Mynd: Birgir Þór

Íslendingar búa í lúxusgarði heimsins

Ólafur Ragnar Grímsson setti fimmta þing Arctic Circle um norðurslóðir sem fram fer í Hörpu um helgina. Ólafur hefur lengi beitt sér fyrir aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hann ræddi við blaðamann Kjarnans um norðurslóðir, loftslagið, aðgerðir á Íslandi og tækifærin sem felast í loftslagsbreytingum.

Það er orðið nokkuð langt síðan,“ svarar Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stjórnarformaður hins árlega Arctic Circle-þings, þegar hann er spurður hvenær áhugi hans á umhverfis- og loftslagsmálum kviknaði fyrst.

„Ég held að það séu rétt rúm 30 ár síðan við Al Gore áttum okkar fyrstu samræður um loftslagsmál. Samspil loftslagsmála og norðurslóða var eitt af því sem ég komst fljótlega að niðurstöðu um á mínum fyrstu árum sem forseti að þyrfti að verða meginmál, og að það yrði ábyrgðarleysi að láta það vera jaðarmál áfram.“ Arctic Circle-þingið er haldið í Hörpu um helgina, 13. til 15. október. Þetta er í fimmta sinn sem þingið er haldið en það hefur ávalt vakið athygli áhrifafólks í umræðunni um málefni norðurslóða og loftslag á jörðinni. Á því verður engin breyting í ár og dagskráin er þétt.

Ólafur Ragnar hefur staðið fyrir þinghaldinu bæði hér heima og í öðrum löndum. Eftir að hann lét af forsetaembætti 31. júlí 2016 hefur hann haldið áfram að fjalla um málefni norðurslóða, eins og hann gerði lengst af sem forseti Íslands, og varið tíma sínum í kynningu og umfjöllun á þeim vettvangi.

Forsetinn fyrrverandi segir þingið hafa þróast mun hraðar og orðið mun umfangsmeira en hann hafði órað fyrir. „Ef einhver hefði sagt mér fyrir fjórum árum að fimmta þingið yrði með 135 málstofur og yfir 600 ræðumenn þá hefði ég varla trúað því,“ segir hann og hlær.

„Í fyrsta lagi kemur Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, og flytur stefnuræðu í upphafi þingsins. Það er í fyrsta sinn sem hún flytur slíka ræðu á þingi af þessu tagi eftir að Bandaríkjaforseti tók sína ákvörðun um Parísarsamkomulagið,“ segir Ólafur Ragnar og vísar þar í ákvörðun Donalds Trump síðan í júní að segja Bandaríkin frá tímamótasamkomulagi ríkja heims um aðgerðir í loftslagsmálum.

„Í öðru lagi kemur Patríarkinn af Konstantínópel, sem ásamt Páfanum í Róm er einn af helstu leiðtogum hins kristna heims, og flytur aðra stefnuræðu um loftslagsbreytingar og ábyrgð okkar gagnvart jörðinni. Svo erum við með loftslagsmálaráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna sem mun halda ræðu um áherslur arabísku furstadæmanna á að byggja upp hreina orku í stað olíunnar. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að fulltrúi hins auðuga olíuríkis teldi nauðsynlegt að mæta á norðurslóðaþing á Íslandi til að útskýra aðgerðir þeirra á sviði sólarorku, vindorku og annara sviða auk stefnu þeirra um að stórauka hlutfall hreinnar orku,“ segir Ólafur Ragnar.

Umræðan er raunhæfari

Fyrsta Arctic Circle-þingið var haldið hér á landi í október árið 2013. Ólafur Ragnar hafði þá unnið að stofnun Arctic Circle í töluverðan tíma. „Fljótlega eftir að ég var kosinn forseti fyrir rúmum 20 árum fór ég að glíma við spurningar um hvaða þættir, málefni og breytingar myndu skipta Ísland miklu á nýrri öld,“ segir hann, spurður um hvernig Arctic Circle hafi orðið til.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að þróunin á norðurslóðum myndi verða ein af þeim meginbreytingum sem myndu skipta sköpum fyrir Ísland, og reyndar fyrir heiminn allan, vegna þess að bráðnun íss og jökla á norðurslóðum er einn helsti þátturinn í loftslagsbreytingum í veröldinni. Þegar ég komst að þessari niðurstöðu varðandi norðurslóðirnar þá voru umræður um þær algert jaðarmál.“

Þróun náttúrunnar er ekki pólitísk eða hugmyndafræðileg í eðli sínu. Hún er ekki abstract, heldur konkret. Ísinn og jöklarnir taka enga pólitíska afstöðu. Þeir eru hvorki til hægri eða vinstri. Ísinn er einfaldlega að bráðna.

Hugmyndin hafi svo þróast og gerjast í huga Ólafs og í samtölum við vísindamenn og forystumenn á norðurslóðum. Það varð fljótlega ljóst að vandamálið sem þyrfti að leysa á vettvangi norðurslóða var að koma sem flestum að sama borði, hvort sem það væru þjóðríki, hagsmunaaðilar, vísindastofnanir, umhverfisverndarsamtök eða áhugasamur almenningur.

„Ég taldi að til þess að ná árangri á norðurslóðum þá yrðum við að vera lýðræðislegri, umræðan yrði að vera opin og á jafnréttisgrundvelli; allir hefðu sama sess,“ segir Ólafur. Þessar samræður lögðu grundvöll að Arctic Circle, árlegu þingi á Íslandi um málefni norðurslóða. „Það hefur breytt stöðu Íslands. Arctic Circle skapar tækifæri fyrir fræðasamfélagið, íslensk stjórnvöld,viðskiptalífið og fleiri aðila; það skiptir máli að litið sé á Ísland sem stað í veröldinni þar sem áhrifafólk kemur saman árlega og ræðir loftslagsbreytingar og þróun norðurslóða.“

Þingið í Hörpu hefur einnig þróast í að verða mikilvægur vettvangur þeirra ríkja sem ekki eiga fulla aðild að Norðurskautsráðinu til að skýra vonir sínar og væntingar til áhrifa á norðurslóðum. Þar hafa ríki á borð við Kína, Kóreu og Japan gert sig gildandi, auk áhrifaríkja í Evrópu á borð við Frakkland og Þýskaland.

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Ólafur Ragnar Grímsson, þá forseti Íslands, á Arctic Circle 2015.
Mynd: Arctic Circle

Hvernig finnst þér umræðan um málefni norðurslóða hafa breyst á þessum tíma?

„Ég held að Arctic Circle hafi stuðlað að því að gera umræðuna raunhæfari og birta sannari mynd af því sem er að gerast á norðurslóðum,“ svarar Ólafur.

„Umræðan um loftslagsbreytingar hefur orðið jarðbundnari við það að nýta sér Arctic Circle sem vettvang vegna þess að alþjóðlega umræðan um loftslagsbreytingar er á köflum dálítið þokukennd. Loftslagsbreytingar eru fyrirbæri sem almenningur á oft erfitt með að tengja við stefnur og strauma; þróun náttúrunnar er ekki pólitísk eða hugmyndafræðileg í eðli sínu. Hún er ekki abstract, heldur konkret. Ísinn og jöklarnir taka enga pólitíska afstöðu. Þeir eru hvorki til hægri eða vinstri. Ísinn er einfaldlega að bráðna, hvort sem það er hafísinn á íshafinu eða jöklarnir á Grænlandi og Íslandi.“

Nýtum tæknina

Eitt helsta þemað á Arctic Circle-þinginu í ár verður um samspil norðurslóða og loftslagsbreytinga. Ef rýnt er í dagskrá ráðstefnunnar má finna skýr dæmi um það. Ólafur nefnir sérstaklega einn ræðumann: „Lauren Jobs, ekkja Steve Jobs stofnanda Apple, mun ræða um það hvernig hægt er að tryggja árangur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum jafnvel þó ríkisstjórnir hætti við að gegna forystuhlutverki.“

„Það er í raun og veru ný sýn á hvernig við getum brugðist við þessum mikla vanda því við höfum hingað til aðallega horft á ríkisstjórnir og alþjóðasamninga. En nú höfum við tækni og tæki sem gera það að verkum að hver og einn getur í raun og veru gert sig gildandi,“ segir Ólafur.

Eftir að ríkisstjórnin í Bandaríkjunum ákvað að segja sig frá Parísarsamkomulaginu um loftslagsbreytingar var viðbragð einstakra fylkja innan Bandaríkjanna, borga, fyrirtækja og áhrifamanna að lýsa yfir hollustu við samkomulagið, þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ólafur Ragnar segir, þegar hann er spurður hvar honum finnist frumkvæði að aðgerðum í loftslagsmálum eiga að liggja, að það sé að breytast í grundvallaratriðum. „Gamla sýnin var að einblína á alþjóðlega samninga. Nú eru fleiri kostir. Tæknibreytingar á sviði hreinnar orku og nánari greining á uppsprettu mengunarinnar sem veldur loftslagsbreytingum hefur sýnt okkur að einstaka fylki, héruð, borgir, fyrirtæki eða jafnvel lítil samfélög gegna lykilhlutverki í því að okkur takist að koma í veg fyrir alvarlegar loftslagsbreytingar.“

Lauren Jobs flytur erindi á Arctic Circle-þinginu í ár.

„Ég hef stundum sagt við fólk – ef það hefur séð kvikmyndina Social Network um hvernig Facebook varð til – að horfa á hana aftur og hugsa þá um hvaða ár hún gerist. Hvaða ár voru þessir stákar að búa til forrit til að ná í stelpur í háskólanum?“

Sagan sem sögð er í kvikmyndinni hefst árið 2003, grípur blaðamaður fram í.

„Já, það er þannig,“ segir Ólafur og hlær. „Fólk sem hefur upplifað þetta sjálft hefur meiri fullvissu um að það sé hægt að breyta heiminum jafnvel þó einstaka ríkisstjórnir þvælist fyrir.“

„Þetta er mjög bjartsýnn boðskapur. Ný tæknileg og lýðræðisleg sýn á hvað hægt er að gera verður skýrt stef í umræðum á þingi Arctic Circle. Það hefur verið mjög ánægjulegt fyrir mig, sérstaklega eftir að ég hætti sem forseti, að geta unnið náið með þessu fólki.“

Norðurslóðir eru stór hluti af jörðinni

Eftir að Ólafur Ragnar gerði málefni norðurslóða að einu helsta viðfangsefni forsetatíðar sinnar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Vistvænni tækni hefur fleytt fram og nákvæmari líkön af framtíðarloftslagi jarðarinnar hafa orðið til. Þau hafa mörg undirstrikað mikilvægi norðurslóða fyrir loftslag jarðarinnar.

Ólafur Ragnar segist hafa skynjað nána tengingu milli framtíðar norðurslóða og loftslagsbreytinga í veröldinni á sínum fyrstu árum sem forseti, þegar vísindarannsóknir hafi leitt í ljós hve afdrifaríkar breytingarnar á norðurslóðum yrðu fyrir heimsbyggðina.

Norðurslóðir eru mikilvægt svæði á jörðinni fyrir margar sakir. Norðurslóðir eru jafnframt gríðarlega víðfemt svæði; Þær eru að flatarmáli á stærð við Afríku.

„Smátt og smátt varð það skýrara í mínum huga að það væri hægt að sameina athafnasemi í málefnum norðurslóða og þátttöku í víðtækri baráttu gegn loftslagsbreytingum á áhrifaríkari hátt en við töldum fyrir um 20 árum,“ segir Ólafur og segir þetta hafa skipt miklu máli fyrir Íslendinga. „Við tölum um norðurslóðir dálítið eins og við tölum um Húnavatnssýslu og Þingeyjasýslu sem eitthvað takmarkað svæði. Við erum í raun og veru að tala um stóran hluta jarðarkringlunnar sem gegnir lykilhlutverki fyrir veðurfar og loftslag – og reyndar efnahagsþróun líka – á 21. öldinni.“

Ólafur viðurkennir að honum þyki málefni norðurslóða erfið á vissan hátt, en að það geri þau einnig spennandi. Svæðið hafi verið nær óþekkt í hinum vestræna heimi þar til landkönnuðir hættu lífi sínu norður yfir heimskautsbaug í upphafi 20. aldarinnar. Þá hafi verið ómögulegt að hafa samstarf um rannsóknir, nýtingu, umræðu og stefnumótun varðandi þetta stóra svæði heimsins fyrr en að Kalda stríðinu loknu fyrir tæpum 30 árum. „Það er ekki oft sem fólk fær tækifæri til að taka þátt í mótun nýrrar heimsmyndar. Eitt af því sem einkennir andann í Arctic Circle-þingunum er að allir eru meðvitaðir um að þetta er nýtt verkefni fyrir okkur öll og að við verðum að vanda okkur Ef okkur mistekst varðandi framtíð norðurslóða þá kann að verða erfitt, jafnvel útilokað, að koma í veg fyrir afgerandi loftslagsbreytingar, sem umturna munu lífsskilyrðum alls staðar á jörðinni.“

Loftslagsmálin fá ekki nógu mikla athygli

Finnst þér loftslagsmálin fá nógu mikla athygli á Íslandi?

„Nei, mér finnst það ekki. Kannski vegna þess að við búum ekki við sömu mengun og hrjáir fjölda landa,“ svarar Ólafur Ragnar og rifjar upp dvöl sína í Peking, höfuðborg Kína, í desember í fyrra. „Mengunin var slík að eftir 20 mínútur var maður orðinn líkamlega veikur. Við urðum að keyra eins og í niðaþoku, nema það var út af mengunarryki. Það var áhrifarík og ógnvekjandi reynsla.“

Dagleg reynsla Íslendinga minnir okkur þess vegna ekki á hvað barátta gegn loftslagsbreytingum er brýn. „Við þurfum að fara annað til þess að verða fyrir slíkri reynslu. Að því leyti má segja að við búum í lúxusgarði heimsins. Ef öll veröldin væri eins og Ísland þá værum við ekki að halda jafn margar alþjóðlegar ráðstefnur um baráttuna gegn loftslagsbreytingum.“

Aukin dagleg umfjöllun um loftslagsmál, hvort sem það er á vettvangi fjölmiðla, stjórnmálaflokka eða fyrirtækja, er nauðsynleg til þess að skilja loftslagsmálin, að mati Ólafs. „Þá myndum við ekki aðeins átta okkur betur á vandanum en við myndum líka skilja tækifærin sem bæði við og aðrir hafa til þess að bregðast við þessum vanda á jákvæðan og skapandi hátt, en fórna ekki bara höndum.“

Barátta fyrir umhverfið er orðin eðlileg

Spurður hvað honum finnist um framgöngu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum segir Ólafur Ragnar að margar jákvæðar breytingar hafi átt sér stað á undanförnum áratugum, t.d. síðan hann stóð ásamt öðrum í baráttunni fyrir að stofna umhverfisráðuneytið fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan. „Það var mikil barátta á Alþingi að stofna umhverfisráðuneyti. Nú finnst öllum það sjálfsagt en það þótti mjög framandi á þeim tíma.“

„Ég held að önnur jákvæð breyting sé sú að ef forystumaður í stjórnmálum ákveður nú að helga sig umhverfismálum með afgerandi hætti, þá þykir það eðlilegt. Það væri auðvitað æskilegt ef fleiri gæfu þeim umræðum svigrúm og sæju líka að í slíkum málflutningi felst ekki bara skrá yfir vandamál heldur líka sýn á fjölmörg tækifæri sem við höfum bæði sem einstaklingar og þjóð.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal