Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, braut lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur greinargerð um hælisleitandann Tony Omos og fleiri. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem Kjarninn hefur undir höndum.
Þá studdist beiðni Gísla Freys ekki við viðhlítandi lagaheimildir um miðlun persónuupplýsinga, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Þá er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að hafa ekki gætt viðunandi öryggis við miðlun framburðarskýrslu Tony Omos til innanríkisráðuneytisins.
Í úrskurðarorði segir:
Miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögum með persónuupplýsingum um Tony Omos, Evelyn Glory Joseph og fleiri einstaklinga til innanríkisráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013, sem og beiðni ráðuneytisins þar að lútandi, studdist ekki við viðhlítandi heimild.
Skortur á skráningu um miðlun draganna í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og um öflun þeirra í málaskrá innanríkisráðuneytisins, fór í bága við kröfum um upplýsingaöryggi. Hið sama gildir um skort á skráningu um mótttöku ráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013 á framburðarskýrslu Tony Omos frá Útlendingastofnun.
Ekki var gætt viðunandi öryggis við miðlun fyrrnefndra skýrsludraga til ráðuneytisins frá Lögreglunni á Suðurnesjum og fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun til ráðuneytisins.
Úrskurður Persónuverndar er dagsettur 25. febrúar, en undir hann ritar meðal annars Björg Thorarensen, lagaprófessor, sem er stjórnarformaður Persónuverndar.
Kjarninn mun á næstu mínútum fjalla ítarlega um úrskurð Persónuverndar.