétt er að geta þess að móðurfyrirtæki Burger King hefur sagt upp samingum við Riaz Butt.

Dómarnir

Það tók sérfræðinga lögreglunnar langan tíma að komast til botns í öllum þeim gögnum sem hún hafði lagt hald á. Niðurstaðan var sú að samtals hefðu skattsvik fyrirtækja Riaz Butt numið rúmum 29 milljónum danskra króna (600 milljónir íslenskar).

Dómur í máli Riaz Butt var kveðinn upp 3. júlí í fyrra við bæjarréttinn á Frederiksberg. Dómurinn hljóðar upp á tveggja og hálfs árs fangelsi og jafnframt skal Riaz Butt borga 9,8 milljónir (200 milljónir íslenskar) í sekt. Samstarfsmenn hans fengu sömuleiðis dóma, misþunga. Einn þeirra, erlendur ríkisborgari, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og verður vísað úr landi að lokinni afplánun. Riaz Butt áfrýjaði dóminum til Landsréttar en ekki liggur fyrir hvenær dómur þar verður kveðinn upp.

Dómarnir vöktu ekki sérstaka athygli í Danmörku en það gerðu hinsvegar fréttir sem nýlega birtust í dönskum fjölmiðlum.

Naut góðs af tekjufallsstyrkjum

Fyrir nokkrum dögum greindu danskir fjölmiðlar frá því að á tímabilinu 15. apríl til 16. júní á síðasta ári hefði Riaz Butt móttekið 2,8 milljónir danskra króna (57 milljónir íslenskar) í tekjufallsstyrki. Þetta var á meðan skuldamál hans var fyrir rétti. Síðar, eftir að dómur í máli hans féll, fékk hann greiddar 670 þúsund krónur (14 milljónir íslenskar) í bætur vegna fastra útgjalda Burger King veitingastaðanna. Sem þá, vel að merkja, voru ekki lengur í hans höndum.

Mynd: Shutterstock

Samtals hefur Riaz Butt því fengið um það bil jafngildi 71 milljóna íslenskra króna úr sjóðum danska ríkisins. Fyrir liggur að þessir peningar hafa allir verið fluttir úr landi, inn á reikning hjá breska netbankanum Revolut. Ekki ein einasta króna hefur verið notuð til að bjarga rekstri Burger King, en það var tilgangurinn með tekjufallsstyrkjunum.

Ekki eina tilvikið

Fréttirnar af tekjufallstyrkjunum til Riaz Butt hefur orðið til þess að vekja athygli á fyrirkomulagi þessara styrkveitinga. Samtök danskra endurskoðenda, FSR, hafa fyrir nokkrum dögum birt skýrslu um efnahagsafbrot í Danmörku. Myndin sem þar er dregin upp er dökk. Á síðasta ári hafi rannsóknarnefnd gegn peningaþvætti (Hvidvasksekretariatet) fengið 4500 tilkynningar vegna gruns um svindl í tengslum við tekjufallsstyrki og aðra hjálparpakka stjórnvalda. Charlotte Jepsen, framkvæmdastjóri SFR, sagðist, í viðtali við dagblaðið Information, óttast að þetta væri aðeins toppurinn á ísjakanaum. Greinilegt væri að stjórnvöld þurfi að setja mun skýrari reglur og samræma eftirlit.

Þingmenn eru ósáttir

Margir þingmenn hafa tekið undir það álit framkvæmdastjóra SFR, að eftirlit varðandi aðstoð hins opinbera þurfi að bæta. Það nái ekki nokkurri átt að maður sem var fyrir rétti, vegna skattsvika fái milljónir greiddar úr opinberum sjóðum, jafnvel eftir að hann hefur hlotið dóm. „Það ætti að minnsta kosti að vera hægt að geyma peningana á vörslureikningi (deponere) þangað til endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp“ sagði Rune Lund þingmaður Einingarlistans í blaðaviðtali.

Riaz Butt hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla á meðan mál hans er fyrir Landsrétti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar