EPA

Ungi maðurinn og forna fjallið

Grænlendingar eiga að finna sína eigin styrkleika. Ekki láta stór alþjóðleg fyrirtæki stjórna ferðinni. Þessi skilaboð Múte Inequnaaluk Bourup Egede hafa heyrst hátt og skýrt um heimsbyggðina eftir úrslit þingkosninganna í síðustu viku.

Upp­tökin er að finna í fjöll­un­um. Póli­tíska skriðan fór um Nar­saq, litlu byggð­ina á Suð­ur­-Græn­landi. Fyrst felldi hún einn bæj­ar­stjóra. Svo ann­an. Og eftir því sem atburða­rásinni vatt fram varð ljóst að valda­skipti voru í upp­sigl­ingu um allt land­ið.

Á þessum orðum hefst ítar­leg frétta­skýr­ing blaða­manns­ins Simon Kruse í danska dag­blað­inu Berl­inske um það sem á undan er gengið í hinu póli­tíska lands­lagi á Græn­landi. Í landi þar sem búa um 56 þús­und manns sem ætla aug­ljós­lega ekki að láta stór­fyr­ir­tæki utan úr heimi koma sér eða fjalli sínu úr jafn­vægi.

Orð Kruse lýsa stöð­unni vel. Hvernig áformuð námu­vinnsla fyr­ir­tækis sem heitir Green­land Miner­als varð að stærsta kosn­inga­máli í hinu víð­feðma landi, stærstu eyju heims, og hvernig and­staðan við þau áform varð til þess að næsti for­maður lands­stjórn­ar­inn­ar, for­sæt­is­ráð­herra Græn­lands, verður að öllum lík­indum hinn 34 ára Múte Bourup Egede. Hann er for­maður vinstri flokks­ins Inuit Ataqatigiit (IA), flokks­ins sem barist hefur gegn námu­vinnsl­unni og sigr­aði í þing­kosn­ing­unum í síð­ustu viku, hlaut 37 pró­sent atkvæða og tryggði sér þar með 12 af 31 sæti á þing­inu í Nuuk, Inats­is­artut. IA jók fylgi sitt um heil tíu pró­sent frá síð­ustu kosn­ing­um.

Auglýsing

Siumut-­flokk­ur­inn, sem hefur haldið um stjórn­ar­taumana í land­inu nær sam­fleytt ára­tugum sam­an, studdi áformin og lands­stjórn­in, sem flokk­ur­inn Demokra­atit sat einnig í, sam­þykkti nýlega umhverf­is­mats­skýrslu Green­land Miner­als. Mik­ill meiri­hluti Græn­lend­inga er hins vegar and­vígur vinnsl­unni og afstaða Siumut í mál­inu, sem þó hefur orðið óljós­ari síð­ustu mán­uði, er því ein helsta ástæða þess að Egede fær stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð­ið. Hann er þegar far­inn að hitta for­menn ann­arra flokka á óform­legum kaffi­fund­um. Það er verið að und­ir­búa jarð­veg­inn fyrir stjórn­ar­skipti.

Kosn­ing­arnar voru raunar um ári fyrr en til stóð. Inn­an­flokksá­tök í Siumut skýra það að miklu leyti en þar var gerð hall­ar­bylt­ing síð­asta haust er Erik Jen­sen bauð sig fram gegn sitj­andi for­manni, Kim Kiel­sen, og hafði bet­ur.

Kín­verskir fjár­festar í meiri­hluta

Green­land Miner­als var stofnað árið 2007 og hefur allar götur síðan haft námu­vinnslu í land­inu sem það kennir sig við á stefnu­skrá sinni. En fyr­ir­tækið er ekki græn­lenskt þótt nafnið kunni að gefa það til kynna. Það er ekki einu sinni tengt herra­þjóð­inni Dön­um. Það er ástr­alskt og höf­uð­stöðvar þess eru því að finna hinum megin á hnett­in­um. Árið 2016 varð hins vegar kín­verskt fyr­ir­tæki, Shenghe Reso­urces Hold­ing Co Ltd., stærsti hlut­haf­inn.

Á heima­síðu Green­land Miner­als segir að höf­uð­á­hersla sé lögð á þróun verk­efnis við vinnslu fágætra jarð­efna úr Kvanefjeld og að það muni verða „horn­steinn“ að fram­boði slíkra efna til fram­tíðar – efna sem séu „miðjan í þeirri bylt­ingu“ sem sé að eiga sér stað í orku­notk­un.

Fjallstoppur sunnan Nuuk baðaður geislum sólar.
EPA

Þetta bylt­ing­ar­kennda verk­efni Green­land Miner­als átti að verða að veru­leika í bænum Nar­saq. Sama bæ og Múte Egede ólst upp í. Hann kall­aði fjallið með sjald­gæfu efn­unum þó ekki Kvanefjeld (Hvann­ar­fjall á íslensku) heldur sínu græn­lenska nafni: Kuann­ersuit. Fjallið er sagt geyma eitt mesta magn mjög sjald­gæfra jarð­efna í víðri ver­öld. Sann­kölluð fjár­sjóðs­kista ef metið yrði til fjár. „Þetta er það stóra. Þetta er það risa­stóra,“ hefur Greg Barnes, for­stjóri ann­ars námu­fyr­ir­tæk­is, Tan­breez, sagt um umfang hinnar fyr­ir­hug­uðu námu­vinnslu. Þó að Barnes, sem er ástr­alskur jarð­fræð­ing­ur, hafi eytt tíu árum og miklum fjár­munum til rann­sókna á svæði þar sem einnig er að finna mikið magn hinna sjald­gæfu jarð­efna, seg­ist hann vera til­bú­inn að bíða enn lengur eftir leyf­inu til að byrja að bora og grafa. Svo risa­stórt sé þetta.

Námu­vinnsla sem þessi verður hins vegar ekki að veru­leika ef Egede fær ein­hverju um það ráð­ið. Sú ein­arða afstaða hefur örugg­lega þegar fengið blóðið að ólga í æðum kín­versku fjár­fest­anna en mögu­lega róað taugar ein­hverra í Hvíta hús­inu sem hafa varað við auknum umsvifum Kín­verja á norð­ur­slóð­um. Ekki þó af ein­tómri mann­gæsku heldur frekar vegna þeirrar stöð­ugu valda­bar­áttu sem verið hefur milli stór­veld­anna tveggja síð­ustu ár og ára­tugi. Og lík­lega ekki síst vegna þess að Banda­ríkja­menn þykj­ast sjá tæki­færi fyrir sjálfa sig opn­ast.

Auglýsing

Hin sjald­gæfu frum­efni sem fjallið geym­ir, og hefur raunar geymt í millj­ónir ára, er hægt að nýta í alls konar fram­leiðslu á borð við vind­myllur og sól­ar­raf­hlöður en einnig til vopna­fram­leiðslu. Í því er m.a. úran og þótt það sé aðeins sagt „auka­af­urð“ vinnsl­unnar sem miðar að því að grafa eftir enn sjald­gæfari efnum er það efnið sem Græn­lend­ingar ótt­ast hvað mest og ekki að ástæðu­lausu. Úran er óstöðugt og geisla­virkt. Það yrði notað til fram­leiðslu kjarna­vopna. Græn­lenska hag­kerfið byggir í dag á fisk­veið­um, ferða­mennsku og land­bún­aði. Frið­sæld og ró. Þetta rímar því að margra mati ekki sam­an.

Össur Skarp­héð­ins­son, fyrr­ver­andi utan­rík­is­ráð­herra, fór fyrir nefnd um sam­starf Íslands og Græn­lands fyrir núver­andi utan­rík­is­ráð­herra Guð­laug Þór Þórð­ar­son. Hann lýsti fjall­inu með þessum hætti í morg­un­út­varp­inu á Rás 1 nýver­ið: „Þetta er gríð­ar­stór gíg­tappi, sem hefur storknað mjög hægt, lyfst upp úr jarð­skorpunni, snú­ist þvert, skor­inn í tvennt af skrið­jökli. Þetta er fjall fullt af sjald­gæfum málmum og af því að þetta storkn­aði svo hægt þá sett­ist þetta eftir eðl­is­þyngd. Öðru megin fjarð­ar­ins eru svo­kall­aðir léttir sjald­gæfir málmar sem eru vinn­an­leg­ir, hinu megin eru þungu málm­arnir þar sem úran­íum er lík­a.“

Í Nuuk.
EPA

Græn­lend­ingar hafa verið undir stjórn Dana í ald­ir. Árið 1979 fengu þeir heima­stjórn og í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu árið 2008 var mik­ill meiri­hluti Græn­lend­inga fylgj­andi auk­inni sjálf­stjórn. Skref í þá átt var tekið um hálfu ári síðar er Græn­lend­ingar lýstu yfir fullum sjálfs­á­kvörð­un­ar­rétti í málum er tengj­ast rétt­ar­fari, stefnu­mótun og nátt­úru­auð­lind­um. Danska ríkið heldur enn eftir stjórn utan­rík­is- og varn­ar­mála.

Talið er að nær hvergi í heim­inum finn­ist jafn margar teg­undir sjald­gæfra jarð­efna og í jafn miklu magni og á Græn­landi. Þetta hefur löngum orðum til þess að stór­veldin hafa gjóað þangað aug­unum en síð­ustu ár hafa þau farið í störu­keppni – þar sem leynt og ljóst er barist fyrir rétt­indum til vinnslu þess­ara auð­linda. Því hefur ítrekað verið haldið fram við fólkið sem byggir eyj­una stóru að fjöllin fögru séu lyk­ill þeirra að fram­tíð­inni. Að með því að heim­ila vinnslu jarð­efn­anna sé leiðin að auknum hag­vexti greið. Að þá verði hægt að skapa hund­ruð starfa í bæ á borð við Nar­saq.

Allir horfa til norð­urs

Áhugi stór­veld­anna á Græn­landi hefur orðið til þess að beina sjónum alþjóða­sam­fé­lags­ins og frétta­skýrenda til norð­urs. Kína er með algjöra sér­stöðu þegar kemur að því að vinna sjald­gæf jarð­efni, fer með 80 pró­sent af allri slíkri vinnslu í heim­in­um. Kín­verska fyr­ir­tækið sem fer með meiri­hluta í Green­land Miner­als er stór­tæk­ast allra slíkra fyr­ir­tækja ver­ald­ar. Þetta finnst valda­fólki í bæði Evr­ópu og Banda­ríkj­unum slæm þró­un. Það vill ekki vera nær alfarið háð Kína með efni til að fram­leiða alla vega varn­ing, allt frá síma­skjám til vind­myllut­úrbína og raf­hlaðna í raf­magns­bíla. Áhyggj­urnar snú­ast þó lík­lega helst um ákveðna notkun efn­anna sem ekki er endi­lega flaggað opin­ber­lega: Til vopna­fram­leiðslu. Til að fram­leiða eina banda­ríska F-35 orr­ustu­þotu þarf hvorki meira né minna af 427 kíló af hinum sjald­gæfu efn­um. Í hvern kjarn­orkukaf­bát þarf 4,2 tonn.

Auglýsing

Við­skipta­stríð milli Kína og Banda­ríkj­anna, sem harðn­aði mikið í valda­tíð Don­alds Trump, er nú farið að snú­ast um þessi sjald­gæfu jarð­efni. Kín­verjar hafa gefið til kynna að þeir hygg­ist setja útflutn­ings­bann á þau til Banda­ríkj­anna. Einn ráð­gjafi kín­versku rík­is­stjórn­ar­innar spurði ein­fald­lega: Myndi það koma ykkur illa þegar kemur að fram­leiðslu F-35 orr­ustu­þota?

Svarið við því er auð­vitað já. Það þarf að finna nýjar leiðir til að afla þess­ara dýr­mætu efna. Þess vegna eru bæði Banda­ríkin og Evr­ópu­sam­bandið lík­leg til að blikka ang­ur­blítt til Græn­lend­inga á næst­unni.

Sá sem þau þurfa núna að blikka er Múte Inequna­aluk Bourup Egede. Ungi stjórn­mála­mað­ur­inn á Græn­landi sem hefur engu að síður margra ára reynslu á hinu póli­tíska sviði. Hann varð for­maður IA árið 2018, þá aðeins 31 árs. Yngsti for­maður í fjöru­tíu ára sögu flokks­ins. Hann yrði einnig yngsti for­maður lands­stjórnar Græn­lands frá upp­hafi. „Já, ég er ungur og í því tel ég meðal ann­ars styrk minn felast,“ sagði hann er hann tók við valda­taumunum í flokkn­um.

Það verður að telj­ast ólík­legt að stór­veldum heims­ins tak­ist að heilla Egede með því að veifa framan í hann seðla­búnt­um. Hann ætlar að setja menntun og upp­bygg­ingu inn­viða á odd­inn. Hann vill fjöl­breytt­ara atvinnu­líf og segir þessa tvo þætti und­ir­stoðir þeirrar fram­tíð­ar­sýn­ar. Hann hefur sagt að Græn­lend­ingar eigi að byggja sjálfir upp land­ið, að finna sjálfir sína styrk­leika.

Múte Inequnaaluk Bourup Egede.
EPA

IA hlaut meiri­hluta atkvæða í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í bænum Nal­er­aq, heimabæ Egede. Það þykir til marks um það að íbú­arnir hafni námu­vinnslu í fjall­inu sem yfir bænum gnæf­ir.

Sigur Egede og flokks hans í þing­kosn­ing­unum er áfall fyrir þá sem studdu námu­vinnsl­una í Kuann­ersuit. Í sigrinum fel­ast einnig skila­boð til umheims­ins: Græn­lend­ingar láta ekki freist­ast af pen­ingum alþjóð­legra stór­fyr­ir­tækja. Eða eins og Aqqaluk Lyngje, einn stofn­andi Inuit Ataqatigiit-­flokks­ins orðar það í sam­tali við Berl­inske: „Svarið sem gefið hefur verið námu­fyr­ir­ækj­unum er þetta: Þetta verður að ger­ast á okkar for­send­um. Við viljum ekki eyði­leggja vist­kerfin á Suð­ur­-Græn­landi, þar sem við byggjum okkar lífs­við­ur­væri á land­bún­aði, sauð­fjár­rækt sem er hluti af okkar fæðu­keðju.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar