Árið 2022 var brösótt á íslenskum hlutabréfamarkaði. Alls hækkuðu bréf í níu félögum sem skráð eru á Aðalmarkað en lækkuðu í 14 félögum. Mest hækkuðu bréf í Origo, alls um 37,5 prósent, en þá hækkun má rekja til þess að félagið seldi tæplega 40 prósent eignarhlut sinn í Tempo á um 28,5 milljarða króna í október. Tæpum tveimur mánuðum síðar, þann 1. desember, voru 25 milljarðar króna greiddir út til hluthafa Origo vegna sölunnar og hlutafé samhliða lækkað um 68 prósent.
Útgerðarfélögin tvö sem skráð eru á markað, Síldarvinnslan (19,8 prósent hækkun) og Brim (16 prósent hækkun) hækkuðu næst mest á síðasta ári. Alvotech, sem rauk upp í virði eftir færslu yfir á Aðalmarkaðinn í desember og er nú verðmætasta félagið í Kauphöll Íslands, jók virði sitt um 13,8 prósent frá skráningu fyrr á árinu 2022. Virði Alvotech er nú um 423 milljarðar króna eftir mikla hækkun í frekar litlum viðskiptum í gær.
Eina nýskráða félagið á Aðalmarkaði sem lækkaði á síðasta ári var Nova, sem lækkaði um 15,9 prósent frá skráningu. Auk Nova og Alvotech var Ölgerðin, sem hækkaði um 10,4 prósent, skráð á Aðalmarkað og Arnaroq Minerals, sem hækkaði um 29,8 prósent, skráð á First North.
Fjöldi einstaklinga sem á bréf hefur þrefaldast
Heilt yfir eru nú 30 félög á Aðalmarkaði og First North. Sameiginlegt markaðsvirði allra skráðra hlutabréfa var í árslok 2.545 milljarðar króna, samanborið við 2.556 milljarða króna lok árs 2021. Sú lækkun, ellefu milljarðar króna, er einungis 0,4 prósent. Þá á hins vegar eftir að taka tillit til áðurnefndra nýskráninga, en samanlagt markaðsvirði þeirra fjögurra félaga var um 450 milljarðar króna við lok markaða á mánudag. Því lækkaði virði þeirra félaga sem voru skráð á markaði í upphafi árs um rúmlega 460 milljarða króna á síðasta ári. Úrvalsvísitalan lækkaði alls um 27 prósent og Heildarvísitalan um 17 prósent, en tólf prósent að teknu tilliti til arðgreiðslna.
Aðstæður á heimsvísu knúðu fram verðlækkanir eins og víðast hvar annarsstaðar, Markaðsvirði er þó nánast það sama í lok árs 2021 þar sem nýskráningar vógu á móti lækkunum. Þá var meðalvelta á dag svipuð og árið á undan, en fjöldi viðskipta jókst um 15% sem rekja má að nokkru leyti til bæði einstaklinga og erlendra fjárfesta. Þrátt fyrir áframhaldandi óvissu á mörkuðum eru góðir hlutir að gerast. Áhugi á skráningum hefur aldrei verið meiri og við eygjum aukna þátttöku erlendra fjárfesta og einstaklinga.“
Velta með hlutabréf dróst lítillega saman, fór úr 1.071 milljarði króna 2021 í 1.051 milljarð króna í fyrra. Það er samdráttur upp á tvö prósent. Vert er að taka fram að veltan árið á undan var sú mesta sem verið hafði frá bankahruni og hún jókst um 77 prósent milli 2020 og 2021.