Innanríkisráðuneytið greiddi Markaðsstofunni Argus ehf. 2.394.300 krónur fyrir sértæka fjölmiðlaráðgjöf vegna lekamálsins á síðasta ári. Þetta kemur fram í yfirliti yfir aðkeypta ráðgjöf innanríkisráðuneytisins á árunum 2013 og 2014 sem tekið var saman að beiðni Kjarnans.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og ritstjóri Pressunnar, á meðal þeirra sem veittu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra fjölmiðlaráðgjöf fyrir hönd Argus.
Argus sérhæfir sig í fjölbreyttri þekkingar-, þjónustu- og ráðgjafavinnu fyrir einstaklinga, stofnanir og opinbera aðila að því er fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins, og að það hafi margra áratuga reynslu meðal annars af markaðsmálum, fjölmiðlum og samskiptum.
Þá kemur fram í yfirliti innanríkisráðuneytisins að ráðuneytið greiddi lögmannsstofunni LEX 1.070.450 krónur vegna lögfræðiráðgjafar í tengslum við lekamálið á síðasta ári. Beinn kostnaður ráðuneytisins vegna aðkeyptrar ráðgjafar á árinu 2014 vegna lekamálsins nam því tæpum 3,5 milljónum króna.