Sunna Ósk Logadóttir Lukkuriddarar Mynd: Sunna Ósk Logadóttir
Sunna Ósk Logadóttir

„Lukkuriddararnir“ í bakgarðinum

Þrír fyrrverandi þingmenn, fjögur erlend stórfyrirtæki, félag í eigu svokallaðs hrunverja og fólk úr sveitum Vesturlands koma við sögu í frásögn Sunnu Óskar Logadóttur af fundi þar sem vindorkufyrirtæki kynntu áform sín. „Við viljum þetta ekki,“ sagði fundargestur. Allir þurfa „að taka á sig“ að fá vindmyllur nálægt sér, sagði Vilhjálmur Egilsson, formaður grænbókarnefndarinnar, sem er kominn í verkefni fyrir orkufyrirtækin.

Raustin var brýnd, augun hvesst og það allt að því glóði af rauðum kinnum á hita­fundi um áformuð vind­orku­ver á Vest­ur­landi sem fram fór í Borg­ar­nesi í síð­ustu viku. Virkj­un­ar­að­ilar töl­uðu um fjár­fest­ing­ar, lofts­lags­vá, kolefn­is­hlut­laust ál og gíga­vatts­stundir en minnt­ust fáum, ef nokkrum, orðum á íslenska nátt­úru og sam­fé­lög fólks­ins í sveit­unum þar sem þeir vilja vind­virkj­anir sín­ar. „Mér finnst eins og það hafi verið ráð­ist á mig,“ sagði kona búsett í Norð­ur­ár­dal hrygg í bragði. Hún líkt og nær allir sveit­ungar hennar vill ekki orku­ver.

En, segja virkj­un­ar­að­il­arn­ir, vegna háleitra mark­miða íslenskra stjórn­valda í lofts­lags­mál­um, og öllum heim­inum til heilla, þurfa „allir að taka það á sig, með einum eða öðrum hætti, að fá vind­myllur ein­hvers staðar nálægt sér og sjá vind­myll­ur,“ líkt og Vil­hjálmur Egils­son orð­aði það á fund­inum sem fram fór í menn­ing­ar­hús­inu Hjálma­kletti.

Fjögur vind­orku­fyr­ir­tæki, Qair, Zephyr, EM Orka og Haf­þórs­stað­ir, sem öll áforma vind­virkj­anir á Vest­ur­landi, réðu Vil­hjálm til kynn­ing­ar­starfa fyrir verk­efni sín undir hatti sam­taka sem þau kalla Vest­an­átt. Og það var Vest­an­átt – „versta átt­in“ eins og ein­hverjir fund­ar­manna hvísl­uðu sín á milli – sem boð­aði til fund­ar­ins.

Vil­hjálm­ur, sem er fyrr­ver­andi rektor á Bif­röst, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­taka atvinnu­lífs­ins og fyrr­ver­andi þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins – og elli­líf­eyr­is­þegi, eins og hann sjálfur kall­aði sig – stýrði fund­in­um. Hann hafði fram­sögu um lofts­lags­vá­na, vitn­aði ítrekað í græn­bók­ina, skýrslu sem unnin var af starfs­hópi umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyt­is­ins í byrjun árs, sem hann sagði sýna að það yrði að virkja mik­ið, tvö­falda orku­fram­leiðsl­una og rúm­lega það. Og byrja sem fyrst.

Þetta er bókin hans Vil­hjálms. Hann var for­maður starfs­hóps­ins. En nýtir nú þá þekk­ingu og reynslu sem hann afl­aði sér til að aðstoða vind­orku­fyr­ir­tækin í kynn­ing­ar­mál­um. Spurn­ingar um flutn­ing Vil­hjálms yfir borð­ið, frá starfi í þágu rík­is­stjórn­ar­innar til starfa hjá hags­muna­að­il­um, vökn­uðu á fund­in­um.

En fyrst gerð­ist þetta:

Fund­ar­gest­ur: „Eiga fund­ar­menn ekki kost á að spyrja á eftir hverju erind­i?“

Vil­hjálm­ur: „Ekki á eftir hverju en á eftir ...“

Gest­ur: „Er þá nokkur ástæða til að sitja hérna ef við megum ekki spyrj­a?“

Vil­hjálm­ur: „Þú mátt spyrja sko!“

Vilhjálmur Egilsson flytur erindi á kynningarfundinum. Á tjaldið varpaði hann m.a. setningum úr grænbókinni, máli sínu til stuðnings.
Sunna Ósk Logadóttir

Kaffi­ilmur lið­ast um loftið í þétt­setnum saln­um. Þrátt fyrir að flest séu vön að sleppa koff­ín­n­eyslu á þessum tíma sól­ar­hrings er bið­röð í kaffi­könn­una. Það er langur fundur fram undan í Hjálma­kletti – fundur sem á eftir að fara í ýmsar og jafn­vel óvæntar átt­ir.

Því kaffi­angan er ekki það eina sem liggur í loft­inu. Heldur líka tor­tryggni. Tor­tryggni fólks­ins sem býr eða á sér athvarf í döl­um, í jaðri heiða eða undir fjöllum sem fyr­ir­tækin sem til fund­ar­ins boða, öll sem eitt í meiri­hluta­eigu erlendra aðila, vilja reisa vind­orku­ver á. Tíu, tutt­ugu eða þrjá­tíu vind­myllur – jafn­vel fleiri – á hverjum stað. Sem hver og ein gæti verið 150-250 metrar á hæð. Myndu gnæfa yfir sveit­ina. Raska mögu­lega rónni og friðn­um. Spilla útsýni þeirra og for­feðr­anna. „Fyrir Norð­ur­ál? Við getum kallað þetta Norð­ur­áls­dal þá,“ sagði kjarn­yrt kona sem á rætur í Norð­ur­ár­daln­um.

Það logar á teljósum, litlum kertum í álbökk­um, á hverju borði sal­ar­ins. Kannski við­eig­andi því Norð­ur­ál, álverið á Grund­ar­tanga, er þátt­tak­andi í Vest­an­átt. Fyr­ir­tækið sem stefnir að því að fram­leiða kolefn­is­hlut­laust ál innan fárra ára, þótt ekki hafi komið fram í máli fram­kvæmda­stjór­ans hvernig slíku mark­miði verði náð með vöru sem á upp­runa sinn í báxít-­námum hinum megin á hnett­in­um. Stórt verk­efni það.

Logar litlu teljósanna ólm­ast þegar líður á kvöldið enda blæs nokkuð hressi­lega á fund­in­um. Til hans eru mættir tugir fólks á öllum aldri úr sveitum Borg­ar­fjarðar og víð­ar, sem eiga eftir að hlusta á kynn­ingar sex karla og einnar konu og fá fyr­ir­lestur frá hag­fræð­ingi um „al­þjóð­lega þróun í lofts­lags- og orku­mál­u­m“. Fá að heyra um sam­fé­lags­sjóði sem fyr­ir­tækin ætla að stofna og að vind­myll­urnar í nágrenni sveita­bæja þeirra og sum­ar­húsa gætu orðið „hluti af lausn­inni“ svo Íslend­ingum tak­ist að upp­fylla mark­mið rík­is­stjórn­ar­innar um kolefn­is­hlut­leysi árið 2040.

Því vind­myll­urnar sem fyr­ir­tækin vilja reisa á Vest­ur­landi yrðu aðeins dropi í orku­hafið sem Vil­hjálm­ur, nú fund­ar­stjóri en áður for­maður græn­bók­ar­hóps­ins, reikn­aði út ásamt félögum sínum að vant­aði upp á til að ná mark­mið­un­um.

Gælu­starf

„Þetta er gælu­starf hjá mér,“ segir Vil­hjálmur um aðkomu sína að kynn­ingu virkj­un­ar­að­il­anna. „Ég er eft­ir­launa­þegi eins og þið sjáið á mér, orð­inn gam­all og gugg­inn.“

Hann seg­ist hafa kynnt sér það sem er að ger­ast í lofts­lags­málum „úti í hinum stóra heimi“ er hann fór fyrir græn­bók­ar­nefnd­inni. Og nið­ur­stað­an: „Það þarf að stór­auka fjár­fest­ingar í orku­fram­kvæmd­um“ ef mark­mið um kolefn­is­hlut­leysi, „nettó-núll“ eins og hann kallar það, eiga að nást.

„Það er verið að fjár­festa meira í heim­inum í dag í vind­orku en í kol­um, gasi og kjarn­orku sam­an­lag­t,“ bendir hann á og á reyndar eftir að gera að minnsta kosti þrisvar sinnum til við­bótar áður en fund­inum lýk­ur. Virkj­ana­kostir í vind­orku séu orðnir „hag­kvæm­ari en þeir sem við höfum verið að nota í flestum til­vik­um, bæði vatns­orka og jarð­hiti. Það er því ekki til­viljun að menn eru að spá í vind­orku á Íslandi eins og ann­ars staðar í heim­in­um“.

Hann vitnar aftur í græn­bók­ina, máli sínu til stuðn­ings: „Í græn­bók­inni kom fram að það þarf að tvö­falda raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi á næstu átján árum til þess að ná kolefn­is­hlut­leysi árið 2040.“

Vil­hjálmur varpar hverri glærunni á fætur annarri upp á breið­tjald. Yfir­skriftir þeirra eru m.a. „Vegið með­al­kostn­að­ar­verð við vind­orku­vinnslu á landi er lægst sam­an­borið við aðra orku­vinnslu heims­ins“ og „Umbreyt­ing­ar­vísi­tala orku­fram­leiðslu“. Sum súlu- og línu­ritin „segja kannski ekki margt“ við­ur­kennir hann. Og mynd­varp­inn á erfitt með grænan lit. Hann talar um Kína, ál sem fram­tíð­ar­málm og þung­lama­legt kerfi hér á landi þegar komi að reglu­verk­inu í kringum orku­geir­ann. „Á Íslandi hafa aldrei verið til meiri pen­ingar en núna. Með líf­eyr­is­sjóð­un­um. Við höfum fjár­magn­ið, við höfum fólk­ið, við höfum þekk­ing­una og get­una. Og þá er spurn­ing­in, ætlum við að nýta þessa stöðu til að vera í hópi leið­andi þjóða eða ætlum við að pakka saman og bíða þess sem verða vill?“

Þegar við hopp­uðum yfir járn­braut­irnar

Að ná kolefn­is­hlut­leysi í heim­inum „mun styðja við lífs­kjör fólks um allan heim,“ segir hann. „Lyk­il­at­riði í því líka er að ná þró­un­ar­lönd­unum í gang þannig að þau fari beint úr þeirri stöðu sem þau eru í yfir í grænar lausnir og hoppi yfir kolefn­is­tíma­bilið með svip­uðum hætti og við hopp­uðum yfir járn­braut­irnar í gamla daga í okkar sögu. Þetta er allt saman ger­leg­t.“

Vil­hjálmur upp­sker lófa­klapp úr salnum en það eru alls ekki öll sem taka und­ir. Ein­hver horfa í gaupnir sér eða fram fyrir sig, nokkuð þung á brún.

Erindi Vil­hjálms hefur ekki eytt tor­tryggn­inni. Svo mikið er víst.

Vilhjálmur sagði aldrei hafa verið jafn mikla peninga til á Íslandi eins og núna.
Sunna Ósk Logadóttir

Fund­ar­gest­ur: „Það liggur fyrir að fólkið á því svæði sem talað er um að setja vind­myllur á er búið að lýsa þeirri skoðun sinni að það vilji alls ekki fá þetta. Hvert er mark­miðið með þessum fundi, að snúa fólki við? Fólk hefur komið með mjög skýr skila­boð: Við viljum þetta ekki á okkar svæði. Við ætlum að fram­leiða hrein mat­væli“.

Vil­hjálm­ur: „Ja, við viljum bara kynna þetta hérna. Það er ekki eins og Borg­ar­fjörð­ur­inn sé eini stað­ur­inn í heim­inum þar sem menn eru ekki sam­mála um þetta. En ég er bara að vekja athygli á því að út um allan heim er verið að fjár­festa í vind­orku, sól­ar­orku og þess­ari grænu orku. Og heim­ur­inn er á þeirri veg­ferð. Við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því, hvort sem okkur líkar við vind­myllur eða ekki. Hvar viljum við vera? Viljum við láta aðra vera með vind­myll­urnar eða viljum við vera með sjálf?

Viljum við velta vand­anum ... á ég að fara norður í Skaga­fjörð og tala við Bjarna [Eg­ils­son] bróður og segja við hann: Borg­firð­ingar eru alveg á móti þessu viltu ekki taka ein­hverjar vind­myllur á Skaga­heiði? En ég segi, fyrir okkur Íslend­inga sem heild: Ef við ætlum ekki að reisa eina ein­ustu vind­myllu þá nátt­úr­lega erum við ekki vel stödd.“

Það á aftur eftir að ræða um Skaga­fjörð­inn og „Bjarna bróð­ur“ á fund­in­um. En fleiri biðja um orðið eftir fyr­ir­lestur Vil­hjálms.

Sam­talið á að vera við stjórn­völd

Kristín Helga Gunnarsdóttir beindi orðum sínum til fundargesta.

Rit­höf­und­ur­inn Kristín Helga Gunn­ars­dóttir þekkir vel til í Norð­ur­ár­dal, þar sem for­eldrar hennar hafa stundað skóg­rækt í ára­tugi. Nú stendur til að byggja vind­orku­ver á nágranna­jörð­inni Hvammi sem er í eigu Fest­is, félags í eigu Ólafs Ólafs­sonar sem oft er kenndur við Sam­skip.

„Við sem erum hags­muna­að­ilar hérna í Borg­ar­firði teljum ekki að sam­tal okkar eigi að vera við ykk­ur, þessi risa­fyr­ir­tæki og lukku­ridd­ar­ana, heldur við stjórn­völd og sveit­ar­stjórn­ir,“ segir Kristín Helga. Með lukku­ridd­urum á hún við að þeir fari um landið og merki sér sem flest svæði í þeirri von að eitt­hvað sam­fé­lag sé nógu veikt til að gefa eft­ir. Þannig treysti þeir á lukk­una. Ridd­ari er aug­ljós til­vísun í heims­bók­mennt­irn­ar, þar sem Don Kíkóti var hinn sjón­um­hryggi ridd­ari sem barð­ist við vind­myll­ur.

Með hvaða hatt ert þú, Vil­hjálm­ur?

Hún beinir svo einni spurn­ingu beint til Vil­hjálms. „Með hvaða hatt ert þú hér í kvöld? Sem for­maður úr græn­bók­ar­nefnd­inni, ertu með þann hatt? Ertu með hatt sem fyrr­ver­andi rektor sem varst í sveit­inni okkar eða ertu hér með nýjan hatt?“

Vil­hjálmur bros­ir. „Ég er bara ég,“ segir hann og hlær létt. „Ég er bara eft­ir­launa­þegi, búinn að vera hérna í Borg­ar­firð­inum í sjö ár og þykir vænt um bæði Borg­ar­fjörð­inn og Borg­firð­inga. Síðan var ég nú bara að und­ir­búa frí. Þá var hringt í mig og ég beð­inn um að taka að mér þetta verk­efni, að kynna mér þetta og kynna þetta verk­efn­i.“

Kristín Helga: „Þú ert ekki lofts­lags­sér­fræð­ingur og kemur ekki hérna fyrir hönd rík­is­stjórn­ar­inn­ar...“

Vil­hjálm­ur: „Ég kem ekki hérna fyrir hönd rík­is­stjórn­ar­inn­ar.“ Hann er á fund­inum fyrir hönd vind­orku­fyr­ir­tækj­anna „og á þeirra veg­um“.

Hann heldur svo áfram: „Ég er líka að þessu vegna þess að ég brenn fyrir það að við klúðrum ekki þess­ari stöðu sem að er hjá okkur í lofts­lags­mál­un­um. Mér finnst bara mjög mik­il­vægt að við hugsum líka sem borg­arar í heim­in­um.“

Kristín Helga: „Þannig að versta áttin er svar­ið, þið ætlið að bjarga heim­in­um?“

Vil­hjálm­ur: „Vest­an­áttin er bara það sem þessi fyr­ir­tæki hafa verið að gera og hugsa. Og þau bara standa fyrir sínu og koma hérna upp og þið getið spurt þau. En þau eru ekki að taka af ykkur vind­inn alla vega.“

Hvammsmúli í Norðurárdal. Á múlanum vill fyrirtækið Qair Iceland reisa vindorkuver.
Andrés Skúlason

Andrés Skúla­son, verk­efn­is­stjóri hjá Land­vernd, spyr hvort Vil­hjálmur hafi kynnt sér kolefn­islosun frá vind­orku­fram­leiðslu, allt frá fram­leiðslu mylla og til upp­setn­ingar og rekst­urs vind­orku­vera. Hann vitnar í skýrslu sem sýni að kolefn­islos­unin í öllu ferl­inu sé mik­il, svo mikil jafn­vel að verin nái ekki að vinna upp kolefn­is­sporið á líf­tíma sín­um.

Meðan Andrés fer yfir rann­sókn­ina hringir sími Vil­hjálms. Tónn­inn lík­ist hring­ingu úr gömlum skífusíma. Rétt eins og hann sé að fá sím­tal úr for­tíð­inni. Vil­hjálmur fiskar sím­ann upp úr jakka­vas­anum og slekkur á hon­um.

„Þannig að þegar menn tala um græna orku og lofts­lags­mál, gætir þú sagt mér hvað er mikil losun frá þeim áformum sem hér eru á ferð­inn­i?“ spyr Andr­és.

„Nei, ég get það ekki,“ segir Vil­hjálmur og bætir strax við: „Ég hef ekki séð þessa útreikn­inga sem þú ert að vísa til en mér þætti nokkuð ein­kenni­legt, ég verð að segja það, því það er verið að fjár­festa fyrir hund­ruð millj­arða doll­ara í vind­orku í heim­in­um, að þetta sé bara allt saman ein vit­leysa?“

Andrés Skúlason spyr um kolefnisspor vindorkuvera. Vilhjálmur Egilsson fundarstjóri stendur á sviðinu.
Sunna Ósk Logadóttir

24 þús­und

Frí­mann Snær Guð­munds­son, hag­fræð­ingur hjá Deloitte, er næstur á sviðið í Hjálma­kletti til að kynna úttekt um nýt­ingu vind­orku á Vest­ur­landi sem unnin var fyrir Vest­an­átt. Hann segir 24 þús­und gíga­vatt­stund­ir, rúm­lega tvö­földun á núver­andi orku­fram­leiðslu Íslands, vera „gíf­ur­lega stórar töl­ur“ sem jafn­ist á við 5-6 Norð­urál. Vind­orku­verk­efni fyr­ir­tækj­anna fjög­urra „gætu verði hluti lausn­ar­inn­ar“.

24 þús­und gíga­vatt­stund­ir. Þess­ari tölu er ítrekað haldið á lofti á fund­in­um. Að „vænt­ing­arn­ar“ standi til að ná svo mik­illi fram­leiðslu­aukn­ingu, líkt og það sé meit­lað í stein.

Sú er hins vegar ekki raun­in. Í græn­bók­inni, sem starfs­hópur undir for­ystu Vil­hjálms vann, voru dregnar upp sex sviðs­myndir sem hver fyrir sig á að end­ur­spegla mis­mun­andi áherslur í þróun sam­fé­lags­ins og atvinnu­lífs­ins til næstu ára. Miðað við ítr­ustu for­send­ur, full orku­skipti í lofti, á hafi og í sjó, er áætlað að rúm­lega tvö­falda þurfi núver­andi fram­leiðslu til árs­ins 2040 – að fram­leiða þurfi 24 þús­und GWst á ári til við­bót­ar. Þetta er sú sviðs­mynd sem lengst gengur og þarfn­ast flestra gíga­vatt­stunda. Þetta er reyndar nákvæm­lega sú tala sem Sam­orka, sam­tök orku- og veitu­fyr­ir­tækja, komst að í sínum útreikn­ingum sem lagðir voru fram í vinnu starfs­hóps­ins.

Frið­jón Þórð­ar­son, fram­kvæmda­stjóri Qair Iceland, stígur fyrstur á svið af for­svars­mönnum vind­orku­fyr­ir­tækj­anna. Honum er hugsað til orða Krist­ínar Helgu frá upp­hafi fund­ar­ins. „Ég hef ekki heyrt orðið lukku­ridd­ari áður. Ég hef yfir­leitt verið kall­aður vatns­greitt kap­ít­alista­svín, útsend­ari erlendra auð­hringja. Þykir vænst um „sasari“ – sér­fræð­ingur að sunn­an. En lukku­ridd­ari fer klár­lega í bók­ina hjá mér.“

Stjórn­ar­for­maður Qair á Íslandi er Tryggvi Þór Her­berts­son, fyrr­ver­andi þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Fyr­ir­tækið er í eigu fransks félags og er með mörg vind­orku­verk­efni í píp­unum um allt land. „Okkur er gríð­ar­lega umhugað um að taka þátt í þessum orku­skiptum sem eru að eiga sér stað í heim­in­um,“ segir Frið­jón. Auk vind­orku­vera sé félagið með vetn­is­verk­efni í þró­un, m.a. eitt á Íslandi, nánar til­tekið á Grund­ar­tanga.

Þar yrði um að ræða vetn­is­verk­smiðju sem þyrfti um 840 MW afl. Vind­orku­verk­efnin níu á Vest­ur­landi myndu ekki duga til að knýja hana. Frið­jón sagði um „gríð­ar­lega“ fjár­fest­ingu að ræða, umfangs­mikið verk­efni sem von­andi yrði „lyk­ill í orku­skiptum hérna á Ísland­i“. Hann bætir svo við: „Þessi verk­smiðja verður ekki að veru­leika nema að ein­hver af verk­efnum okkar eða kollega minna verði að veru­leika.“

Breyta „brjál­uðu roki“ í verð­mæti

Helgi Hjörvar, fyrr­ver­andi þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hefur stofnað fyr­ir­tækið Haf­þórs­staði ehf. sem vinnur að þróun þriggja vind­orku­vera. Á Vest­ur­landi er það kennt við Grjót­háls, áður reyndar Alviðru, og er í landi jarð­ar­innar Haf­þórs­staða sem er í eigu Helga. „Í stuttu máli er hug­myndin sú að taka þetta brjál­aða rok sem er þarna upp á Grjót­hálsi og breyta því í verð­mæt­i.“

Hann segir það hafa komið sér vel að hafa verið „víða í orku­brans­an­um“. Hann hafi t.d. verið í stjórn veitu­stofn­ana og setið í stjórn Lands­virkj­un­ar. „En fyrst og fremst hef ég alltaf verið mik­ill áhuga­maður um vind.“

Helgi segir verk­efnið að Grjót­hálsi full fjár­magnað af evr­ópskum stofn­ana­fjár­fest­um, „en við gerum hins vegar ráð fyrir því að íslenskum fjár­festum verði boðin aðkoma að fjár­mögn­un­inn­i“. Fjöl­margir aðilar hafi leitað eftir því að fá að kaupa ork­una „ef skipu­lags­yf­ir­völd heim­ila okkur að reisa þetta þjóð­þrifa fyr­ir­tæki sem við teljum það ver­a.“

Helgi Hjörvar áformar að reisa vindorkuver á Grjóthálsi á jörðinni Hafþórsstöðum sem er í hans eigu.
Andrés Skúlason

Kjörs­eyri við Hrúta­fjörð. Brekka í Hval­firði. Hundastapi á Mýr­um. Mos­fells­heiði. Allt eru þetta staðir á Vest­ur­landi sem fyr­ir­tækið Zephyr Iceland, sem er að mestu í eigu norska fyr­ir­tæk­is­ins Zephyr, vill reisa vind­myllur á. „Svo erum við með fleiri staði hérna á Vest­ur­landi til skoð­un­ar,“ segir Ket­ill Sig­ur­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Zephyr. „Það er ekki gott að segja hvernig þessi verk­efni þró­ast og hver þeirra eru lík­leg­ust til að verða að raun­veru­leika.“

Hann fer ekki ítar­lega ofan í neitt verk­efn­anna í erindi sínu. Fyrr um dag­inn hafði hann tjáð sig í umræðu­þræði á Face­book um fyr­ir­hugað vind­orku­ver Zephyr á Brekku­kambi, hæsta fjalli á Hval­fjarð­ar­strönd­inni, sem tugir íbúa og hags­muna­að­ila hafa gert athuga­semdir við, og mót­mælt harð­lega. „Varla til upp­lagð­ari staður undir vind­myll­ur,“ skrif­aði Ket­ill og að fram­kvæmdin „gæti gert fjallið þarna að ein­hverjum vin­sælasta útsýn­is­stað hér á SV-horni lands­ins“.

EM orka, sem er í eigu írska félags­ins EMPower, er með eitt vind­orku­verk­efni á Íslandi; í Garps­dal í Reyk­hóla­sveit. Rík­harður Ragn­ars­son er verk­efn­is­stjóri þess og kynnti hug­mynd­ina fyrir fund­ar­gest­um.

Hann byrjar á því að varpa upp mynd af hinu áform­aða virkj­ana­svæði en þá kemur í ljós að birtan í skjánum er „óheppi­leg“, eins og hann orðar það. Hún er óheppi­leg, vissu­lega, ekki síst vegna þess að vind­myll­urnar sem tölvu­teikn­aðar höfðu verið inn á mynd­ina sjást alls ekki. Þetta er mynd af firði og íslensku fjalli undir skýj­uðum himni. Rík­harður afsakar sig og bendir á heima­síðu fyr­ir­tæk­is­ins. Þar megi sjá sömu mynd – en í betri gæð­um.

Zephyr hyggst reisa vindorkuver á Brekkukambi í Hvalfjarðarsveit. Brekkukambur er hæsta fjallið á Hvalfjarðarströndinni.
Andrés Skúlason

Óvissan er „eitur í ykkar bein­um“

„Við byrj­uðum á því, í raun áður en við gerðum nokkuð ann­að, að fara til allra sem eru í tíu kíló­metra fjar­lægð og sýna hvernig verk­efnið liti út,“ byrjar hann fyr­ir­lestur sinn á. Og það er óhætt að segja að það sem á eftir kemur falli ágæt­lega í kramið hjá mörgum fund­ar­gesta. Það losnar um spenn­una í loft­inu um stund. Rík­harður segir EM Orku hafa byggt upp „tölu­vert mik­inn stuðn­ing“ í nær­sam­fé­lag­inu, „einkum út af því að við vorum mjög fljótir að sýna raun­veru­lega hvernig þetta liti út, við vorum ekk­ert að draga úr því. Að eyða þeirri óvissu er í raun og veru það fyrsta og eina sem þið hérna í salnum munduð vilja sjá. Þessi óvissa um hvernig vind­orku­garðar líta út er nátt­úr­lega eitur í ykkar bein­um.“

Verk­efnið sé komið á loka­stig þró­unar „í sátt við nær­sam­fé­lag­ið. Við vissum alveg að stór verk­efni krefj­ast stórra spurn­inga og svo stórra svara. Við höfum alltaf verið til­búnir að leggja allt fram“.

Hann óskar því næst eftir spurn­ingum frá fund­ar­gest­um.

Gestur: „Ég skynja stigs­mun á því hvernig ykkur hefur tek­ist að nálg­ast nær­sam­fé­lagið og hvernig kol­legum ykkar sem sitja þarna við borðið hefur tek­ist til. Spurn­ing mín er: Væri ekki ráð að þú tækir þá í smá lex­íu?“

Margir við­staddra skella upp úr. „Ég veit ekki hvernig þeir myndu taka í það,“ segir Rík­harður og kím­ir. Vest­an­átt hafi boðað til fund­ar­ins til að „opna vett­vang­inn“.

„Ef fólk finnur fyrir óvissu þá verður það hrætt og þá byrja mót­mæli. Við vissum þetta alveg, þess vegna var okkar fyrsta skref að svara spurn­ingum sem við vissum að væru að fara að kom­a.“

En með þessum orðum er hann kom­inn út á hálann ís. Og tor­tryggn­in, sem grunnt var á, vaknar aft­ur.

Fund­ar­gestur 1: „And­staða bygg­ist á ótta og hræðslu. Er það það sem þú ert að segja?“

Rík­harð­ur: „Ég er ekki að leggja þér orð í munn ...“

Fund­ar­gestur 2: „Fá­viska. Fáfræð­i?“

Rík­harð­ur: „Nei, nei, nei ...“

Fund­ar­gestur 3: „Illa upp­lýst og sjáum ekki réttu ljós­mynd­irn­ar?“

Athygli hans er vakin á því að önnur vind­orku­verk­efni á Vest­ur­landi séu gjör­ó­lík því í Garps­dal. Þau yrðu í miklu meira návígi við byggð, inni í sam­fé­lögum sem byggja afkomu sína m.a. á ferða­þjón­ustu, mat­væla­fram­leiðslu og öðrum nátt­úru­tengdum grein­um.

„Ég er ekki að tala niður til ykk­ar, ég vil taka það fram,“ segir Rík­harður með áherslu.

Þvínæst sest hann ásamt félögum sínum í Vest­an­átt­inni í sæta­röð á svið­inu. Það er komið að umræðum eins og Vil­hjálmur hafði lof­að.

Ef vel er að gáð má sjá vindmyllur á toppi fjallsins handar fjarðarins. Þetta er tölvuteikning, fengin af vef EM Orku.
EM Orka

Jóhanna Leó­polds­dótt­ir, íbúi í Norð­ur­ár­dal, stendur upp í miðjum salnum og segir frá sinni stöðu. Hún sé flutt aftur í sveit­ina eftir ára­tuga fjar­veru. Komin á þann aldur að áhyggjur af ýmsum toga séu að baki. „Ég ætl­aði að hafa það rosa­lega gott í sveit­inni minni. En mér líður þannig núna, þegar þessar vind­orku­hug­myndir eru komn­ar, eins og það hafi verið ráð­ist á mig. Mér finnst eins og það hafi verið tekið af mér valdið yfir tíma mín­um.“

Allt í einu þurfi hún að eyða mik­illi orku í að setja sig inn í hluti sem hún hafi engan áhuga á, eins og orku­flutn­inga og vind­orku. „Ég er sam­mála því að yfir­völd í þessu landi hafa ekki staðið sig í því að und­ir­búa okkur en mér finnst þetta fund­ar­boð hljóma eins og áróð­ur.“

Hún spyr svo: „Hverjar eru raun­veru­legar ástæður þess að þessir aðilar vilja endi­lega setja vind­myllur upp í bak­garð­inum heima hjá mér – í and­stöðu við íbú­ana? Það er rétt sem Vil­hjálmur segir að heim­ur­inn stendur frammi fyrir ýmsum vanda­málum og af hverju fara [fyr­ir­tæk­in] ekki þangað sem brýnna er að leysa þau?“

Vil­hjálmur er til svars. „Mér finnst það sem þú ert að segja skipta máli,“ byrjar hann á að segja. En heldur svo áfram: „Þegar maður horfir á þetta úr hinni átt­inni, þá er spurn­ingin bara hvað er að ger­ast í heim­inum og skipta þessar lofts­lags­breyt­ingar máli. Er þetta veg­ferð sem er ákveð­in, í raun­inni, þvert á okkar vilja? En ég held að flestir séu nú sam­mála um að það er raun­veru­leg þörf fyrir allan heim­inn að ná þessum mark­mið­um, að það sé kolefn­is­hlut­leysi.“

Íslensk stjórn­völd hafi sett „metn­að­ar­stig­ið“ hærra en önnur ríki. „Við þurfum að fram­leiða græna orku, kolefn­is­fría orku, á móti þess­ari kolefn­is­notkun sem er í flug­inu, fiski­skip­unum og bíl­un­um. Síðan þurfum við líka að fram­leiða orku svo við getum bætt okkar hag.“

Jóhanna: „Fyr­ir­gefðu, þetta var ekk­ert svar.“

Vil­hjálm­ur: „Af hverju hérna í Borga­firð­in­um? Þá get ég bara sagt líka, Jóhanna, að ef að við ætlum að ná þessum 24 þús­und [gíga­vatt­stund­um] með vind­myllum – hvað þurfum við margar vind­myllur á Ísland­i?“

Stærstu vind­myll­urnar séu 15 MW að afli, bendir hann á. Það þyrfti 300 slík­ar. Nær væri að miða við 4-5 MW vind­myllur en „þá myndum við þurfa þús­und,“ segir hann.

Fund­ar­gest­ur: „Það er pláss fyrir þær allar hjá Bjarna [bróð­ur­].“

Vil­hjálmur svarar hálf­hlæj­andi: „Þú myndir nú segja eitt­hvað ef Bjarni fengi þetta allt sam­an! Ég skal lofa ykkur því að ef Skag­firð­ing­arnir og Þórólfur Gísla­son kæmust í þetta þá myndi orkan ekki fara úr Skaga­firð­in­um. Heldur allt verða byggt upp þar!“

Jóhanna: „Væri það ekki bara fín­t?“

Vil­hjálm­ur: „Uuh, ok. Ég held að það sé mjög erfitt að koma fyrir 800 vind­myllum á Íslandi, 600 eða þús­und eða hvað þetta er, nema að þeim sé dreift eitt­hvað um landið og það taki það allir á sig með einum eða öðrum hætti að fá vind­myllur ein­hvers staðar nálægt sér og sjá vind­myll­ur.“

„Þetta var vöru­kynn­ing hér í kvöld og í raun og veru,“ segir Kristín Helga rit­höf­undur og beinir orðum sínum til fund­ar­gesta. „Að hlusta á hag­fræð­inga tala um hvernig þeir ætla að bregð­ast við lofts­lags­mál­unum og að við eigum að leggja fram okkar lönd í Norð­ur­ár­dal til að stöðva kola­notkun í Kína og bjarga Norð­ur­áli.“

Hún rifjar upp orð Guð­veigar Eygló­ar­dótt­ur, odd­vita Fram­sókn­ar­flokks­ins, fyrir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar í vor en Guð­veig skrif­aði á Face­book: „Það er eng­inn að fara að setja vind­myllu­garð í Norð­ur­ár­dal eða ann­ars staðar í sveit­ar­fé­lag­inu. Það er engin ástæða til að fara upp á aft­ur­fæt­urna og eyða orku í að ræða það frekar.“

Kristín Helga seg­ist því stóla á Guð­veigu og aðra stjórn­mála­menn. „Þar eigum við sam­tal­ið.“

Dynj­andi lófa­klapp.

Qair Iceland vill reisa vindorkuver á Hvammsmúla í Norðurárdal.
Andrés Skúlason

Jóhanna: „Hvernig leggst það í ykkur að ætla að setja upp vind­myllur í Norð­ur­ár­dal og í Þver­ár­hlíð í full­kominni and­stöðu við sam­fé­lag­ið? Ætlið þið að keyra þetta yfir okk­ur?“

Frið­jón hjá Qair: „Ég held að ég sé í for­svari fyrir lukku­ridd­ar­ana í bak­garð­inum hjá þér, Jóhanna. Það er eng­inn drif­kraftur hjá okkur að setja eitt eða neitt í bak­garð­inn hjá þér. Við skoðum og rann­sökum staði og svo látum við umsagn­ar­að­ila, stofn­an­ir, um það hvort að þetta sé áhuga­verður kostur eða ekki. Að þessum rann­sóknum loknum getum við sagt hvort við viljum þetta í bak­garð­inn hjá þér eða ekki. En okkur líst ágæt­lega á þennan kost.“

Fund­ar­gest­ur: „Eruð þið til­búnir að fara fram með þetta verk­efni á hnef­anum þrátt fyrir aug­ljósa and­stöðu sam­fé­lags­ins?“

Nokkrir aðrir fund­ar­gest­ir: „Heyr heyr!

Helgi Hjörvar: „Við fórum í rann­sóknir til að athuga hversu góð stað­setn­ing Grjót­háls­inn væri og svo ætlum við að leggja verk­efnið í dóm. Við förum ekki í gegnum neitt á hnef­an­um. [...] Það er Alþingi, sveit­ar­stjórn og skipu­lags­yf­ir­valdið sem taka ákvörðun um það í ljósi heild­ar­hags­muna.“

Vil­hjálmur bendir á, enn einu sinni, að verið sé að fjár­festa meira í vind- og sól­ar­orku í dag en í kol­um, gasi og kjarn­orku sam­an­lagt. „Og ég segi: Það getur bara ekki verið að allt þetta fólk sé ein­hver fífl, sem er að fjár­festa í þessum verk­efn­um.“

Hann segir alltaf ein­hverja and­stöðu vera við svona stór verk­efni. Hún sé sum­staðar mik­il. Sum­staðar minni. „Þið haldið að þið séuð eitt­hvað sér­stök að þessu leyti en það er bara ekki þannig,“ sagði hann við fund­ar­gesti í blá­lok fund­ar­ins. „Ein­hvern veg­inn þurfum við að kom­ast áfram með þetta mál, hvar sem það end­ar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar