VG fólk saman

Vinstri græn vilja ganga lengra: Opinberir aðilar virki vindinn á röskuðum svæðum

Ýmsar játningar voru gerðar af hálfu tveggja þingmanna Vinstri grænna á fundi um vindorkuver sem haldinn var í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þeir greindu frá sýn sinni og flokksins á virkjun vindsins, svöruðu spurningum um hvort þyrfti í reynd meira rafmagn og hvenær íbúar sem berjast gegn vindmyllum geti andað léttar.

Það var við­eig­andi, nán­ast tákn­rænt, að fundur þing­manna Vinstri grænna og odd­vita þeirra í Borg­ar­byggð færi fram í Land­náms­setr­inu í Borg­ar­nesi í síð­ustu viku. Undir rjá­fri í einu elsta húsi bæj­ar­ins, í safni þar sem rakin er sagan af land­námi Íslands.

Á þessum slóðum gæti nefni­lega nýtt land­nám verið í upp­sigl­ingu. Fyr­ir­tæki, sem öll eru í meiri­hluta eigu erlendra aðila, geys­ast nú fram á völl­inn og vilja reisa vind­orku­ver á heið­um, fjöllum og í dal­botnum á Vest­ur­landi. Hafa kynnt áform sem íbúum í nágrenni þess­ara risam­ann­virkja hugn­ast flestum alls ekki. Sem þeir ótt­ast að lands­lög nái ekki að stöðva. Að sveit­ar­stjórnir muni ekki „standa í lapp­irn­ar“ og ná að verj­ast „áhlaupi lukku­ridd­ara“ sem fari nú um héruð og „mígi utan í hverja þúfu og hvern stein“. Helgi sér land. Allt í nafni lofts­lags­að­gerða.

„Við reynum að standa vakt­ina eins og við mögu­lega get­u­m,“ sagði Bjarni Jóns­son, þing­maður Vinstri grænna, á fund­in­um.

Þörf á ró

„Ég tel mik­il­vægt að íbúar hér og ann­ars staðar geti farið að finna fyrir svo­lít­illi ró, að nið­ur­staða kom­ist í þessi mál. Að stefnan sé skýr – hún er það ekki eins og staðan er nún­a,“ sagði Thelma Harð­ar­dótt­ir, odd­viti VG í Borg­ar­byggð. „Þetta er farið að valda rosa­lega miklu tjóni nú þeg­ar. Fólk fer ekki í fram­kvæmd­irnar sem það ætl­aði sér, það er að flytja frá þessum svæðum vegna þess að það sér ekki fyrir sér að þessi mál leys­ist hratt og vel.“

Orri Páll Jóhanns­son, þing­flokks­for­maður Vinstri grænna, sagði rétt að það vanti skýra stefnu og sýn. Að um það hafi verið rætt að ef skorður yrðu ekki settar á vind­orku­nýt­ingu þá færu málin í sama far­veg og þegar sjó­kvía­eldi hófst við landið og lög­gjöfin var ekki til stað­ar. „En ég held að það sé eng­inn vilji til þess að hlut­irnir fari þá leið. Hins vegar eru mörg teikn um að við séum á þeirri leið. Og það viljum við ekki sjá.“

Loftið fyrir ofan veit­inga­stað­inn í Land­náms­setr­inu er þétt setið undir orðum stjórn­mála­mann­anna þriggja. Aðeins nokkrum dögum áður höfðu fyr­ir­tæki sem hyggja á virkjun vinds­ins á Vest­ur­landi kynnt áform sín á fundi í Borg­ar­nesi sem einnig var vel sótt­ur.

Það er óhætt að segja að sá fundur hafi markað ákveðin kafla­skil í umræð­unni því í kjöl­far hans gerð­ist m.a. tvennt: And­stæð­ingar vind­orku­vera stofn­uðu með sér óform­legu sam­tökin Mót­vindur Ísland á Face­book og Orri Páll kvað sér hljóðs á Alþingi þar sem hann gagn­rýndi það að for­maður starfs­hóps umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­­neyt­is­ins um áskor­anir í orku­mál­um, Vil­hjálmur Egis­son, skyldi horf­inn til starfa fyrir vind­orku­fyr­ir­tækin og halda á lofti „öfga­fyllstu“ sviðs­mynd­inni um orku­þörf sem dregin var upp í skýrslu hóps­ins, græn­bók­inni svoköll­uðu.

Til­lögur sem ekki náðu fram að ganga

Á fund­inum í Land­náms­setr­inu rifj­aði Orri Páll upp að á síð­asta kjör­tíma­bili hefði umhverf­is­ráð­herra Vinstri grænna lagt fram til­lögur að breyt­ingum á lögum á ramma­á­ætlun með það að mark­miði að ná utan um fyr­ir­komu­lag vind­orku. „Þau náðu ekki fram að ganga,“ sagði hann. „Því mið­ur.“

Þær til­lögur byggðu á skoskum hug­myndum þar sem land­inu yrði skipt upp í svæði eftir því hvar telj­ist fýsi­legt og ásætt­an­legt – eða hvorki fýsi­legt né ásætt­an­legt – að reisa vind­orku­ver. „Þetta var gagn­rýnt,“ sagði Orri, „enda vilja sum vinna að mál­inu á þeim for­sendum einum að hraða upp­bygg­ing­unni. Og gott og vel. Sum eru þar. Við erum ekki alveg öll þar. Heldur viljum við skýrt og klárt reglu­verk þegar kemur að þessu.“

Í sumar setti Guð­laugur Þór Þórð­ar­son núver­andi umhverf­is­ráð­herra, sem reyndar er einnig ráð­herra orku- og lofts­lags­mála, líkt og Orri und­ir­strik­aði, á fót starfs­hóp sem á að skila til­lögum um vind­orku­nýt­ingu í síð­asta lagi 1. febr­ú­ar. Í fram­haldi af því hyggst ráð­herr­ann leggja fram frum­varp á Alþingi í vor. „Þannig að við erum ekki að fara að sjá þetta reglu­verk klárað alveg á næstu mán­uð­u­m,“ sagði Orri. „En,“ bætti hann við, „við erum með stopp­ara á að hægt sé að hefja upp­bygg­ingu því það er alveg skýrt og alveg klárt og hamrað var á því í nefnd­ar­á­liti umhverf­is- og sam­göngu­nefndar við afgreiðslu þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar að vind­orkan, eins og staða er í dag, heyrir undir ramma­á­ætl­un. Það er þannig.“

Bjarni sagði vind­orku­málin hafa komið „al­gjör­lega á 120 [kíló­metra hraða] í and­litið á okk­ur. Það er hafið kapp­hlaup núna um að sölsa undir sig jarð­ir, svæði eða rétt­indi til að skapa sér stöðu. Og það er að ger­ast á ógn­ar­hraða.“

Bad boys

Hann telur að ástæðan sé ekki sú að „öllum sé svo ofboðs­lega umhugað um það að bjarga okkur í orku­skiptum á Íslandi“ heldur sé verið að horfa til lengri fram­tíðar – að geta tengt sig við Evr­ópu „og síðan eigi Ísland í raun og veru að verða aflgjafi fyrir þau lönd“. Hann sagði slíkt vissu­lega geta verið fal­lega hugsun en að Íslend­ingar geti ekki lagt allt land sitt undir til að aðrar þjóðir kom­ist hjá því að taka á sínum mál­um.

„Lofts­lags­um­ræðan á Íslandi, eins og hún hefur verið að und­an­förnu, er umræða án þess að nátt­úru­vernd sé nefnd í sömu andrá,“ sagði Bjarni. „Þetta er lofts­lags­um­ræða án nátt­úru­vernd­ar. Ég heyri þetta aftur og aftur í þing­inu, í sam­fé­lag­inu, að það sé öllu fórn­andi fyrir orku­skipti og loft­lags­að­gerð­ir, að „bad boys“ séu jafn­vel komnir í þá stöðu að vera að gera gagn með öllum þeim skaða sem það myndi mögu­lega valda á nátt­úru.“

Gull­graf­ara­æði

Honum þætti áhyggju­efni að við værum að missa niður ára­tuga langa vinnu við verndun vist­kerfa. Með lofts­lags­vánni „væri farið að hlaupa þennan veg“, að reyna að kom­ast eins langt og hægt væri áður en ráð­rúm gef­ist til að koma upp reglu­verki og umgjörð. „Al­veg eins og var með sjó­kvía­eld­ið, norska lax­inn. Það var keyrt áfram til að ná svæðum áður en til yrði reglu­verk til að takast á við það eða skipu­leggja það.“ Grull­graf­ara­æði hafi skap­ast. „Þannig að það reynir á það á næstu vikum og mán­uðum að stand­ast þetta áhlaup. Ég held að við þurfum að vera svo­lítið töff til vor­s.“

Orri Páll Jóhannsson á fundinum í Landnámssetrinu.
VG

Fimm ára bar­átta

Meðan fund­ar­gesta var Stein­unn Sig­ur­björns­dótt­ir. „Ég er vestan úr Dölum og er að halda upp á fimm ára afmæli þess­arar bar­áttu um þessar mund­ir.“ Bar­áttan snýr að áform­uðu vind­orku­veri á jörð­inni Hróð­nýj­ar­stöðum og hafi tekið mikla orku af þeim sem að henni standa. „Þið segið að það sé alveg klárt að það fari ekk­ert af stað,“ sagði hún en rifj­aði upp að sveit­ar­stjórn Dala­byggðar hefði nú þegar fært hið áform­aða orku­ver inn á aðal­skipu­lag. „Ég hef enga ástæðu til að halda að þau láti staðar numið hérna. Á hvaða stigi yrði það stopp­að?“

Orri Páll svar­aði með til­vísun í sjó­kvía­eld­ið. Að vind­orkan væri hið „nýfundna silf­ur“ og menn farnir að „míga hér utan í hvern ein­asta stein“. Máli sínu til stuðn­ings vís­aði hann til þess að hug­myndir um vind­orku­ver séu uppi um allt land og á skala sem við höfum aldrei séð áður. „Ásóknin er gíf­ur­leg.“

Sveit­ar­stjórnir hefðu vald til að breyta skipu­lagi en hins veg­ar, eins og staðan er í dag, enga heim­ild til að veita fram­kvæmda­leyfi fyrr en við­kom­andi orku­kostur hafi hlotið afgreiðslu Alþingis í nýt­ing­ar­flokk ramma­á­ætl­un­ar.

Ítar­legur stjórn­ar­sátt­máli

Orri Páll vakti athygli á því að stjórn­ar­sátt­máli Vinstri grænna, Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks væri sá ítar­leg­asti sem hefði verið skrif­að­ur. Sagð­ist hann telja slíkt nauð­syn­legt þegar ólíkir flokkar komi að myndun meiri­hluta. Í honum væri áhersla lögð á sátt um nýjar virkj­anir og að vind­orku­ver bygg­ist upp á afmörk­uðum svæð­um, nærri tengi­virkjum og flutn­ings­lín­um. „Við viljum ganga lengra í VG og segja: Á rösk­uðum svæðum þar sem eru miðl­un­ar­lón. [...] Þannig að við séum að horfa til þess að þetta sé gert á svæðum sem sanna­rega er búið að raska.“

Benti hann á tvo vind­orku­kosti sem eru í nýt­ing­ar­flokki ramma­á­ætl­unar og falla að þessum sjón­ar­mið­um; Blöndu­lund og Búr­fellslund – sem báðir eru á for­ræði Lands­virkj­un­ar. Fyr­ir­tækis „sem við eigum öll saman af því að við erum að horfa til þess að sam­eignin okkar sæki í þá auknu orku sem þarf að sækja“.

Hrein­skiln­is­lega þá þurfi hins vegar að herða á stefnu VG. „En það er held ég alveg skýrt hvar landið liggur í því. Við viljum ekki ráð­ast inn í óraskað land miðað við þann púls sem ég hef tekið á mínum félög­um.“

Ekki allt á von­ar­völ

Bjarni sagði VG líka leggja áherslu á að orku­auð­lindin væri í eigu þjóð­ar­innar og að sett yrðu auð­linda­gjöld á nýt­ing­una, „þannig að það geti ekki komið lukku­ridd­arar hingað og þangað og slegið eign sinni á hana. Erlendir aðilar með leppa á Íslandi, ein­hverjir agentar með tengsl við stjórn­mála­flokka og slíkt“.

Orri sagði að þar sem loks hefði tek­ist að afgreiða þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar í vor væri „alls ekki allt á von­ar­völ“ í virkj­ana­málum líkt og sumir vildu meina. Í þeim áfanga væru í nýt­ing­ar­flokki virkj­anir í vatns- og vind­orku og jarð­varma.

Íslend­ingar stæðu öðrum þjóðum framar í orku­skiptum og hér væri fram­leidd mesta orka í heim­inum á hvern ein­stak­ling. „Við þurfum því aðeins að anda ofan í kvið­inn og átta okkur hversu mikla orku við ætlum að ná í umfram það sem við erum að ná í dag.“ Ræða þurfi hvort ein­hver hluti þeirrar orku sem aflað sé í dag og ráð­stafað til stór­iðju geti hugs­an­lega farið í það sem þurfi í almanna­þágu – til að mæta fólks­fjölgun og orku­skipt­um. „Þetta er umræða sem við höfum ekki tek­ið. Og er ekki tekin fyrir í þess­ari skýrslu,“ sagði Orri og veif­aði græn­bók Vil­hjálms Egils­son­ar.

„Þurfum við meira raf­magn? Já, ég held að við þurfum meira raf­magn. Ég er bara ekki endi­lega viss um að við þurfum að afla þess alls með því að brjóta nýtt land.“

BJarni Jónsson.
VG

Að berj­ast með berum hnefum við stór­fyr­ir­tæki

„Ég ætla að klappa fyrir þessu,“ sagði rit­höf­und­ur­inn Kristín Helga Gunn­ars­dóttir og margir tóku und­ir. Hún á rætur í Norð­ur­ár­dal þar sem vind­orku­ver er áform­að. Líkt og fleiri fund­ar­menn vakti hún máls á þeirri löngu, tíma­freku og ströngu bar­áttu sem íbúar þyrftu að standa í. „Mér finnst svo galið að við erum svo mörg sem þurfum á end­anum að æða út á tún með bera hnef­ana til að berj­ast við stór­fyr­ir­tæki úti í heim­i.“ Sveit­ar­stjórnir ættu erfitt með að verj­ast enda oft fjár­þurfi og þá væri „ótrú­lega auð­velt að lypp­ast niður undan ofur­vald­in­u“.

Frið­rik Aspelund sagð­ist hafa það á til­finn­ing­unni að það væri meiri­hluti á Alþingi fyrir því „að leyfa bara þess­ari hol­skeflu að brotna yfir okk­ur“. Trú­lega væri vera Vinstri grænna í rík­is­stjórn það sem komið hafi í veg fyrir það hingað til. „En hversu lengi getum við staðið það af okk­ur? Hversu sterkt er þetta rík­is­stjórn­ar­sam­starf hvað þetta varðar eða hversu tæpt?“

Ekki til­búin í hvað sem er

Orri sagði það iðu­lega „æsispenn­andi spurn­ingu“ hvort að rík­is­stjórn­ar­sam­starfið héldi. Hann hefði hins vegar ekki áhyggjur af öðru, hingað til hefði gengið vel að halda í rík­is­stjórn­ar­sátt­mál­ann.

„Við þurfum að reyna að kom­ast áfram með það að það verði til ein­hver stefna, eitt­hvert reglu­verk og að við náum ein­hvern veg­inn að stand­ast þetta áhlaup og lenda þessu inn í eitt­hvað skyn­sam­legra,“ sagði Bjarni. „En við erum ekk­ert til­búin í hvað sem er í því ef pressan verður of mikil ann­ars staðar frá. Auð­vitað stöndum við á okkar megin prinsippi í því, ég á ekki von á öðru.“

Það er algjör­lega skýrt, að mati Orra Páls, að það verður ekki reist vind­orku­ver við núver­andi „reglu­verks­lausar aðstæð­ur“ nema að kost­irnir færu í gegnum ramma­á­ætl­un. Hins vegar sé vilji til þess að ein­falda reglu­verkið líkt og fram komi í stjórn­ar­sátt­mála. „Og við munum auð­vitað standa á vakt­inni í því hvernig til­lög­urnar verða þar til ein­föld­un­ar.“ Því ákveðnar spurn­ingar vakni: „Til ein­föld­unar fyrir hvern? Fyrir fjár­sterka aðila sem koma utan úr heimi? Eða til að greiða hraðar fyrir orku­skipt­u­m?“

Með ólík­indum væri hversu langt „kap­ít­al­inu“ hefði verið leyft að „vaða áfram“ í þessum efn­um. „Ég er mjög ósam­mála þessu og geri allt hvað ég get til að spyrna fótum við í því. En það er sann­ar­lega erfitt á meðan á því stend­ur. Ég tek alla mína hatta ofan af fyrir fólki sem að berst með kjafti og klóm í sjálf­boða­vinnu við það að reyna að verj­ast þessu“.

Fund­ar­stjór­inn Bjarki Þór Grön­feldt spurði hvort að til greina kæmi að fela Lands­virkjun einni vind­orku­fram­kvæmd­ir.

Bjarni vís­aði í svari sínu til orða Katrínar Jak­obs­dótt­ur, for­manns Vinstri grænna og for­sæt­is­ráð­herra, sem hefði bent á hversu mikil gæfa það væri að öðrum stjórn­mála­flokkum hefði ekki tek­ist að selja Lands­virkj­un. Það hafi verið stefna og sýn VG að opin­ber fram­kvæmda­að­ili stæði að þessum fram­kvæmd­um, „að því marki og eins langt og við komumst með það“.

Orri seg­ist ágætur í landa­fræði

En myndu vind­orku­verin í Norð­ur­ár­dal, í Hval­firði og Döl­unum rísa miðað við stefnu VG? „Í stjórn­ar­sátt­mála segir að vind­orku­ver eigi að byggj­ast upp á afmörk­uðum svæð­um, það er eitt, nærri tengi­virkj­um, það er ann­að, og flutn­ings­lín­um. Það er þriðja,“ sagði Orri. „Ef eitt­hvað af þessum hug­myndum sem eru hér upp­fylla allar þrjár kríter­íur þá má kannski reyna að færa rök fyrir því. Ég veit það ekki, ég er ágætur í landa­fræði en ég tel þetta ekki upp­fylla það.“

Hvað varði hans per­sónu­legu sýn á áformin á Vest­ur­landi hefði hann helst óskað þess „að menn hefðu sig bara hæga“ þar til botn fæst í útfærslu reglu­verks­ins og áður en „menn fara að sjá fyrir sér ein­hverja drauma eða að bera hér víur í fólk með alls kyns hug­mynd­um“.

Thelma Harðardóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð.
VG

Þekkt væri að virkj­ana­á­form kljúfi sam­fé­lög. „Og ég neita að trúa því að við séum ekki komin lengra í skiln­ingi árið 2022 að við ætlum að hleypa þessu áfram þang­að. Og mikil er ábyrgð þeirra sem leika heilu sam­fé­lög­unum með þessum hætt­i.“

VG sjái um umhverf­is­málin

Telja má víst að flestir þeirra sem mættu á fund­inn í Land­náms­setr­inu hafi verið stuðn­ings­menn Vinstri grænna. Á því voru þó und­an­tekn­ingar og ein þá sér­stak­lega.

„Ég átti nú fyrr von á dauða mínum en að ég lenti á fundi hjá Vinstri græn­um,“ sagði Ágúst Jóns­son. „Ég kem úr annarri átt í póli­tík. En ég hef alltaf ætl­ast til þess að Vinstri grænir sjái vel um umhverf­is­mál­in.“

„Ég ætla bara að bjóða Ágúst vel­kom­inn í flokk­inn,“ sagði Bjarki Þór fund­ar­stjóri og fékk alla við­stadda til að hlæja dátt. Ágúst sagð­ist ekki stefna á það en að hann „ætl­að­ist til að Vinstri grænir sjái um þennan hluta af þjóð­fé­lag­in­u“.

„En þá verður þú að kjósa flokk­inn!“ sagði þá einn fund­ar­manna.

Orri sagði VG finna til ábyrgðar sinnar í umhverf­is­mál­un­um. „En það væri líka ósköp gott að fá meiri stuðn­ing við að geta staðið í lapp­irn­ar. Vegna þess að við erum jú bara átta [þing­menn].“

Orri sagði ekkert fjallað um í grænbókinni möguleikann á því að flytja til rafmagn innan orkukerfisins.
Sunna Ósk Logadóttir

Hvenær verður hægt að anda létt­ar?

En er eitt­hvað í þeirri vinnu sem nú stendur yfir á Alþingi varð­andi vind­orku­málin „sem mun verða til þess að við getum andað létt­ar, að fólk þurfi ekki að standa í þess­ari enda­lausu bar­átt­u?“ spurði einn fund­ar­gesta.

Málið er hjá umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráð­herra en „mér finnst það afar bratt ætlað hjá honum að koma frum­varpi inn í þingið í vor,“ svar­aði Orri. Um „rosa­lega langan veg“ væri fyrir frum­varpið að fara þar til það kæmi til þings­ins. „Það getur vel verið að það nái fram að ganga en við skulum sjá til hvort það klárist í vor eða ekki. Það á eftir að koma í ljós. Og þýðir það að þið getið andað létt­ar? Nei, ég held ekki. Því það verður kannski ekk­ert hægt að anda léttar fyrr en þetta reglu­verk liggur fyr­ir.“

Áhyggjur af fram­tíð Skipu­lags­stofn­unar var viðruð af fund­ar­gesti. Sá ótt­að­ist að til stæði að setja hana inn í „ruslakistu­stofn­un­ina“ Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun og veikja þannig eft­ir­lit með mann­virkja­gerð. Hið nýja inn­við­a­ráðu­neyti væri farið að breiða veru­lega úr sér.

Orri minnti á að Skipu­lags­stofnun starfar á grund­velli laga og verði ekki lögð niður eða breytt nema með laga­setn­ingu. Hann sagð­ist því ekki deila þessum áhyggj­um. Hann hefði hvergi fengið það stað­fest að þetta standi til „en ég hef alveg heyrt þetta, ég við­ur­kenni það“.

Og fleiri játn­ingar fylgdu í kjöl­far­ið.

„Ég skal alveg við­ur­kenna það að ég var ekk­ert ofboðs­lega skot­inn í þessum breyt­ing­um,“ sagði Bjarni og vís­aði til stofn­unar inn­við­a­ráðu­neyt­is­ins.

Orri Páll ræðir við fundargesti að fundi loknum.
Sunna Ósk Logadóttir

Er búið að lofa ein­hverju?

Kristín Helga sagði virkj­un­ar­að­ila þegar hafa ráð­ist í fjár­frekan und­ir­bún­ing að sínum verk­efn­um. „Eru þeir að gera þetta út í blá­inn eða er ein­hver búinn að lofa ein­hverju ein­hvers stað­ar?“

Bjarni sagð­ist ekki vita til þess. „Ég vona ekki. En það eru örugg­lega alls konar vænt­ingar í gang­i.“

Hann sagði að fara þyrfti var­lega í sak­irnar en ekki framúr okkur eins og gerð­ist hvað varðar fisk­eld­ið. Úr slíkri stöðu væri erfitt að stíga til baka. „Okkur liggur ekk­ert á.“

Orri Páll minnti á auð­lindir í eigu þjóð­ar­innar og sagði: „Vind­ur­inn er okk­ar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent