„Ég veit alveg hvað bíður mín“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætlar í framboð fyrir Viðreisn. Hún segir gagnrýnina á sig skiljanlega en vonast til að fá annað tækifæri. Viðreisn mun ekki geta unnið með Sjálfstæðisflokknum að óbreyttu og hún fullyrðir að Viðreisn verði ekki þriðja hjól undir næstu ríkisstjórn.
Þórður Snær Júlíusson skrifar
„Ég veit alveg hvað bíður mín“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætlar í framboð fyrir Viðreisn. Hún segir gagnrýnina á sig skiljanlega en vonast til að fá annað tækifæri. Viðreisn mun ekki geta unnið með Sjálfstæðisflokknum að óbreyttu og fullyrðir að Viðreisn verði ekki þriðja hjól undir næstu ríkisstjórn.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 14 ár. Hún var ráðherra í hrunstjórninni og varaformaður flokksins. Hún kallaði eftir því að gagnrýnisraddir á íslenska efnahagsundrið sæktu sér endurmenntun, var kölluð kúlulánadrottning vegna lána sem eiginmaður hennar fékk hjá bankanum sem hann starfaði hjá og ákvað um síðir að stíga út úr stjórnmálum fyrir kosningarnar 2013, eftir að hafa hætt sem varaformaður og farið í tímabundið leyfi eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Nú er Þorgerður snúin aftur á hið pólitíska svið og ætlar í framboð fyrir nýjan flokk, Viðreisn. Hún segist skilja gagnrýnina sem hún fékk á sínum tíma, að hún hafi lært heilmikið á því að stíga til hliðar úr stjórnmálunum og vonar að fólk gefi henni annað tækifæri.
Fleira fólk vill breytingar
Það er ekki á hverjum degi sem fyrrverandi formaður og varaformaður stærsta stjórnmálaflokks landsins ákveða að segja skilið við hann og færa stuðning sinn yfir til annars flokks. Það gerðist þó í gær þegar Þorgerður greindi frá því að bæði hún og Þorsteinn Pálsson hefðu gengið til liðs við Viðreisn, frjálslynt stjórnmálaafl sem var stofnsett í sumar eftir um tveggja ára undirbúning. Það var reyndar verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála að Þorgerður væri líklega að fara að leiða lista Viðreisnar í sínu gamla Suðvesturkjördæmi – og DV var meira að segja búið að slá því upp á forsíðu að svo yrði. Sjálf segist hún þó ekki hafa endanlega ákveðið sig fyrr en í gær. Og í kjölfarið gengu þau Þorsteinn á fund Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og náins samstarfsmanns Þorgerðar til margra ára, og tilkynntu honum um ákvörðun þeirra. Næstu vikurnar munu þessir fyrrverandi bandamenn berjast gegn hvoru öðru um hylli kjósenda í Kraganum, í stað þess að standa hlið við hlið.
Þorgerður segir að hún hafi valið að fara fram fyrir Viðreisn vegna þess að hún telji að þar sé tækifæri til að breyta ákveðnum lykilþáttum í samfélagi okkar. „Í Viðreisn er þetta frjálslyndi sem ég tel mikilvægt að fái farveg, markvissar en áður. Þar eru tækifæri til að breyta. Innan Sjálfstæðisflokksins er ekki verið að vinna að þessum breytingum sem ég vill leggja áherslu á. Áherslur eins og á alþjóðastjórnmál vestræna samvinnu, þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið og meiri fókus á heilbrigðis- og velferðarmál. Ég vil aukið frelsi og breytingar í landbúnaði og sjávarútvegi. Þetta eru mál sem menn hafa ekki verið sammála um innan Sjálfstæðisflokksins að breyta og engar vísbendingar að menn ætli í slíkar breytingar á næsta kjörtímabili.“
Það þarf ekki að ræða lengi við Þorgerði til að átta sig á að hana þyrstir í að komast aftur inn á svið stjórnmála. Hún segir vettvanginn heillandi og gefi tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið. Og hún segist skynja að fleira og fleira fólk vilji þessar breytingar. „Mér finnst þessi vettvangur sérstaklega spennandi núna. Það eru nýir straumar og stjórnmálaöfl á borð við Pírata eru að hreyfa við og breyta þankagangi fólks. Þótt ég sé ekki endilega sammála þeim í stefnu þá er þetta mjög mikilvægt. Fólk er í ríkara mæli að gera ákveðnar samfélagslegar kröfur um hvernig kerfin eru uppbyggð. Hvernig við sjáum vaxtarmöguleika innan atvinnugreina en líka hvernig það verði að vera ákveðið réttlæti í skiptingu á arðsemi og í aðgengi.“
Hefur lært margt
Síðustu þrjú árin hefur Þorgerður starfað innan Samtaka atvinnulífsins (SA), en fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra samtaka, Þorsteinn Víglundsson, verður einnig í framboði fyrir Viðreisn í næsta mánuði. Hún segist hafa lært margt af því að vinna hjá hagsmunasamtökum fyrirtækjanna í landinu, og sérstaklega af samskiptum þeirra við launþegahreyfingarnar.
„Ég hef lært að það skipti miklu máli að fyrirtækin í landinu hafi öflugan málsvara sem komi sjónarmiðum þeirra á framfæri og leiðrétti á tíðum brengluð viðhorf sem eru uppi gagnvart þeim og atvinnulífinu. Mér þótti líka heillandi að eftir langa og erfiða báráttu við verkalýðshreyfinguna í ýmsum deilum þá kláruðu menn málin. Í stjórnmálunum hefur þetta alltaf verið þannig að stjórnarandstaðan þarf alltaf að vera á móti og meirihlutinn þarf alltaf að nota meirihlutaræðið. Fólk í ólíkum röðum þarf hins vegar ekki að vera andstæðingar heldur getur það verið samherjar á ákveðnum sviðum. Það er hægt að ná saman um tiltekin mál þótt að heildarstefnan sé ólík.“
Gerði mistök
Þorgerður var menntamálaráðherra þegar hrunið skall á haustið 2008 og Kristján Arason, eiginmaður hennar, starfaði sem framkvæmdastjóri í stærsta banka landsins. Þau komu bæði fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis og mikil fjölmiðlaumfjöllun var um mál þeirra næstu árin. Þegar fyrir lá að Kristján þyrfti ekki að greiða skuld sem hann stofnaði til vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi fyrir hrun birti DV til að mynda forsíðu með mynd af þeim hjónum og fyrirsögninni „Sloppin“.
Hún segir að gagnrýnin á sig hafi verið hörð og á tímum óvægin, en að mörgu leyti skiljanleg. „Ég fór af þingi þegar rannsóknarskýrslan kom út og sagði af mér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Þegar ég hlustaði á fólkið í samfélaginu fyrir kosningarnar 2013 þá taldi ég rétt að stíga til hliðar. Ég er ekki að segja að mig hafi langað það, því ég elska pólitík og er í henni út af hugsjónum. En ég taldi það rétt.
Maður hefur lært mikið á þessum tíma og réttarvörslukerfið hefur á meðan farið í gegnum mál mannsins míns. Þannig eru leikreglur lýðræðisins. Þær geta verið erfiðar en maður verður að virða þær. Maður gerði mistök en í því felst ákveðinn lærdómur sem vonandi þroska mann einnig. Og núna vona ég að ég fái annað tækifæri.“
Þorgerður telur að það geti að vissu leyti hjálpað henni nú að hafa stigið sjálf út úr stjórnmálunum fyrir tæpum fjórum árum. „Það verða alltaf einhverjir sem munu ekki skilja að ég sé að snúa aftur á þetta svið og eru ekki búnir að taka mann aftur í sátt. Ég verð bara að lifa með því.“
Viðreisn verður ekki þriðja hjól
Þótt Viðreisn sé nýtt stjórnmálaafl sem var einungis formlega stofnað fyrir nokkrum vikum er ljóst að tilvera þess ógnar ýmsum. Mikil ágjöf er frá vinstri á hinum pólitíska skala þar sem flokknum er stillt upp sem hækju fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að halda völdum, svipað og talað var um Bjarta framtíð og Samfylkinguna í síðustu kosningum. Frá hægri er reynt að afskrifa Viðreisn sem flóttafólk úr Sjálfstæðisflokknum sem geti ekki sætt sig við að Ísland sé ekki að ganga í Evrópusambandið.
Það er kannski ekki skrýtið að það fari um marga hefðbundnu flokkanna. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist Viðreisn með 9,7 prósent fylgi, meira en bæði Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, og er samkvæmt því þriðji stærsti flokkur landsins.
Þegar hún er spurð í hvora áttina hún vilji að Viðreisn starfi að loknum kosningum – með núverandi stjórnarflokkum eða þeim sem mynda stjórnarandstöðuna – komist Viðreisn í slíka stöðu vill hún ekki svara afgerandi. „Viðreisn er ekki og verður ekki þriðja hjól, hvorki fyrir hægri né vinstri stjórn,“ segir hún. Það sem skipti máli sé stefnan. Og sú stefna er um breytingar á kerfunum.
Viðreisn er ekki og verður ekki þriðja hjól, hvorki fyrir hægri né vinstri stjórn.
En Bjarni Benediktsson sagði í viðtali á Bylgjunni 8. maí síðastliðinn að helstu kosningamál Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum verði að standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá. Og Framsóknarflokkurinn hefur sýnt það í verki að hann ver sum lykilkerfin, til dæmis landbúnaðar- og sjávarútvegskerfin, af mikilli hörku. Þá er það yfirlýst stefna beggja ríkisstjórnarflokkanna að ganga ekki í Evrópusambandið og þeir stóðu saman að því að draga umsókn Íslands að því til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Aðspurð hvort að sitjandi ríkisstjórnarflokkar geti þá verið samstarfsmöguleiki, í ljósi þeirra lykilmála Viðreisnar sem hún nefndi fyrr í viðtalinu segir Þorgerður: „ekki að óbreyttri stefnu.“
Markvissar aðgerðir snemma á kjörtímabilinu
En hvað þarf þá að ná saman við Viðreisn um ef mynda ætti ríkisstjórn með flokknum að loknum kosningunum síðla í október? Þorgerður segir nokkur stór atriði í stefnuskrá Viðreisnar leika þar aðalhlutverk. „Það þarf að klára þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Það þarf að fara í markvissar breytingar á landbúnaðarkerfinu, sem taka bæði mið af hagsmunum bænda og neytenda. Við eigum áfram að reka verðmætaskapandi sjávarútveg en þetta kerfi sem við höfum utan um hann mun springa framan í okkur ef það kemur ekki eitthvað réttlæti þar inn. Stöðugleiki í sjávarútvegi er mikilvægur fyrir greinina en til þess þarf aukna sátt um kerfið. Það felst í því að menn verða að borga sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni, hvort sem það er í gegnum markaðsleið eða auðlindagjald. Það þarf líka að liggja fyrir markviss stefna varðandi aðgerðir í heilbrigðismálum. Allt þetta þarf að gerast snemma á kjörtímabilinu, ekki seint á því. Ef menn eru til í að tala við okkur um þessi atriði, þá erum við með.“
Ljóst má vera að sum önnur stjórnmálaöfl munu setja breytingar á stjórnarskránni ofarlega á kröfulistann sinn komist þau í aðstöðu til að semja um aðild að ríkisstjórn. Þorgerður er hlynnt ákveðnum breytingum á stjórnarskránni en telur hana ekki vera stærsta gallann á stjórnkerfinu. „Ég er frekar treg í róttækar breytingar á henni. En það er ýmsu sem þarf að breyta. Það þarf að jafna atkvæðavægi og það þarf að endurnýja kaflann um forseta Íslands. Það þarf líka að setja inn auðlindaákvæði og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Svo er ég sjálf skotin í persónukjöri.“
Fór í gegnum svipugöng og getur það aftur
Líkt og áður sagði þá tilkynnti Þorgerður Bjarna Benediktssyni um ákvörðun sína í gær. Hún segir að viðbrögð sjálfstæðismanna við framboði hennar fyrir Viðreisn hafa verið misjöfn. „Sumir hafa tekið þessu mjög illa. Vinsamlega illa og óskynsamlega illa. Svo eru aðrir sem eru mjög ánægðir með þennan valkost sem Viðreisn veitir og hvetja mann áfram. Ég veit alveg hvað bíður mín. Það er hluti af þessari ákvörðun og það verður bara svo að vera. Ég fór í gegnum svipugöng á sínum tíma og ég get gert það aftur. Eftir stendur að ég ætla að tala fyrir ákveðnum breytingum á íslensku samfélagi og þess vegna er ég komin aftur í stjórnmál.“