Valli enginn dólgur heldur í leit að hvíld á ókunnum slóðum
„Hann var að hvíla sig. Það var einfaldlega það sem hann var að gera,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávar- og atferlisvistfræðingur, um þann óréttláta dólgsstimpil sem rostungurinn Valli hefur fengið í fjölmiðlum. Búsvæði rostunga eru að bráðna og brotna. Því kæmi það Eddu ekki mikið á óvart ef þessi stóru og tignarlegu dýr færu að venja komur sínar hingað oftar.
Komur rostunga til Íslands eru mjög sjaldgæfar og því ekki að undra að rostungur sem brá sér upp á bryggju á Höfn í Hornafirði um helgina hafi vakið gríðarlega athygli. Ekki minnkaði áhuginn þegar í ljós kom að líklega er um sama dýr að ræða og sást í höfnum í sumar og haust á Írlandi, Wales og jafnvel enn sunnar. Þar var hann kominn verulega út fyrir þægindarammann, óraleið frá sínum náttúrulegu heimkynnum við jaðar ísrandarinnar í Norður-Íshafi.
Og það aftur útskýrir af hverju hann bægslaðist um borð í báta og olli með veru sinni þar stundum miklum usla. En að kalla hann dólg og skemmdarvarg, líkt og sumir fjölmiðlar hafa gert, er þó of langt gengið.
„Hann var að hvíla sig. Það var einfaldlega það sem hann var að gera,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávar- og atferlisvistfræðingur. Brölt hans um borð í báta sýni fyrst og fremst þá neyð sem hann var í. „Við getum kannski upplifað þetta sem dónalega hegðun – að einhver komi óboðinn um borð í bátinn okkar. En þarna er villt dýr að finna sér stað til að hvíla sig á í algjörlega ókunnu umhverfi. Hann er þarna eins og geimvera. Ungur og ekki með neinn eldri sér við hlið til að gefa merki um hvert skuli fara og hvað skuli gera.“
Valli, eins og flestir eru farnir að kalla hann, er að mati Eddu líklega ungur og ókynþroska brimill, ekki eldri en sex til sjö ára. Þeir eiga það til að fara á flakk, eru djarfir og kannski stundum „svolítið vitlausir“ en flakkið getur leitt þá í óvænta leiðangra, jafnvel háskalega. Því er það fagnaðarefni að hann hafi sagt skilið við Bretlandseyjar, sé á norðurleið og hafi tekið stutta hvíld á Íslandi. Hann gæti nú tekið stefnuna á Svalbarða til að flatmaga með sínum líkum eða á austurströnd Grænlands þar sem ein helstu búsvæði Norður-Atlantshafsstofnsins eru að finna.
Rostungar kunna best við sig við sig við jaðar ísbreiðu norðurheimskautsins og á flotís á grunnsævi. Ástæðan er sú að þótt þeir séu miklir sundgarpar, líkt og Valli hefur sannað fyrir heimsbyggðinni, er djúpköfun ekki þeirra sterkasta hlið. Þeir vilja geta dembt sér út í sjó af ísnum til að róta eftir kræklingi og skelfiski á botninum.
Þótt Hornfirðingar og landsmenn flestir hafi rekið upp stór augu þegar Valli birtist hefði hann örugglega ekki vakið sérstaklega undrun á landnámsöld. Þá voru rostungar algeng sjón, aðallega á Vesturlandi og á Vestfjörðum en eflaust einnig mun víðar.
Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi staðfesti nýverið í fyrsta skipti að á Íslandi lifði ekki alls fyrir löngu sérstakur rostungsstofn. „Staðfest er að hér var sérstakur íslenskur stofn og að hann leið undir lok skömmu um eða upp úr landnáminu, líklega fyrst og fremst af völdum ofveiði,“ sagði Hilmar J. Mamquist, líffræðingur og einn höfunda vísindagreinar um rannsóknina. „Þessar niðurstöður renna stoðum undir kenningar Bergsveins Birgissonar, Bjarna F. Einarssonar og fleiri, um að ásókn í rostunga og fleiri sjávardýr kunni að hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki landnámi Íslands.“
Niðurstaðan var fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 34 tönnum, beinum og hauskúpum rostunga, fundnum á Íslandi. Beinin reyndust 800-9.000 ára gömul.
Niðurstaðan kyndir að mati vísindamannanna undir kenningar um að upphaflega hafi Ísland verið einhvers konar útstöð eða verstöð veiðanna, jafnvel í langan tíma áður en menn settust hér endanlega að. „Útdauði íslenska rostungsstofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld.“
Skögultennur rostunga voru álitin gersemi. Þær voru fílabein norðurslóða. Dæmi um nýtinguna eru hinir einstöku taflmenn frá Ljóðhúsum en talið er að þeir hafi verið skornir út á Íslandi af Margréti hinni högu í smiðju Páls Jónssonar biskups á Skálholti 1180-1200.
Ýmiskonar örnefni á Íslandi hafa lengi bent til að hér hafi rostungar verið algengir. Rosmhvalanes á Reykjanesi er dæmi þar um en rosmhvalur er gamalt heiti á rostungi. Og allt sem heitir hvallátur, hvar sem það kann að vera á landinu, virðist ekki tengjast hvölum, enda fara þeir ekki í látur, heldur rostungum (sem eru reyndar selir en ekki hvalir). „Þessi nöfn benda til þess að þarna hafi reglulega komið rostungar,“ segir Edda Elísabet um örnefnin.
Rostungsveiðar eru enn stundaðar en í litlum mæli og helst af frumbyggjum í nágrenni búsvæða þeirra. Hvítabirnir veiða líka rostunga. Hvorug þessara veiða er þó þeirra helsta ógn í dag.
„Búsvæðaeyðing, hop íssins, er þeirra megin ógn,“ segir Edda. Þegar ísinn brotnar upp reki flekana út á meira dýpi sem henti ekki rostungum. „Þeir eru þegar farnir að tapa gífurlegum búsvæðum og farið er að þrengja verulega að þeim.“ Þeirra lífsferill krefst þess að komast upp á ísinn, til dæmis þegar kemur að því að kæpa. En þar sem ísinn er minni, líka yfir veturinn, fara þeir meira upp á land og þurfa oft að fara mjög langar vegalengdir til að komast í æti.
Þetta getur haft skelfilegar afleiðingar. Þeir fara á land, jafnvel upp á kletta og eiga svo í vandræðum með að komast til baka. Þeir steypast fram af og drepa sig. „Því þarna eru þeir í mjög óvenjulegum aðstæðum.“
Frá því á haustin og fram á vetur fara rostungar gjarnan á flakk, aðallega ungu karldýrin. Þeir yfirgefa þá ísinn sem er farinn að fikra sig lengra út á haf og leita að strandsvæðum til að dvelja á. Einn og einn þeirra fer lengra en vanalega og Valli er gott dæmi um það. Hann stakk sér til sunds af bryggjunni á Höfn í morgun og hefur ekki sést síðan. Það er ekki óvænt, þeir fáu rostungar sem hingað koma hafa hér yfirleitt stutta viðdvöl.
En hvernig ratar Valli heim?
„Þekkt er að rostungar eru í miklum hljóðsamskiptum sín á milli,“ útskýrir Edda Elísabet. „En við þekkjum ekki öll svörin við þeirri spurningu hvernig þessi stóru sjávarspendýr rata.“
Það sé þó mjög líklegt að þau nýti hafstrauma, skynji hvort straumur sé sterkur eða veikur, kaldur eða hlýr og hversu saltur hann er. Þannig nýta þau líklega allt í senn; lykt, bragð og hljóð. „Við vitum ekki nákvæmlega hvaða vísbendingar rostungarnir nota úr sínu umhverfi en þær eru alveg örugglega fleiri en ein. Svo er alltaf þessi spurning hvort þeir og önnur sjávarspendýr séu með einhverja segulskynjun.“
Eddu finnst það „ótrúlega merkilegt“ að Valli hafi farið alla leið til Írlands og jafnvel lengra. „Það sýnir okkur sundgetu þessara dýra fyrst og fremst. Ég hef fulla trú á því að hann muni komast leiðar sinnar. Komast aftur heim. Ég vona að hann haldi áfram norður á bóginn og finni sér strandsvæði við Svalbarða eða Grænland. Núna er veturinn fram undan hjá honum og hann þarf að komast á einhverjar góðar fæðulendur.“
Rostungurinn vakti vitaskuld athygli á bryggjunni á Höfn og fólk vildi nálgast hann. Og láti hann aftur sjá sig, hvað í hans atferli þarf að hafa í huga?
„Það er bara þessi sama regla og á við um öll villt dýr: Ekki fara of nálægt. Og ekki reyna að klappa þeim. Aldrei.“ Eddu finnst skiljanlegt og jákvætt að fólk hafi viljað berja þennan sjaldgæfa gest augum. „En það þarf að passa sig að sýna dýrinu ekki neina ógnandi tilburði, til dæmis er gott að fara niður á hækjur sér og fikra sig í átt að honum. Þetta eru forvitin dýr sem eru fljót að bregðast við því sem er ókunnugt. Hávaði, hraðar hreyfingar og fleira stressar þau.“
Mannfólk er líka forvitið í eðli sínu og þess vegna er eðlilegt að vilja koma og sjá, segir Edda. Það sé jákvætt að fólk vilji fræðast. „En við þurfum þá að fara varlega og muna að sýna villtum dýrum alltaf gífurlega mikla virðingu“.
Það er nokkuð víst að Valli var þreyttur er hann hlammaði sér á bryggjuna. Hann hafði synt nokkur hundruð kílómetra. „Og það að hann þurfti að hvíla sig – það er mikil ástæða fyrir því. Það er ekki af því að hann sé latur,“ segir Edda.
Rostungar læra hver af öðrum og í dag er það auðvitað ekki lengur í minni þeirra að fara að Íslandsströndum. Tugir ef ekki hundruð kynslóða hafa ekki haft hér reglulega viðveru.
En getum við átt von á því að hingað flækist fleiri rostungar í framtíðinni?
„Það kæmi mér ekki á óvart,“ svarar Edda. „Þegar að þeirra heimalendur eru að brotna upp, bráðna, þá þurfa þeir að finna sér ný svæði.“
Hún yrði því ekkert „gífurlega hissa“ ef það yrðu tíðari komur rostunga í framtíðinni þótt margir þættir spili þar inn í. „Þannig þróast útbreiðsla dýra. Ef umhverfið breytist þurfa þau að fara í leit að nýjum svæðum.“
Það verði þó að hennar mati að teljast ólíklegt að hinn ungi Valli komi hingað aftur með vini sína eða afkvæmi til að „setjast“ að.