1.250 heimili á Íslandi, sem borguðu auðlegðarskatt árið 2013, fengu lækkun á höfuðstól húsnæðisskulda sinna í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fjárhæðin sem þessi heimili fengu í leiðréttingunni svokölluðu nam 1,5 milljörðum króna og náði til fjórðungs allra þeirra heimila sem greiddu auðlegðarskatt.
Þetta kemur fram í skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, sem lögð var fram á Alþingi í dag. Þessi 1.250 heimili eru liðlega tvö prósent allra þeirra sem fengu lækkun á höfuðstól. Meðallækkunin sem þessi hópur fékk nam 1,2 milljónum króna.
Þeir sem þurftu að borga auðlegðarskatt árið 2013 þurftu að eiga yfir 75 milljónir króna í hreina eign ef þeir voru einstaklingar og hjón þurftu að eiga yfir 100 milljónir króna.
Meðallækkun á hófuðstól verðtryggðra húsnæðisskulda var mest hjá tveimur efstu tekjutíuundum umsækjenda. Meðallækkunin hjá tekjutíundum var á bilinu 890 þúsund krónur til 1.620 þúsund krónur. Annað tekjubilið, það er næstlægsta tekjutíund þeirra sem fengu leiðréttingu, fékk minnstu lækkunina að meðaltali. Frá fjórðu tekjutíund fer meðalfjárhæðin hækkandi, mest fengu níunda og tíunda tekjutíundir.
Hlutfallslega flestir sem sóttu um lækkun voru á aldrinu 46 til 55 ára, það eru þeir sem voru 41 til 50 ára árið 2008. Meðalskuldalækkun þeirra nam 1.360 þúsundum króna. Minnsta leiðréttingu fengu 35 ára og yngri.