Mynd: Birgir Þór

Það er forystukrísa á Íslandi

Halla Tómasdóttir segir að svipt hafi verið hulunni af miklum óheiðarleika á Íslandi á undanförnum árum. Til að ná að gera nýjan samfélagssáttmála þurfum við að byggja upp traust sem glataðist. Til þess þurfi auðmýkt, heiðarleika, góða samskiptarhæfni og ástríðu eða hungur fyrir því að bæta heiminn og gera betur.

Þegar leið á forsetakosningarnar í fyrrasumar var ljóst að einn frambjóðandi var með meiri meðbyr en allir hinir. Sá hafði mælst með stuðning um tvö prósent þjóðarinnar í maí en næstu vikurnar jókst hann jafnt og þétt.

Tveimur vikum fyrir forsetakosningarnar var frambjóðandinn með um níu prósent fylgi og síðustu kannanirnar sem voru gerðar sýndu að fylgið var farið að nálgast 20 prósent. Þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist frambjóðandinn hafa fengið næst flest atkvæði allra, eða 27,8 prósent. Og könnun sem gerð var skömmu eftir kosningarnar sýndi að ef kosið væri milli Guðna Th. Jóhannessonar, sem kosinn var forseti lýðveldisins, og frambjóðandans einvörðungu þá hefði Guðni rétt marið sigur með 52 prósent atkvæða gegn 48 prósent. Þessi frambjóðandi var Halla Tómasdóttir. Og hún hefur haldið sig að mestu utan sviðsljóssins síðan að forsetakosningunum lauk.

Halla segir að hún hafi fyrst byrjað á því, eftir að kosningarnar voru yfirstaðnar, að gefa sjálfri sér og sínu nærumhverfi tíma og athygli. Síðan hafi hún farið að gera það aftur sem hún gerði áður en hún fór í framboð, að taka þátt í umræðunni alþjóðlega um jafnræði kynjanna og forystu. Í því felst að halda fyrirlestra, taka þátt í samtölum og sinna ráðgjafaverkefnum víða um heim. Halla er meðal annars að styðja við nokkrar konur sem ætla sér forystuhlutverk víða um heim, meðal annars eina sem ætlar sér í forsetaframboð í Bandaríkjunum innan nokkurra ára.

Í mars segist Halla síðan hafa fengið eitt mest krefjandi verkefni sem hún hafi þurft að takast á við. Þá missti hún fótanna á ósýnilegum hálkubletti og mölvaði á sér legg og ökkla. Negla þurfti 13 nagla og festa tvær plötur í fót Höllu auk þess að sauma þurfti yfir fjörutíu spor í ökklann. „Ég var tólf vikur af fótum. Það er ein mesta þolraun sem ég hef þurft að ganga í gegnum hvað varðar þolinmæði og þrautseigju. En ef þetta verður erfiðasta verkefnið sem ég þarf að takast á við heilsufarslega þá er ég heppin kona. Ég var við það að taka við starfi erlendis þegar þetta slys gerðist. Líklega er annað plan til fyrir mig fyrst svona fór.“

Trúir meira á fólk en flokka

Forsetakosningarnar eru sannarlega ekki þær einu sem farið hafa fram hérlendis á undanförnum árum. Næsta vor, þegar sveitastjórnarkosningar verða afstaðnar, þá hafa Íslendingar farið í kjörklefann fjórum sinnum á innan við tveimur árum. Nafn Höllu hefur verið nefnt í tengslum við framboð í Alþingiskosningunum sem fram fóru í fyrra, þeim sem fara fram eftir rúmar tvær vikur og sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Eitthvað virðist almannarómurinn eiga erfitt með að staðsetja Höllu pólitískt þar sem að hún er orðuð við marga mismunandi flokka.

Hún segist oft fá spurningar um hvort að hún ætli í framboð. „Ég hef því neyðst til að hugsa þetta. Auðvitað þykir mér vænt um traustið og trúna sem fólk sýnir mér og hvatninguna til að taka þátt. Eina leiðin sem ég sæi mér fært að taka þátt í stjórnmálum er ef ég gæti gert það með því að vera áfram trú sjálfri mér og mínum gildum. Ég sé ekki þær aðstæður í íslenskum stjórnmálum eins og þau blasa við mér í dag. Þannig að svarið hefur verið nei hingað til og ef það breyttist þá yrði ég að hafa öðlast þá trú að ég gæti starfað á grunni minna gilda og verið trú sjálfri mér. Ég hef vissulega mikinn áhuga á því að láta gott af mér leiða og gera gagn, en það eru fleiri leiðir til þess en þátttaka í stjórnmálum.“

Halla segir að hugsanlega sé ástæðan fyrir því að það sé erfitt að staðsetja hana í pólitík vera þá að hún trúi meira á fólk heldur en flokka. „Ég hef alltaf reynt að nota fyrst og fremst mína eigin dómgreind og mat á aðstæðum og fólki. Ætli ég sé ekki of mikil prinsippmanneskja til að falla inn í einhvern einn stjórnmálaflokk. Þess vegna tók ég af skarið og bauð mig fram til forseta vegna þess að þar sá ég tækifæri til að einbeita mér að því verkefni sem ég brenn fyrst og fremst fyrir, sem er að reyna að nýta þau tækifæri sem ég tel Ísland búa yfir til að skapa samfélag sem við getum stolt afhent börnum okkar og barnabörnum. Ég trúi því að Ísland geti skipt virkilega miklu máli í þessum miklu umbreytingum sem eru að eiga sér stað í heiminum. Sýnt hvernig það er að búa til samfélag þar sem jafnrétti er í reynd. Þar sem sjálfbærni er leiðarljós í öllu sem við gerum, sýnt það hvernig það er að búa í landi sem hefur hugrekki til að endurskoða menntakerfið í tengslum við allar umbreytingarnar sem eru að eiga sér stað og gera það hratt og betur heldur en aðrir.“

Traustið er lítið og forystukrísa blasir við

Við bankahrunið haustið 2008 má segja að samfélagssáttmálinn hafi rofnað. Traust almennings gagnvart helstu stofnunum samfélagsins hrundi samhliða bönkunum og þrátt fyrir að níu ár séu liðin frá þessum atburðum hefur traustið ekki endurheimst. Þvert á móti má halda því fram að áframhaldandi órói, átök og hneykslismál hafi haldið áfram að grafa undan því fremur en hitt.

En það sem okkur hefur ekki tekist að gera er að sýna fram á að heiðarlegt samfélag hafi tekið við af því óheiðarlega samfélagi sem við horfðumst svo grimmilega í augu við þegar allt hrundi. Það verkefni er flókið. En það er enginn að veita því verkefni forystu í samfélaginu.

Höllu er mjög umhugað um traust og telur það vera þá undirstöðu sem samfélagsgerð verði að byggjast á. Þegar það vanti, líkt og augljóslega geri hérlendis, sé erfitt að byggja nokkuð annað upp. „Ég held að ástandið í stjórnmálunum segi allt sem segja þarf. Okkar stærsta vandamál er traustið. Eða skorturinn á því. Sumir myndu segja að krísan okkar, sem við höfum verið að ganga í gegnum á undanförnum tæpa áratug, sé traust-krísa því það hrundi vissulega traustið í samfélaginu. En þetta er ekki bara íslenskt. Þetta er að gerast út um allan heim eftir efnahagsáfallið 2008. Ástandið verður samt sem áður sérstaklega slæmt í svona litlu samfélagi eins og okkar. Persónulega myndi ég kalla þetta forystukrísu frekar en traustkrísu. Það er hlutverk leiðtoga, ekki síst stjórnmálaleiðtoga, að skapa traust í samfélaginu. Það er forsenda þess að það eigi sér stað framfarir og hagvöxtur. Að samfélagssáttmálinn hangi saman.“

Hulunni svipt af miklum óheiðarleika

Halla tekur það sérstaklega fram að þegar hún talar um forystu þá eigi hún ekki við að ein manneskja eða einn stjórnmálaflokkur veiti slíka. Þörf sé á breiðri forystu víða í samfélaginu til að endurheimta traust.

Aðspurð um hvort að forystufólk í íslenskum stjórnmálum sé þá of átakasækið í stað þess að reyna að sætta ólík sjónarmið og freista þess að gera málamiðlanir segir Halla stöðuna tvímælalaust vera þannig. „Það er talað um að þrennt þurfi að koma til svo hægt sé að byggja upp traust. Í fyrsta lagi þurfum við að skynja að viðkomandi einstaklingur eða stofnun búi yfir hæfninni sem til þarf til að sinna vel því verkefni sem þarf að sinna. Í öðru lagi þurfum við að skynja að viðkomandi gangi gott eitt til. Að hann eða hún búi yfir góðvild og sé ekki sama um almenning. Í þriðja lagi þurfum við að skynja að það sé heiðarleiki til staðar.

Hrunið afhjúpaði óheiðarleika í samfélaginu okkar. Ég vil trúa því að í flestum stjórnmálaflokkum hafi hæft fólk boðið sig fram til starfa frá hruni. Og ég vil trúa því að flestum, kannski ekki öllum, en flestum gangi gott eitt til. En það sem okkur hefur ekki tekist að gera er að sýna fram á að heiðarlegt samfélag hafi tekið við af því óheiðarlega samfélagi sem við horfðumst svo grimmilega í augu við þegar allt hrundi. Það verkefni er flókið. En það er enginn að veita því verkefni forystu í samfélaginu.“

Tíminn sem liðinn er frá efnahagsáfallinu 2008 hefur ekki nýst nægilega vel til að byggja upp traust. Þvert á móti hefur almenningur reglulega orðið vitni af því að meiri óheiðarleiki hafi verið afhjúpaður og það virðist oft sem við höfum lítið lært.

Halla segir að nú sé ófrávíkjanleg krafa um aukið gegnsæi. „Á Þjóðfundi 2009, árið eftir hrun, kom heiðarleiki svo skýrt fram sem það gildi sem samfélagið vildi byggja nýtt Ísland á. Okkar stærstu mistök eru að átta okkur ekki á að þegar samfélagssáttmálinn okkar rofnar þá höfum við ekki talið að það verkefni að laga hann þurfi athygli og forystu heldur eingöngu efnahagslegi viðsnúningurinn. Þetta er ástæða þess að ég hef talað um að tilfinningakreppan muni áfram hrjá okkur. Hún er grunnurinn að þessum ítrekuðu stjórnarslitum. Við þurfum ekkert að ræða endilega af hverju síðasta ríkisstjórn sprakk, heldur miklu frekar að ræða af hverju höfum við ekki náð saman um að það þurfi að byggja upp traust á grunni nýrra gilda til þess að það sé fært að vinna saman á öllum sviðum samfélagsins.

Þetta er eins og blæðandi sár. Það kemur hrúður yfir það en svo gerist eitthvað og það fer að blæða aftur. Ég líki þessu stundum við hjónaband þar sem annar makinn fremur trúnaðarbrest. Þá sýður uppúr um stund en svo er e.t.v. tekin ákvörðun um að halda áfram, en ekki rætt um á hvaða forsendum það er, á hverju eigi að byggja upp traust að nýju, heldur er vandamálunum sópað undir teppið og haldið áfram. Svo einn daginn kemur makinn sem framdi trúnaðarbrestinn fimm mínútum of seint heim. Og það verður allt brjálað.

Birgir Þór Harðarson

Það er alveg sama hversu góðar skýringar hann getur gefið. Að umferðin hafi verið slæm. Að það hafi sprungið á dekki. Það skiptir engu máli hver útskýringin er. Í grunninn þá var ekki traust til staðar. Þetta er okkar stærsta áskorun.“

Snýst um gildismat, ekki karla gegn konum

Að mati Höllu er of mikil áhersla lögð á samkeppni. Allt okkar samfélag virðist byggja á lögmálinu um að við séum að keppa um eina köku og að við þurfum öll að reyna að ná sem stærstum hluta af þessari köku til okkar. „Ég vil meina að við þurfum að breyta áherslunum í samfélaginu og koma með meira af umhyggju inn. Þá mun kakan stækka fyrir okkur öll. Við vitum það til að mynda að hagnaður fyrirtækja sem fólk treystir er um 25 prósent meiri en annarra. Ef við færum það yfir á samfélög þá vitum við að okkur mun ganga betur ef við náum að byggja upp traust á ný í samfélaginu, bæði efnahagslega en ekki síður samfélagslega.“

Það er önnur breyta sem er líka mjög ráðandi í vestrænni samfélagsgerð, valdahlutföll í henni eru körlum mjög í vil. Kjarninn hefur til að mynda gert árlega úttekt á því hvernig kynjahlutföll þeirra sem stýra fjármagni á Íslandi eru. Niðurstaðan er sláandi. Rúmlega níu af hverjum tíu æðstu stjórnendum sem stýra peningum eru karlar. Litlar sem engar breytingar hafa orðið á hlutfallinu árum saman.

Halla segir að viðskiptalífið þurfi nauðsynlega á því að halda að innleiða fleiri kvenlæg gildi. Rannsóknir sýni að þau fyrirtæki sem veiti konum frekar brautargengi hafi tilhneigingu til að ganga betur til lengri tíma litið. Á þetta hafi hún bent árum saman. „Þetta snýst ekki um konur gegn körlum heldur gildismat. Ég veit um marga karla sem hafa þá sýn að við þurfum að stunda heilbrigðari viðskiptahætti og horfa til lengri tíma í fjármálageiranum, við þurfum að mæla fleira en fjárhagslegan arð, við þurfum að horfa til áhrifa okkar á samfélagið og umhverfið og við þurfum bæði að setja okkur markmið í kringum það og mæla það. Þessi umræða er að fá mikinn byr, sérstaklega alþjóðlega. En staðreyndirnar tala sínu máli. Nokkurra ára gömul rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum tók saman hverjir stýra öllu stofnanafjármagninu. Þ.e. fjármagni lífeyrissjóða, tryggingafélaga og svo framvegis. Það voru 97,3 prósent hvítir karlar sem það gerðu. 2,7 prósent voru konur eða karlar úr minnihlutahópum. Þessi rannsókn var gerð fyrir nokkrum árum síðan en það virðist lítið hafa breyst, þrátt fyrir að rannsóknir sýni að ávöxtun sjóða í vörslu kvenna sé jafnvel betri en meðaltalsávöxtun í greininni.

Vandinn er einsleitnin. Þegar allir hugsa eins og koma úr sama grunni þá er ekki þessi gagnrýna umræða og þessi víðari nálgun á málefnin sem verður þegar konur og karlar, og fleiri breytur í fjölbreytninni, eru saman í kringum borðið.

Það virðist vera að það séu til teflon-karlar en ekki teflon-konur. Það þarf óskaplega lítið að gerast hjá þeim til að þær sjái sér ekki fært að starfa í því umhverfi eða í þeirri orðræðu sem stjórnmál og fjármálageirinn eru. Þær velji því að lifa lífinu sínu öðruvísi. Ef þú setur fullkomlega heilbrigða manneskju inn í ónýtt kerfi þá vinnur kerfið hvaða dag sem er.

„Það átti sér stað áhugavert dæmi nýverið í Bandaríkjunum, í Kísildalnum, þar sem konur sem voru að sækja sér fjármagn fyrir hugmynd bættu við tilbúnum karlmanni í teymið sitt. Þá fengu þær loksins aðgengi og fjármagn . Það var eins og það þyrfti karl til að fá traust. Önnur rannsókn sem gerð var í Svíþjóð einbeitti sér að því að hlusta á þær spurningar sem stráka-teymin fengu annars vegar og þær sem stelpu-teymin fengu hins vegar. Það var sláandi að fjárfestar töluðu um karlana og sögðu þá vera með flott markmið og stórhuga, en um konurnar sögðu þeir að þær væru ekki búnar að hugsa þetta alla leið og væru með óraunhæfar áætlanir. Nálgunin og matið var allt öðruvísi.“

Konur verða að þora

Þótt að umræða og meðvitund um misjafna stöðu karla og kvenna í valdastöðum samfélagsins sé sífellt að aukast segir Halla að það sé enn á brattann að sækja. „Fjármálamarkaðir eru allir skipulagðir í kringum mjög karlæga hugsun. En framtíðin er það ekki. Þess vegna er þetta svona alvarlegt.

Þeir kostir sem eiga að vera til staðar í góðum leiðtoga eru auðmýkt, sem ég sé oftar í fari kvenna en karla. Númer tvö er sérlega góð tilfinningagreind og samskiptahæfni. Í þriðja lagi einhverskonar ástríða eða hungur fyrir því að bæta heiminn eða gera betur.

Við erum að fara í gegnum svo miklar umbreytingar í heiminum og því þurfum við þessa tegund af leiðtogum, svo kallaða umbreytingarleiðtoga. Auk þess eru ⅔ hluti allra þeirra sem eru að útskrifast úr háskólanum konur. Og það er bara vitlaus fjárfesting fyrir hvaða samfélag sem er að fjárfesta í menntun kvenna, en hleypa þeim síðan ekki til áhrifa. Þá skilar fjárfestingin sem við setjum í menntun þeirra sér ekki til baka í nýjum hugmyndum eða nýrri nálgun.“

Halla segir að við höfum verið að reyna að taka á þessum málum með því að fjölga konum með til dæmis kynjakvótum. Að beita stjórnvaldsaðgerðum til að laga aðstæður sem augljóslega endurspegla ekki samfélagsgerðina. Það skiptir máli en hún telur það ekki nóg. „Konurnar verða líka að þora að vera þær sjálfar. Hafa hugrekki til þess að starfa á eigin gildum og kynna sínar hugmyndir. Þær þurfa að fá svigrúm fyrir það til að ná að hafa áhrif til að breyta fyrirtækja- og stjórnmálakúltúr. Það tekur langan tíma. Það er talað um að umbreyting á fyrirtækjamenningu taki að minnsta kosti 10-15 ár. Ég held að þetta taki enn lengri tíma í samfélagi. Við erum enn mjög snemma í þessu ferli.

Það virðist vera að það séu til teflon-karlar en ekki teflon-konur. Við virðumst tilbúnari til að horfa framhjá mistökum karla en kvenna og mögulega eru konur einnig viðkvæmari fyrir því að vera á milli tannanna á fólki. Það þarf óskaplega lítið að gerast hjá konum til að þær sjái sér ekki fært að starfa í því umhverfi eða í þeirri orðræðu sem stjórnmál og jafnvel fjármálageirinn býður uppá. Þær velja því stundum að lifa lífinu sínu öðruvísi. Ef þú setur fullkomlega heilbrigða manneskju inn í ónýtt kerfi þá vinnur kerfið hvaða dag sem er. Þetta virðast vera vettvangar þar sem konur eiga einfaldlega erfitt uppdráttar nema að þær leiki karla. Við þurfum því að fá nægilega margar konur í áhrifastöður til að breyta þessum kerfum, sem mér er til efs að þjóni hagsmunum heildarinnar jafn vel og þau ættu að gera.“

Viðtalið birtist fyrst í Mannlífi 12. október 2017.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal