Vinstri græn vilja ganga lengra: Opinberir aðilar virki vindinn á röskuðum svæðum
Ýmsar játningar voru gerðar af hálfu tveggja þingmanna Vinstri grænna á fundi um vindorkuver sem haldinn var í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þeir greindu frá sýn sinni og flokksins á virkjun vindsins, svöruðu spurningum um hvort þyrfti í reynd meira rafmagn og hvenær íbúar sem berjast gegn vindmyllum geti andað léttar.
Það var viðeigandi, nánast táknrænt, að fundur þingmanna Vinstri grænna og oddvita þeirra í Borgarbyggð færi fram í Landnámssetrinu í Borgarnesi í síðustu viku. Undir rjáfri í einu elsta húsi bæjarins, í safni þar sem rakin er sagan af landnámi Íslands.
Á þessum slóðum gæti nefnilega nýtt landnám verið í uppsiglingu. Fyrirtæki, sem öll eru í meirihluta eigu erlendra aðila, geysast nú fram á völlinn og vilja reisa vindorkuver á heiðum, fjöllum og í dalbotnum á Vesturlandi. Hafa kynnt áform sem íbúum í nágrenni þessara risamannvirkja hugnast flestum alls ekki. Sem þeir óttast að landslög nái ekki að stöðva. Að sveitarstjórnir muni ekki „standa í lappirnar“ og ná að verjast „áhlaupi lukkuriddara“ sem fari nú um héruð og „mígi utan í hverja þúfu og hvern stein“. Helgi sér land. Allt í nafni loftslagsaðgerða.
„Við reynum að standa vaktina eins og við mögulega getum,“ sagði Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, á fundinum.
Þörf á ró
„Ég tel mikilvægt að íbúar hér og annars staðar geti farið að finna fyrir svolítilli ró, að niðurstaða komist í þessi mál. Að stefnan sé skýr – hún er það ekki eins og staðan er núna,“ sagði Thelma Harðardóttir, oddviti VG í Borgarbyggð. „Þetta er farið að valda rosalega miklu tjóni nú þegar. Fólk fer ekki í framkvæmdirnar sem það ætlaði sér, það er að flytja frá þessum svæðum vegna þess að það sér ekki fyrir sér að þessi mál leysist hratt og vel.“
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði rétt að það vanti skýra stefnu og sýn. Að um það hafi verið rætt að ef skorður yrðu ekki settar á vindorkunýtingu þá færu málin í sama farveg og þegar sjókvíaeldi hófst við landið og löggjöfin var ekki til staðar. „En ég held að það sé enginn vilji til þess að hlutirnir fari þá leið. Hins vegar eru mörg teikn um að við séum á þeirri leið. Og það viljum við ekki sjá.“
Loftið fyrir ofan veitingastaðinn í Landnámssetrinu er þétt setið undir orðum stjórnmálamannanna þriggja. Aðeins nokkrum dögum áður höfðu fyrirtæki sem hyggja á virkjun vindsins á Vesturlandi kynnt áform sín á fundi í Borgarnesi sem einnig var vel sóttur.
Það er óhætt að segja að sá fundur hafi markað ákveðin kaflaskil í umræðunni því í kjölfar hans gerðist m.a. tvennt: Andstæðingar vindorkuvera stofnuðu með sér óformlegu samtökin Mótvindur Ísland á Facebook og Orri Páll kvað sér hljóðs á Alþingi þar sem hann gagnrýndi það að formaður starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um áskoranir í orkumálum, Vilhjálmur Egisson, skyldi horfinn til starfa fyrir vindorkufyrirtækin og halda á lofti „öfgafyllstu“ sviðsmyndinni um orkuþörf sem dregin var upp í skýrslu hópsins, grænbókinni svokölluðu.
Tillögur sem ekki náðu fram að ganga
Á fundinum í Landnámssetrinu rifjaði Orri Páll upp að á síðasta kjörtímabili hefði umhverfisráðherra Vinstri grænna lagt fram tillögur að breytingum á lögum á rammaáætlun með það að markmiði að ná utan um fyrirkomulag vindorku. „Þau náðu ekki fram að ganga,“ sagði hann. „Því miður.“
Þær tillögur byggðu á skoskum hugmyndum þar sem landinu yrði skipt upp í svæði eftir því hvar teljist fýsilegt og ásættanlegt – eða hvorki fýsilegt né ásættanlegt – að reisa vindorkuver. „Þetta var gagnrýnt,“ sagði Orri, „enda vilja sum vinna að málinu á þeim forsendum einum að hraða uppbyggingunni. Og gott og vel. Sum eru þar. Við erum ekki alveg öll þar. Heldur viljum við skýrt og klárt regluverk þegar kemur að þessu.“
Í sumar setti Guðlaugur Þór Þórðarson núverandi umhverfisráðherra, sem reyndar er einnig ráðherra orku- og loftslagsmála, líkt og Orri undirstrikaði, á fót starfshóp sem á að skila tillögum um vindorkunýtingu í síðasta lagi 1. febrúar. Í framhaldi af því hyggst ráðherrann leggja fram frumvarp á Alþingi í vor. „Þannig að við erum ekki að fara að sjá þetta regluverk klárað alveg á næstu mánuðum,“ sagði Orri. „En,“ bætti hann við, „við erum með stoppara á að hægt sé að hefja uppbyggingu því það er alveg skýrt og alveg klárt og hamrað var á því í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar að vindorkan, eins og staða er í dag, heyrir undir rammaáætlun. Það er þannig.“
Bjarni sagði vindorkumálin hafa komið „algjörlega á 120 [kílómetra hraða] í andlitið á okkur. Það er hafið kapphlaup núna um að sölsa undir sig jarðir, svæði eða réttindi til að skapa sér stöðu. Og það er að gerast á ógnarhraða.“
Bad boys
Hann telur að ástæðan sé ekki sú að „öllum sé svo ofboðslega umhugað um það að bjarga okkur í orkuskiptum á Íslandi“ heldur sé verið að horfa til lengri framtíðar – að geta tengt sig við Evrópu „og síðan eigi Ísland í raun og veru að verða aflgjafi fyrir þau lönd“. Hann sagði slíkt vissulega geta verið fallega hugsun en að Íslendingar geti ekki lagt allt land sitt undir til að aðrar þjóðir komist hjá því að taka á sínum málum.
„Loftslagsumræðan á Íslandi, eins og hún hefur verið að undanförnu, er umræða án þess að náttúruvernd sé nefnd í sömu andrá,“ sagði Bjarni. „Þetta er loftslagsumræða án náttúruverndar. Ég heyri þetta aftur og aftur í þinginu, í samfélaginu, að það sé öllu fórnandi fyrir orkuskipti og loftlagsaðgerðir, að „bad boys“ séu jafnvel komnir í þá stöðu að vera að gera gagn með öllum þeim skaða sem það myndi mögulega valda á náttúru.“
Gullgrafaraæði
Honum þætti áhyggjuefni að við værum að missa niður áratuga langa vinnu við verndun vistkerfa. Með loftslagsvánni „væri farið að hlaupa þennan veg“, að reyna að komast eins langt og hægt væri áður en ráðrúm gefist til að koma upp regluverki og umgjörð. „Alveg eins og var með sjókvíaeldið, norska laxinn. Það var keyrt áfram til að ná svæðum áður en til yrði regluverk til að takast á við það eða skipuleggja það.“ Grullgrafaraæði hafi skapast. „Þannig að það reynir á það á næstu vikum og mánuðum að standast þetta áhlaup. Ég held að við þurfum að vera svolítið töff til vors.“
Fimm ára barátta
Meðan fundargesta var Steinunn Sigurbjörnsdóttir. „Ég er vestan úr Dölum og er að halda upp á fimm ára afmæli þessarar baráttu um þessar mundir.“ Baráttan snýr að áformuðu vindorkuveri á jörðinni Hróðnýjarstöðum og hafi tekið mikla orku af þeim sem að henni standa. „Þið segið að það sé alveg klárt að það fari ekkert af stað,“ sagði hún en rifjaði upp að sveitarstjórn Dalabyggðar hefði nú þegar fært hið áformaða orkuver inn á aðalskipulag. „Ég hef enga ástæðu til að halda að þau láti staðar numið hérna. Á hvaða stigi yrði það stoppað?“
Orri Páll svaraði með tilvísun í sjókvíaeldið. Að vindorkan væri hið „nýfundna silfur“ og menn farnir að „míga hér utan í hvern einasta stein“. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til þess að hugmyndir um vindorkuver séu uppi um allt land og á skala sem við höfum aldrei séð áður. „Ásóknin er gífurleg.“
Sveitarstjórnir hefðu vald til að breyta skipulagi en hins vegar, eins og staðan er í dag, enga heimild til að veita framkvæmdaleyfi fyrr en viðkomandi orkukostur hafi hlotið afgreiðslu Alþingis í nýtingarflokk rammaáætlunar.
Ítarlegur stjórnarsáttmáli
Orri Páll vakti athygli á því að stjórnarsáttmáli Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks væri sá ítarlegasti sem hefði verið skrifaður. Sagðist hann telja slíkt nauðsynlegt þegar ólíkir flokkar komi að myndun meirihluta. Í honum væri áhersla lögð á sátt um nýjar virkjanir og að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum, nærri tengivirkjum og flutningslínum. „Við viljum ganga lengra í VG og segja: Á röskuðum svæðum þar sem eru miðlunarlón. [...] Þannig að við séum að horfa til þess að þetta sé gert á svæðum sem sannarega er búið að raska.“
Benti hann á tvo vindorkukosti sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar og falla að þessum sjónarmiðum; Blöndulund og Búrfellslund – sem báðir eru á forræði Landsvirkjunar. Fyrirtækis „sem við eigum öll saman af því að við erum að horfa til þess að sameignin okkar sæki í þá auknu orku sem þarf að sækja“.
Hreinskilnislega þá þurfi hins vegar að herða á stefnu VG. „En það er held ég alveg skýrt hvar landið liggur í því. Við viljum ekki ráðast inn í óraskað land miðað við þann púls sem ég hef tekið á mínum félögum.“
Ekki allt á vonarvöl
Bjarni sagði VG líka leggja áherslu á að orkuauðlindin væri í eigu þjóðarinnar og að sett yrðu auðlindagjöld á nýtinguna, „þannig að það geti ekki komið lukkuriddarar hingað og þangað og slegið eign sinni á hana. Erlendir aðilar með leppa á Íslandi, einhverjir agentar með tengsl við stjórnmálaflokka og slíkt“.
Orri sagði að þar sem loks hefði tekist að afgreiða þriðja áfanga rammaáætlunar í vor væri „alls ekki allt á vonarvöl“ í virkjanamálum líkt og sumir vildu meina. Í þeim áfanga væru í nýtingarflokki virkjanir í vatns- og vindorku og jarðvarma.
Íslendingar stæðu öðrum þjóðum framar í orkuskiptum og hér væri framleidd mesta orka í heiminum á hvern einstakling. „Við þurfum því aðeins að anda ofan í kviðinn og átta okkur hversu mikla orku við ætlum að ná í umfram það sem við erum að ná í dag.“ Ræða þurfi hvort einhver hluti þeirrar orku sem aflað sé í dag og ráðstafað til stóriðju geti hugsanlega farið í það sem þurfi í almannaþágu – til að mæta fólksfjölgun og orkuskiptum. „Þetta er umræða sem við höfum ekki tekið. Og er ekki tekin fyrir í þessari skýrslu,“ sagði Orri og veifaði grænbók Vilhjálms Egilssonar.
„Þurfum við meira rafmagn? Já, ég held að við þurfum meira rafmagn. Ég er bara ekki endilega viss um að við þurfum að afla þess alls með því að brjóta nýtt land.“
Að berjast með berum hnefum við stórfyrirtæki
„Ég ætla að klappa fyrir þessu,“ sagði rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir og margir tóku undir. Hún á rætur í Norðurárdal þar sem vindorkuver er áformað. Líkt og fleiri fundarmenn vakti hún máls á þeirri löngu, tímafreku og ströngu baráttu sem íbúar þyrftu að standa í. „Mér finnst svo galið að við erum svo mörg sem þurfum á endanum að æða út á tún með bera hnefana til að berjast við stórfyrirtæki úti í heimi.“ Sveitarstjórnir ættu erfitt með að verjast enda oft fjárþurfi og þá væri „ótrúlega auðvelt að lyppast niður undan ofurvaldinu“.
Friðrik Aspelund sagðist hafa það á tilfinningunni að það væri meirihluti á Alþingi fyrir því „að leyfa bara þessari holskeflu að brotna yfir okkur“. Trúlega væri vera Vinstri grænna í ríkisstjórn það sem komið hafi í veg fyrir það hingað til. „En hversu lengi getum við staðið það af okkur? Hversu sterkt er þetta ríkisstjórnarsamstarf hvað þetta varðar eða hversu tæpt?“
Ekki tilbúin í hvað sem er
Orri sagði það iðulega „æsispennandi spurningu“ hvort að ríkisstjórnarsamstarfið héldi. Hann hefði hins vegar ekki áhyggjur af öðru, hingað til hefði gengið vel að halda í ríkisstjórnarsáttmálann.
„Við þurfum að reyna að komast áfram með það að það verði til einhver stefna, eitthvert regluverk og að við náum einhvern veginn að standast þetta áhlaup og lenda þessu inn í eitthvað skynsamlegra,“ sagði Bjarni. „En við erum ekkert tilbúin í hvað sem er í því ef pressan verður of mikil annars staðar frá. Auðvitað stöndum við á okkar megin prinsippi í því, ég á ekki von á öðru.“
Það er algjörlega skýrt, að mati Orra Páls, að það verður ekki reist vindorkuver við núverandi „regluverkslausar aðstæður“ nema að kostirnir færu í gegnum rammaáætlun. Hins vegar sé vilji til þess að einfalda regluverkið líkt og fram komi í stjórnarsáttmála. „Og við munum auðvitað standa á vaktinni í því hvernig tillögurnar verða þar til einföldunar.“ Því ákveðnar spurningar vakni: „Til einföldunar fyrir hvern? Fyrir fjársterka aðila sem koma utan úr heimi? Eða til að greiða hraðar fyrir orkuskiptum?“
Með ólíkindum væri hversu langt „kapítalinu“ hefði verið leyft að „vaða áfram“ í þessum efnum. „Ég er mjög ósammála þessu og geri allt hvað ég get til að spyrna fótum við í því. En það er sannarlega erfitt á meðan á því stendur. Ég tek alla mína hatta ofan af fyrir fólki sem að berst með kjafti og klóm í sjálfboðavinnu við það að reyna að verjast þessu“.
Fundarstjórinn Bjarki Þór Grönfeldt spurði hvort að til greina kæmi að fela Landsvirkjun einni vindorkuframkvæmdir.
Bjarni vísaði í svari sínu til orða Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna og forsætisráðherra, sem hefði bent á hversu mikil gæfa það væri að öðrum stjórnmálaflokkum hefði ekki tekist að selja Landsvirkjun. Það hafi verið stefna og sýn VG að opinber framkvæmdaaðili stæði að þessum framkvæmdum, „að því marki og eins langt og við komumst með það“.
Orri segist ágætur í landafræði
En myndu vindorkuverin í Norðurárdal, í Hvalfirði og Dölunum rísa miðað við stefnu VG? „Í stjórnarsáttmála segir að vindorkuver eigi að byggjast upp á afmörkuðum svæðum, það er eitt, nærri tengivirkjum, það er annað, og flutningslínum. Það er þriðja,“ sagði Orri. „Ef eitthvað af þessum hugmyndum sem eru hér uppfylla allar þrjár kríteríur þá má kannski reyna að færa rök fyrir því. Ég veit það ekki, ég er ágætur í landafræði en ég tel þetta ekki uppfylla það.“
Hvað varði hans persónulegu sýn á áformin á Vesturlandi hefði hann helst óskað þess „að menn hefðu sig bara hæga“ þar til botn fæst í útfærslu regluverksins og áður en „menn fara að sjá fyrir sér einhverja drauma eða að bera hér víur í fólk með alls kyns hugmyndum“.
Þekkt væri að virkjanaáform kljúfi samfélög. „Og ég neita að trúa því að við séum ekki komin lengra í skilningi árið 2022 að við ætlum að hleypa þessu áfram þangað. Og mikil er ábyrgð þeirra sem leika heilu samfélögunum með þessum hætti.“
VG sjái um umhverfismálin
Telja má víst að flestir þeirra sem mættu á fundinn í Landnámssetrinu hafi verið stuðningsmenn Vinstri grænna. Á því voru þó undantekningar og ein þá sérstaklega.
„Ég átti nú fyrr von á dauða mínum en að ég lenti á fundi hjá Vinstri grænum,“ sagði Ágúst Jónsson. „Ég kem úr annarri átt í pólitík. En ég hef alltaf ætlast til þess að Vinstri grænir sjái vel um umhverfismálin.“
„Ég ætla bara að bjóða Ágúst velkominn í flokkinn,“ sagði Bjarki Þór fundarstjóri og fékk alla viðstadda til að hlæja dátt. Ágúst sagðist ekki stefna á það en að hann „ætlaðist til að Vinstri grænir sjái um þennan hluta af þjóðfélaginu“.
„En þá verður þú að kjósa flokkinn!“ sagði þá einn fundarmanna.
Orri sagði VG finna til ábyrgðar sinnar í umhverfismálunum. „En það væri líka ósköp gott að fá meiri stuðning við að geta staðið í lappirnar. Vegna þess að við erum jú bara átta [þingmenn].“
Hvenær verður hægt að anda léttar?
En er eitthvað í þeirri vinnu sem nú stendur yfir á Alþingi varðandi vindorkumálin „sem mun verða til þess að við getum andað léttar, að fólk þurfi ekki að standa í þessari endalausu baráttu?“ spurði einn fundargesta.
Málið er hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra en „mér finnst það afar bratt ætlað hjá honum að koma frumvarpi inn í þingið í vor,“ svaraði Orri. Um „rosalega langan veg“ væri fyrir frumvarpið að fara þar til það kæmi til þingsins. „Það getur vel verið að það nái fram að ganga en við skulum sjá til hvort það klárist í vor eða ekki. Það á eftir að koma í ljós. Og þýðir það að þið getið andað léttar? Nei, ég held ekki. Því það verður kannski ekkert hægt að anda léttar fyrr en þetta regluverk liggur fyrir.“
Áhyggjur af framtíð Skipulagsstofnunar var viðruð af fundargesti. Sá óttaðist að til stæði að setja hana inn í „ruslakistustofnunina“ Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og veikja þannig eftirlit með mannvirkjagerð. Hið nýja innviðaráðuneyti væri farið að breiða verulega úr sér.
Orri minnti á að Skipulagsstofnun starfar á grundvelli laga og verði ekki lögð niður eða breytt nema með lagasetningu. Hann sagðist því ekki deila þessum áhyggjum. Hann hefði hvergi fengið það staðfest að þetta standi til „en ég hef alveg heyrt þetta, ég viðurkenni það“.
Og fleiri játningar fylgdu í kjölfarið.
„Ég skal alveg viðurkenna það að ég var ekkert ofboðslega skotinn í þessum breytingum,“ sagði Bjarni og vísaði til stofnunar innviðaráðuneytisins.
Er búið að lofa einhverju?
Kristín Helga sagði virkjunaraðila þegar hafa ráðist í fjárfrekan undirbúning að sínum verkefnum. „Eru þeir að gera þetta út í bláinn eða er einhver búinn að lofa einhverju einhvers staðar?“
Bjarni sagðist ekki vita til þess. „Ég vona ekki. En það eru örugglega alls konar væntingar í gangi.“
Hann sagði að fara þyrfti varlega í sakirnar en ekki framúr okkur eins og gerðist hvað varðar fiskeldið. Úr slíkri stöðu væri erfitt að stíga til baka. „Okkur liggur ekkert á.“
Orri Páll minnti á auðlindir í eigu þjóðarinnar og sagði: „Vindurinn er okkar.“