EPA verksmiðja mengun loftslagsmál  h_51920965.jpg
EPA

„Við skulum ekki halda að vandamálið leysist af sjálfu sér án róttækra, tafarlausra breytinga“

Á Íslandi er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa sú mesta í Evrópu. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir stjórnvöld þurfa að stíga sterkar inn en þau hafa gert hingað til. Alþingiskosningar hafi aldrei verið mikilvægari en í ár. Formaður Ungra umhverfissinna segir taflausra breytinga þörf og nauðsynlegt að Ísland setji sér metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun.

Í síð­asta mán­uði kom út nýjasta skýrsla milli­ríkja­nefndar Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­breyt­ingar (IPCC). Skýrslan dregur upp dökka mynd af stöðu lofts­lags­mála og sagði António Guterres, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­ein­uðu þjóð­anna, skýrsl­una vera „rauða aðvörun fyrir mann­kyn­ið“. Hlýnun jarðar hefur nú þegar farið yfir 1,2°C og að öllu óbreyttu mun mark­miðið Par­ís­ar­sátt­mál­ans um að halda hlýnun and­rúms­lofts­ins undir 1,5°C fyrir árið 2100 renna úr greipum á innan við 5 árum. Þrátt fyrir svart­sýna spá er enn mögu­leiki á að snúa við þró­un­inni ef gripið er til rót­tækra aðgerða.

Lofts­lags­mark­mið Íslands

Stjórn­völd hafa nú þegar skuld­bundið sig til að takast á við lofts­lags­breyt­ingar með aðild að Par­ís­ar­sátt­mál­an­um. Til að ná mark­miðum sátt­mál­ans hafa ríki sett sér sjálf­stæð mark­mið um sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda fram til árs­ins 2030. Árið 2015 skil­aði Ísland, í sam­floti með Nor­egi og aðild­ar­ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins, inn lands­fram­lagi um 40% sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda árið 2030 miðað við árið 1990. Í árs­lok 2020 skil­aði Evr­ópu­sam­bandið síðan inn nýju mark­miði um 55% sam­drátt í losun og mun Ísland taka þátt með Evr­ópu­sam­band­inu að því mark­miði. Sam­eig­in­legt mark­mið Evr­ópu­sam­bands­ins, Íslands og Nor­egs þýðir að sam­an­lagt munu þessi lönd draga úr losun um 55% fyrir árið 2030 sam­an­borið við 1990. Innri reglur ríkj­anna ákvarða síðan hlut­deild og skyldur hvers rík­is. Enn er óljóst hversu miklum sam­drætti í losun Íslandi verði úthlutað sam­kvæmt nýja 55% mark­mið­inu.

Sam­eig­in­lega mark­mið ríkj­anna er þrí­skipt. Í fyrsta lagi er um að ræða hluta af losun sem er á beinni ábyrgð stjórn­valda (e. ESR – Effort Shar­ing Reg­ul­ation), undir þennan flokk falla vega­sam­göng­ur, skip, orku­fram­leiðsla, land­bún­að­ur, úrgang­ur, F-gös og önnur efni. Í öðru lagi fellur hluti los­unar á sér­stakt við­skipta­kerfi með los­un­ar­heim­ildir (e. ETS - Emission Tra­d­ing System), ​​hér er um að ræða stór­iðju, inn­an­lands­flug og flug innan Evr­ópu. Í þriðja lagi gilda sér­stakar reglur varð­andi land­notkun (e. LULUCF - Land Use, Land-U­se-Change and For­estry), það er til dæmis losun frá illa förnu landi og losun frá landi sem hefur verið ræst fram. Stjórn­völd bera í raun ein­ungis ábyrgð á sam­drætti í losun frá fyrsta flokknum (ESR) sam­kvæmt skuld­bind­ingum Par­ís­ar­sátt­mál­ans. Þetta þýðir hins vegar ekki að Ísland eigi ekki að huga að losun frá t.d. alþjóða­flugi eða stór­iðju, heldur falla þessir los­un­ar­liðir einfaldlega ekki undir beina skuld­bind­ingu ríkja.

Auglýsing

Rann­sóknir hafa bent á að þrátt fyrir upp­fært los­un­ar­mark­mið Evr­ópu­sam­bands­ins, Nor­egs og Íslands um 55% sam­drátt í los­un, er þetta mark­mið ekki nógu metn­að­ar­fullt til að vera sam­ræm­an­legt mark­miðum Par­ís­ar­sátt­mál­ans. Í ljósi þess hafa sum lönd sett sér sjálf­stæð los­un­ar­mark­mið, enda ekk­ert því til fyr­ir­stöðu. Til dæmis hefur Sví­þjóð sett sér mark­mið um að draga úr losun um 63% fyrir 2030 og Dan­mörk hefur sett sér mark­mið um að draga úr losun um 70%. Ísland hefur hingað til ekki sett sér sjálf­stætt los­un­ar­mark­mið.

Ísland losar mest

Á Íslandi er losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á hvern íbúa sú mesta innan Evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins. Árið 2019 var heild­ar­losun hér á landi fimm sinnum meiri en með­al­l­osun í ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins. Það skiptir ekki máli hvaða los­un­ar­flokk er horft til; ESR, ETS eða LULUCF, Ísland er í fyrsta sæti.

Árið 2019 var losun á hvern íbúa án LULUCF 13,1 tonn hér­lendis en 9,1 innan ESB. Þar af nam losun á beinni ábyrgð stjórn­valda (ESR) 8,1 tonni á hvern íbúa hér­lendis en 5,7 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Losun vegna þunga­iðn­að­ar, þ.e. sú losun sem fellur undir ETS kerf­ið, nam 5 tonnum á hvern íbúa hér­lendis en 3,4 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Mestu munar um losun vegna land­notk­un­ar. Heild­ar­losun með LULUCF er um 38,2 tonn á hvern íbúa hér­lendis en 8,5 tonn á hvern íbúa í ESB.

Mynd: himinnoghaf.is

Hvað skýrir mikla losun Íslands?

Stefán Gíslason Mynd: Aðsend

Stefán Gísla­son umhverf­is­stjórn­un­ar­fræð­ingur segir skýr­ing­una fyrir mik­illi losun Íslands vera mis­mun­andi eftir los­un­ar­flokk­um. Ein­fald­ast sé að skýra losun innan ETS, hún stafar ein­fald­lega af gríð­ar­lega mik­illi stór­iðju á Íslandi miðað við höfða­tölu. Fjögur til fimm stór­iðju­fyr­ir­tæki standi á bak við um 40% af heild­ar­losun Íslands án LULUCF. „Ekk­ert Evr­ópu­land kemst með tærnar þar sem við höfum hæl­ana hvað þetta varð­ar,“ segir Stef­án.

Losun innan LULUCF skýrist fyrst og fremst af því hversu hversu stórt Ísland er miðað við höfða­tölu. Með öðrum orð­um, hversu strjál­býlt landið er. „Þar bæt­ist við að gríð­ar­lega stór vot­lend­is­svæði hafa verið fram­ræst til rækt­un­ar, fyrir bygg­ing­ar­land og í ein­hverjum til­vikum í óljósum til­gangi. Fram­ræst vot­lendi á langstærsta þátt­inn í LULUCF-losun Íslands,“ segir Stef­án.

Að sögn Stef­áns er ESR-losun flókn­ust. Strjá­býli lands­ins leiði meðal ann­ars til þess að ferðir til að flytja fólk og vörur milli staða eru til­tölu­lega margar og langar og því fylgir mikil losun frá sam­göngum á landi. Byggðin er ekki bara dreifð „úti á landi“ heldur er höf­uð­borg­ar­svæðið líka dreif­býlt í sam­an­burði við flestar borgir í Evr­ópu. „Allt þetta ýtir undir mikla notkun einka­bíla, oft með einum ein­stak­lingi í hverjum bíl, og þar með mikla losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda,“ segir Stef­án.

Auglýsing

Menn­ing og hefðir skipti líka máli hvað þetta varð­ar. Stefán seg­ist halda að Íslend­ingar séu almennt nei­kvæð­ari gagn­vart umhverf­is­vænum ferða­máta en margar aðrar þjóð­ir. „Kostir einka­bíls­ins í þétt­býli virð­ast ofmetn­ir, og jafn­vel litið niður á almenn­ings­sam­göngur og reið­hjóla­notk­un.“ Hér má benda á að einka­bíla­eign á Íslandi er hlut­falls­lega sú hæsta í Evr­ópu.

Hluti af los­un­inni innan ESR skýrist einnig af stórum fiski­skipa­flota Íslands, sem leiðir líka til meiri notk­unar kæli­m­iðla (F-ga­sa) en víð­ast ann­ars stað­ar. Stefán nefnir að land­bún­aður sé til­tölu­lega stór hluti af hag­kerf­inu og þar sé mikil los­un, einkum vegna iðra­gerj­unar í sauð­fjár­rækt og naut­gripa­rækt. Þá er urðun úrgangs algeng­ari hér en í flestum öðrum Evr­ópu­lönd­um. Ólíkt mörgum Evr­ópu­þjóðum notar Ísland hins vegar end­ur­nýj­an­lega orku­gjafa til hús­hit­unar og er losun vegna orku­fram­leiðslu mun minni hér en víð­ast ann­ars staðar á hverja fram­leidda kílówatt­stund. „Á móti kemur að orku­fram­leiðsla á hvern íbúa er meiri en í nokkru öðru land­i,“ segir Stefán um losun innan ESR á Íslandi.

„Skiptir höf­uð­máli að Ísland setji sér metn­að­ar­fyllra mark­mið um sam­drátt í los­un“

Til að tak­marka hlýnun jarðar við 1,5°C þarf kolefn­is­hlut­leysi á heims­vísu að nást fyrir miðja þessa öld og heimslosun þarf að drag­ast saman um 7,6% á hverju ári fram til árs­ins 2030. Sökum sögu­legrar los­unnar er mik­il­vægt að rík­ari lönd dragi hlut­falls­lega meira úr los­un. Þannig ættu rík­ari lönd, meðal ann­ars Ísland, að draga úr losun um meira en því sem nemur 7,6% á ári. Rann­sókn And­er­son’s og félaga komst að þeirri nið­ur­stöðu að til að gæta lofts­lags­rétt­lætis þurfa rík­ari lönd að hætta alfarið notkun á jarð­efna­elds­neyti í síð­asta lagi árið 2040.

Bára Huld Beck

Tinna Hall­gríms­dótt­ir, for­maður Ungra umhverf­is­sinna, segir það skipta höf­uð­máli að Ísland setji sér metn­að­ar­fyllra mark­mið um sam­drátt í los­un. Hún segir að ef litið er til los­unar á beinni ábyrgð íslenskra stjórn­valda (ESR) ætti Ísland að setja mark­mið um 70% sam­drátt fyrir árið 2030, miðað við upp­hafs­árið 2005. Einnig þurfi að auka metnað hvað varðar sam­drátt í eft­ir­stand­andi flokkum líkt og losun frá stað­bundnum iðn­aði, flugi og land­notk­un.

Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda innan ESR, að því gefnu að Ísland þurfi að draga úr losun um 70% fram til ársins 2030.
Aðsend mynd

Er Ísland á réttri leið?

Eins og staðan er í dag á Ísland enn langt í land. Nýj­ustu útreikn­ingar Umhverf­is­stofn­unnar sýna 2% sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á milli áranna 2018 og 2019. Það er jafn­framt mesti sam­dráttur sem hefur mælst frá árinu 2012. Á milli ára dróst losun saman frá fiski­skipum og vega­sam­göng­um. Einnig náð­ist árangur í losun vegna urð­unar úrgangs. Mesti sam­dráttur var frá vega­sam­göngum sem má að hluta til rekja til fækk­unar ferða­manna í kjöl­far falls WOW-a­ir.

Sam­kvæmt bráða­birgða­tölum Umhverf­is­stofn­unar náð­ist tölu­vert meiri sam­dráttur í losun á milli árana 2019 og 2020. Töl­urnar sýna að kór­óna­veiru­far­ald­ur­inn hafði afger­andi áhrif á sam­drátt í losun á árinu en losun frá íslensku sam­fé­lagi dróst saman um 6,5%. Umhverf­is­stofnun býst við því að losun vegna umferðar auk­ist á ný á þessu ári vegna auk­ins ferða­manna­straums.

Stefán segir að vissu­lega sé vís­bend­ing um að Ísland mjak­ist í rétt átt hvað varðar sam­drátt í los­un. „Ljóst er þó að Íslandi tókst ekki að standa við skuld­bind­ingar sínar á síð­ara skuld­bind­inga­tíma­bili Kyoto-­bók­un­ar­inn­ar, sem lauk árið 2020.“

Stefán bendir á að jafn­vel þótt Íslandi tak­ist að standa við skuld­bind­ingar sínar hvað varðar losun á beinni ábyrgð stjórn­valda (ESR) geti heild­ar­losun hér­lendis samt auk­ist. „Ábyrgð­inni á losun fyr­ir­tækja innan ETS er nefni­lega ekki skipt á milli landa í þessu sam­komu­lagi, heldur er stefnt að því að heild­ar­losun innan ETS drag­ist saman um ákveð­inn hund­raðs­hluta. ETS-losun á Íslandi gæti því hugs­an­lega vax­ið, svo fremi sem hún dregst saman í öðrum EES-lönd­um,“ segir Stef­án.

Auglýsing

Stjórn­völd þurfi að stíga sterkar inn í

Stefán segir tæki­færin til að draga úr losun frá Íslandi liggja víða. Brýnt sé að grípa til aðgerða til að bæta land­notk­un, fækka olíu­kíló­metrum og skipta yfir í kolefn­issnauða orku­gjafa bæði í sam­göngum á landi og sjó. Meðal auð­veld­ustu aðgerð­anna sé að hætta urðun úrgangs, sér­stak­lega líf­ræns úrgangs af öllu tagi. „Þar eru í raun engar hindr­an­ir, hvorki hvað varðar tækni né þekk­ingu. Hins vegar hefur skort skiln­ing og vilja“ segir Stef­án.

„Hverjar sem aðgerð­irnar eru er nauð­syn­legt að ráð­ast í þær sem allra fyrst, nánar til­tekið strax.“

Stjórn­völd þurfi að stíga miklu sterkar inn heldur þau hafa gert hingað til. Stjórn­völd þurfi að beita jákvæðum hag­rænum hvöt­um, þ.e. gul­rót­um, en ekki síður nei­kvæðum hag­rænum hvöt­um, þ.e. vönd­um. Hækka þurfi skatta á upp­sprettur los­unar og nota fjár­magnið sem þannig fæst til að styðja við lofts­lagsvænar fram­far­ir. „Einnig þarf að beita boðum og bönn­um, svo sem með því að flýta banni við nýskrán­ingu púströrs­bíla, tak­marka inn­flutn­ing jarð­elds­neytis ár frá ári og banna hann alfarið við fyrstu hent­ug­leika,“ segir Stef­án.

„Kosn­ing­arnar hafa aldrei verið mik­il­væg­ari“

Tinna Hallgrímsdóttir Mynd: Nína Kristín Guðmundsdóttir

Að sögn Stef­áns hafa alþing­is­kosn­ingar aldrei verið mik­il­væg­ari en í ár. Umræðan um lofts­lags­mál hefur verið áber­andi í kosn­inga­bar­átt­unni og hafa þó nokkrir flokkar sett skýr los­un­ar­mark­mið í stefnu­skrá sína. Tinna segir nauð­syn­legt að Ísland setji sér metn­að­ar­fyllra mark­mið um sam­drátt í los­un. „Einnig er nauð­syn­legt að lög­festa slíkt markið til að tryggja að það raun­ger­ist, sem og upp­færa aðgerð­ar­á­ætlun í sam­ræmi við það,“ segir Tinna.

Sam­kvæmt stefnu­skrá flokk­ana vilja bæði Sam­fylk­ingin og Vinstri Grænir lög­festa lofts­lags­mark­mið um a.m.k. 60% sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda fyrir árið 2030, Píratar vilja auka metnað Íslands um sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda upp í 70%. Við­reisn vill einnig að losun á beinni ábyrgð Íslands drag­ist saman um 60% árið 2030 miðað við 2005.

Stefán telur stjórnmálaflokka hafa mun skýrari stefnu í loftslagsmálum í ár en áður. „Einfaldlega vegna þess að frambjóðendur hafi áttað sig á að þetta sé eitthvað sem skipti kjósendur máli.“
Birkir Þór

Ungir umhverf­iss­inar rýndu í stefnur flokk­ana fyrir kom­andi alþing­is­kosn­ingar og gáfu þeim ein­kunn í kjöl­far­ið. Tinna segir kvarð­ann tví­mæla­laust hafa haft áhrif á áherslur flokk­anna þegar kemur að lofts­lags­mál­um. „Með kvarð­anum köll­uðum við m.a. eftir tölu­settum metn­að­ar­fullum mark­miðum sem og útfærslum á því hvernig ætti að ná þeim og sáum við það raun­ger­ast í stefnum margra flokka.“

Stefán tekur undir þetta og telur flokk­ana hafa mun skýr­ari stefnu í lofts­lags­málum í ár en áður. „Ein­fald­lega vegna þess að fram­bjóð­endur hafi áttað sig á að þetta sé eitt­hvað sem skipti kjós­endur máli,“ segir Stef­án.

Tinna segir gluggan til að snúa við þró­un­inni í lofts­lags­málum enn vera opinn, en hann verður það ekki lengi í við­bót. „Það er von en við skulum ekki halda að vanda­málið leys­ist af sjálfu sér án rót­tækra, taf­ar­lausra breyt­inga. Við erum í þess­ari stöðu vegna ófull­nægj­andi aðgerða und­an­farna ára­tugi og það þarf átak til að snúa af þeirri braut.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar