Mynd: Birgir Þór

Íslendingar búa í lúxusgarði heimsins

Ólafur Ragnar Grímsson setti fimmta þing Arctic Circle um norðurslóðir sem fram fer í Hörpu um helgina. Ólafur hefur lengi beitt sér fyrir aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hann ræddi við blaðamann Kjarnans um norðurslóðir, loftslagið, aðgerðir á Íslandi og tækifærin sem felast í loftslagsbreytingum.

Það er orðið nokkuð langt síð­an,“ svarar Ólafur Ragnar Gríms­son, fyrr­ver­andi for­seti Íslands og stjórn­ar­for­maður hins árlega Arctic Circle-­þings, þegar hann er spurður hvenær áhugi hans á umhverf­is- og lofts­lags­málum kvikn­aði fyrst.

„Ég held að það séu rétt rúm 30 ár síðan við Al Gore áttum okkar fyrstu sam­ræður um lofts­lags­mál. Sam­spil lofts­lags­mála og norð­ur­slóða var eitt af því sem ég komst fljót­lega að nið­ur­stöðu um á mínum fyrstu árum sem for­seti að þyrfti að verða meg­in­mál, og að það yrði ábyrgð­ar­leysi að láta það vera jað­ar­mál áfram.“ ­Arctic Circle-­þingið er haldið í Hörpu um helg­ina, 13. til 15. októ­ber. Þetta er í fimmta sinn sem þingið er haldið en það hefur ávalt vakið athygli áhrifa­fólks í umræð­unni um mál­efni norð­ur­slóða og lofts­lag á jörð­inni. Á því verður engin breyt­ing í ár og dag­skráin er þétt.

Ólafur Ragnar hefur staðið fyrir þing­hald­inu bæði hér heima og í öðrum lönd­um. Eftir að hann lét af for­seta­emb­ætti 31. júlí 2016 hefur hann haldið áfram að fjalla um mál­efni norð­ur­slóða, eins og hann gerði lengst af sem for­seti Íslands, og varið tíma sínum í kynn­ingu og umfjöllun á þeim vett­vangi.

For­set­inn fyrr­ver­andi segir þingið hafa þró­ast mun hraðar og orðið mun umfangs­meira en hann hafði órað fyr­ir. „Ef ein­hver hefði sagt mér fyrir fjórum árum að fimmta þingið yrði með 135 mál­stofur og yfir 600 ræðu­menn þá hefði ég varla trúað því,“ segir hann og hlær.

„Í fyrsta lagi kemur Pat­ricia Espin­osa, fram­kvæmda­stjóri Lofts­lags­stofn­unar Sam­ein­uðu þjóð­anna, og flytur stefnu­ræðu í upp­hafi þings­ins. Það er í fyrsta sinn sem hún flytur slíka ræðu á þingi af þessu tagi eftir að Banda­ríkja­for­seti tók sína ákvörðun um Par­ís­ar­sam­komu­lag­ið,“ segir Ólafur Ragnar og vísar þar í ákvörðun Don­alds Trump síðan í júní að segja Banda­ríkin frá tíma­móta­sam­komu­lagi ríkja heims um aðgerðir í lofts­lags­mál­um.

„Í öðru lagi kemur Patrí­ark­inn af Kon­stant­ínópel, sem ásamt Páf­anum í Róm er einn af helstu leið­togum hins kristna heims, og flytur aðra stefnu­ræðu um lofts­lags­breyt­ingar og ábyrgð okkar gagn­vart jörð­inni. Svo erum við með lofts­lags­mála­ráð­herra Sam­ein­uðu arab­ísku fursta­dæmanna sem mun halda ræðu um áherslur arab­ísku fursta­dæmanna á að byggja upp hreina orku í stað olí­unn­ar. Það hefðu ein­hvern tíma þótt tíð­indi að full­trúi hins auð­uga olíu­ríkis teldi nauð­syn­legt að mæta á norð­ur­slóða­þing á Íslandi til að útskýra aðgerðir þeirra á sviði sól­ar­orku, vind­orku og ann­ara sviða auk stefnu þeirra um að stór­auka hlut­fall hreinnar orku,“ segir Ólafur Ragn­ar.

Umræðan er raun­hæf­ari

Fyrsta Arctic Circle-­þingið var haldið hér á landi í októ­ber árið 2013. Ólafur Ragnar hafði þá unnið að stofnun Arctic Circle í tölu­verðan tíma. „Fljót­lega eftir að ég var kos­inn for­seti fyrir rúmum 20 árum fór ég að glíma við spurn­ingar um hvaða þætt­ir, mál­efni og breyt­ingar myndu skipta Ísland miklu á nýrri öld,“ segir hann, spurður um hvernig Arctic Circle hafi orðið til.

„Ég komst að þeirri nið­ur­stöðu að þró­unin á norð­ur­slóðum myndi verða ein af þeim meg­in­breyt­ingum sem myndu skipta sköpum fyrir Ísland, og reyndar fyrir heim­inn allan, vegna þess að bráðnun íss og jökla á norð­ur­slóðum er einn helsti þátt­ur­inn í lofts­lags­breyt­ingum í ver­öld­inni. Þegar ég komst að þess­ari nið­ur­stöðu varð­andi norð­ur­slóð­irnar þá voru umræður um þær algert jað­ar­mál.“

Þróun náttúrunnar er ekki pólitísk eða hugmyndafræðileg í eðli sínu. Hún er ekki abstract, heldur konkret. Ísinn og jöklarnir taka enga pólitíska afstöðu. Þeir eru hvorki til hægri eða vinstri. Ísinn er einfaldlega að bráðna.

Hug­myndin hafi svo þró­ast og gerj­ast í huga Ólafs og í sam­tölum við vís­inda­menn og for­ystu­menn á norð­ur­slóð­um. Það varð fljót­lega ljóst að vanda­málið sem þyrfti að leysa á vett­vangi norð­ur­slóða var að koma sem flestum að sama borði, hvort sem það væru þjóð­ríki, hags­muna­að­il­ar, vís­inda­stofn­an­ir, umhverf­is­vernd­ar­sam­tök eða áhuga­samur almenn­ing­ur.

„Ég taldi að til þess að ná árangri á norð­ur­slóðum þá yrðum við að vera lýð­ræð­is­legri, umræðan yrði að vera opin og á jafn­rétt­is­grund­velli; allir hefðu sama sess,“ segir Ólaf­ur. Þessar sam­ræður lögðu grund­völl að Arctic Circle, árlegu þingi á Íslandi um mál­efni norð­ur­slóða. „Það hefur breytt stöðu Íslands. Arctic Circle skapar tæki­færi fyrir fræða­sam­fé­lag­ið, íslensk stjórn­völd,við­skipta­lífið og fleiri aðila; það skiptir máli að litið sé á Ísland sem stað í ver­öld­inni þar sem áhrifa­fólk kemur saman árlega og ræðir lofts­lags­breyt­ingar og þróun norð­ur­slóða.“

Þingið í Hörpu hefur einnig þró­ast í að verða mik­il­vægur vett­vangur þeirra ríkja sem ekki eiga fulla aðild að Norð­ur­skauts­ráð­inu til að skýra vonir sínar og vænt­ingar til áhrifa á norð­ur­slóð­um. Þar hafa ríki á borð við Kína, Kóreu og Japan gert sig gild­andi, auk áhrifa­ríkja í Evr­ópu á borð við Frakk­land og Þýska­land.

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Ólafur Ragnar Grímsson, þá forseti Íslands, á Arctic Circle 2015.
Mynd: Arctic Circle

Hvernig finnst þér umræðan um mál­efni norð­ur­slóða hafa breyst á þessum tíma?

„Ég held að Arctic Circle hafi stuðlað að því að gera umræð­una raun­hæf­ari og birta sann­ari mynd af því sem er að ger­ast á norð­ur­slóð­u­m,“ svarar Ólaf­ur.

„Um­ræðan um lofts­lags­breyt­ingar hefur orðið jarð­bundn­ari við það að nýta sér Arctic Circle sem vett­vang vegna þess að alþjóð­lega umræðan um lofts­lags­breyt­ingar er á köflum dálítið þoku­kennd. Lofts­lags­breyt­ingar eru fyr­ir­bæri sem almenn­ingur á oft erfitt með að tengja við stefnur og strauma; þróun nátt­úr­unnar er ekki póli­tísk eða hug­mynda­fræði­leg í eðli sínu. Hún er ekki abstract, heldur kon­kret. Ísinn og jökl­arnir taka enga póli­tíska afstöðu. Þeir eru hvorki til hægri eða vinstri. Ísinn er ein­fald­lega að bráðna, hvort sem það er haf­ís­inn á íshaf­inu eða jökl­arnir á Græn­landi og Ísland­i.“

Nýtum tækn­ina

Eitt helsta þemað á Arctic Circle-­þing­inu í ár verður um sam­spil norð­ur­slóða og lofts­lags­breyt­inga. Ef rýnt er í dag­skrá ráð­stefn­unnar má finna skýr dæmi um það. Ólafur nefnir sér­stak­lega einn ræðu­mann: „Lauren Jobs, ekkja Steve Jobs stofn­anda App­le, mun ræða um það hvernig hægt er að tryggja árangur í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ingum jafn­vel þó rík­is­stjórnir hætti við að gegna for­ystu­hlut­verki.“

„Það er í raun og veru ný sýn á hvernig við getum brugð­ist við þessum mikla vanda því við höfum hingað til aðal­lega horft á rík­is­stjórnir og alþjóða­samn­inga. En nú höfum við tækni og tæki sem gera það að verkum að hver og einn getur í raun og veru gert sig gild­and­i,“ segir Ólaf­ur.

Eftir að rík­is­stjórnin í Banda­ríkj­unum ákvað að segja sig frá Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu um lofts­lags­breyt­ingar var við­bragð ein­stakra fylkja innan Banda­ríkj­anna, borga, fyr­ir­tækja og áhrifa­manna að lýsa yfir holl­ustu við sam­komu­lag­ið, þvert á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Ólafur Ragnar seg­ir, þegar hann er spurður hvar honum finn­ist frum­kvæði að aðgerðum í lofts­lags­málum eiga að liggja, að það sé að breyt­ast í grund­vall­ar­at­rið­um. „Gamla sýnin var að ein­blína á alþjóð­lega samn­inga. Nú eru fleiri kost­ir. Tækni­breyt­ingar á sviði hreinnar orku og nán­ari grein­ing á upp­sprettu meng­un­ar­innar sem veldur lofts­lags­breyt­ingum hefur sýnt okkur að ein­staka fylki, hér­uð, borgir, fyr­ir­tæki eða jafn­vel lítil sam­fé­lög gegna lyk­il­hlut­verki í því að okkur tak­ist að koma í veg fyrir alvar­legar lofts­lags­breyt­ing­ar.“

Lauren Jobs flytur erindi á Arctic Circle-þinginu í ár.

„Ég hef stundum sagt við fólk – ef það hefur séð kvik­mynd­ina Social Network um hvernig Face­book varð til – að horfa á hana aftur og hugsa þá um hvaða ár hún ger­ist. Hvaða ár voru þessir stákar að búa til for­rit til að ná í stelpur í háskól­an­um?“

Sagan sem sögð er í kvik­mynd­inni hefst árið 2003, grípur blaða­maður fram í.

„Já, það er þannig,“ segir Ólafur og hlær. „Fólk sem hefur upp­lifað þetta sjálft hefur meiri full­vissu um að það sé hægt að breyta heim­inum jafn­vel þó ein­staka rík­is­stjórnir þvælist fyr­ir.“

„Þetta er mjög bjart­sýnn boð­skap­ur. Ný tækni­leg og lýð­ræð­is­leg sýn á hvað hægt er að gera verður skýrt stef í umræðum á þingi Arctic Circle. Það hefur verið mjög ánægju­legt fyrir mig, sér­stak­lega eftir að ég hætti sem for­seti, að geta unnið náið með þessu fólki.“

Norð­ur­slóðir eru stór hluti af jörð­inni

Eftir að Ólafur Ragnar gerði mál­efni norð­ur­slóða að einu helsta við­fangs­efni for­seta­tíðar sinnar hefur mikið vatn runnið til sjáv­ar. Vist­vænni tækni hefur fleytt fram og nákvæm­ari líkön af fram­tíð­ar­lofts­lagi jarð­ar­innar hafa orðið til. Þau hafa mörg und­ir­strikað mik­il­vægi norð­ur­slóða fyrir lofts­lag jarð­ar­inn­ar.

Ólafur Ragnar seg­ist hafa skynjað nána teng­ingu milli fram­tíðar norð­ur­slóða og lofts­lags­breyt­inga í ver­öld­inni á sínum fyrstu árum sem for­seti, þegar vís­inda­rann­sóknir hafi leitt í ljós hve afdrifa­ríkar breyt­ing­arnar á norð­ur­slóðum yrðu fyrir heims­byggð­ina.

Norðurslóðir eru mikilvægt svæði á jörðinni fyrir margar sakir. Norðurslóðir eru jafnframt gríðarlega víðfemt svæði; Þær eru að flatarmáli á stærð við Afríku.

„Smátt og smátt varð það skýr­ara í mínum huga að það væri hægt að sam­eina athafna­semi í mál­efnum norð­ur­slóða og þátt­töku í víð­tækri bar­áttu gegn lofts­lags­breyt­ingum á áhrifa­rík­ari hátt en við töldum fyrir um 20 árum,“ segir Ólafur og segir þetta hafa skipt miklu máli fyrir Íslend­inga. „Við tölum um norð­ur­slóðir dálítið eins og við tölum um Húna­vatns­sýslu og Þing­eyja­sýslu sem eitt­hvað tak­markað svæði. Við erum í raun og veru að tala um stóran hluta jarð­ar­kringl­unnar sem gegnir lyk­il­hlut­verki fyrir veð­ur­far og lofts­lag – og reyndar efna­hags­þróun líka – á 21. öld­inn­i.“

Ólafur við­ur­kennir að honum þyki mál­efni norð­ur­slóða erfið á vissan hátt, en að það geri þau einnig spenn­andi. Svæðið hafi verið nær óþekkt í hinum vest­ræna heimi þar til land­könn­uðir hættu lífi sínu norður yfir heim­skauts­baug í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar. Þá hafi verið ómögu­legt að hafa sam­starf um rann­sókn­ir, nýt­ingu, umræðu og stefnu­mótun varð­andi þetta stóra svæði heims­ins fyrr en að Kalda stríð­inu loknu fyrir tæpum 30 árum. „Það er ekki oft sem fólk fær tæki­færi til að taka þátt í mótun nýrrar heims­mynd­ar. Eitt af því sem ein­kennir and­ann í Arctic Circle-­þing­unum er að allir eru með­vit­aðir um að þetta er nýtt verk­efni fyrir okkur öll og að við verðum að vanda okkur Ef okkur mis­tekst varð­andi fram­tíð norð­ur­slóða þá kann að verða erfitt, jafn­vel úti­lok­að, að koma í veg fyrir afger­andi lofts­lags­breyt­ing­ar, sem umturna munu lífs­skil­yrðum alls staðar á jörð­inn­i.“

Lofts­lags­málin fá ekki nógu mikla athygli

Finnst þér lofts­lags­málin fá nógu mikla athygli á Íslandi?

„Nei, mér finnst það ekki. Kannski vegna þess að við búum ekki við sömu mengun og hrjáir fjölda landa,“ svarar Ólafur Ragnar og rifjar upp dvöl sína í Pek­ing, höf­uð­borg Kína, í des­em­ber í fyrra. „Meng­unin var slík að eftir 20 mín­útur var maður orð­inn lík­am­lega veik­ur. Við urðum að keyra eins og í niða­þoku, nema það var út af meng­un­arryki. Það var áhrifa­rík og ógn­vekj­andi reynsla.“

Dag­leg reynsla Íslend­inga minnir okkur þess vegna ekki á hvað bar­átta gegn lofts­lags­breyt­ingum er brýn. „Við þurfum að fara annað til þess að verða fyrir slíkri reynslu. Að því leyti má segja að við búum í lúx­us­garði heims­ins. Ef öll ver­öldin væri eins og Ísland þá værum við ekki að halda jafn margar alþjóð­legar ráð­stefnur um bar­átt­una gegn lofts­lags­breyt­ing­um.“

Aukin dag­leg umfjöllun um lofts­lags­mál, hvort sem það er á vett­vangi fjöl­miðla, stjórn­mála­flokka eða fyr­ir­tækja, er nauð­syn­leg til þess að skilja lofts­lags­mál­in, að mati Ólafs. „Þá myndum við ekki aðeins átta okkur betur á vand­anum en við myndum líka skilja tæki­færin sem bæði við og aðrir hafa til þess að bregð­ast við þessum vanda á jákvæðan og skap­andi hátt, en fórna ekki bara hönd­um.“

Bar­átta fyrir umhverfið er orðin eðli­leg

Spurður hvað honum finn­ist um fram­göngu íslenskra stjórn­valda í lofts­lags­málum segir Ólafur Ragnar að margar jákvæðar breyt­ingar hafi átt sér stað á und­an­förnum ára­tug­um, t.d. síðan hann stóð ásamt öðrum í bar­átt­unni fyrir að stofna umhverf­is­ráðu­neytið fyrir rúmum ald­ar­fjórð­ungi síð­an. „Það var mikil bar­átta á Alþingi að stofna umhverf­is­ráðu­neyti. Nú finnst öllum það sjálf­sagt en það þótti mjög fram­andi á þeim tíma.“

„Ég held að önnur jákvæð breyt­ing sé sú að ef for­ystu­maður í stjórn­málum ákveður nú að helga sig umhverf­is­málum með afger­andi hætti, þá þykir það eðli­legt. Það væri auð­vitað æski­legt ef fleiri gæfu þeim umræðum svig­rúm og sæju líka að í slíkum mál­flutn­ingi felst ekki bara skrá yfir vanda­mál heldur líka sýn á fjöl­mörg tæki­færi sem við höfum bæði sem ein­stak­lingar og þjóð.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal