Íslensk börn, á aldrinum 10-24 mánaða, eru í aðalhlutverkum í nýrri auglýsingu frá tölvurisanum Microsoft, þar sem nýja Windows stýrikerfið er auglýst. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá almannatengslafyrirtækinu Góðum samskiptum fyrir hönd Microsoft.
Umrædd auglýsing var tekin í Reykjavík, Mosfellsdal og á Langjökli á tveimur dögum í lok júní, en í auglýsingunni má sömuleiðis sjá bregða fyrir börnum frá Marokkó, Taílandi, Englandi og Bandaríkjunum.
Samkvæmt áðurnefndri fréttatilkynningu fóru börnin ekki í prufur heldur voru valin út frá ljósmyndum en hátt í þrjátíu manns komu hingað til lands til að taka upp auglýsinguna. Margt íslenskt starfsfólk kom að verkefninu. „Þetta var mikil vinna en skemmtileg,“ er haft eftir Árna Páli Hanssyni, hjá True North sem var framleiðandi íslenska hluta verkefnisins, í fréttatilkynningunni. „Þau höfðu samband við okkur sex vikum áður en þau komu og þá hófumst við strax handa við undirbúninginn.“
Í auglýsingunni má meðal annars sjá íslensku börnin upp á jökli, að veiða, klappa hesti og róla. Eftirvinnsla auglýsingarinnar tók ekki langan tíma og hefur hún nú þegar verið tekin til sýninga í Bandaríkjunum og verður sýnd annars staðar í heiminum síðar í mánuðinum.
Hér að neðan má sjá auglýsinguna.