Valdamenn í viðskiptalífinu falla hver af öðrum vegna ásakana um kynferðisbrot
Ung kona hefur sakað Ara Edwald, forstjóra Ísey Skyr, Hreggvið Jónsson, stjórnarformann og aðaleiganda Veritas, og Þórð Má Jóhannesson, stjórnarformann Festi, um kynferðisofbeldi. Í dag hafa allir þrír stigið til hliðar úr ábyrgðarstöðum. Auk þess er Arnar Grant, einkaþjálfari sem konan átti í sambandi við, farinn í leyfi frá störfum. Kjarninn hefur rannsakað málið í rúma tvo mánuði. Hér er niðurstaða þeirrar vinnu.
Seint í október birti kona, Vítalía Lazareva, frásögn á samfélagsmiðlinum Instagram. Frásögnin var af kynferðisofbeldi sem hún sagði sig hafa orðið fyrir af hendi þriggja manna. Í frásögninni lýsti konan því ofbeldi sem hún sagði mennina hafa beitt sig í heitum potti og í sumarbústað, aðdraganda þess að hún hefði endað með þeim þennan dag og í lok hennar nefndi hún þá alla þrjá með nafni. Auk þess nefndi hún á nafn giftan mann, einkaþjálfarann Arnar Grant, sem hún átti í ástarsambandi við og fékk hana til að koma á þann stað sem meint brot fóru fram.
Færslan var síðar tekin niður af Instagram en hluti hennar er enn aðgengilegur á twitter-síðu Vítalíu. Þar voru nöfn mannanna hins vegar ekki birt. Þar segir meðal annars að henni hafi verið ráðið frá „því að segja frá og leita lengra vegna þess að aðilar þessir eru valdamiklir í samfélaginu og allir fjölskyldumenn“.
Mikið hvíslað en lítið sagt opinberlega
Skjáskot af frásögn konunnar fóru sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. Í stórum hópum var fátt annað rætt í margar vikur á eftir en hvar þetta mál stæði. Ekkert var hins vegar fjallað um málið í fjölmiðlum, þrátt haft hafi verið samband við mennina fjóra, meðal annars frá blaðamanni Kjarnans. Viðbrögðin voru engin. Þeir svöruðu ekki.
Heimildir Kjarnans herma að það hafi verið gert að ráði almannatengils sem hafi sagt mönnunum að segja að þetta væri kjaftasaga. Best væri að þegja málið af sér.
Þann 17. nóvember birtist hins vegar frétt í Stundinni þar sem Eggert Kristófersson, forstjóri Festi, staðfesti að félaginu, sem er almenningshlutafélag að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, hefði borist óformlegt erindi vegna máls sem stjórnarformaður Festi, Þórður Már Jóhannesson, var sagður tengjast. Festi rekur N1, Krónuna, Elko og Bakkann vöruhótel og er einn stærsti smásali á Íslandi.
Kjarninn sendi fyrirspurn til varaformanns stjórnar Festi, Guðjóns Reynissonar, fyrst þann 25. nóvember og spurði hvort vitneskja væri innan stjórnar varðandi þessar ásakanir og hvort hún hygðist bregðast við þeim. Hann svaraði ekki þeirri fyrirspurn. Fyrirspurnin var ítrekuð og 17. desember barst efnislegt svar. Þar staðfesti Guðjón að um mál konunnar væri að ræða.
Í svari hans sagði: „Það er rétt að umfjöllunin sem spurt er um hefur verið til skoðunar, en við getum ekki tjáð okkur að svo stöddu.“
Konan birti svo annan skammt af skiltum á Instagram í byrjun desember. Þar sagðist hún standa við það sem hún sagði og að viðbrögð fyrirtækjanna sem tengdust mönnunum hefði verið „hreint bull og eru einu rökin sem eru færð fyrir máli þeirra að fólk spyr sig hvort um kjaftasögu sé að ræða þar sem ég hef ekki gefið frá mér viðtal. Þetta er ósættanlegt og undirstrikar spillinguna sem við sem þjóðfélag lifum í.“
Síðan sagði hún: „Mér finnst ég skyldug til að þess að segja frá því að málið fer lengra og verður kært. Þótt þetta verði það síðasta sem ég geri þá sé ég til þess að skila mínu af mér.“
Til skoðunar og því treyst að stjórn skoði ítarlega
Þegar engin svör bárust frá varaformanni stjórnar Festi við fyrstu fyrirspurn Kjarnans leitaði hann til stærstu eigenda fyrirtækisins en allt eru það íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á 11,24 prósent í Festi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) á 10,32 prósent, Gildi lífeyrissjóður á 9,61 prósent og Birta lífeyrissjóður á 5,75 prósent.
Kjarninn spurði meðal annars hvort stjórnir lífeyrissjóðanna hefðu vitneskju um ásakanir á hendur Þórði Má Jóhannessyni um meint kynferðisofbeldi og vísaði í frétt Stundarinnar.
Í svari LSR frá 14. desember kom fram að stjórnin hefði ekki frekari vitneskju um þetta mál umfram þá frétt Stundarinnar sem vísað var til í fyrirspurninni.
Einnig spurði Kjarninn hvort stjórnin hefði brugðist með einhverjum hætti við þessum ásökunum. Ef ekki, ætlaði stjórnin að bregðast við með einhverjum hætti?
„Stjórn LSR treystir því að stjórn Festi muni skoða þetta mál ítarlega og bregðast við því með viðeigandi hætti. Stjórn LSR mun fylgjast með framvindu þessa máls og bregðast við ef þurfa þykir,“ sagði í svari LSR.
Stjórn Gildis lífeyrissjóðs svaraði þann 14. desember og sagðist ekki hafa haft vitneskju um málið og það hefði því ekki verði tekið til umfjöllunar innan stjórnar sjóðsins. Ekki kom fram í svarinu hvort stjórnin hygðist taka málið fyrir.
Svar stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna barst þann 17. desember en í því sagði að henni væri kunnugt um þá umfjöllun sem vísað er til í fyrirspurninni.
„Málefni Festi hf. eru á forræði stjórnar félagsins sem fer með æðsta vald í málefnum þess innan ramma samþykkta. Í samræmi við hluthafastefnu lífeyrissjóðsins á hann á hverjum tíma ýmis samskipti við forsvarsmenn félaga sem sjóðurinn á hlut í. Viðbrögð lífeyrissjóðsins sem hluthafa í Festi hf. eru til skoðunar og hafa samskipti átt sér stað við stjórn félagsins í samræmi við hluthafastefnu sjóðsins.“
Hér er hægt að styrkja frjálsa og gagnrýna blaðamennsku:
Stjórn Birtu lífeyrissjóðs svaraði þann 22. desember en í svarinu sagði að stjórnin hefði ekki haft vitneskju um meint kynferðisofbeldi Þórðar þegar grein Stundarinnar frá 17. nóvember og spurningar Kjarnans frá 10. desember voru til umræðu á stjórnarfundi Birtu þann 16. desember síðastliðinn. „Stjórn Birtu sendi stjórn Festar bréf þar sem hvatt er til þess að hún bregðist við málinu á faglegan hátt og upplýsi hluthafa þegar það á við með sannfærandi hætti, því til staðfestingar,“ segir í svari Birtu.
Svöruðu ekki fyrirspurnum
Kjarninn sendi einnig fyrirspurn á Þórð Má og spurði hvort hann vissi af tilvist þessara ásakana og hvort hann hefði brugðist við þeim með einhverjum hætti. Einnig hvernig hann svaraði þessum ásökunum og hvort þær hefðu einhver áhrif á störf hans fyrir Festi. Engin svör hafa borist.
Heimildir Kjarnans herma að ásakanir á hendur Þórði Má hafi ítrekað verið ræddar í stjórn Festi en hann hefur ekki viljað stíga til hliðar sem stjórnarformaður þrátt fyrir þrýsting þar um. Auk þess hafa hluthafar í félaginu verið í sambandi við stjórnarmenn og þrýst á aðgerðir, en án árangurs.
Stjórnarfundur í Festi átti upphaflega að hefjast klukkan fjögur síðdegis í dag en var flýtt um klukkutíma vegna atburða dagsins. Á honum voru mál Þórðar Más rædd, en hann sjálfur tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hann er staddur í Bandaríkjunum.
Niðurstaðan lá fyrir að stjórnarfundi loknum rétt rúmlega fjögur og greindi stjórnin frá því að Þórður Már hefði óskað eftir því að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. „Stjórn féllst á erindið. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður,“ segir í tilkynningu frá Festi.
Kjarninn sendi einnig samhljóða fyrirspurnir um málið og send var á Þórð til Hreggviðs Jónssonar og Ara Edwald þann 25. nóvember 2021. Auk þess voru sendar fyrirspurnir á æðstu stjórnendur í fyrirtækjum innan samstæðu Veritas, sem Hreggviður á stærstan hlut í og situr sem stjórnarformaður, og á stjórnarformann MS og Ísey útflutnings, en Ari Edwald er forstjóri Ísey Útflutnings. Allar fyrirspurnir voru ítrekaðar en eina svarið sem barst úr þessari átt, þann 17. desember 2021 eftir ítrekanir, var frá Elínu M. Stefánsdóttur, stjórnarformanni MS og Ísey útflutnings. Í svarinu stóð: „Stjórn Ísey útflutnings ehf. hefur vitneskju um það efni sem birtist á samfélagsmiðli og þú vísar til. Ekkert mál hefur verið tilkynnt til stjórnar Ísey útflutnings ehf. og við höfum ekki vitneskju um að starfsmaður okkar hafi verið kærður. Það er því ekki tilefni til viðbragða af hálfu stjórnar að svo stöddu.“
Hún sagði einnig að stjórnin hefði viðbragðsáætlun til að bregðast við vegna svona mála ef ástæða þætti til að bregðast við.
Viðtal hleypti málinu upp
Í liðinni viku, nánar tiltekið á þriðjudag, breyttist síðan málið. Konan, Vítalía Lazareva, steig fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur og rakti það sem komið hefði fyrir hana. Hún nefndi mennina ekki á nafn og setti auk þess fram ásökun á hendur öðrum manni vegna atviks sem átti sér stað síðar. Hægt er að lesa það helsta sem kom fram í viðtalinu hér að neðan.
„Þetta fór yfir öll mörk sem hægt er að fara yfir“
Vítalía Lazareva steig fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur í fyrradag en í máli hennar kemur fram að hún hafi reynt að láta þá aðila sem um ræðir vita hvernig henni liði – hún hafi viljað fara yfir málin og ræða við þá – og segist hún ekki hafa fengið önnur viðbrögð en þau að reynt var að „halda henni á teppinu“.
„Þannig að þetta var ekki í fyrsta sinn sem mig langaði að segja frá,“ segir hún í viðtalinu og vísar þar í samfélagsmiðlapóstana sem hún sendi frá sér fyrr í vetur.
„Það var aldrei reynt að hafa samband og ég var búin að reyna tvisvar áður en þetta birtist þannig að þetta var eiginlega taka þrjú sem ég bara hugsa að ég ætla bara að gera þetta og ekki reyna að sættast við einhvern eða bíða eftir að einhver gæfi mér grænt ljós. Ég hugsaði bara: „Ég ætla að segja frá.“,“ segir hún um ástæður þess að hafa birt fyrrnefnda pósta.
Hún lýsir í viðtalinu atvikinu þar sem hún segir að þessir þrír menn hafi brotið á henni. Það átti sér stað í sumarbústað utan við Reykjavík en hún segist hafa mætt mjög seint um kvöld eftir vinnu til að hitta Arnar Grant, manninn sem hún var að hitta á þessum tíma, og vini hans. Henni hafi verið boðið í heitan pott og eftir einhvern tíma hafi hún farið með þeim fjórum í pottinn og taldi hún að það væri öruggt enda farið með vinum áður í pott. Hún segir að þetta hafi aftur á móti orðið að „nektarpotti“ áður en hún vissi af.
Hún segir að mennirnir hafi gefið sér leyfi til að snerta hana nakta í pottinum. „Það var ekkert verið að spyrja.“
Í póstinum á samfélagsmiðlum greindi hún frá því að þeir hefðu troðið puttanum „upp í rassgatið“ á henni. Hún segist í viðtalinu við Eddu hafa frosið og reynt að ganga í augun á kærastanum. „Þetta fór yfir öll mörk sem hægt er að fara yfir sko.“
Arnari á að hafa ofboðið, að hennar sögn, þessar aðfarir og farið upp úr pottinum. Hann sagði ekkert við vini sína. Hún fór í framhaldinu upp úr pottinum og spurði hann af hverju hann hefði farið og hann sagðist vera þreyttur og bað hann hana um að láta sig í friði. Fóru þau samferða í bæinn daginn eftir.
Vítalía segist hafa verið í samskiptum við mennina þrjá síðan atvikið átti sér stað – en þó takmörkuðum. „Ég hef rætt við þá alla í síma til dæmis. Þeir hafa allir séð instagramstory-ið mitt og ég náttúrulega sendi þeim öllum Facebook-skilaboð að ég ætlaði að leita míns réttar í málinu. Ég sagði að daglegt líf hefði bara reynst mér erfitt.“
Hún segir að einn þeirra hafi sagt við hana í síma að hann væri ekki með hana á Facebook og því ekki getað talað við hana. Hún hefur aftur á móti birt skjáskot á Instagram-síðu sinni þar sjá má orðsendingu til hans á Facebook frá henni þar sem hún sagði honum hvernig henni liði eftir bústaðaferðina og að hún ætlaði að leita réttar síns.
Þrýstingur á aðgerðir vegna stöðu mannanna jókst og fyrr í dag greindi Stundin frá því að Ari Edwald hefði sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi í gær en nafn hans var meðal þeirra sem Vítalía birti á Instagram-síðu sinni seint á síðasta ári þar sem hún tjáði sig um kynferðisofbeldið. Ari Edwald sat einnig í stjórn Icelandic Provisions, bandarísks fyrirtækisins sem framleiðir skyr eftir aðferðum sem MS hefur þróað, og er að hluta í eigu MS. Hann sagði sig úr stjórn Icelandic Provisions 6. nóvember síðastliðinn, nokkrum dögum eftir að frásögn Vitaliu birtist fyrst á samfélagsmiðlum. Sæti hans í stjórninni tók Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, en Kaupfélagið á fimmtungshlut í MS og félagi utan um erlenda starfsemi þess.
Nú gerðust hlutirnir hratt. Einum og hálfum tíma eftir að frétt Stundarinnar birtist barst fjölmiðlum yfirlýsing frá lögmanni, sem sendi hana fyrir hönd Hreggviðar Jónssonar. Þar sagði: „Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu.“
Hreggviður sagðist í yfirlýsingunni líta þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að hann hefði „ekki gerst brotlegur við lög“ þá myndi hann stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja „til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi“.
Hálftíma síðar birti Vísir frétt um að Arnar Grant væri kominn í tímabundið leyfi frá störfum sínum sem einkaþjálfari hjá World Class.
Fréttaskýringunni var breytt eftir að stjórnarfundi Festi lauk og tilkynning um afsögn Þórðar Más var send út.