Útlendingastofnun afgreiðir mál Venesúelabúa hægar en áður og rýnir í stöðu mála
Útlendingastofnun er búin að hægja á afgreiðslum umsókna um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum Venesúela og skoðar nú aðstæður í landinu nánar. Nýlegt pólitískt samkomulag í Venesúela gæti haft einhver áhrif á það hvernig stofnunin metur stöðuna. Á fyrstu 10 mánuðum ársins sóttu 764 einstaklingar frá Venesúela um vernd á Íslandi og ljóst er að stjórnvöld vilja minnka þann fjölda sem sækir um og fær hæli á Íslandi á grundvelli aðstæðna í Suður-Ameríkuríkinu.
Útlendingastofnun hefur hægt á afgreiðslu umsókna ríkisborgara Venesúela um alþjóðlega vernd á Íslandi síðustu vikur, og vinnur nú að því að „rýna heimildir og afla frekari upplýsinga varðandi ástandið í landinu“. Afgreiðsla umsókna frá Venesúelabúum er þó ekki alveg á ís, áfram eru tekin viðtöl við umsækjendur og síðasta veiting dvalarleyfis til handa umsækjanda um vernd frá Venesúela var afgreidd í síðustu viku.
Þetta kemur fram í svörum sem Kjarninn fékk frá Útlendingastofnun við fyrirspurn varðandi það hvort einhverjar breytingar hefðu verið gerðar á verklagi stofnunarinnar varðandi umsóknir fólks frá Venesúela að undanförnu, en miðillinn hafði heyrt af því að svo væri. Umsóknirnar „hafa ekki verið afgreiddar jafn hratt síðustu vikur eins og vikurnar þar á undan,“ segir stofnunin.
Hundruð einstaklinga frá Venesúela hafa fengið vernd hérlendis á undanförnum mánuðum í kjölfar þess að kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu í sumar að ekki hefði verið sýnt fram á að ástandið í Venesúela hefði lagast frá því að íslenskt stjórnvöld tóku ákvörðun um að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd hérlendis á grundvelli stöðunnar í heimaríki þeirra.
Samkvæmt Útlendingastofnun hefur dómsmálaráðuneytið ekki veitt stofnuninni nein tilmæli um að afgreiða umsóknirnar hægar og skoða ástandið í Venesúela nánar. „Það hvílir rannsóknarskylda á Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna um vernd. Í henni felst að ákvarðanir byggi á nýjustu mögulegu upplýsingum og heimildum. Í augnablikinu er stofnunin að rýna heimildir og afla frekari upplýsinga varðandi ástandið í landinu. Stofnunin hefur ekki fengið tilmæli frá dómsmálaráðuneytinu,“ segir í svari stofnunarinnar til Kjarnans.
Pólitískt samkomulag í landinu gæti haft áhrif
Undir lok nóvembermánaðar komust stjórn og stjórnarandstaða í Venesúela að samkomulagi, í samningaviðræðum sem staðið höfðu yfir í Mexíkóborg, með milligöngu norskra sáttasemjara.. Það felur í sér að sameiginleg bón verði lögð fram um að milljarðar bandaríkjadala af eignum ríkisins erlendis, sem hafa verið frystar í refsiaðgerðum sem beint hefur verið að stjórnvöldum landsins á undanförnum árum, verði á ný aðgengilegar stjórnvöldum.
Sjóður á vegum Sameinuðu þjóðanna á að hafa umsjón með því að útdeila fénu í samfélagsleg verkefni; heilsugæslu, menntun og mataraðstoð. Á sama tíma er útlit fyrir að aukinn gangur komist senn í olíuframleiðslu í ríkinu, en eftir undirritun samningsins gaf Bandaríkjastjórn það út að olíufélaginu Chevron yrði heimilt að hefja olíuvinnslu í Venesúela að nýju næstu sex mánuði og flytja olíu til Bandaríkjanna að auki.
Í svari frá Útlendingastofnun segir að samkomulagið sé „ekki eitt og sér tilefni þess að nú er verið að afla frekari upplýsinga um ástandið í Venesúela“. „Það þarf að gera það reglulega varðandi öll lönd, því ástand breytist með tímanum, ýmist til hins verra eða til hins betra. Samkomulagið er þó vissulega eitt af því sem verður skoðað enda getur það haft áhrif á ástandið,“ segir í svari stofnunarinnar.
Langstærsti hópur umsækjenda um vernd á Íslandi fyrir utan Úkraínumenn
Pólitískt og efnahagslegt krísuástand hefur verið í Venesúela undanfarin ár og talið er að yfir 6 milljónir íbúa landsins hafi ákveðið að yfirgefa landið á innan við áratug af þeim sökum. Eftir umdeildar forsetakosningar árið 2018 sem tryggðu Nicolas Maduro áframhaldandi völd skánaði staðan lítt og refsiaðgerðir annarra ríkja hafa ekki bætt úr skák.
Ísland og yfir 50 önnur ríki, með Bandaríkin í broddi fylkingar, viðurkenndu ekki úrslit forsetakjörsins í landinu og lýstu því yfir að þau styddu stjórnarandstöðuleiðtogann Juan Guaídó, sem hafði lýst sjálfan sig réttkjörinn forseta landsins.
Á svipuðum tíma ákváðu íslensk stjórnvöld að byrja að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela viðbótarvernd hér á landi, með vísan til almennra aðstæðna í ríkinu en óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda.
Engar umsóknir um vernd höfðu borist frá ríkisborgurum Venesúela á árunum 2015-2017 en árið 2018 voru þær 14 talsins, árið 2019 voru þær 180, árið 2020 104 og árið 2021 voru þær 361 talsins. Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs sóttu svo 764 einstaklingar frá Venesúela um vernd á Íslandi og eru ríkisborgarar Venesúela, að Úkraínumönnum frátöldum, stærsti hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Undir lok síðasta árs tilkynnti Útlendingastofnun að breyta ætti framkvæmdinni hvað þennan hóp varðaði og hefja að leggja einstaklingsbundið mat á umsóknir fólksins um vernd á Íslandi. Í kjölfarið var mörghundruð manns frá Venesúela synjað um vernd á Íslandi með ákvörðunum Útlendingastofnunar, en í sumar komst kærunefnd útlendingamála að ekki hefði verið sýnt fram á að ástandið í Venesúela hefði lagast frá því að íslenskt stjórnvöld tóku ákvörðun um að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd hérlendis á grundvelli stöðunnar í heimaríki þeirra.
Fram kom í úrskurðinum að ástandið í landinu hefði raunar farið versnandi „og að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni hafi aukist.“ Bætt ástand í Venesúela gæti því ekki verið rökstuðningur fyrir því að synja umsækjendum um viðbótarvernd hér á landi.
Stjórnvöld vilja hætta að veita öllum frá Venesúela vernd
Nokkuð ljóst er að vilji stjórnvalda er sá að færri einstaklingum frá Venesúela verði veitt vernd á Íslandi. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði á þingi nýleg að unnið væri að því að breyta þeim viðmiðum sem væru til staðar um veitingu verndar til íbúa Venesúela. Orðrétt sagði ráðherra að Ísland væri „að glíma við óvenjuhátt hlutfall fólks frá Venesúela á grundvelli niðurstöðu kærunefndar útlendingamála“ og að verið væri að „bregðast við því með að reyna að breyta okkar viðmiðunum um það á hvaða grundvelli við veitum þeim vernd“.
Kjarninn sendi fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið vegna þessara orða og spurði hvort ráðuneytið teldi mögulegt að breyta framkvæmdinni í verndarmálum Venesúelabúa á annan hátt en með lagabreytingum. Ráðuneytið sagði svo vera, ýmist væri hægt að gera það með reglugerðarbreytingum eða tilmælum til Útlendingastofnunar.
Útlendingastofnun segist þó ekki vera, sem áður segir, að hægja á afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum Venesúela á grundvelli tilmæla ráðuneytisins.