Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í júní nam 18,5 milljörðum króna og jókst um nærri 40 prósent frá fyrri mánuði. Samanborið við júní 2014 nemur aukningin milli ára 31,5 prósentum. Þetta sýna nýjar tölur Seðlabanka Íslands um greiðslumiðlun í síðasta mánuði.
Ef tölurnar eru bornar saman við fjölda ferðamanna í júnímánuði, þá jafngildir greiðslukortanotkunin því að hver erlendur ferðamaður hafi notað debet- eða kreditkort fyrir tæplega 135 þúsund krónur hérlendis. Það er meira en í júní í fyrra, þegar hver ferðamaður eyddi að meðaltali um 127 þúsund krónum með greiðslukorti á Íslandi. Tölur yfir fjölda ferðamanna miðast við brottfarir erlendra ferðamanna í flugsstöð Leifs Eiríkssonar í mánuði hverjum og eru fengnar frá Ferðamálastofu.
Línuritið hér að neðan sýnir veltu erlendra greiðslukorta á Íslandi deilt niður á fjölda erlendra ferðamanna í hverjum mánuði, á tímabilinu frá júní 2014 til júní 2015. Greiðslukortanotkunin er minnst í september, október og nóvember 2014 en eykst frá febrúar síðastliðnum. Það sem af er ári var hún greiðslukortanotkunin mest í maí, nærri 145 þúsund krónur hjá hverjum ferðamanni sem kom í þeim mánuði til landsins.